Kyn, aldur og fyrri störf

Björg Árnadóttir
Auglýsing

Við stelp­urnar horfðum hissa á mæður okkar og ömmur streyma niður í bæ enda höfðu þessar sein­þreyttu konur sagt að þeim fynd­ist þær vera að svíkj­ast um tækju þær sér frí þennan dag. Föstu­dag­inn 24. októ­ber 1975 klukkan tvö tók jafn­rétt­is­bar­áttan stökk­breyt­ingu. Þá átt­aði þjóðin sig á hve þungt var í konum og sam­taka­máttur þeirra mik­ill. Á Lækj­ar­torgi voru ekki bara við stelp­urn­ar, mömmur okkar og ömmur heldur svipir íslenskra kvenna frá upp­hafi byggð­ar, lang­þreyttra kvenna sem höfðu barist á sinn hátt fyrir frelsi og jafn­rétti en verið um leið með­virkar ríkj­andi feðra­veldi. Eðli­lega, við erum það enn. Þarf að taka aldir að breyta því sem tók aldir að byggja? 

Hvers vegna form­gerð­ist kraftur kvenna einmitt á þessu augna­bliki? Í stuttu máli er ástæðan sú að breyt­ingar á vinnu­mark­aði á Vest­ur­löndum í kjöl­far síð­ari heims­styrj­ald­ar­innar höfðu skapað þörf fyrir tvær fyr­ir­vinnur í barn­mörgum fjöl­skyldum eft­ir­stríðs­ár­anna. Konur voru fljót­ari út á vinnu­mark­að­inn en sam­fé­lagið var að bregð­ast við því að þær hyrfu af heim­il­un­um. Þegar horft er til baka er ein­kenni­legt að sjá hvað konur voru taldar ósvífnar að biðja um mennt­un, leik­skóla og fæð­ing­ar­or­lof til að geta brugð­ist við breyttum þörfum vinnu­mark­að­ar­ins. 

Til brunns að bera

„Í starfi mínu horfi ég ekki mikið á hvers kyns fólk er heldur hvað það hefur til mál­anna að leggja … ég reyni að halda mig ekki við hvort fólk er ungt eða gam­alt, karl eða kona … ég hef aldrei hitt neinn sem vill heldur ráða karl­mann en konu með sömu hæfi­leika … maður horfir bara ekki á kyn­ið,“ sagði far­sæll áhrifa­maður í atvinnu­lífi og stjórn­málum nýlega. Heið­ríkur svipur hans skein í gegnum útvarps­tækið og ég heyrði hvað hann trúði sjálfur eigin orð­u­m. 

Auglýsing

Staða kynj­anna er langt frá því að vera jöfn fjöru­tíu og einu ári eftir Kvenna­frí­dag­inn. Launa­bilið lag­ast ekki, konum fjölgar hægt í hæstu stöð­um, þær sjást síður í fjöl­miðlum og fækkar jafn­vel í öruggum sætum fram­boðs­lista. Sé það svo að ein­ungis mann­kostir ráði hverjir kom­ast til áhrifa hljótum við að draga þá ályktun að konur hafi minna til brunns að ber­a. 

Samt eru það kon­urnar sem standa við brunna heims­ins. Hjálp­ar- og mennta­stofn­anir skipu­leggja umbóta­starf á þann veg að það nái til kvenna vegna þess að kon­urnar halda í ósýni­lega þræði allra  ­sam­fé­laga. Í okkar heims­hluta eru konur mennt­aðri en karlar og telj­ast jafn­hæfar til allra starfa nema kannski nokk­urra sem enn krefjast afls­mun­ar. Nán­ast það eina sem skilur að karl og konu á vinnu­mark­aði er það að konur fæða börn. Ég skal ekki segja hvort sú reynsla að ganga með, ala og brjóst­fæða barn gerir okkur hæf­ari til að lifa og starfa en ég full­yrði að hún gerir okkur ekki van­hæf­ari. 

