Það eru að myndast ansi skýrar línur milli þess hóps Íslendinga sem vill stórtækar umbætur á þeim kerfum sem við rekum hérlendis og þess hóps sem vill verja þau með öllum tiltækum ráðum. Þessir tveir heimar birtust vel í nýafstöðnum forsetakosningum.
Þar voru þrír frambjóðendur sem fengu eitthvað fylgi sem nálguðust framboð sitt fyrir setu á Bessastöðum af kurteisi, hugsjón og virðingu fyrir skoðunum annarra. Þau heita Guðni Th. Jóhannesson, Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason. Rætur þeirra eru misjafnar og áherslur þeirra líka. Mjög áhugavert hefði verið ef þau þrjú hefðu fengið tækifæri til að ræða um hugmyndir sínar um forsetaembættið í kosningabaráttunni á málefnalegan hátt. Það reyndist ekki mögulegt.
Ástæða þess er að í hinu horninu var holdgervingur samfélagsátaka undanfarinna áratuga, Davíð Oddsson. Kosningabarátta hans snérist að mestu um árásir á annan frambjóðanda, klæki og vanhugsaða réttlætingu á fyrri störfum sínum. Þannig stal hann kosningunum. Þessi taktík skilaði Davíð þó engum árangri.
Því meira sem kjósendur fengu að vita um forsetaframbjóðandann Davíð, því meira sem rifjað var upp af stjórnmálamanninum Davíð og því meira sem Morgunblaðinu var beitt fyrir hann, því færri gátu hugsað sér að kjósa gamla leiðtogann. Að endingu fékk Davíð, sem hafði aldrei áður tapað kosningum, einungis 13,7 prósent atkvæða. Kjósendur nýttu tækifærið til að hafna Davíð algjörlega.
Þessi niðurstaða var niðurlæging fyrir Davíð, þótt hann og helstu hreintrúarmenn á hann láti sem að svo hafi ekki verið. En hún var líka staðfesting á því að þjóðin er komin með upp í kok af topp-niður frekum og stjórnlyndum valdakörlum sem vilja segja henni hvernig hlutirnir eru, í stað þess að hlusta á hana og þjónusta.
Umbætur vs. varðstaða
Næsta umferð í baráttunni um kerfin fer fram í haust, þegar kjósa á til þings. Um er að ræða einar mikilvægustu kosningar sem fram hafa farið hérlendis. Þar takast á varðmenn óbreyttrar samfélagsgerðar og þeir sem vilja breyta kerfum landsins verulega. Í fyrri hópnum eru ráðandi öfl í núverandi valdaflokkum. Flokka sem berjast t.d. gegn breytingum á landbúnaðarkerfinu, kvótakerfinu, kosningakerfinu, stjórnarskránni, auknum neytendahag, hærri álögum á hina efnameiri og að einhverju leyti fjölmenningu. Flokka sem hafa látið velferðarkerfið sitja svo verulega á hakanum að það er raunveruleg hætta á varanlegum og óbætanlegum skaða.
Aðrir flokkar sem mælast með umtalsvert fylgi í skoðanakönnunum vilja, að minnsta kosti í orði, breyta ofangreindum kerfum, þó að breytingarviljinn sé mismikill. Það sem er áhugavert við „umbótavænginn“ er að á honum eru flokkar sem raðast alls staðar á hinum hefðbundna, en að mörgu leyti úr sér gengna, vinstri-hægri kvarða. Þar eru Vinstri græn, Samfylking, Björt framtíð, Píratar og Viðreisn. Og þessi vængur er að mælast með um 65 prósent fylgi samkvæmt könnunum á meðan að „varðstöðuvængurinn“ mælist með tæplega 33 prósent.
Gamla merkimiðapólitíkin sem gagnast hefur valdaflokkunum svo vel í gegnum tíðina er því ekki yfirfæranleg yfir á þá vitundarbreytingu sem er að eiga sér stað. Ástæðan er líkast til sú að afstaða fólks í dag byggir að mörgu leyti á upplýsingu sem það hefur aflað sér sjálfstætt, en hefur ekki verið fóðrað af. Internetið og samfélagsmiðlar hafa frelsað almenning undan umræðustýringu stjórnmálamanna.
