Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, hefur óskað eftir fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra og/eða Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra, til að ræða stöðuna sem upp er komin í Tyrklandi. Þetta kemur fram í bréfi Skúla til Sigurðar Inga, sem sent var á mánudag, og vitnað var til í fréttum í gær.
Í bréfi sínu vitnar Skúli til harðorðaðrar ályktunar norrænu dómarafélaganna um aðgerðir stjórnvalda í Tyrklandi gegn dómurum í kjölfar tilraunar til valdaráns þar í landi í júlí síðastliðnum. Í ályktun dómaranna er aðgerðunum, sem hafa meðal annars falið í sér handtöku og gæslu þúsunda dómara, lýst sem hreinsunum. Þær brjóti í bága við mannréttindasáttmálann og aldrei sé hægt að réttlæta aðgerðir af þessu tagi með neyðarlögum. Í ályktuninni eru stjórnvöld á Norðurlöndunum hvött til þess að grípa til aðgerða vegna ástandsins.
Þetta eru þarfar ábendingar frá dómurum, og mikilvægt að þjóðir heimsins fylgis grannt með því sem er að gerast í Tyrklandi. Niðurbrot réttarríkis í 80 milljóna land, sem nú er að upplifa mikla spennu vegna stríðsástands í grennd og pólitísks óróa, gæti haft skelfilegar afleiðingar. Ekki aðeins fyrir Tyrkland, heldur fyrir umheiminn.
Full ástæða er til þess að taka ábendingar Dómarafélagsins alvarlega, og vonandi gera stjórnvöld það.