Var­úð, kerf­is­villa

Ef ein­hver segð­ist í dag ráða mann­eskju vegna yfir­burða kyns henn­ar, ald­urs eða upp­runa væri hann taf­ar­laust kross­festur í nafni jafn­rétt­is. Samt er fólki mis­munað á vinnu­mark­aði vegna kyn­ferð­is, ald­urs, upp­runa og fötl­unar á hverjum degi. Það er betra að skoða sam­fé­lag sem mis­munar út frá þeirri for­sendu að mis­mun­unin sé kerf­is­læg fremur en að hún sé ill­girni þess sem veldur eða örlög þess sem verður fyrr. Með því að líta á mis­munun sem kerf­is­villu er auð­veld­ara að útrýma henn­i. 

Bar­átta fyrir bættum hag kvenna þýðir ekki að barist sé fyrir skertum rétti karla. Vissu­lega hafa margir karlar það skítt. Drengir basla með sjálfs­mynd­ina, feður verða undir í for­ræð­is­deil­um, karlar fylla fang­elsin og eldri menn ein­angr­ast. Allt eru þetta sam­fé­lags­mein og kerf­is­vill­ur. Van­líðan karla stafar af valda­leysi þeirra á sviði einka­mála á meðan vanda­mál kvenna stafa af valda­leysi þeirra á opin­bera svið­inu. Jafn­rétt­is­bar­áttan snýst alltaf um að stilla vog­ina þannig að skál­arnar standi jafnt þótt stundum þurfi að prófa sig áfram með þyngd lóð­anna. Það er ekki upp­byggi­legt að sjá kerfið fyrir sér sem valds­mann sem sópar afgangs brauð­molum af veislu­borð­inu handa kynj­unum að bít­ast um. Við skulum aldrei telja okkur trú um að skortur sé á jafn­rétti, frelsi og rétt­indum heldur ein­blína á gnægð­ina sem er til skipt­anna ef við gáum vel. Skoðum kerf­is­vill­urnar sem valda mis­rétti en kennum ekki per­sónu hver ann­ars um.  

Sagan um kyn mitt, aldur og fyrri störf

En reynslu­sögur eru samt aðferð til að setja and­lit á kerf­is­vill­ur. Ég ætla að rekja sögu mína stutt­lega af því að ég veit að ég á hana ekki ein heldur deili henni með mörg­um. 

Ung gerði ég mér grein fyrir því að kynið kynni að verða mér til trafala. Kyn var konum fjötur um fót þegar ég fædd­ist á sjötta ára­tugn­um. Það kom mér hins vegar í opna skjöldu hvað ég úrelt­ist fljótt á vinnu­mark­aði. Mér var hafnað rúm­legra fimm­tugri fyrir átta árum. Ef ég væri vinnu­veit­andi sem fengi sjálfa mig í við­tal myndi ég frekar ráða mig sex­tuga en þrí­tuga. Ekki bara vegna þess að nú er ég frjáls eins og fugl­inn heldur vegna þess að allt sem ég hef heyrt um aldur hefur reynst rangt. Ég er hraust­ari og stælt­ari en nokkru sinni, opn­ari og áræðn­ari. Ég er fyndn­ari, fróð­ari og fjöl­hæf­ari, for­vitn­ari og fal­legri en reyndar gleymn­ari. Frekari, gleymdi ég því? Stundum velti ég því fyrir mér hvort það stafi af kerf­is­villu að vinnu­mark­aður hafnar fjöl­mörgu fólki sem finnst eins og mér að lífið sé rétt að byrja öfugum megin við miðjan ald­ur. 

