Enn ein glanskynning á aðgerð ríkisstjórnarinnar var haldin í Hörpu á mánudag. Áður höfum við verið leidd í gegnum nokkrar slíkar kynningar um „Leiðréttinguna“ og áætlun stjórnvalda um losun hafta. Þær kynningar hafa átt það sameiginlegt að framsetning upplýsinga hefur í besta falli verið villandi og mjög frjálslega hefur verið farið með túlkun talna.
Kynningin á „Fyrstu fasteign“, aðgerð ríkisstjórnarinnar til að auðvelda kaup á fyrstu íbúð, skar sig ekki frá þeim sem áður hafa farið fram. Það gerði heldur ekki kynning á skrefi í átt að afnámi verðtryggingar, sem fylgdi með í pakkanum.
Mun hækka húsnæðisverð og magna erfiðleika
Þótt „Fyrsta fasteign“-aðgerðin sé prýðileg fyrir þann hóp sem getur nýtt sér hana þá blasir strax við er að hún gagnast þeim sem þurfa mest á henni að halda ekkert. Þ.e. fólki sem er tekjulágt, er í vandræðum með að standast greiðslumat og á ekki sparnað fyrir útborgun, oft vegna þess að leiga fyrir það húsnæði sem það býr í nú er of há til að hægt sé að spara mikið.
Ástæðan fyrir því að aðgerðin gerir lítið sem ekkert fyrir þennan hóp er tvíþætt. Í fyrsta lagi er þessi hópur ekkert að spara í séreignarsparnað sem stendur. Það kemur beinlínis fram í greiningu Analytica sem unnin var fyrir stjórnvöld, og greint er frá í greinargerð með frumvarpinu. Þar segir að „meðallaunatekjur hjá launþegum sem spara í séreign voru umtalsvert hærri en hjá þeim sem spara ekki í séreign.“ Leiðin, og skattafslátturinn sem henni fylgir, nýtist því tekjuháum fyrstu íbúðarkaupendum en ekki tekjulágum, enda þeir mun líklegri til að hafa efni á séreignarsparnaði en hinir.
Og jafnvel þótt það unga fólk sem er ekki með séreignarsparnað í dag gæti farið að safna sér fyrir útborgun með honum þá myndi það líkast til ekki duga yfir það tíu ára tímabil sem aðgerðin nær til. Einstaklingur má að hámarki safna sér 500 þúsund krónur á ári til að nota til þessara verka. Í dag kostar lítil íbúð á höfuðborgarsvæðinu um 30 milljónir króna. Útborgun þarf að vera um sex milljónir króna. Sá sem myndi safna sér 500 þúsund krónum á ári í séreign í áratug myndi ekki ná að safna upp í afborgun af slíkri íbúð í dag, og hvað þá þegar íbúðarverðið hefur hækkað um tugi prósenta á næstu tíu árum, sem það mun gera.
Í öðru lagi mun úrræðið hækka húsnæðisverð. Það segir sig eiginlega sjálft að öll skref sem gera lántöku auðveldari fyrir einhverja hópa, á markaði þar sem eftirspurn er margföld á við framboð, mun orsaka skrið til hækkunar á fasteignamarkaði. Og hærra verð mun leiða af sér hærra eiginfjárframlag íbúðarkaupenda við kaup, meiri erfiðleika við að standast greiðslumat og enn meiri eftirspurn eftir þeim eignum sem þó rata á sölu.
Þeim fækkar reyndar hratt. Framboð íbúðarhúsnæðis til sölu hefur dregist saman um nær helming á tveimur árum, samkvæmt nýjustu greiningu Greiningardeildar Arion banka. Þar segir einnig að það vanti átta til tíu þúsund nýjar íbúðir á landinu til ársloka 2020.
Samandregið er því verið að gefa þeim sem hafa ráðrúm til að spara séreign til að eyða sparnaðinum sínum í að kaupa sér húsnæði. Á móti veitir ríkið skattaafslátt af framtíðarskatttekjum sem annars hefðu runnið til samneyslu næstu kynslóða.
