Helstu varðmenn þess landbúnaðarkerfis sem er við lýði á Íslandi beita mjög fyrir sig þeim rökum að engin efnisleg umræða fari fram um innihald nýsamþykktra búvörusamninga. Þeir ganga út frá því að enginn sem taki þátt í umræðunni hafi lesið þá og því sé umræðan föst í rifrildi um form og byggð á klisjum sem fólk sé fóðrað af.
Þetta er þekkt umræðuform og er oft notað af fólki sem vill aðra niðurstöðu en efnisleg umræða leiðir flest skynsamt fólk að. En allt í lagi. Tökum efnislega umræðu um búvörusamninganna.
Kostnaðurinn og lengdin
Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna búvörusamninganna (þeir eru fjórir) er 132 milljarðar króna á því tíu ára tímabili sem þeir gilda. Samningarnir eru líka tvöfalt verðtryggðir þannig að ef verðbólgan fer af stað á tímabilinu þá mun kostnaður skattgreiðenda í krónum talið aukast.
Endurskoðunarákvæðið sem sett var inn í samninganna eftir aðra umræðu í þinginu, og hluti stjórnarandstöðunnar hefur notað til að verja frammistöðuleysi sitt við afgreiðslu búvörulaga í þinginu, breytir ekki tíu ára lengd samninganna. Í því er tiltekið að alls kyns aðilar verði kallaðir að borðinu til að vinna að breytingum á búvörusamningum og að þær breytingar eigi að liggja fyrir 2019. Þá munu hins vegar bændur, og einungis bændur, kjósa um hvort þeir sætti sig við þær breytingar. Hafni þeir þeim munu tíu ára samningarnir halda gildi sínu.
Þetta hefur verið staðfest af ráðuneyti málaflokksins og hæstaréttarlögmönnum sem farið hafa yfir málið fyrir Kjarnann. Ríkið hefur því gefið frá sér réttinn til að endurskoða samninganna í tíu ár og fært bændum hann. Ef samningarnir yrðu brotnir ættu bændur rétt á skaðabótum úr ríkissjóði vegna miska sem þeir teldu sig verða fyrir.
Í nýlegri fréttaskýringu í Fréttatímanum kemur fram að einu löndin sem styrki landbúnað sinn meira en Íslendingar séu Norðmenn og Svisslendingar, tvö af ríkustu löndum í heims. Ef íslensk stjórnvöld myndu styrkja landbúnað sinn álíka mikið og gert er innan Evrópusambandsins hefðu 7,3 milljörðum króna minna runnið úr ríkissjóði til landbúnaðarins á árinu 2015 og álögur á neytendur hefðu verið 10,9 milljörðum krónum lægri. „Íslensk landbúnaðarstefna kostar því neytendur og skattgreiðendur um 18,2 milljörðum meira árlega en ef hér ríkti landbúnaðarstefna Evrópusambandsins,“ segir í skýringunni.
Innihaldið
Allt sem skrifað er í samninganna, og afleiðingarnar sem það mun hafa, er auðvitað ekki hræðilegt. Sumt er til bóta. En nægilega margt er þess eðlis að það er ekki hægt að sætta sig við það með neinum hætti.
Í búvörusamningunum felst meðal annars að hömlur eru settar á stærðarhagkvæmni í landbúnaði. Þak á framlögum til bænda dregur úr hvata til að vera með stærri býli til að ná niður framleiðslukostnaði og því njóta neytendur ekki þeirrar hagkvæmni í vöruverði. Samhliða miklum niðurgreiðslum til innlendra matvælaframleiðenda er fest í sessi mjög há tollvernd á kindakjöt, mjólk, svínakjöt og kjúklinga sem gerir það að verkum að það er nær ómögulegt fyrir innfluttar vörur að keppa við þær sem eru framleiddar á Íslandi. Þá er samkeppni áfram takmörkuð með lögum með því að Mjókursamsölunni er tryggð undanþága frá samkeppnislögum.
Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, skrifaði nýverið grein í Fréttablaðið þar sem hann segir að samningarnir séu ekki bara lélegir, heldur beinlínis vondir. Í þeim sé gamaldags sýn á byggðaþróun, þeir séu umhverfisfjandsamlegir, stuðli að offramleiðslu og taki ekki mið af breyttum aðstæðum í samfélaginu og mismunandi þörf fyrir slíkan stuðning í landinu.
Hann bendir á að um þriðjungur af sauðfjárframleiðslunni sé nú fluttur út og með því eru íslenskir skattgreiðendur í raun að niðurgreiða kjöt ofan í erlenda neytendur.
Auk þess hefur neysla Íslendinga á kindakjöti dregist gríðarlega saman. Árið 1983 borðuðu Íslendingar 45,3 kíló hver af kindakjöti á ári. Í fyrra var sú tala komin í 19,5 kíló. Á sama tíma hefur neysla á kjúklingi og svínakjöti aukist verulega. Kjöt sem engin menningarleg eða byggðarleg sjónarmið eru á bakvið að verja framleiðslu á. Við gætum, og ættum, að flytja þetta kjöt inn. Samt er það gert, til að verja stöðu verksmiðja sem framleiða svínakjöt og kjúkling.
