Í gær gerðist það að Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagðist efast um sekt Mjólkursamsölunnar (MS) í máli þar sem Samkeppniseftirlitið hefur sektað fyrirtækið um 480 milljónir króna fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu sinni. Gunnar Bragi sagði í fréttum Stöðvar 2 að það ætti eftir að koma í ljós hvort MS hefði brotið af sér eða ekki. „Ég hef síður trú á því að þeir hafi brotið af sér, þetta er fyrirtæki sem í gegnum tíðina hefur sýnt samfélaginu mikla ábyrgð.“
Til viðbótar sagði ráðherrann að hann sjái ekkert tilefni til þess að endurskoða þann hluta nýgerðs búvörusamnings sem festir áfram í sessi einokunarstöðu MS, þrátt fyrir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.
Við þessa framgöngu ráðherrans er ansi margt að athuga.
Heildarhagsmunir fram yfir sérhagsmuni
Fyrst ber þó að geta þess að Gunnar Bragi Sveinsson er sá ráðherra sem líkast til hefur komið manna mest á óvart á þessu kjörtímabili. Þegar hann tók við embætti utanríkisráðherra þótti það beinlínis hneisa, og jafnvel brandari, í mörgum kreðsum að pylsu- og bensínsali úr Skagafirði ætti að vera andlit Íslands út á við. Annað átti þó eftir að koma á daginn.
Framganga hans í aðdraganda og í kringum Barbershop-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem var sett á fót til að fá karlmenn og drengi til að láta til sín taka í umræðunni um kynjajafnrétti og um ofbeldi gegn konum, var til að mynda með miklum sóma. Gunnar Bragi beitti sér fyrir kynjajafnrétti á alþjóðavettvangi með ýmiss konar öðrum hætti. Hann skrifaði greinar í blöð, m.a. um HeForShe-átak UN Women í The Guardian, og ráðuneyti hans hélt ráðstefnu um jafnréttismál á norðurslóðum. Gunnari Braga tókst að styrkja ímynd Íslands sem kyndilbera jafnréttis í hugsun og orði á alþjóðavettvangi og lagði sitt á vogarskálarnar til að ýta á þarfa umræðu um málaflokkinn.
Gunnar Bragi fór líka í opinbera heimsókn til Úkraínu snemma árs 2014 og lýsti þar yfir eindregnum stuðningi við báráttu landsins gegn Rússum. Þegar reyndi á þann stuðning, með innflutningsbanni Rússa á matvæli frá Íslandi, stóð Gunnar Bragi heldur betur í lappirnar. Utanríkisráðherrann fyrrverandi sagðist síðar aldrei hafa upplifað eins mikinn þrýsting og í því máli. Sá þrýstingur kom frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, innan flokks hans og frá samstarfsflokknum í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokki. Ráðherrann stóð hins vegar fastur á sínu og sagði það heildarhagsmuni Íslands að standa með bandalagsþjóðum okkar og styðja við áframhaldandi viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna aðgerða þeirra í Úkraínu. Þá hagsmuni ætti að taka yfir eiginhagsmuni útgerðarmanna.
Auðvitað gerði Gunnar Bragi líka herfileg mistök í stóli utanríkisráðherra. Framganga hans þegar aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var mögulega dregin til baka, án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla sem lofað hafði verið færi fram, var honum ekki til framdráttar.
Samandregið tókst Gunnari Braga þó að sanna sig að mörgu leyti í framandi hlutverki. Ýmsir hafa sagt að hann hafi fengið utanríkisráðherraveikina, sem neyðir menn til að líta á hlutina í mun stærra samhengi en úr heimahaganum.
En svo var Gunnar Bragi gerður að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sérhagsmunir fram yfir heildarhagsmuni
Í því hlutverki hefur lítið glitt í utanríkisráðherraveikan Gunnar Braga. Ummæli hans um niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í máli MS eru sérstaklega forkastanleg. Samkeppniseftirlitið er stjórnvald, það starfar eftir lögum settum af Alþingi og niðurstaða þess er endanleg. Þeir sem verða fyrir niðurstöðunni geta vissulega skotið henni til áfrýjunarnefndar og eftir atvikum dómstóla en réttaráhrif hennar taka strax gildi.
Þess vegna er algjörlega galið að ráðherra segi opinberlega að hann hafi „síður trú á því að þeir [MS] hafi brotið af sér.“ Í slíkri yfirlýsingu felst fullkomið vantraust á það stjórnvald sem hefur komist að endanlegri niðurstöðu samkvæmt lögum sem gilda um starfsemi þess. Gunnar Bragi er þannig að grafa undan viðkomandi stjórnvaldi og trausti gagnvart því, vegna þess að honum finnst að þolandinn í málinu, MS, hafi „í gegnum tíðina [sýnt] samfélaginu mikla ábyrgð.“
Ólíkt því sem Gunnar Bragi gerði í deilum um stuðning við viðskiptaþvinganir gegn Rússum þá tók hann eiginhagsmuni MS fram yfir heildarhagsmunina sem felast í því að virða niðurstöður stjórnvalds.
Auk þess starfaði Gunnar Bragi á árum áður hjá Kaupfélagi Skagfirðinga (KS) og tengdum aðilum. KS á tæplega tíu prósent hlut í MS og á mikla hagsmuni undir í þeirri túlkun sem MS, og að því er virðist Gunnar Bragi, leggja í samspil búvörusamninga og samkeppnislaga. Í þeirri túlkun felst heimild til að stunda það sem Samkeppniseftirlitið telur vera alvarlega misnotkun á markaðsráðandi stöðu sem skaði á endanum hagsmuni neytenda og bænda. Vel má efast um hæfi Gunnars Braga til að koma að málinu, vegna fyrri tengsla hans við KS.
Verstu hliðar kerfa
MS-málið er að draga fram allar verstu hliðar þeirra kerfa sem við höfum komið okkur upp. Það hefur sýnt okkur fram á varðstöðu stjórnmálamanna um kerfi sem óháð stjórnvald telur vera í andstöðu við hagsmuni bæði bænda og neytenda. Það hefur sýnt sig að forstjóri einokunarfyrirtækisins MS virðist annað hvort ekki skilja eða viðurkenna að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins um brot þess er bindandi, og réttaráhrif hennar taka þegar gildi. Það hefur sýnt okkur að ráðherra vílar ekki fyrir sér að setja ofan í við stjórnvald ef honum líkar ekki ákvörðun þess.
Lög og reglur eru settar til þess að allir fari eftir þeim. Það er ekki hægt að gera sérstaka undanþágu fyrir bankamenn, fyrirtæki í einokunarstöðu eða þá sem ráðherrar telja að hafi sýnt samfélaginu mikla ábyrgð. Ef menn vilja breyta lögum þá eiga þeir að beina spjótum sínum að löggjafanum. En þangað til eiga allir að fara eftir þeim.