Haustið er milt og snjór sést varla á fjöllum en fljótt virðist fenna yfir sporin sem Panamaskjölin afhjúpuðu á vormánuðum. Kannski er um að kenna vanmætti fjölmiðla til að fylgja málum eftir eða e.t.v. skorti á vitneskju um hvernig framvinda mála er þegar upp kemur efi um hvort rétt hafi verið staðið að málum.
Í grein í Kjarnanum og á heimasíðu minni 31. mars sl. Skattaskjól og aflandssvæði gerði ég grein fyrir aflandsfélögum og reglum um skattskil þeirra eftir þær breytingar sem gerðar voru á skattalögum á árinu 2009. Í framhaldi af því hef ég fengið spurningar um framhald slíkra mála. Eðlilega þekkir fólk lítt þær reglur sem þar um gilda og verður hér á eftir reynt að varpa ljósi á þann feril sem tekur við ef ástæða er til að ætla að ekki hafi verið farið að gildandi reglum í þessum efnum.
Í Panamaskjölunum komu fram upplýsingar um fjölmörg félög á Tortóla og öðrum aflandssvæðum. Virðist sem að upplýsingar um þessi félög hafi ekki verið sendar skattyfirvöldum að réttum hætti og þá einkum að ekki hafði verið lagðir fram ársreikningar félaganna og svokölluð CFC-skýrsla. Skýringar málsaðila á þessu voru ófullnægjandi. Hvert er framhald slíkra mála og annarra mála sem benda til rangra skattskila?
Skattaðili getur að eigin frumkvæði eða að kröfu skattyfirvalda sent þeim þau gögn sem áfátt var og skýringar á málinu. Vera kann að um vangá hafi verið að ræða, kunnáttuleysi, þótt ótrúlegt sé þegar sérfróðir aðilar sjá um skattskilin, eða tilraun verið gerð til að fela upplýsingar fyrir skattyfirvöldum. Að fengnum öllum nauðsynlegum upplýsingum taka skattyfirvöld ákvörðun um skattlagningu og um framhald málsins. Sé að þeirra mati ekki um refsivert athæfi að ræða lýkur málinu með álagningu á vanframtaldar tekjur með álagi. Þær lyktir á málum verða aldrei opinberar. Um þær gildir sá trúnaður sem skattyfirvöld eru bundin gagnvart skattaðilum. Flestum málum, sem koma upp við skatteftirlit, lýkur með þessum hætti.
Leiki rökstuddur grunur á um að refsivert brot hafi verið framið, skjöl fölsuð, vísvitandi röng upplýsingagjöf og/eða um mjög háar fjárhæðir er að tefla hefst skattrannsókn. Sé niðurstaðan hennar sú að ekki sé tilefni til refsingar fer málið þá leið sem að framan greinir og lýkur með endurákvörðun skatta. Refsimáli getur líka lokið með sektarákvörðun skattyfirvalda og í báðum þessum tilvikum eru málslok ekki gerð opinber.
Önnur meint skattalagabrot fara fyrir dómstóla annað hvort með kæru skattyfirvalda eða vegna þess að skattaðili kærir álagningu eða sektarákvörðun skattyfirvalda til dómstóla. Í þessum tilvikum verður skattsvikamál opinber eins og önnur dómsmál.
Þessi ferill meintra skattalagabrota felur í sér að einungis mjög lítill hluti þeirra verður opinber. Þau mál sem lýkur með endurákvörðun skatta og eftir atvikum sektarákvörðun geta verið mjög umfangsmikil og fjárhæðir háar. En orðsporið skiptir miklu máli og sætta margir sig fremur við að greiða háar sektir en að málið verði gert opinbert með málaferlum fyrir dómstóli enda er hér yfirleitt um fjársterka aðila að ræða.
Reikna má með því að flestum þeirra mála sem komu upp með birtingu Panamaskjalanna ljúki með endurákvörðun skatta og eftir atvikum með sektum sem ekki er látið reyna á fyrir dómstólum þrátt fyrir yfirlýst sakleysi. Lyktir þeirra verða því aldrei gerð opinber. Þetta er í samræmi við gildandi lög. Trúnaður skattyfirvalda um þær upplýsinga sem þau afla í starfi sínu er mikilvægur hornsteinn skattframkvæmdar, sem ekki ætti að hrófla við þótt álitamál geti verið hvenær meint brot á skattalögum skuli sæta meðferð fyrir dómstólum og verða þannig opinber.
Þetta er dregið hér fram til að benda á að þögn af hálfu skattyfirvalda er ekki merki um aðgerðaleysi eða að málum sé ekki lokið. Engin ástæða er til annars en að ætla að kallað hafi verið eftir þeim upplýsingum sem áfátt var og málunum ljúki svo í samræmi við gildandi lög. Ekki síður er þetta dregið fram til að benda á að skattyfirvöld og þau ein ásamt dómstólum eru til þess bær að meta hvort skattskil eru fullnægjandi og skattlagning rétt eða ekki. Yfirlýsingar einstakra skattaðila hafa ekkert að segja í því efni. Skyldur skattaðila eru þær að standa skattyfirvöldum skil á þeim upplýsingum, sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum, og þau þurfa til að sinna verkefni sínu.
