Þau öfl sem standa fastast að baki Sjálfstæðisflokknum, bæði innan hans og í þeim fjölmiðlum sem draga mjög skýrt þann taum, reyna mjög grimmt að selja þann veruleika að Sjálfstæðisflokkurinn sé ótvíræður eini sigurvegari liðinna kosninga og að þau 29 prósent atkvæða sem hann hafi náð séu skýr skilaboð um að allt sé á „réttri leið“, líkt og sagði í kosningaherferð flokksins. Það sé formsatriði í ljósi kosningaúrslita að mynda ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar sem fylgir fyrst og síðast stefnu Sjálfstæðisflokksins og áherslum.
Það virðist fyrst og síðast tuddatal til að reyna að kalla fram skilning á aðstæðum sem á sér ekki margar stoðir í raunveruleikanum. Síðasta ríkisstjórn kolféll í kosningunum og flokkarnir sem að henni stóðu fengu einungis fjögur af hverjum tíu atkvæðum. Það þýðir að 60 prósent þjóðarinnar kusu flokka með allt annan matseðill en óbreytt ástand. Og því fer fjarri að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs sé eina lausnin sem sé á borðinu eins og er, þótt viðeigandi hafi verið að leyfa honum fyrst að spreyta sig á myndun stjórnar.
Snúin staða
Staða Sjálfstæðisflokksins er snúnari en af er látið. Flokkurinn kyngdi ýmsum hugsjónum í stjórnarmyndunarviðræðum við Framsóknarflokkinn árið 2013. Hann samþykkti til að mynda að ausa tugum milljarða króna úr ríkissjóði til hluta þjóðarinnar í Leiðréttingunni. Það er aðgerð sem er gegn grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum sem snúast um hagræðingu, hömlur á útgjaldavöxt, skynsamlega nýtingu opinberra fjármuna og niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs. Í tíð síðustu ríkisstjórnar jukust gjöld ríkissjóðs líka um 130 milljarða króna, eða um tæpan fjórðung í krónum talið. Það er ekki mikill Reaganismi í því.Flokkurinn samþykkti auk þess að veita Framsóknarflokknum forsætisráðuneytið þrátt fyrir að vera stærri en hann og umbar alla stórfurðulegu einleiki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr þeim stóli allt þar til að hann þurfti að segja af sér.
Nú eru hins vegar ekki á borðinu kröfur um að gefa eftir hugsjónir heldur hagsmuni áhrifamanna innan Sjálfstæðisflokksins og margra kjósenda hans. Þær snúast um breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfum Íslands og ákvörðunartökurétt þjóðar varðandi Evrópusambandsviðræður. Í þeim viðræðum sem eru í gangi milli Sjálfstæðisflokks annars vegar og Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hins vegar, verða þetta megin kröfur frjálslyndu miðjuflokkanna. Og þeir munu vilja fara með þau ráðuneyti sem geta hrint þessum breytingum í framkvæmd, sérstaklega fjármálaráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þetta eru breytingar sem mælast mjög illa fyrir, t.d. í hinum dreifðu byggðum þar sem sjávarútvegur og landbúnaður eru lífsnauðsynlegir atvinnuvegir. Þar sækir Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar hryggjarstykkið í fylgi sínu.
Ekki mikið svigrúm fyrir málamiðlanir
Þótt Viðreisn og Björt framtíð virðist halda á öllum trompum – sem eini sjáanlegi mögulegi ríkisstjórnarmöguleiki Sjálfstæðisflokks – þá eru flokkarnir hins vegar ekki í mjög góðri stöðu til að gera miklar málamiðlanir. Stefnuskrá beggja flokka inniheldur skýra kröfu um aukna gjaldtöku fyrir afnot af sjávarútvegsauðlindinni. Í stefnuskrá Bjartrar framtíðar segir: „Gjald fyrir afnot af sjávarauðlindum er í mýflugumynd og hefur verið lækkað[...]Það er fullkomlega eðlilegt að hið opinbera sæki sér umtalsverðar tekjur til þessarar auðlindanotkunar“. Viðreisn vill að „tekið verði upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi.“
Björt framtíð kaus einn flokka gegn búvörusamningum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þegar þeir voru samþykktir við lok síðasta kjörtímabils. Vel má halda því fram að sú afstaða hafi haldið lífi í flokknum, sem hafði mælst í „pilsnerfylgi“ mánuðum saman fyrir hana. Málið kom flokknum á kortið aftur og fylgi hans fór allt í einu að aukast. Í stefnuskrá Bjartrar framtíðar er í raun lögð til þveröfug stefna við þá sem nú er rekin í landbúnaði og sérstaklega tekið fram að landbúnaðarstefnan þurfi að taka tillit til neytenda. Viðreisn er mjög nálægt Bjartri framtíð í þessum málum samkvæmt stefnuskrá. Flokkurinn vill að landbúnaður verði venjuleg atvinnugrein, að tollar og innflutningshöft verði afnumin og að landbúnaður stigi inn í samkeppnisumhverfi.