Öllum nema flestum bannað að taka Íslandslán
Samhliða þessum aðgerðum var málamiðlunarmoð stjórnarflokkanna um að draga úr vægi verðtryggingar kynnt. Í því felst að 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, hin svokölluðu Íslandslán, verði bönnuð...öllum nema þeim 75 prósent sem eru undanþegnir því banni! Þau 25 prósent sem mega ekki taka lánin eru ólíklegustu hóparnir til að taka slík lán. Þ.e. eldri Íslendingar, tekjuháir og eignarmiklir. Þeir þurfa ekki að hugsa jafn mikið um mánaðarlega greiðslubyrði eða að standast greiðslumat. Þetta er því lagasetning sem þjónar engum öðrum tilgangi en að láta líta út fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi reynt að stíga skref í átt að kosningaloforði sínu um að afnema verðtryggingu.
Ástæða þess að ekki eru stigin stærri skref í þá átt að banna þessi lán er einföld: 40 prósent þeirra sem eru með þau í dag myndu ekki standast greiðslumat fyrir öðrum lánum. Til að átta sig á umfanginu er vert að benda á að af þeim 90 milljörðum króna sem Íslendingar tóku í verðtryggð húsnæðislán í fyrra voru 70 milljarðar króna Íslandslán.
Svo er það skemmtileg viðbótarstaðreynd að í ár, þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að búa til gervibann á töku Íslandslánanna, eru nákvæmlega 20 ár liðin frá því að Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, kynnti lánin til sögunnar sem nýjan valkost. Hann sat þá í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Verulega blekkjandi framsetning
Framsetningin á „Fyrstu fasteign“ er síðan sér kapituli fyrir sig. Enn og aftur var hlaðið í glanskynningu í Hörpu þar sem handvaldar staðreyndir voru bornar fyrir lýðinn í þeirri von um að þær yrðu kokgleyptar. En margar þeirra eru í besta falli hálfsannleikur og í versta falli óskammfeilin blekking.
Ein slík snerist um bann á ákveðinni tegund verðtryggðra lána, sem er ekkert bann, og fjallað er um hér að ofan.
Önnur er sú að djúpraddaði kynnir ríkisstjórnarinnar sýndi glæru sem átti að senda þau hughrif að þátttaka í séreignarsparnaðarleiðinni muni ekki hafa nein teljandi áhrif á lífeyri viðkomandi. Ef valið sé að nota séreignarsparnað til að greiða niður húsnæðislán í tíu ár muni eftirlaun verða 113 prósent af því sem viðkomandi væri með í laun 67 ára. Ef séreignin yrði ekki notuð á þennan hátt myndu eftirlaunin hins vegar hafa orðið 123 prósent af lokalaunum. Því sé „einungis“ verið að gefa eftir tíu prósentustig af mánaðarlegum eftirlaunum sínum seinna gegn því að greiða inn á húsnæðislánin sitt núna.
Þetta er hins vegar mjög óskammfeilin framsetning og eiginlega ekkert annað en blekking. Hún felst meðal annars í því að þarna er miðað við að byrjað sé að greiða í séreignarsparnað 25 ára, sem fæstir gera. Í greiningu Analytica eru námsmenn meira að segja felldir út vegna þess að langflestir þeirra borga ekki í séreignarsparnað. Meðalaldur Íslendinga sem klára BA- eða BS-gráðu á Íslandi er yfir 30 ár.
Auk þess er gert ráð fyrir því í dæminu sem var tekið í glærukynningunni að laun viðkomandi myndu byrja að lækka eins og í normalkúrfu frá 47 ára aldri. Þannig verði lokalaun viðkomandi þegar hann er 67 ára töluvert lægri en bestu laun á vinnuferlinum. Þetta er alls ekki tilfellið hjá mörgum. Þvert á móti hækka laun, t.d. opinberra starfsmanna sem eru lengi í sama starfi, stanslaust út vinnuferilinn nema þeir velji að skera niður í vinnu.
Til viðbótar er gert ráð fyrir því að einstaklingurinn sé að greiða 15,5 prósent í iðgjald af launum sínum í lífeyrissjóð frá því að hann er 25 ára og þangað til að hann er 66 ára. Í dag er skylduiðgjald í lífeyrissjóði hins vegar 12 prósent og mun ekki hækka upp í 15,5 prósent fyrr en á miðju ári 2018.
