Vegna umræðu sem fram hefur farið á Kjarnanum undir liðnum „skoðun“ telur undirritaður rétt að koma eftirfarandi á framfæri:
Íslenskir kjúklingabændur hafa náð þeim árangri í eldi fugla sinna að þeir eru í fremstu röð ásamt bændum á Nýja Sjálandi. Gera má ráð fyrir að ýmsir þættir valdi þeim góða árangri og hafa eftirfarandi atriði verið tínd til í því sambandi: Vönduð eldishús, nákvæmni og natni í umönnun fuglanna á eldistíma, aðgangur að heitu vatni til upphitunar, hreint og gott loft sem eldishúsin eru loftræst með, ásamt því að hitastig á Íslandi er, þó stundum mætti það vera heitara, heppilegt. Fleira mætti eflaust til telja.
Búin eru leyfisskyld frá Heilbrigðiseftirliti og Matvælastofnun og því er fylgt eftir með eftirliti af hálfu beggja stofnana.
Undirritaður man satt að segja ekki með vissu hvenær innleitt var svokallað rekjanleikakerfi sem lesa má á umbúðum á afurðum búanna, en hyggur að það muni geta verið a.m.k. fyrir 15 árum síðan. Kerfið felur í sér að hægt er að rekja frá hvaða búi varan er komin og einnig í hvaða húsi fuglinn var alinn upp í. Að auki eru ýmsar frekari upplýsingar byggðar inn í kerfið, þannig að til dæmis er hægt að sjá úr hvaða varphænsnahúsi eggið er komið sem unginn kom úr á sínum tíma o.s.frv..
Innflutt frjóegg til viðhalds útungunarstofni eru flutt inn undir opinberu eftirliti og síðan meðhöndluð á einangrunarstöðvum.
Skimun fyrir Salmonellu og Kampýlóbakter er gerð á hverjum einasta eldishóp á eldistíma og síðan einnig í sláturhúsi. Skimað er fyrir Salmonellu almennt, en ekki einungis aðeins fyrir tveimur af um 2200 tegundum hennar eins og tíðkað er erlendis þar sem slík skimun fer fram sem þó er alls ekki algilt að sé gert (svo sem lesa má t.d. um í þingskjali 1593 á bls 4) og einnig hér.
Ef Salmonella greinist í eldishópi á Íslandi, þá er hópnum fargað og skiptir þá ekki máli hvaða gerð af óværunni fannst í hópnum. Eins og gefur að skilja þá eru slíkar aðgerðir afar kostnaðarsamar fyrir bændur þegar upp koma, en á móti kemur að afleiðingar smits í fólki lenda þá mun síður til meðhöndlunar í heilbrigðiskerfinu. Bætur hafa bændur í slíkum tilfellum getað sótt til Bjargráðasjóðis hafi iðgjöld þeirra til sjóðsins náð að safnast nægjanlega upp til að dugi. Stjórnvöld munu hafa ákveðið að leggja sjóðinn niður þannig að þetta haldreipi verður þar með skorið af.
Vera kann að einhverjum finnist eldishús fyrir kjúklinga ekki nógu virðulegar byggingar og séu skemmur. Til eru, eða voru a.m.k. dæmi þess erlendis, að eldið sé stundað í byggingum sem eru fleiri en ein hæð, jafnvel margar hæðir og sjálfsagt finnst ef til vill einhverjum að það sé meiri glæsibragur yfir því að stunda búskapinn með þeim hætti. Slíkar skoðanir og „smekk“ verður hver að hafa fyrir sig, en benda má á að ágætlega hefur gengið að notast við byggingar af skemmugerðinni bæði hérlendis og erlendis, hvort heldur er til eldis alifugla, annars fénaðar bænda og/eða til sölu dagvöru svo og undir ýmsa aðra starfsemi.
Þá hefur verið bent á það á þessum vettvangi að gott væri að búin væru öllum opin til að rölta um og skoða. Vegna þess er rétt að koma því á framfæri, að vegna reglna sem um leyfisskyldan búrekstur gilda þá er það takmörkunum háð hve langt er hægt að ganga í því efni. Að auki má einnig hafa í huga að býli bænda eru vinnustaður þeirra og búaliðs og líkt og hjá flestum öðrum starfsstéttum þá er þeim nauðsyn á eðlilegum vinnufrið til að sinna störfum sínum.
Höfundur er formaður Félags kjúklingabænda.