Ég leik hins vegar á atvinnu­lífið og bý mér til störfin sjálf, hér­lendis og erlend­is. Í einu verk­efni sat ég á tali við tvo sér­fræð­inga, unga og aust­ur­ríska Birgit og írskan Tim á átt­ræð­is­aldri. Við vorum að tala um hvernig lýð­ræðið getur breytt kerf­is­villum með laga­setn­ingu og ég tók fæð­ing­ar­or­lof sem dæmi enda skein íslenska feðra­or­lofið þá enn skært, öðrum þjóðum til eft­ir­breytni. En Tim gat með engu móti skilið hvernig það bætti hag kvenna að réttur þeirra til að vera heima hjá börn­unum væri skert­ur. Við Birgit skildum þá skoðun hans að í heimi bestum heima eru ung­börn hjá mæðrum sínum en útskýrðum fyr­ir Tim „win-win“ áhrif fyr­ir­komu­lags­ins sem leið­réttir mögu­leika kynj­anna á að fóta sig á vinnu­mark­aði um leið og það jafnar aðstöðu kynj­anna til að tengj­ast ungum börnum til­finn­inga­bönd­um. Feðra­or­lof­ið, sem við gætum verið að glutra nið­ur, styrkir karla á sviði einka­lífs en konur á sviði opin­bers lífs. 

Fæð­ing­ar­or­lof og fer­il­skrár

Flestar hófum við stelp­urnar barn­eignir öðru hvorum megin við stúd­ents­próf þrátt fyrir að lítil pilla væri farin að setja mik­inn svip á heims­byggð­ina. Hug­ar­far breyt­ist hægar en tækni og jafn­vel þótt við héldum á horm­ón­unum í hönd­unum tutt­ugu og einn dag hvers mán­aðar átt­uðum við okkur ekki á að við mættum í alvöru skipu­leggja líf okk­ar. Við höfðum alist upp við að líf bara gerð­ust. Við fórum samt flestar í nám eftir stúd­ent­inn en þar sem fæð­ing­ar­or­lof og leik­skóli voru ein­ungis fyrir örfáa fórn­uðu mæður okkar nýfengnu frelsi frá barna­stússi til að dæt­urnar gætu gert það sem mæð­urnar sjálfar dreymdi um. 

Eig­in­menn okkar voru í flestum til­vikum launa­hærri en við. Vegna launa­munar og úrræða­leysis fyrir börn úti­vinn­andi kvenna vorum við sem jójó á milli atvinnu­lífs sem þarfn­að­ist okkar og heim­ila sem gerðu það líka. Ég man eftir mér sem Bar­bamömmu sífellt breyt­andi um form eftir efnum og aðstæð­um. Stundum þand­ist ég út til að mæta fjár­þörfum heim­il­is­ins en dróst saman þess á milli til að halda í þá þræði sem konur einar þekktu. Án þess að við ætl­uðum okkur lenti mað­ur­inn minn í hefð­bundnu hlut­verki skaffara en ég í hlut­verki konu sem var að fóta sig á umbrota­tím­um. Ólík hlut­verk höfðu afdrifa­rík áhrif á fer­il­skrár okk­ar. Mín varð götótt með útfrymi í allar áttar en hans straum­línu­löguð eins og ráðn­ing­ar­skrif­stof­ur vilja hafa þær. Við tölum oft um það vin­kon­urnar hvað við trúðum því að okkar tími myndi koma. Tím­inn kom vissu­lega en þá voru tæki­færin horfin og fyr­ir­vinnan jafn­vel líka. Í dag ráð­legg ég ungum pörum að feta feril sinn sam­stiga og forð­ast að annað fari fjalla­baks­leiðir en hitt hrað­braut­ir. Það er ennþá eitt­hvað sem þarf að ráð­leggja. 

Hvernig reynsla, hvaða hæfi­leik­ar?

 „Mamma, þú þarft ekki að telja upp öll þín störf, nefndu bara þau sem skipta máli í þess­ari umsókn,“ sagði sonur minn þegar ég sendi fimm síðna fer­il­skrá með hund­ruð­ustu atvinnu­um­sókn minni. En ég gæti allt eins höggvið af mér hönd­ina eins og að smætta menntun mína og reynslu. Allt sem ég hef gert gerir mig að þeirri sem ég er. List­irnar hafa kennt mér að búa til allt úr engu, vís­indin gert mig að grein­anda, blaða­mennska og ­bóka­skrif víkkað sjón­deild­ar­hring­inn, kennslan aukið mann­skiln­ing­inn, alþjóða­störfin breytt sýn minni á heim­inn, stjórn­un­ar­störf og rekstur dýpkað jarð­teng­ing­una. Til­fallandi störf í atvinnu­leys­inu hafa líka stækkað mig. Það jók til muna skiln­ing minn á þeim sporum sem ferða­menn setja á Ísland að skúra leir­inn undan skónum þeirra.  

