Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) undirritaði samning við ríkið um stóraukin fjárútlát úr ríkissjóði í afrekssjóð ÍSÍ á fimmtudaginn. Um er að ræða samnig þar sem ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar lofar að tvöfalda framlag ríkissins til afrekssjóðinn á næstu fjárlögum, miðað við fjárlög ársins í ár. Á næstu þremur árum mun framlagið svo aukast í skrefum þar til það verður orðið 400 milljónir króna árið 2019.
Þetta er vitanlega mikil lyftistöng fyrir afreksíþróttahreyfinguna sem hefur óskað eftir auknum stuðningi frá ríkinu við íþróttahreyfinguna svo árum skiptir. Á þessu kjörtímabili, þar sem Illugi Gunnarsson hefur verið ráðherra íþróttamála síðan Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hófu samstarf sitt á ný í ríkisstjórn, hefur framlag ríkisins hækkað úr 55 milljónum í 100 milljónir króna.
Íþróttahreyfingin hefur allt of oft þurft að senda landsliðsfólk til keppni á stórmótum á eigin vegum og fjöldi afreksíþróttamanna hlýtur ekki nægilegan fjárhagsstuðning til þess að geta sinnt æfingum til jafns við keppinauta sína erlendis. Til þess hefur afrekssjóðurinn verið of lítill og töluvert í að styrkir ÍSÍ standi undir öllu afreksstarfi sérsambandanna. Afrekssjóðurinn þarf að standa straum af kosnaðaráætlunum sérsambanda og verkefnum einstaklinga. Færri hafa fengið úthlutun úr sjóðnum en vilja. Með þessu aukna framlagi ríkisins verður vonandi hægt að rétta þennan halla á íslenskt íþróttafólk af.
Athöfnin þar sem samningurinn var undirritaður og upphæðin kynnt var um margt merkileg. Þessi samningur hafði verið kynntur fyrir sérsamböndum ÍSÍ nokkrum dögum áður án þess þó að minnast á upphæðina. Upphæðin átti að koma á óvart – svo þetta yrði frétt – þó ljóst væri að hún yrði umtalsvert hærri en vanalega.
Hvorki meira né minna en þrír ráðherrar mættu við undirritunina; þeir Illugi og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra undirrituðu samninginn fyrir hönd ríkisins og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sat með þeim og vottaði samningana. Ekki var laust við að kosningafnykur væri af umstangi ráðherrana sem tóku svo létt „húh!“ með viðstöddum.