Lögreglumaður í Louisiana skaut svartan mann, Alton Sterling að nafni, en kærasta hans greindi frá því í beinni útsendingu á Facebook. Sterling var óvopnaður og var að teygja sig eftir ökuskírteini sínu þegar lögreglumaðurinn skaut hann fjórum sinnum. Hann lést fljótt af sárum sínum.
Atvikið leiddi til mótmæla víða um Bandaríkin og opinberrar yfirlýsingar frá Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem sagði atvikið „ógeðfellt ofbeldi“ sem yrði að rannsaka og fylgja eftir í gegnum dómskerfið.
Daginn eftir var blóðugur dagur í Dallas. Þá skaut fyrrverandi hermaður og leyniskytta fimm lögreglumenn í Dallas, og særði sjö aðra. Lögreglumennirnir voru skotnir þegar þeir voru að sinna störfum sínum í tengslum við mótmæli, sem aftakan á Sterling var kveikjan að.
Inn að beini
Barack Obama sendi frá sér aðra opinbera yfirlýsingu vegna þessa, þar sem hann sagði hug Bandaríkjanna vera hjá aðstandendum lögreglumannanna og að þessi „skelfilega árás“ hefði sært samfélag lögreglumanna inn að beini.
Eftir stendur bandarískt samfélag á kunnuglegum slóðum í lifandi rökræðu um kynþáttahyggju og vopnuðum átökum þar sem byssur eru í brennidepli. Að meðaltali deyja tæplega 37 einstaklingar á hverjum degi vegna skotárása og lögreglan drepur um 1.100 manns á ári, flesta með byssum. Um það bil þrír á hverjum degi. Í fyrra voru 258 svartir karlmenn skotnir af lögreglu, og voru meira 80 prósent þeirra ekki vopnaðir byssu þegar þeir voru skotnir af lögreglu.
Þjóðarskömm
Lögreglan mætir byssuofbeldi með byssuofbeldi. Útkoman er þjóðarskömm, eins og Barack Obama hefur kallað byssuofbeldið í landinu, sem hvergi fyrirfinnst í þróuðum ríkjum.
Þó kynþáttahyggjan og byssuofbeldið séu skyld viðfangsefni, í það minnsta eins og þau birtast í þjóðafélagsumræðu í Bandaríkjunum, þá er ein hlið á þessum tening sérstaklega viðkvæm og hættuleg í augnablikinu. Það er umræðan sem stjórnmálamenn koma með inn á borð fyrir almenning. Hún er uppfull af greinilegum rasisma sem ekki hefur áður sést eða heyrst með viðlíka hætti í áratugi. Þetta á bæði við um Bandaríkin, og Evrópu. Á samfélagsmiðlum má finna ömurlegan boðskap rasista, þar sem svertingjar eru niðurlægðir, og einnig múslimar.
Rasismi sýnilegur á Norðurlöndum
Dæmin sem birtast okkur Íslendingum glögglega koma frá Norðurlöndunum, öðrum Evrópuríkjum og Bandaríkjunum sömuleiðis. Í vikunni þurfti Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) að senda frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem notkun rasista í Danmörku, sem hafa stofnað til samtaka um fordóma sína, á mynd af íslenska landsliðsfyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni, var fordæmd. Það var ánægjulegt að sjá þessi viðbrögð hjá KSÍ.
Þá hafa birst áhrifamiklar myndir frá Svíþjóð af ungum mönnum sem aðhyllast nasisma. Með krepptan hnefa, og alveg galtómt augnaráð.
Í kosningum undafarinn áratug hefur síendurtekið verið staðfestur uppgangur þjóðernispopúlisma og rasisma í Evrópu. Þetta á sérstaklega við um Austur-Evrópu, Norðurlöndin, Bretland, ekki síst eftir Brexit niðurstöðuna, og Mið-Evrópu. Donald Trump hefur svo dregið nýja línu í sandinn í Bandaríkjunum, þar sem rasismi – bæði menningarlegur og kynþáttamiðaður – er beinlínis gerður að stefnumáli. Þetta birtist í tali um aðskilnaðarstefnu, skerðingu á trúfrelsi og alhæfingum um einstaka kynþætti sem heild. Þá hefur það vakið óhug –ekki síst innan Repúblikanaflokksins – að Trump hefur ekki viljað fjarlægja sig ofbeldisfullu rasistahreyfingunni Ku Klux Klan.
Mikilvægt að einangra rasistana
Íslenskir stjórnmálamenn eru nú að fara inn í Alþingiskosningar þar sem þessi áróður rasista á heimsvísu, verður sífellt sýnilegri á samfélagsmiðlum. Stundum koma einnig um mál hér á landi, þar sem sést glitta í rasískar skoðanir. Vonandi ber öllum flokkum sem bjóða fram til Alþingis gæfu til þess að útiloka með öllu rasísk viðhorf í flokksstarfinu. Það er best að einangra rasistana alveg, og leyfa þeim sjálfum að koma fram fyrir alþjóð – aleina – og opinbera heimsku sína og fordóma.
Þó baráttan við rasistana sé ekki alltaf blóði drifin, eins of oft sést í Bandaríkjunum, þá má ekki slá slöku við í henni. Rasistar ala á fordómum og siðleysi. Það er ástæða til þess að herða baráttuna gegn þeim.