25 þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum lögðu í vikunni fram þingsályktunartillögu þess efnis að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um veru flugvallarins í Vatnsmýri. Tímasetningin er einkennileg, og tillagan út í hött.
Fyrir það fyrsta átti þingi að ljúka í dag, þótt augljóst sé að talsvert sé í það. 57 dagar eru í þingkosningar og það er ómögulegt að kosið yrði um málið samhliða þeim. Það vita allir, en greinilega á nú að tromma upp flugvöllinn í Vatnsmýrinni sem kosningamál – í það minnsta prófkjörsmál. Fyrir þau sem ætla sér áframhaldandi setu á Alþingi er þetta kjörið tækifæri til að hreykja sér af í slíkri baráttu. Við skulum ekki gleyma hvað Framsókn og flugvallarvinir náðu miklum árangri í borginni með hræðsluáróðri um flugvöllinn (og kynþáttafordómum). Allir óbreyttir þingmenn þess flokks utan eins taka þátt í framlagningu þessa máls.
Ódýrt lýðskrum
Það er hins vegar ódýrt lýðskrum að leggja þessa þingsályktunartillögu fram, líkt og svo margt í umræðu um flugvöllinn hefur verið um langt skeið. Það leysir engan vanda að kjósa um málið eins og það er lagt fram, það mun bara ýta okkur lengra niður í skotgrafirnar.
Tilraunir hafa vissulega verið gerðar til þess að hefja málið upp úr skotgröfunum, til dæmis með Rögnunefndinni svokölluðu, sem skilaði vandaðri vinnu þótt í skýrsluna hafi vantað margt, meðal annars möguleikann á því að færa innanlandsflugið til Keflavíkur.
Ef þingmennirnir 25 hefðu haft raunverulegan áhuga á raunverulegri lausn á málinu þá hefðu þeir getað ýtt á það að innanríkisráðuneytið færi í viðræður um þá skýrslu og niðurstöður hennar fyrir rúmlega ári síðan, þegar niðurstaða hennar lá ljós fyrir. Flestir þeirra tilheyra jú stjórnarmeirihlutanum. Þeir hefðu getað staðið fyrir upplýstri umræðu um málið, kosti og galla.
Í staðinn hafa stjórnvöld misst algjörlega stjórnina á þróuninni. Icelandair, sem tók þátt í Rögnunefndinni, er hætt að nenna að bíða eftir ríki og borg og hefur hafið sínar eigin athuganir á besta kostinum samkvæmt skýrslu nefndarinnar – Hvassahrauni. „Það liggur alveg fyrir að Reykjavíkurflugvöllur er að fara úr Vatnsmýrinni,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Icelandair, um málið í sumar. Einkafyrirtækið hefur því tekið af skarið og sagt eins og er, þessi stóra fjárfesting og þetta stóra mál yfir höfuð, þarfnast þess að möguleikarnir séu skoðaðir eins vel og hægt er.
Þetta er áfellisdómur yfir stjórnvöldum, og stjórnmálunum öllum. Þau geta þverskallast við og reynt að banna flutning vallarins með lögum, en þróunin er farin af stað, án þeirra.
Betri borg þarf Vatnsmýri – betri landsbyggð þarf heilbrigðisþjónustu
Það hefur lengi verið mín skoðun að flugvöllurinn ætti að víkja úr Vatnsmýrinni. Það þýðir ekki að ég vilji skerða þjónustu við landsbyggðina eða vilji að fólk deyi. Það þýðir einfaldlega að ég trúi þeim sérfræðingum sem segja að Vatnsmýrin sé besta, og eiginlega eina, tækifærið til þess að þróa Reykjavík og gera hana að betri og þéttbýlli borg. Betri Reykjavík yrði okkur öllum til hagsbóta og við höfum einstakt tækifæri til þess að byggja hana. Uppbygging í Vatnsmýri myndi auk þess vera stærsta innleggið í lausn á húsnæðisskorti í höfuðborginni.
Margir segja að flugvöllurinn eigi að vera þar sem hann er, þannig hafi það alltaf verið og þannig þurfum við ekki að taka flóknar ákvarðanir og takast á við breytingar. En vandamálið er að þannig verður engin framþróun. Við eigum bara þessa einu borg ennþá, við öll, og til þess að hún haldi áfram að þróast, batna og geti orðið samkeppnishæf við aðrar borgir, þá þurfum við að grípa til aðgerða. Samkeppnin er einfaldlega ekki á milli landsbyggðar og borgar, hún er á milli Íslands og annarra landa. Borga í öðrum löndum. Við snúum ekki við alþjóðlegri borgarþróun með innanlandsflugi í Vatnsmýri.
Þetta eru helstu rökin fyrir því að loka flugvellinum. En það eru líka afskaplega sterk rök fyrir því að halda flugvellinum á sínum stað – þau rök eru sjúkraflugið. Ekki vöruflutningar, ekki einkaflug eða kennsluflug, ekki stjórnsýslan, ekki neitt annað en sjúkraflugið. Ekkert okkar vill að fólk deyi sökum fjarlægðar frá góðri heilbrigðisþjónustu.
Það er hins vegar óskiljanlegt hvers vegna einblínt er svona mikið á einn af mörgum þáttum í sjúkraflutningum milli landshluta. Lítið er talað um viðbragðstímann frá því að beiðni um sjúkraflug berst og þangað til flugvél er farin í lofið. Væri hægt að stytta þennan tíma? Lítið er talað um tímann sem það getur tekið að koma fólki að flugvöllum svo það geti komist um borð í sjúkraflugvél. Sá tími er oft langur, oft vegna lélegra samgangna. Lítið er talað um að stundum þurfa flugvélar fyrst að fljúga frá Akureyri til Reykjavíkur til að sækja heilbrigðisstarfsfólk áður en flogið er á áfangastað þar sem sjúklingur er. Lítið er minnst á að það er ekki einu sinni búið að meta það hvort flutningur flugvallar í Hvassahraun myndi ógna öryggi sjúklinga á nokkurn hátt. Svo nokkur dæmi séu tekin.
Hvers vegna erum við ekki að beina sjónum okkar að því að auka og bæta heilbrigðisþjónustu og samgöngur á landsbyggðinni? Hvar eru byggðarsjónarmiðin í því að krefjast bara aðgangs að Reykjavíkurflugvelli, en ekki almennilegrar þjónustu í hverjum fjórðungi? Það eru stóru málin sem verið er að leiða okkur framhjá í endalausum, yfirborðskenndum rifrildum stjórnmálamanna og í tillögum eins og þeirri sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi. Með því að leggja málin svona á borð þurfa þeir nefnilega ekki að koma með raunverulegar lausnir á alvöru vandamálum.
Við kjósendur eigum að geta gert meiri kröfur til stjórnmálamanna en það sem þeir eru að bjóða okkur upp á hér.
Við skulum ekki leyfa þeim að komast upp með þetta.