Þegar nei­kvætt svar barst við hund­ruð­ustu atvinnu­um­sókn­inni ákvað ég að prófa að hringja og spyrja hvað ungu menn­irnir fimm sem boð­aðir voru í við­tal hefðu haft til brunns að bera. „Þeir höfðu afar fjöl­breyti­lega reynslu,“ var svar­ið. „Einmitt,“ sagði ég og lagði hugsi á. Ég efast ekki um að þeir hafi fjöl­breytta reynslu. Ég efast heldur ekki um að vinnu­veit­endur horfi hvorki til kyns né ald­urs heldur hæfi­leika og reynslu. En kerf­is­villan liggur í því hvernig reynsla og hæfi­leikar eru skil­greind. Búta­saumur þekk­ingar minnar og reynslu virð­ist þess eðlis að computer says no. 

Jafn­ari, rétt­lát­ari, jafn­rétt­lát­ari

Í átta atvinnu­laus ár hef ég velt vinnu­málum fyrir mér. Reyndar sá ég við vinnu­mark­aði og stofn­aði fyr­ir­tæki utan um reynslu mína og hæfi­leika. Eina ástæða þess að ég sæki enn um störf er sú að þeim sem starfar sjálf­stætt finnst það jafn­ast á við hvíld­ar­inn­lögn að vinna á vinnu­stað. Aðrir gera hluta af því sem maður er vanur að þurfa að gera sjálf­ur.

Eftir átta atvinnu­laus ár hef ég kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að við ættum að end­ur­skoða vinnu­mark­að­inn á sama hátt og við erum á nýju árþús­undi að end­ur­skoða stjórn­mál­in. Við viljum flat­ari stjórn­mál og virkara lýð­ræði en vinnu­mark­að­ur­inn þarf líka að verða jafn­ari, rétt­lát­ari og jafn­rétt­lát­ari. Vissu­lega þarf áburð sem fær fólk til að leggja hart að sér og blómstra. En þarf hvat­inn alltaf að vera í formi hárra launa og flottra titla?

Ég fæ tíu sinnum fleiri þús­und­kalla fyrir að sinna sumum þjóð­fé­lags­hópum sem ég kenni en öðr­um. Ég veit að fyrir því eru margar ástæður en ég get samt ekki annað en spurt mig hvort sumir séu tíu sinnum verð­mæt­ari en aðr­ir. Hvað veldur þessum mun á mann­gildi? Er snið­ugt fyr­ir­komu­lag að sumir þéni svo mikið að laun þeirra fari að mestu í gervi­þarfir á meðan laun ann­arra nægja vart fyrir nauð­þurft­um? Er mann­úð­legt að úthýsa fólki kerf­is­lægt úr sam­fé­lagi vinn­andi fólks en benda því á leiðir til fram­færslu sem okkur sjálfum þættu nið­ur­lægj­andi? Stofn­stærð starfa á vinnu­mark­aði er ekki nátt­úru­lög­mál. Við gætum búið til gnótt starfa með því að skipta þeim verkum sem vinna þarf rétt­látar á milli okkar og einnig þeim störfum sem ólaunuð eru.  

Enn og aftur mót­mæla konur á þessum magn­aða degi. Auk okkar stelpn­anna á mínum aldri standa á Lækj­ar­torgi börn okkar og barna­börn af öllum kynjum nútím­ans af því að femín­ismi er ekki bara fyrir konur – hann er fyrir alla sem vilja taka breyt­urnar sem valda kerf­is­villum út úr dæm­in­u. 

Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None