Við stelpurnar horfðum hissa á mæður okkar og ömmur streyma niður í bæ enda höfðu þessar seinþreyttu konur sagt að þeim fyndist þær vera að svíkjast um tækju þær sér frí þennan dag. Föstudaginn 24. október 1975 klukkan tvö tók jafnréttisbaráttan stökkbreytingu. Þá áttaði þjóðin sig á hve þungt var í konum og samtakamáttur þeirra mikill. Á Lækjartorgi voru ekki bara við stelpurnar, mömmur okkar og ömmur heldur svipir íslenskra kvenna frá upphafi byggðar, langþreyttra kvenna sem höfðu barist á sinn hátt fyrir frelsi og jafnrétti en verið um leið meðvirkar ríkjandi feðraveldi. Eðlilega, við erum það enn. Þarf að taka aldir að breyta því sem tók aldir að byggja?
Hvers vegna formgerðist kraftur kvenna einmitt á þessu augnabliki? Í stuttu máli er ástæðan sú að breytingar á vinnumarkaði á Vesturlöndum í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar höfðu skapað þörf fyrir tvær fyrirvinnur í barnmörgum fjölskyldum eftirstríðsáranna. Konur voru fljótari út á vinnumarkaðinn en samfélagið var að bregðast við því að þær hyrfu af heimilunum. Þegar horft er til baka er einkennilegt að sjá hvað konur voru taldar ósvífnar að biðja um menntun, leikskóla og fæðingarorlof til að geta brugðist við breyttum þörfum vinnumarkaðarins.
Til brunns að bera
„Í starfi mínu horfi ég ekki mikið á hvers kyns fólk er heldur hvað það hefur til málanna að leggja … ég reyni að halda mig ekki við hvort fólk er ungt eða gamalt, karl eða kona … ég hef aldrei hitt neinn sem vill heldur ráða karlmann en konu með sömu hæfileika … maður horfir bara ekki á kynið,“ sagði farsæll áhrifamaður í atvinnulífi og stjórnmálum nýlega. Heiðríkur svipur hans skein í gegnum útvarpstækið og ég heyrði hvað hann trúði sjálfur eigin orðum.
Staða kynjanna er langt frá því að vera jöfn fjörutíu og einu ári eftir Kvennafrídaginn. Launabilið lagast ekki, konum fjölgar hægt í hæstu stöðum, þær sjást síður í fjölmiðlum og fækkar jafnvel í öruggum sætum framboðslista. Sé það svo að einungis mannkostir ráði hverjir komast til áhrifa hljótum við að draga þá ályktun að konur hafi minna til brunns að bera.
Samt eru það konurnar sem standa við brunna heimsins. Hjálpar- og menntastofnanir skipuleggja umbótastarf á þann veg að það nái til kvenna vegna þess að konurnar halda í ósýnilega þræði allra samfélaga. Í okkar heimshluta eru konur menntaðri en karlar og teljast jafnhæfar til allra starfa nema kannski nokkurra sem enn krefjast aflsmunar. Nánast það eina sem skilur að karl og konu á vinnumarkaði er það að konur fæða börn. Ég skal ekki segja hvort sú reynsla að ganga með, ala og brjóstfæða barn gerir okkur hæfari til að lifa og starfa en ég fullyrði að hún gerir okkur ekki vanhæfari.
Varúð, kerfisvilla
Ef einhver segðist í dag ráða manneskju vegna yfirburða kyns hennar, aldurs eða uppruna væri hann tafarlaust krossfestur í nafni jafnréttis. Samt er fólki mismunað á vinnumarkaði vegna kynferðis, aldurs, uppruna og fötlunar á hverjum degi. Það er betra að skoða samfélag sem mismunar út frá þeirri forsendu að mismununin sé kerfislæg fremur en að hún sé illgirni þess sem veldur eða örlög þess sem verður fyrr. Með því að líta á mismunun sem kerfisvillu er auðveldara að útrýma henni.
Barátta fyrir bættum hag kvenna þýðir ekki að barist sé fyrir skertum rétti karla. Vissulega hafa margir karlar það skítt. Drengir basla með sjálfsmyndina, feður verða undir í forræðisdeilum, karlar fylla fangelsin og eldri menn einangrast. Allt eru þetta samfélagsmein og kerfisvillur. Vanlíðan karla stafar af valdaleysi þeirra á sviði einkamála á meðan vandamál kvenna stafa af valdaleysi þeirra á opinbera sviðinu. Jafnréttisbaráttan snýst alltaf um að stilla vogina þannig að skálarnar standi jafnt þótt stundum þurfi að prófa sig áfram með þyngd lóðanna. Það er ekki uppbyggilegt að sjá kerfið fyrir sér sem valdsmann sem sópar afgangs brauðmolum af veisluborðinu handa kynjunum að bítast um. Við skulum aldrei telja okkur trú um að skortur sé á jafnrétti, frelsi og réttindum heldur einblína á gnægðina sem er til skiptanna ef við gáum vel. Skoðum kerfisvillurnar sem valda misrétti en kennum ekki persónu hver annars um.
