Ég hef fylgst með upplýsingatæknimálum hjá opinbera geiranum um tíma, aðallega vegna áhuga á tækni, en líka sem framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, sem starfsmaður á þróunarsviði Símans fyrir nokkrum árum og núna sem stjórnarmaður hjá Samtökum Upplýsingatæknifyrirtækja, Tækniþróunarsjóði og Vísinda- og tækniráði.
Íslensk fyritæki hafa undanfarin ár sett umtalsverða fjármuni í upplýsingatæknina til að bjóða upp á betri þjónustu, vinna hraðar, styðja við ferla og til að missa ekki af tækni-lestinni en ég sé ekki sama kraftinn hvað þetta varðar hjá hinu opinbera. Segja má að opinberar stofnanir séu varla farnar að vinna að ráði að lausnum sem tilheyrðu síðustu tæknibyltingu, “mobile” byltingunni. En nú komin enn önnur tæknibylting sem er mun stærri og umfangsmeiri og inniheldur viðfangsefni eins og sýndarveruleika (Virtual Reality), internet hlutanna (Internet of Things), gervigreind (Artificial Intelligence), vélmennavæðingu (Robotics), gagnagnótt (Big Data) og þrívíddarprentara (3D printing) svo eitthvað sé nefnt. Og hlutirnir eru að gerast hratt. Tæknin lætur ekki að sér hæða.
Á tímum gríðarlegrar tæknivæðingar er í mínum huga ekki í boði lengur að bíða eftir stimpli fyrir þinglýsingu í 10 daga eins og raunin er hjá Sýslumanninum í Reykjavík, eða að afgreiðslutími vegabréfs sé 13 dagar, til að gefa einhver dæmi um opinbera þjónustu sem hefur gleymst að uppfæra. Það ætti fyrir löngu að vera hægt að þinglýsa pappírum og sækja um vegabréf rafrænt. Það segir sig nánast sjálft að ef settir verði fjármunir í að sjálfvirknivæða opinbera þjónustu þá mun það skila sér í miklu hagræði.
Ungt fólk í dag þekkir ekki annan veruleika en að hafa farsíma við hönd og aðgang að neti alls staðar, það vill geta afgreitt sig sjálft í gegnum síma og tölvu og við sem eldri erum, viljum það líka.
Danir hafa komið auga á þetta og hafa stjórnvöld unnið að starfrænni breytingu með (Digitasation) síðan 2009 með því að skipa ráð sem hefur það hlutverk að gera opinbera þjónustu betri með stafrænum leiðum. Ráðið er skipað af fjármálaráðuneytinu og ber nafnið Digitaliseringsstyrelsen. Ráðið sendi frá sér nýverið stefnu fyrir Digitasation sem er mjög forvitnileg lesning fyrir áhugasama.
Danir eru að auki byrjaðir að skoða það hvernig hægt sé að vinna að tæknilegri umbreytingu (disruption) fyrir opinbera þjónustu. Danir ætla greinilega ekki að missa af lestinni. Á síðustu árum höfum við séð umbreytingu gerast í einkageiranum, þar sem fyrirtæki eins og t.d. Airbnb, Uber, Spotify hafa brotist út úr hefðbundnu viðskiptamódeli með því að skapa nýjar stafrænar lausnir sem eru mjög aðgengilegar og notendavænar og veita betri þjónustu en það sem var áður í boði. Í einkageiranum er þetta rétt að byrja og nýjar byltingarkenndar lausnir koma nánast á hverjum degi.
Við þurfum nýjar stafrænar lausnir fyrir opinbera þjónustu hér á landi. Það er löngu kominn tími til að gera eitthvað róttækt. Í landi þar sem alltaf er verið að tala um hagræðingu er þetta “no brainer”.
Til þess að hægt sé að gera eitthvað róttækt í tæknimálum hins opinbera þarf að setja nýjar viðmiðunarreglur fyrir þróun og innkaup á nýjum upplýsingatæknikerfum og skoða leiðir til að vinna hratt, því að tæknibyltingin bíður ekkert eftir okkur.
Sennilega er líka kominn tími á að við áttum okkur á því að það er ekki skynsamlegt lengur að stofnanir þrói sjálfar upplýsingatækniverkefni sem þær hafa oft ekki þekkingu til að framkvæma. Né er það skynsamlegt að stofnanir þrói sjálfar upplýsingatæknikerfi sem einkageirinn hefur þegar leyst ágætlega.
Það þarf í mínum huga að gera ráð fyrir tæknilegri umbyltingu í löggjöfinni og breyta t.d. innkaupareglum þannig að auðveldara verði fyrir atvinnulífið og stjórnvöld að vinna betur saman að því að gera hér byltingu í opinberri þjónustu.
Ímyndið ykkur hvað það væri flott ef stjórnvöld gætu boðið nýsköpunarfyrirtækjum formlega í dans og óskað eftir að þau finndu leiðir til að gera þjónustu við borgarana betri. Ímyndið ykkur ef það væri hægt að fá fólk með sérþekkingu til að þróa einhverjar snilldarlausnir fyrir hið opinbera án þess að setja marga mánuði í langt og strangt útboðsferli áður. Nýsköpun og opinber þjónusta á nefnilega mjög vel saman en það þarf að hrinda hindrunum sem nú eru til staðar úr vegi.
Við sem þjóð erum löngu tilbúin í tæknibyltingu, því að ef áttræði herramaðurinn, sem sat við hliðina á mér á Kaffitári um daginn, getur talað við fjölskylduna sína, sem var stödd í Bandaríkjunum, í gegnum Skype í símanum sínum, þá er hann líka alveg tilbúinn til að sækja um vegabréf rafrænt, fá aðgang að lækni í gegnum netið eða panta sér á netinu vélmenni sem aðstoðar hann fram úr á morgnana.
Höfundur er viðskiptastjóri hjá Marel. Greinin birtist einnig á vefsvæði Medium.