Í Evrópu- og gjaldmiðlamálum, sem eru að mörgu leyti sömu mál, er ekkert á milli Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Í stefnuskrá fyrrnefnda flokksins segir: „Björt framtíð leggur áherslu á að landa góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu, samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá opnast leið til gjaldmiðilssamstarfs við Evrópska seðlabankann (ERM II), sem strax getur aukið stöðugleika. Svo getum við tekið upp evru þegar skilyrði skapast til þess.“
Viðreisn er beinlínis stofnaður af hópi Evrópusinnaðra Sjálfstæðismanna sem urðu brjálaðir þegar Sjálfstæðisflokkurinn sveik kosningaloforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við Evrópusambandið. Í stefnuskrá flokksins segir: „Aðild að Evrópusambandinu fylgja margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Þess vegna á að bera undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Viðreisn hvetur til þess að þeim viðræðum verði haldið áfram og lokið með hagfelldum aðildarsamningi, sem borinn verði undir þjóðina og farið að niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu.“
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það í verki, með varðstöðu um hagsmuni útgerða, með samþykkt og undirritun tíu ára búvörusamninga og með því að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka án þjóðaratkvæðagreiðslu að flokkurinn er í dag á algjörlega öndverðu meiði í þessum þremur málum. Það mætti segja að það væri pólitískur ómöguleiki að hann gefi eftir í þeim. Annað væru fullkomin vörusvik gagnvart kjósendum hans.
Það geta ekki allir unnið
Fari Viðreisn, sem stýrt er af frænda Bjarna Benediktssonar og að hluta til mönnuð af elítufólki með djúpar rætur í Sjálfstæðisflokknum, í ríkisstjórn með sínum gömlu félögum þá er eins gott að hinn nýi flokkur, sem náði í 10,5 prósent atkvæða frá frjálslyndum Íslendingum, nái sínum helstu áherslum í gegn. Blindist flokkurinn af gylliboðum um völd og ráðherrastóla gegn því að fallast á moðkenndan stjórnarsáttmála sem hægt verði að túlka á alla vegu eftir allra hentugleika, er ljóst að kjósendur hans munu upplifa flokkinn sem vörusvik.
Þeir kjósendur komu nefnilega fæstir frá Sjálfstæðisflokknum, samkvæmt könnun sem Stöð 2 birti tveimur dögum fyrir kosningar. Í henni kom fram að einungis 8,3 prósent þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn 2013 ætluðu að kjósa Viðreisn í kosningunum síðustu helgi. Til samanburðar ætluðu 17 prósent þeirra sem kusu Samfylkinguna að kjósa Viðreisn og 21,7 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar.
Björt framtíð stendur frammi fyrir sama vanda. Flokkurinn sækir fylgi sitt ekki í sömu tjarnir og Sjálfstæðisflokkurinn. Hann náði inn á þing á bakinu á afstöðu sinni gegn búvörusamningum og loforðum um umfangsmiklar kerfisbreytingar. Gefi Björt framtíð þau eftir til að komast að kjötkötlunum er niðurstaðan skýr: vörusvik.
Það er því afar erfitt að sjá hvernig finna eigi lausn á þessum grundvallarmálefnum. Gefi Sjálfstæðisflokkurinn eftir mun hann ganga gegn stefnu sinni í risastórum málum. Gefi hinir tveir flokkarnir eftir verður ljóst að kjósendum þeirra muni finnast þeir sviknir illilega fyrir völd og stóla.
Á hliðarlínunni bíða Vinstri græn eftir að upp úr slitni svo þau fái tækifæri til að mynda minnihlutastjórn frá miðju til vinstri, sem verður alveg jafn flókin og erfið í samanhnoði og mun þurfa að treysta á Pírata til að lifa af. Þar er þegar búið að afgreiða möguleikann á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, að minnsta kosti í þessari lotu, sem ómöguleika. Gegnumstreymis-Framsóknarflokkur, galopinn í báða enda, þykir mun meira aðlandi kostur til að styrkja ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur en stærsti flokkur landsins.
Það eru stórar ákvarðanir fram undan í íslenskri pólitík. Ákvarðanir sem munu sannarlega móta framtíð þeirra leiðtoga sem fyrir flokkunum fara og mögulega leggja suma þeirra niður, gefi þeir of mikið eftir gagnvart viðsemjendum sínum.