Af og til opnast umræða um samband samkynhneigðar og íþrótta og þá vegna þess hve miklir fordómar gegn samkynhneigðum lifa innan þessa heims. Í kjölfar gleðigöngunnar og Hinsegin daga sem fóru fram síðustu helgi hefur umræðan enn á ný dúkkað upp, ekki síst vegna ræðu nýkjörins forseta Íslands. Í ljósi umræðu síðustu daga langar mig að leggja til nokkur orð og reyna að útskýra af hverju rótgróin tengsl á milli „sannrar“ karlmennsku og íþrótta gerir samkynhneigðum karlkyns íþróttamönnum erfitt fyrir.
Félagsmótun og karlmennska í íþróttum
Hópíþróttir eins og við þekkjum þær í dag eiga í raun ekki svo langa sögu. Það er ekki fyrr en með tilkomu Iðnbyltingarinnar sem rými skapaðist til að stunda skipulagðar íþróttir. Með iðnbyltingunni fylgdi stéttaskipting og kerfisbundin stöðlun tímans, vinnan fór að elta staðlaða klukku en ekki árstíðir eða annan náttúrulegan tímaramma bændasamfélagsins. Þær hópíþróttir sem við þekkjum í dag eru upprunnar úr þessum veruleika, sem var kaldur, ofbeldisfullur og fyrst og fremst gríðarlega karllægur. Ef vel er ígrundað má sjá sambærileg gildi með íþróttum og kapítalisma. Innan íþróttanna virða menn ákveðnar reglur yfirvaldsins en megin áhersla er lögð á mikla samkeppni sem og á gott einstaklingsframlag. Til viðbótar má líta á íþróttir sem vettvang þar sem ungir karlmenn hafa leyfi til að fá útrás innan ákveðinna félagslegra gilda. Þannig megi líta á íþróttir sem félagslegt taumhald sem lúti reglum kapítalismans.
Íþróttir hafa lengi verið notaðar til að lögmæta tengslin á milli karlmennsku og ofbeldis. Rannsóknir á tengslum karlmennsku og íþrótta benda á að ungir drengir læri að verða að alvöru karlmönnum í félagslegu umhverfi íþróttanna. Þar læra þeir réttu gildin og hvernig þeir skuli haga sér, þeir læra samkeppni, að vera harðir af sér og að vinna, sama hvað það kostar. Innan liðsins þurfa allir að fórna sér og taka líkamlegar áhættur. Allt eru þetta gildi sem eiga að vísa til karlmennsku. Ungir strákar mæta því á sína fyrstu æfingu ómótaðir og læra svo gildi karlmennskunnar.
Rannsóknir sýna að á hverjum stað og stund eru nokkrar karlmennskur við líði, ein þeirra er ríkjandi, á meðan aðrar geta verið kúgaðar. Ríkjandi karlmennska er sú sem er hvað erfiðust að ávinna sér. Flestir karlmenn lifa við þann veruleika að ríkjandi hugmyndir um karlmennsku eru fjarstæðukenndar í þeirra samfélagi. Íþróttamenn eru gott dæmi, þeir eru fyrirmyndir annarra karlmanna og lifa ekki í sama raunveruleika og aðrir. Til að halda þeirri stöðu sem þeir hafa áunnið sér þurfa þeir oft að þola mikinn líkamlegan og andlegan sársauka og stöðugt að sýna fram á ágæti sitt.
Sökum þess að gagnkynhneigð er skilgreind sem venjulegt ástand, þarfnast hún ekki útskýringar á tilverurétti sínum, þar liggur valdið sem óspart er beitt til að undiroka þá sem falla ekki undir þær staðalímyndir sem samfélagið byggir á um kynhneigð. Sökum þess hafa samkynhneigðir einstaklingar orðið fyrir barðinu á hómófóbíu. Hómófóbía hefur verið skilgreind sem; að mislíka eða óttast einstakling sem hefur aðra kynhneigð en þá sem ríkjandi er og hefur ýmsar birtingamyndir, allt frá hunsun á viðkomandi einstakling yfir í virkar aðgerðir gegn honum. Í þeim heimi sem við gætum kallað hinn „venjulega heim” er orðræðan oft sú að ofbeldisfull hegðun sé karlmönnum eðlislæg sem náttúrulegt fyrirbrigði af karlmennsku. Slík orðræða einungis til þess fallin að ýta undir hugmyndir um aðskilda karlmennsku og kvenleika. Með slíkum útskýringum er verið að segja að slík hegðun sé föst í eðli karlmanns og sé þess vegna óumflýjanleg í samfélagslegum raunveruleika.