Sagan um kyn mitt, aldur og fyrri störf
En reynslusögur eru samt aðferð til að setja andlit á kerfisvillur. Ég ætla að rekja sögu mína stuttlega af því að ég veit að ég á hana ekki ein heldur deili henni með mörgum.
Ung gerði ég mér grein fyrir því að kynið kynni að verða mér til trafala. Kyn var konum fjötur um fót þegar ég fæddist á sjötta áratugnum. Það kom mér hins vegar í opna skjöldu hvað ég úreltist fljótt á vinnumarkaði. Mér var hafnað rúmlegra fimmtugri fyrir átta árum. Ef ég væri vinnuveitandi sem fengi sjálfa mig í viðtal myndi ég frekar ráða mig sextuga en þrítuga. Ekki bara vegna þess að nú er ég frjáls eins og fuglinn heldur vegna þess að allt sem ég hef heyrt um aldur hefur reynst rangt. Ég er hraustari og stæltari en nokkru sinni, opnari og áræðnari. Ég er fyndnari, fróðari og fjölhæfari, forvitnari og fallegri en reyndar gleymnari. Frekari, gleymdi ég því? Stundum velti ég því fyrir mér hvort það stafi af kerfisvillu að vinnumarkaður hafnar fjölmörgu fólki sem finnst eins og mér að lífið sé rétt að byrja öfugum megin við miðjan aldur.
Ég leik hins vegar á atvinnulífið og bý mér til störfin sjálf, hérlendis og erlendis. Í einu verkefni sat ég á tali við tvo sérfræðinga, unga og austurríska Birgit og írskan Tim á áttræðisaldri. Við vorum að tala um hvernig lýðræðið getur breytt kerfisvillum með lagasetningu og ég tók fæðingarorlof sem dæmi enda skein íslenska feðraorlofið þá enn skært, öðrum þjóðum til eftirbreytni. En Tim gat með engu móti skilið hvernig það bætti hag kvenna að réttur þeirra til að vera heima hjá börnunum væri skertur. Við Birgit skildum þá skoðun hans að í heimi bestum heima eru ungbörn hjá mæðrum sínum en útskýrðum fyrir Tim „win-win“ áhrif fyrirkomulagsins sem leiðréttir möguleika kynjanna á að fóta sig á vinnumarkaði um leið og það jafnar aðstöðu kynjanna til að tengjast ungum börnum tilfinningaböndum. Feðraorlofið, sem við gætum verið að glutra niður, styrkir karla á sviði einkalífs en konur á sviði opinbers lífs.
Fæðingarorlof og ferilskrár
Flestar hófum við stelpurnar barneignir öðru hvorum megin við stúdentspróf þrátt fyrir að lítil pilla væri farin að setja mikinn svip á heimsbyggðina. Hugarfar breytist hægar en tækni og jafnvel þótt við héldum á hormónunum í höndunum tuttugu og einn dag hvers mánaðar áttuðum við okkur ekki á að við mættum í alvöru skipuleggja líf okkar. Við höfðum alist upp við að líf bara gerðust. Við fórum samt flestar í nám eftir stúdentinn en þar sem fæðingarorlof og leikskóli voru einungis fyrir örfáa fórnuðu mæður okkar nýfengnu frelsi frá barnastússi til að dæturnar gætu gert það sem mæðurnar sjálfar dreymdi um.
Eiginmenn okkar voru í flestum tilvikum launahærri en við. Vegna launamunar og úrræðaleysis fyrir börn útivinnandi kvenna vorum við sem jójó á milli atvinnulífs sem þarfnaðist okkar og heimila sem gerðu það líka. Ég man eftir mér sem Barbamömmu sífellt breytandi um form eftir efnum og aðstæðum. Stundum þandist ég út til að mæta fjárþörfum heimilisins en dróst saman þess á milli til að halda í þá þræði sem konur einar þekktu. Án þess að við ætluðum okkur lenti maðurinn minn í hefðbundnu hlutverki skaffara en ég í hlutverki konu sem var að fóta sig á umbrotatímum. Ólík hlutverk höfðu afdrifarík áhrif á ferilskrár okkar. Mín varð götótt með útfrymi í allar áttar en hans straumlínulöguð eins og ráðningarskrifstofur vilja hafa þær. Við tölum oft um það vinkonurnar hvað við trúðum því að okkar tími myndi koma. Tíminn kom vissulega en þá voru tækifærin horfin og fyrirvinnan jafnvel líka. Í dag ráðlegg ég ungum pörum að feta feril sinn samstiga og forðast að annað fari fjallabaksleiðir en hitt hraðbrautir. Það er ennþá eitthvað sem þarf að ráðleggja.
