Hinn 11. september 2001, fyrir fimmtán árum, breyttist heimsmyndin. Þá var ráðist á Bandaríkin og sjálft hjartað í hinu alþjóðavædda viðskiptalífi, Tvíburaturnana í New York. Allt í allt var um fjórar árásir að ræða. Samtals létust 2.996 í árásunum og yfir 6.000 slösuðust, flest þegar ráðist var á turnanna með tveimur farþegaþotum sem hafði verið rænt og þeim stýrt á skotmörkin af ógurlegri grimmd.
Fálmkennt og óskipulagt
Mikið hefur verið rætt og ritað um þessar árásir, enda var heimurinn breyttur eftir þær. Bandaríkin svöruðu fyrir sig með hernaði í Afganistan, Írak og síðan með sértækum aðgerðum gegn grunuðum hryðjuverkamönnum, og er óhætt að segja að svifist hafi verið einskis. Menn voru handteknir og fangelsaðir án dóms og laga. Pyntingum var beitt, eins og rakið hefur verið nákvæmlega í skýrslum og bókum. Ghost Plane, eftir Stephen Grey, er sérlega áhugaverð bók um þessi eftirköst árásanna og það sama má segja um Fiasco, eftir Thomas Ricks, blaðamann The Washington Post. Þar er Íraksstríðið til ítarlegrar umfjöllunar og nafnið á bókinni segir allt sem segja þarf. Innrásin, sem átti sér rætur í viðbragðspressunni sem myndaðist eftir árásirnar 11. september, var algjört klúður, fíaskó.
Þær draga vel fram hversu fálmkenndar og óskipulagðar aðgerðir yfirvalda í Bandaríkjanna í raun voru, ofan á mannréttindabrot og árangurslitlar hernaðaraðgerðir. George W. Bush, sem var forseti Bandaríkjanna þegar árásirnar áttu sér stað, viðurkenndi á tíu ára afmæli árásanna, í ítarlegu viðtali við National Geographic, að hann og stjórn hans hefðu verið gripin í bólinu. Hann hefði verið maður sem var með augun á þróun í innlendum málefnum en á einni nóttu – með árásunum 11. september – þá kúventist staðan, og hann þurfti að móta sér sýn á aðgerðir undir mikilli pressu, og verða stríðstíma-forseti. Hann hafði takmarkaða þekkingu á hlutunum, og ráðgjafar hans réðu að miklu leyti ferðinni.
Vissi ekki betur
Eins og Bush birtist í þessu viðtali, þá fannst mér hann viðurkenna vanmátt sinn. Hann var ekki með nægilega fast land undir fótum, og í stað þess að koma fyrir sjónir sem hálfgert illmenni, eins og oft hefur fylgt hans pólitíska ferli í fjölmiðlaumræðu, þá kom hann fyrir sem viðkvæmur maður sem vissi ekki alveg hvað hann var að gera í erfiðum aðstæðum.
Í New York voru áhrifin af árásunum vitaskuld mest og tilfinningaríkust, enda alvarlegustu áhrifin þar þó stjórnsýslan hafi líka fengið gríðarlegt högg með sprengingunni í Pentagon. Þessi suðupottur mannlífs, þar sem menningarstraumar heimsins mætast, breyttist í vígvöll í byrjun vinnudags þegar flestir eru á ferli. Fréttaflutningurinn frá þessu degi tók mið af þessu, enda oft talað um New York sem fjölmiðlahöfuðborg heimsins. Fólk var hrætt. Skelfingu lostið.
Hetjurnar í úthverfunum
Einn af fjölmörgum stöðum sem heldur minningu þeirra sem létust á lofti er Slökkviliðssafnið á Manhattan (New York City Fire Museum), við Spring Street í nálægð við Hudson Square. Þarna var fyrsta slökkvistöðin á Manhattan, í nálægt við það svæði sem fékk yfir sig reykmökkinn eftir árásirnar.
Þetta litla aðlaðandi safn er einkar skemmtilegt að heimsækja með börn, en það er líka áhrifamikið að heimsækja þar lítið herbergi þar sem myndum af öllum þeim slökkviliðsmönnum sem létust í New York hefur verið komið upp. Samtals létust 343 slökkviliðsmenn og 72 lögreglumenn í árásunum Al-Qaeda.
Margir slökkviliðsmannana létust þegar turnarnir hrundu. Á safninu um atburðina, sem er staðsett á Ground Zero, er atburðarásinni gerð ítarleg skil og ýmsir munir til sýnis. Aðstandendur þeirra látnu fá forgang í röðina.
Þegar ég fór með strákana mína í hjólatúr um Bronx, þá var sláandi að sjá minnisvarða sem stendur nærri slökkvistöðinni sem er í grennd við Bronx Zoo dýragarðinn. Allir slökkviliðsmenn á þeirri stöð létust. Það þurfti að manna hana alveg upp á nýtt. Margar deildir í úthverfum New York urðu fyrir gríðarlegu mannfalli, þar sem þær komu með aðeins síðar á vettvang, og leystu dauðþreytta slökkviliðsmenn af, sem höfðu komið fyrstir á vettvang. Þeir fóru rakleitt inn í bygginguna til að bjarga fólki, en fengu hana svo yfir sig. Hundruð létust á augabragði.
Alþjóðapólitísk sprengja
Sprengingarnar sem urðu 11. september 2001 voru gríðarlega áhrifamiklar þegar horft er á málin með alþjóðapólitískum gleraugum. Það er efni í greinaflokk að rekja alla þá fjölmörgu og flóknu þætti sem hafa breyst, eftir atburðina.
En einn lærdómurinn sem draga má af eftirmálunum er að vígvöllurinn í baráttunni gegn hryðjuverkum er ekki til. Það er ekki hægt að senda þangað hermenn, skriðdreka og orrustuþotur. Alveg sama hversu miklum hernaði er beitt, þá eyðist ekki hættan á hryðjuverkum, eins og komið hefur í ljós. Hatrið sem knýr menn til árása eins og skullu á heimsbyggðinni 11. september á sér djúpstæðari skýringar og ástæður. Það er líka huglægt og siðferðilegt atriði, sem þolinmóð alþjóðasamvinna getur unnið gegn. Mannúð, þolinmæði og góðmennska eru líklega beittustu vopnin sem til eru í þeirri baráttu.