Nauðsynlegt er að skoða sambandið á milli samkynhneigðra og gagnkynhneigðra þegar kemur að því að skoða sjálfsmyndir og staðalímyndir á samkynhneigðum íþróttamönnum. Sjálfsmyndir samkynhneigðra karla hafa beðið hnekki vegna þeirrar hómófóbíu sem gagnkynhneigðir stuðla að. Í gegnum íþróttir eru hugmyndir um homófóbíu lögmæddar og styrja þannig fyrirfram settar hugmyndir um að gagnkynhneigð sé það eina rétta. Stríðni sem vísar í hómófóbíu er því öflugt vopn til að styrkja þá hugmynd um að karlmennskuímyndir séu ráðandi í íþróttum og gera lítið úr þeim sem eru öðruvísi en þorri iðkenda. Þannig er stríði í garð samkynhneigðra leið til þess að raska ekki valdajafnvæginu milli gagnkynhneigðra og samkynhneigðra.
Samkynhneigðir íþróttamenn
Rannsóknir sýna að þegar vinatengsl eru að myndast innan hópíþrótta er mikilvægt að fylgja ákveðnum gildum og normum sem byggjast oft á útilokun kvenna og ófrægingu á bæði kvenleika og samkynhneigð. Slík ófræging er góð leið til að bægja frá þeirri erótík sem oft myndast á milli þessara drengja. Jafnvel hafa þjálfarar verið staðnir að því að beita hómófóbíu og kynjamismunun til að hvetja drengi áfram. Slíkt styrkir fyrirframgefnar og ríkjandi hugmyndir um að ekki sé í lagi að vera samkynhneigður, hefur það áhrif á berskjaldaðar og ómótaðar hugmyndir drengja um sjálfsmynd sína og kynhneigð. Þetta orsakar því ákveðna útilokun og ófrægingu á hinu kvenlæga og samkynhneigð sem karlmennskuímyndir gagnkynhneigðarinnar eru svo sameiginlega byggðar á. Á endanum er hómófóbía því á pari við sanna karlmennsku í íþróttum.
Hugmyndir um samband á milli kynferðis þeirra sem eru ráðandi og þeirra sem eru undirgefnir eru vissulega til staðar. Til þess að koma mannorðsspjöllum á andstæðing sinn er gott að kvengera kynferði hans, með öðrum orðum að kalla hann homma. Þar sem karlmenn eru líkamlega sterkari en konur er samlíking við kvenmann í raun og veru að segja að þú sért ekki samkeppnishæfur við aðra karlmenn. Aftur á móti, ef að kona hefur líkamsburði til að vera samkeppnishæf þá er hún kyngerð og sögð vera ókvenleg. Vald karlanna sé fyrst og fremst falið á bakvið gagnkynhneigð. Vegna þessa er samband á milli tveggja lesbískra kvenna oft ekki litið alvarlegum augum. Veruleiki samkynhneigðra íþróttakvenna er af öðrum toga, sem verður ekki útlistað nánar hér.
Ef við heimfærum þetta svo yfir á karlana, sjáum við að sá drifkraftur sem tengir kyngervi þeirra við gagnkynhneigð er karlmennska. Karlmennskan er byggð upp á kynferði og í gegnum kynferðið byggjast svo upp hugmyndir um kyngervi þeirra. Ef að karlmaður er aftur á móti samkynhneigður gæti þessi röð ruglast og kostað vandræði. Það eru einmitt þessar ríkjandi hugmyndir um hlutverk karla sem gera þeim sem víkja út af sporinu svo erfitt fyrir. Þeir karlar sem gera svo, finnst persónuleiki þeirra oft ónógur og eru óöruggir með sig, þá þurfa þeir að takast á við að vera mismunað og fyrirlitnir. Slíkt gengur þvert á vinsælar staðalímyndir þar sem hinn karlmannlegi einstaklingur er alla jafnan íþróttahetja; valdamikill, stór, sterkur og myndarlegur. Það er því skiljanlegt að samkynhneigðir karlmenn séu ósýnilegir í jafn óvinveittu og harðneskjulegu umhverfi sem íþróttir eru. Því er ekki að undra að heimur íþrótta, sérstaklega hópíþrótta skuli vera síðasta vígi þar sem virðist vera í lagi, og jafnvel hyllt að beita hómófóbíu með mismunun og svívirðingu fyrir augum. Hálf kaldhæðið er að flestir opinberlega samkynhneigðir íþróttamenn séu í íþróttum eins og dansi, skautum eða ballett þar sem snerting við konur er mikil.
Ritgerðina í heild sinni og heimildaskrá má nálgast á skemmunni.