Allar ofangreindar tölur sem prýddu glærukynningu stjórnvalda eru því hæpnar og forsendurnar sem þær hvíla á handvaldar til að komast að seljanlegri niðurstöðu.
Efstu mörk sérvalin í kynningu
Í glærukynningu stjórnvalda var einnig sagt að 14 þúsund manns myndu nýta sér „Fyrstu fasteign“ á næsta ári og að tvö þúsund manns myndu bætast við á ári. Þar var sagt að heildarumfang aðgerðanna væri 50 milljarðar króna sem myndu greiðast inn á íbúðalán af séreignarsparnaði þátttakendur og að hið opinbera myndi gefa eftir 15 milljarða króna af framtíðarskatttekjur vegna þeirra. Þar er miðað við svokallað grunndæmi.
Greining Analytica, sem fylgir frumvarpi um aðgerðirnar, sýnir líka aðra mynd. Þar kemur fram að þátttakendur geti orðið allt niður í 4.300 manns, að umfang aðgerðanna gæti orðið einungis 13 milljarðar króna og að skattaafslátturinn yrði þá einungis fimm milljarðar króna. Ríkisstjórnin virðist hafa valið að kynna nánast efstu mörk greiningar Analytica í kynningu sinni, en gera ekki með neinum hætti grein fyrir neðri mörkum hennar.
Þetta líkist því þegar Leiðréttingin var kynnt með sambærilegum hætti fyrir tæpum tveimur og hálfum árum. þá var sagt að Íslendingar myndu nota 70 milljarða króna af séreignarsparnaði til að greiða niður húsnæðislán á þremur árum. Raunveruleikinn er sá, þegar ⅔ hluti tímans er liðinn, að þeir hafa einungis notað 23,8 milljarða króna til þess og engar líkur á að 70 milljarða króna markið, tæpur helmingur af 150 milljarða króna heildarskuldaraðgerðum ríkisstjórnarinnar, náist.
Neyðarástand sem þarfnast aðgerða
Eftir stendur að það er enn neyðarástand á íslenskum húsnæðismarkaði. Aðgerðirnar sem kynntar voru á mánudag gera ekkert fyrir stærstan hluta þess hóps sem er í vanda.
Fjórir af hverjum tíu Íslendingum á þrítugsaldri komast ekki úr foreldrahúsum, framboð dregst saman, verð hækkar hratt og geta stórs hluta þjóðarinnar að komast yfir þær aðgangshindranir sem til staðar eru milli þeirra og heimilis verða sífellt hærri.
Þetta er ekki hópur sem á séreignarsparnað né er líklegur til þess að vera í aðstöðu til að safna nægilega miklu af slíkum á næstu árum til að geta átt fyrir útborgun í íbúð.
Þrjár aðgerðir geta hjálpað þessum hópi: í fyrsta lagi stóraukið framboð húsnæðis. Það er hægt að ná því fram til lengri tíma með því að byggja meira, en til skemmri tíma með því að setja t.d. miklar hömlur á útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna.
Í öðru lagi þurfa vextir að lækka mikið. Þeir munu, því miður, ekki gera það á meðan að við rekum þann örgjaldmiðil og þá peningastefnu sem við erum með í dag nema að ráðist verði í umfangsmiklar kerfisbreytingar á fjármálakerfinu.
Í þriðja lagi þarf að fjarlægja allar hindranir á hreyfanleika fólks milli lána. Hvort sem þær heita uppgreiðslugjald, lántökugjald eða stimpilgjald þá þarf að banna þær. Þá getur fólk rekið heimilið eins og vogunarsjóð og óskað reglulega eftir tilboði í nýja fjármögnun. Aðeins þannig er hægt að reka heimili skynsamlega miðað við þær aðstæður sem okkur eru sniðnar.
Það er ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að koma fram við almenning af heilindum. Að styðjast við staðreyndir og reyna ekki að draga upp mynd af afleiðingum ákvarðana sinna sem á lítið skylt við raunveruleikann. Það hefur ekki verið gert í þeim kynningum sem haldnar hafa verið i Hörpu á þessu kjörtímabili.
Sú vafasama hefð hélt áfram síðastliðinn mánudag.