Málflutningur þeirra sem komu í sviðsljósið í Panamaskjölunum var jafnan sá að þeir hefðu borgað alla skatta, félög þeirra féllu ekki undir lögin, skattyfirvöldum hefði verið gerð grein fyrir öllum skattskyldum tekjum og eignum o.s.fr. Það má allt rétt vera en enginn er dómari í eigin sök. Aðeins einn aðili er bær til að meta þessar fullyrðingar og það eru skattyfirvöld. Til þess þurfa þau að fá þær upplýsingar sem lög kveða á um. Án þeirra geta þau ekki sinnt þessu verkefni sínu. Það er marklaust að spyrja þessa skattaðila hvort þeir telji sig seka um skattundanskot eða ekki. Þá á að spyrja hvort þeir hafi skilað skattyfirvöldum tilskyldum gögnum og upplýsingum.
Þau gögn, sem lög og reglugerð kveða á um að lögð skuli fram um svokölluð CFC-félög, er skýrsla um starfsemi félagsins byggð á ársreikningi þess, sem jafnframt skal fylgja með, og sérstakt eyðublað sem RSK hefur útbúið. Lagakröfur um upplýsingar eru því skýrar og þær gilda um öll félög á lágaskattasvæðum sem til voru eftir 1. janúar 2010. Ekki verður ráðið af viðbrögðum eigenda þeirra félaga sem fram komu í skjölunum að nokkur þeirra hafi sinnt þeirri skyldu að skila þessum gögnum.
Þær skýringar sem gefnar hafa verið breyta engu um skyldu þessara aðila til að skila ársreikningi félaga sinna og öðrum gögnum um þau (sjá þar um: Verharmlosung). Það á t.d. um fullyrðingar þess efnis að félagið sé ekki í skattaskjóli þótt það sé skráð á lágskattasvæði. Þetta á líka við um það þegar fullyrt er að á skattframtal hafi verið færðar einhverjar tölur úr reikningum félagsins. Þetta á einnig við um þau félög sem fullyrt er að hafi verið í einhverri starfsemi sem falli ekki undir lögin, “utanumhaldi” um fasteignir, lífeyrissjóð o.fl. Í lögunum eru engar undantekningar vegna félaga utan EES svæðisins. Þau eiga við um öll félög sem voru til eftir 1. janúar 2010 eins þótt þau séu ekki starfandi, eigi engar eignir, hafi ekki haft tekjur eða séu í slitaferli. Fortakslaus ákvæði laganna taka af allan vafa en í þeim segir: “Skattaðili sem á beint eða óbeint hlut í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki skal….”.
Ársreikningur er mikilvægt gagn í skattskilum. Ekki aðeins vegna þess að hann gefi upplýsingar um tekjur og eignir félagsins heldur einnig vegna þess að hann á að bera með upplýsingar um samskipti við tengda aðila, móður-, systur- eða dótturfélög, samskipti félagsins við eigendurna t.d. greiðslur á arði, launum og upplýsingar um hlunnindi sem þeir kunna að hafa notið hjá félaginu svo sem greiðslu á persónulegum kostnaði með kreditkortum á nafni félagsins sem er algeng leið til að taka fé út úr félögum sem þessum.
Öllum íslenskum félögum ber að skila sundurliðuðum ársreikningi með skattframtali sínu. Auk þess ber þeim að skila ársreikningum til Ársreikningaskrár þar sem þeir eru aðgengilegir almenningi. Ekki er að óreyndu ástæða til að efast um fullyrðingar eigenda aflandsfélaga um að ekkert sé óeðlilegt við starfsemi þeirra og því er vandfundin ástæða til þess að lögmæltum gögnum sem veita upplýsingar um starfsemi þeirra sé ekki skilað með hliðstæðum hætti og gildir um íslensk félög.
Vera má að í einhverjum tilvikum hafi þessum gögnum verið skilað inn eftir að tilvist félaganna varð kunn, að frumkvæði skattaðila eða að kröfu skattyfirvalda, og er það vel. Verður skattalegri meðferð þá lokið í samræmi við framangreint. Fyrir alla venjulega skattaðila er málinu þar með lokið en fyrir stjórnmálamenn og aðrar opinberar persónur, sem hafa e.t.v. ekki farið fyrirmælum laga er málið ekki svo einfalt. Á þeim hvíla ríkari skyldur en á öðrum í þessum efnum. Þeir hafa boðist til og fengið brautargengi hjá almenningi til að gæta hagsmuna hans. Því er gerð sú eðlilega krafa til þeirra að þeir geti ef vafi kemur upp sýnt fram á það með ótvíræðum hætti að þeir hafi farið að gildandi lögum og reglum.
Það er ótrúlegt og ótraustvekjandi að stjórnmálamenn, þ.m.t. sveitarstjórnarmenn, sem vitað er að hafa átt CFC-félög eftir 1. janúar 2010 hafi ekki gert grein fyrir því hvort og hvenær þeir skiluðu ársreikningi félaga sinna til skattyfirvalda. Á því geta verið eðlilegar skýringar sem þurfa þá að koma fram. Það er ekki síður ótrúlegt og ótraustvekjandi að þingmenn, sem hafa það að aðalstarfi að setja landinu lög, og vonarpeningar að því starfi, skuli lýsa yfir trausti á stjórnmálamenn sem ekki geta sýnt fram á án þess að það orki tvímælis að þeir virði lögin í landinu.