Hugmyndafræðilegt gjaldþrot pilsfaldarkapitalista
Þessi vitundarbreyting er að gerast þrátt fyrir að allar hagtölur á Íslandi séu blómstrandi. Hagvöxtur er meiri en í flestum öðrum löndum, snúningur okkar á erlendum kröfuhöfum hefur keyrt niður skuldastöðu ríkisins, atvinnuleysi fyrirfinnst varla og verðbólga er nánast engin. Af hverju er fólk þá óánægt?
Ef horft er framhjá því að stjórnvöld hafa lítið sem ekkert með þann vöxt sem nú stendur yfir að gera, né þá staðreynd að lágt heimsmarkaðsverð á olíu heldur niðri verðbólgu, þá er helsta ástæða óánægjunnar sú að flest venjulegt fólk telur sig ekki njóta uppsveiflunnar af neinni alvöru. Það telur að aukin verðmætasköpun lendi fyrst og síðast hjá afmörkuðum hópi fjármagnseigenda sem í mörgum tilvikum hafa fengið tækifæri sín í lífinu á pólitísku silfurfati. Það er hætt að trúa því að það sé tilviljun að sömu einstaklingarnir, með rík tengsl við stjórnmálaflokka, sé alltaf að rata á arðbærar matarholur. Það er orðið þreytt á því að stjórnmálamenn séu að reyna að halda því fram að það sé ekkert athugavert við að eiga félög í skattaskjólum, þegar skattaskjól eru einungis til að annað hvort fela eitthvað eða til að komast undan skattgreiðslum.
Það kaupir ekki lengur brauðmolakenninguna um að ef hinir fáu fá að verða ofurríkir í friði í uppsveiflum þá muni alltaf hrynja aðeins af veisluborðinu til almúgans, sérstaklega þar sem byrðar niðurtúrana lenda nær undantekningarlaust á launafólki í gegnum verðbólgu, atvinnuleysi og skatta á meðan að eignarfólkið kemst upp með að borga ekki skuldir sínar. Það sættir sig ekki lengur við allt of mikla greiðsluþátttöku fyrir heilbrigðisþjónustu sem er sífellt að verða verri sökum vanrækslu.
Það er orðið þreytt á því að stjórnmálaflokkar komist til valda á baki einfaldra kosningaloforða en eyði svo mestum tíma sínum í aðgerðir sem aldrei eru auglýstar í kosningabæklingum. Það er orðið þreytt á því að ólíkt því sem gerist í lífinu þá fylgja athöfnum og ákvörðunum stjórnmálamanna sjaldnast ábyrgð og í þau örfáu skipti sem slíkt gerist þá máli þeir sig í fórnarlambalitum og kenna óbilgirni annarra um í stað þess að biðjast auðmjúklega afsökunar.
Fólk er orðið þreytt á því að hlusta á pilsfaldarkapitalista í hugmyndafræðilegu gjaldþroti setja fram tillögur um að aðlaga þurfi menntakerfið að frumatvinnuvegunum og því Íslandi sem var, í stað þess að arðsemi auðlindanna verði notuð til að skapa það land sem fólkið vill búa í og þau atvinnutækifæri sem það kýs að spreyta sig á til frekari verðmætasköpunar. Það er orðið þreytt á upphrópunum á ómálefnalegum klisjum sem eru aldrei studdar neinum rökum, heimildum eða gögnum.
Fólk er einfaldlega orðið þreytt á að samfélagsgerðin sé miðuð að þörfum útvaldra í stað þess að hún taki mið af þörfum allra hinna.
Áfram eða afturábak
Samandregið er fólk tilbúið að hafna ótrúlegri misskiptingu eigna og auðs. Það er að taka afstöðu með aukinni samneyslu og betra velferðarkerfi. Þangað sækir stærsti hluti Íslendinga enda mestan hluta lífsgæða sinna. Það vill markaðsvæða sum kerfi og lýðræðisvæða önnur.
Fólk vill girða fyrir spillingu og dreifa byrðinni á rekstri samfélagsins með jafnari hætti. Þetta snýst því ekki um hægri eða vinstri, heldur hægri, vinstri og fram á við. Frelsi, jöfnuð, frjálslyndi, sanngirni, samkeppni og réttlæti.
Þeir sem gagnrýna þessar áherslur hvað mest eru ekkert af þessu. Þeir eru ekki til hægri, ekki til vinstri og ekki fram á við. Þeir eru bara afturábak.