Ólafur hefur einnig gagnrýnt samningannafyrir að vera „skipsbrot í umhverfismálum þjóðarinnar“ og kallað sauðfjárbeit á svæðum sem þoli enga beit rányrkju. Hann hefur einnig bent á að tekjur sauðfjárbænda af því fyrirkomulagi sem er viðhaldið séu oft afar litlar, og ekki skánaði það ástand þegar afurðarverð var lækkað á þessu ári.
Aðferðafræðin
Búvörusamningarnir eru afraksturs samningaviðræðna milli ríkisins og bændaforystunnar. Engir aðrir hagsmunaaðilar, t.d. neytenda, voru kallaðir að því samningaborði. Þau vinnubrögð eru forkastanleg og eru m.a. ástæða þess að viðbrögðin í samfélaginu urðu þau sem raun ber vitni.
Við bætist síðan það pólitíska fúsk sem við urðum vitni að á meðan að málið var í meðförum atvinnuveganefndar og Alþingis. Afvegaleiðandi ummæli um stórkostlega endurskoðun og víðtækar breytingar á samningunum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum, og það ömurlega ístöðuleysi sem hjáseta eða fjarvera allra þingmanna sem segjast í orði vera á móti því kerfi sem er við lýði var, var síðan olía á eldinn.
Pólitískur ómöguleiki
Afleiðingin birtist skýrt í nýlegri könnun MMR. Þar kom fram að 62,4 prósent Íslendinga segjast vera andvígir búvörusamningunum en einungis 16,3 prósent fylgjandi þeim. Einungis átta prósent fólks undir þrítugu er fylgjandi samningunum. Og þótt andstaðan sé mest á höfuðborgarsvæðinu (10 prósent segjast fylgjandi samningunum) þá er hún líka mikil á landsbyggðinni (28 prósent fylgjandi). Einungis kjósendur eins flokks, Framsóknarflokks, voru frekar fylgjandi en andvígir nýju búvörusamningununum.
Einhvern tímann hefði það verið kallaður pólitískur ómöguleiki að samþykkja samninga sem mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti, stuðningsmenn allra stjórnmálaflokka nema eins eru á móti, allir aldurs- og menntunarhópar eru frekar andvígir en fylgjandi og bæði meirihluti höfuðborgarbúa og landsbyggðar eru sammála um að séu afleitir.
Það hatar enginn landbúnað
Hvernig sem hrútskýrendur úr röðum hagsmunagæsluafla landsbúnaðarkerfisins reyna að spinna andstöðu við búvörusamninganna sem vanþekkingu eða landsbyggðarhatur þá stenst það ekki neina skoðun. Ég hata til að mynda ekki landsbyggðina heldur vill veg hennar sem mestan. Ég myndi meira að segja styðja vitræna byggðarstefnu sem myndi snúast um að búa til fjölbreytt og arðbær störf á landsbyggðinni eða auka þjónustu á henni, sem er á mörgum stöðum til skammar. Ég er hins vegar á móti því að nota gríðarlega fjármuni í að niðurgreiða rándýra atvinnugrein með hætti sem gagnast hvorki neytendum né bændum.
Það er móðgun við hugsandi fólk að reyna að selja því þau rök að útlenskar landbúnaðarvörur séu svo sýktar af toxoplasma eða sýklalyfjum að tollvernd frá þeim sé í raun matvælaöryggisráðstöfun til að vernda okkur frá eigin vali í stórmarkaðnum. Sú staðreynd að íbúar Evrópu eru ekki að hrynja niður dauðir hrekur þá fullyrðingu.
Það er móðgun að bera fyrir sig fæðuöryggisrök um að það verði að tryggja að Íslendingar lifi ekki við hungur í alþjóðavæddum heimi. Við getum ekki lifað eins og búist sé við nýrri heimstyrjöld, sem lami alla flutninga til og frá landinu, í nánustu framtíð.
Og það er sár móðgun að reyna að selja þann sannleik að íslensku landbúnaðarvörurnar séu svo heilnæmar og góðar að milljarðarnir sem renna í framleiðslu þeirra, og tollamúrarnir sem slegnir eru um þær, séu til að niðurgreiða vörur til almennings. Um sé að ræða neytendastyrki.
Það þarf að aðlaga íslenskan landbúnað að gjörbreyttum veruleika og leggja áherslu á það sem hann gerir vel, það sem hann getur gert vel, en hætta öðru. Það þarf að auka vöruúrval neytenda og lækka verð til þeirra, í stað þess að skattleggja þá sérstaklega fyrir of dýru, og oft á tíðum ekkert sérstöku, vörurnar sem handvaldar eru ofan í þá af milliliðunum í kerfinu.
Það er hægt að ná góðri sátt um íslenskan landbúnað. Það þarf bara vilja til þess. Og hann er ekki til staðar hjá þeim sem gerðu gildandi búvörusamninga.