Hvernig reynsla, hvaða hæfileikar?
„Mamma, þú þarft ekki að telja upp öll þín störf, nefndu bara þau sem skipta máli í þessari umsókn,“ sagði sonur minn þegar ég sendi fimm síðna ferilskrá með hundruðustu atvinnuumsókn minni. En ég gæti allt eins höggvið af mér höndina eins og að smætta menntun mína og reynslu. Allt sem ég hef gert gerir mig að þeirri sem ég er. Listirnar hafa kennt mér að búa til allt úr engu, vísindin gert mig að greinanda, blaðamennska og bókaskrif víkkað sjóndeildarhringinn, kennslan aukið mannskilninginn, alþjóðastörfin breytt sýn minni á heiminn, stjórnunarstörf og rekstur dýpkað jarðtenginguna. Tilfallandi störf í atvinnuleysinu hafa líka stækkað mig. Það jók til muna skilning minn á þeim sporum sem ferðamenn setja á Ísland að skúra leirinn undan skónum þeirra.
Þegar neikvætt svar barst við hundruðustu atvinnuumsókninni ákvað ég að prófa að hringja og spyrja hvað ungu mennirnir fimm sem boðaðir voru í viðtal hefðu haft til brunns að bera. „Þeir höfðu afar fjölbreytilega reynslu,“ var svarið. „Einmitt,“ sagði ég og lagði hugsi á. Ég efast ekki um að þeir hafi fjölbreytta reynslu. Ég efast heldur ekki um að vinnuveitendur horfi hvorki til kyns né aldurs heldur hæfileika og reynslu. En kerfisvillan liggur í því hvernig reynsla og hæfileikar eru skilgreind. Bútasaumur þekkingar minnar og reynslu virðist þess eðlis að computer says no.
Jafnari, réttlátari, jafnréttlátari
Í átta atvinnulaus ár hef ég velt vinnumálum fyrir mér. Reyndar sá ég við vinnumarkaði og stofnaði fyrirtæki utan um reynslu mína og hæfileika. Eina ástæða þess að ég sæki enn um störf er sú að þeim sem starfar sjálfstætt finnst það jafnast á við hvíldarinnlögn að vinna á vinnustað. Aðrir gera hluta af því sem maður er vanur að þurfa að gera sjálfur.
Eftir átta atvinnulaus ár hef ég komist að þeirri niðurstöðu að við ættum að endurskoða vinnumarkaðinn á sama hátt og við erum á nýju árþúsundi að endurskoða stjórnmálin. Við viljum flatari stjórnmál og virkara lýðræði en vinnumarkaðurinn þarf líka að verða jafnari, réttlátari og jafnréttlátari. Vissulega þarf áburð sem fær fólk til að leggja hart að sér og blómstra. En þarf hvatinn alltaf að vera í formi hárra launa og flottra titla?
Ég fæ tíu sinnum fleiri þúsundkalla fyrir að sinna sumum þjóðfélagshópum sem ég kenni en öðrum. Ég veit að fyrir því eru margar ástæður en ég get samt ekki annað en spurt mig hvort sumir séu tíu sinnum verðmætari en aðrir. Hvað veldur þessum mun á manngildi? Er sniðugt fyrirkomulag að sumir þéni svo mikið að laun þeirra fari að mestu í gerviþarfir á meðan laun annarra nægja vart fyrir nauðþurftum? Er mannúðlegt að úthýsa fólki kerfislægt úr samfélagi vinnandi fólks en benda því á leiðir til framfærslu sem okkur sjálfum þættu niðurlægjandi? Stofnstærð starfa á vinnumarkaði er ekki náttúrulögmál. Við gætum búið til gnótt starfa með því að skipta þeim verkum sem vinna þarf réttlátar á milli okkar og einnig þeim störfum sem ólaunuð eru.
Enn og aftur mótmæla konur á þessum magnaða degi. Auk okkar stelpnanna á mínum aldri standa á Lækjartorgi börn okkar og barnabörn af öllum kynjum nútímans af því að femínismi er ekki bara fyrir konur – hann er fyrir alla sem vilja taka breyturnar sem valda kerfisvillum út úr dæminu.