Það hefur verið forvitnilegt og skemmtilegt að dvelja á heimahögum á Norðurlandi, nánar tiltekið hjá foreldrum mínum á Húsavík og á sælureit fjölskyldunnar í Laxárdal. Eftir að hafa búið erlendis um tíma, var það sérlega áhrifamikið að finna fyrir mikilli breytingu sem orðið hefur á svæðinu, einkum vegna uppgangs í ferðaþjónustu. Þjónusta hefur stóraukist og batnað, mikill fjöldi fólks á ferðinni, ekki síst að skoða hvali, og mikil uppsveifla.
Fjölbreytt mannlíf og nýsköpun
Sá mikli vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustunni er mikil lyftistöng fyrir landsbyggðina og skapar ný tækifæri. Ef það tekst að halda vel á spöðunum þá gætu skapast enn dýpri og betri tækifæri til þess að tengja hugvitsstarfsemi ýmis konar við það fjölbreytta alþjóðlega mannlíf sem fylgir ferðaþjónustunni. Víða á Norðurlandi má sjá þessi áhrif komin fram, og má nefna fjölbreytta nýsköpunarstarfemi bænda í því samhengi. Bændur hafa lengi byggt upp ferðaþjónustu, raunar löngu áður en vaxtarkippur kom í hana eftir árið 2010. Nú eru þeir margir að uppskera ríkulega, og má sjá blómlega gistiþjónustu á mörgum stöðum.
Árið 2010 komu 454 þúsund erlendir ferðamenn til landsins en reiknað er með því að þeir verði 2,2 milljónir á næsta ári. Þessi gríðarlega hraði vöxtur hefur virkað sem vítamínsprauta í allt hagkerfið, og eru ennþá mikil tækifæri til að gera betur.
Eitthvað annað skipti sköpum
„Eitthvað annað“ en stóriðjulausnir hafa skipt sköpum á svæðinu, jafnvel þó nú rísi verksmiðja á vegum fyrirtækisins PCC á Bakka, en starfsmenn þar verða um 120 þegar allt verður tilbúið. Það verkefni er miklu minna en stjórnvöld reyndu að koma niður á Bakka þegar álver Alcoa var á stefnuskránni. Varla er hægt að hugsa þá hugsun til enda ef farið hefði verið í það af alvöru, að reyna að ná í 550 til 600 megavött af raforku á svæðinu til að knýja það, eins og var á stefnuskránni. Það voru víðáttuvitlausar hugmyndir sem heyra nú sögunni til.
Það er þetta hugtak, „eitthvað annað“, sem vert er að staldra við í þessu samhengi, og kafa betur ofan í. Í stuttu máli má segja að hugtakið fangi vel mikilvægustu verkefni framtíðarinnar hér á landi, sem er að byggja upp hugvitsstarfsemi á Íslandi frekar en áframhaldandi auðlindadrifinn efnahagsbúskap. Þó hann sé mikilvægur, þá skiptir máli að einblína á „eitthvað annað“ með skýrri stefnu. Ferðaþjónustan er frekar skilgreind innan auðlindageirans, þó hún ýti undir sterkari samskipti við útlönd og sé allt annað en verksmiðjustóriðja. Það er mikilvægt litlu einangruðu eyríki að búa við öfluga ferðaþjónustu, en það má samt ekki gleyma því að hún á sér takmörk og getur líka hrunið eins og allt annað. Raunar eru ríki og svæði sem byggja að miklu leyti á ferðaþjónustu, þekkt fyrir miklar og ýktar sveiflur. Það er eitthvað sem Ísland þekkir vel, en má illa við að ýta enn frekar undir.
Ennþá sömu áherslumálin
Viðskiptaráð á hrós skilið fyrir að hafa fengið ráðgjafafyrirtækið McKinsey til að kafa ofan í hagkerfið, draga fram upplýsingar um stöðu mála og leggja grunni að áætlun um hvernig megi styrkja stoðgrind efnahagsmála. Í morgun var síðan birt ný 54 síðna skýrsla þar sem staða mála er metin frá því að skýrslan kom út fyrir fjórum árum. Án þess að hún hafi verið greind í þaula, þá sést strax í henni mikilvægt stöðumat. Ennþá stendur Ísland frammi fyrir því sem McKinsey lagði mesta áherslu: að efla hugvitsdrifinn hluta hagkerfisins, „eitthvað annað“ sum sé.
Í skýrslunni segir orðrétt, um vöxt ferðaþjónustunnar: „Áframhaldandi umframvöxtur ferðaþjónustunnar leiðir aftur á móti til þess að útflutningur verður einsleitari. Það er ljóst að slík þróun gerir hagkerfið berskjaldaðra gagnvart áföllum en ella væri. Með það í huga er mikilvægt að huga að því hvaða framtíðarmynd er stefnt að því að skapa. Ferðaþjónustan hefur dafnað vel og er lykilatvinnugrein á Íslandi. Velgengni greinarinnar má aftur á móti ekki verða til þess að aðrar útflutningsgreinar standi höllum fæti. Til lengri tíma leiðir fjölbreyttari útflutningur til meiri hagsældar og minni áhættu fyrir Íslendinga.“
Fjárfest í rannsóknum og nýsköpun
Þetta er mikilvægt atriði, sem vonandi tekst að hafa sem leiðarljós í áframhaldandi vinnu við að efla innviði hagkerfisins. Nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi og stuðningur við rannsóknir er það sem mun skipta Ísland, alveg eins og önnur lönd, miklu máli til framtíðar litið. Við Íslendingar vinnum mikið og langa daga, en framleiðni á hvern íbúa er ekki nægilega mikil. Með sterkari hugvitsdrifnum alþjóðageira er Ísland með enn bjartari framtíð. Þrátt fyrir að hagtölur séu góðar í augnablikinu, og vöxtur ferðaþjónustunnar sé öllum sjáanlegur, ekki síst hér á Norðurlandi, þá ætti ekki að slá slöku við að efla hugvitsdrifinn hluta hagkerfisins. Boltinn er að einhverju leyti hjá stjórnvöldum og vonandi munu nýkjörin stjórnvöld setja kraft í að byggja á þeim grunni sem fyrrnefnd vinna hefur skilað. En boltinn er líka hjá fjárfestum og atvinnurekendum, sem ráða oft úrslitum um það hvort góðar hugmyndir og rannsóknir innan háskólanna komist á nægilega háan stall til þess að lifa í alþjóðavæddum heimi viðskipta.