Það er mikið talað um að varðveita þurfi stöðugleikann á Íslandi. Það er nánast jafn ofnotað hugtak og kerfisbreytingar. Þetta hljómar ábyrgt og verðug afstaða fyrir föður- eða móðurlega stjórnmálamenn að hafa. En hvað felst í þessu hugtaki stöðugleika? Það er ekki alltaf alveg skýrt.
Stöðugleiki er nefnilega teygjanlegt hugtak. Hann getur verið til skamms tíma eða til langs tíma og samsettur af alls kyns mismunandi breytum. Og það sem sumir kalla stöðugleika getur fyrir öðrum litið út eins og andstæða hans.
Er pólitískur stöðugleiki á Íslandi?
Það er varla hægt að segja til að mynda að mikill pólitískur stöðugleiki hafi ríkt á Íslandi undanfarin ár. Hrunstjórnin var flæmd frá völdum áður en kjörtímabilið var liðið með ofsafengnum mótmælum. Í tíð vinstri stjórnarinnar áttu sér stað einhver hatrömmustu innanstjórnarátök sem sést hafa í íslenskri stjórnmálasögu. Sú stjórn haltraði út kjörtímabilið, undir lokin sem minnihlutastjórn, eftir að nokkrir þingmenn yfirgáfu skútuna vegna alvarlegs málefnaágreinings í risastórum málum.
Frá því að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við árið 2013 hefur hvert hneykslismálið rekið annað. Tveir ráðherrar hafa þurft að segja af sér, annar vegna valdníðslu og hinn vegna lyga og aflandseigna. Tveir aðrir ráðherrar hafa verið opinberaðir sem aflandsfélagaeigendur og einn ráðherra rétt lifði af út kjörtímabilið eftir að réttmætar spurningar voru settar við fjárhagslegt hæði hans gagnvart manni sem ráðherrann hafði opnað viðskiptalegar dyr fyrir á erlendum vettvangi. Svo þurfti að kjósa fyrir lok kjörtímabilsins til að friða lýðinn. Þess utan geta einleikir fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem hann hefur gefið út stórar yfirlýsingar eða tekið umdeildar ákvarðanir trekk í trekk án samráðs við nánustu samstarfsmenn eða samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, varla talist til verka sem styðja við stöðugleika.
Niðurstaða kosninganna í lok október er sömuleiðis vart til merkis um stöðugleika. Íslensk stjórnmál, og valdajafnvægið innan íslenska stjórnmálakerfisins, hafa aldrei breyst jafn mikið með einum kosningum. Hefðbundnu valdaflokkarnir tveir njóta einungis stuðnings 40 prósent kjósenda, eini skilgreindi jafnaðarmannaflokkur landsins er við það að þurrkast út og flokkar sem hafa orðið til frá árinu 2012 hirtu 38 prósent allra atkvæða.
Hin stöðuga króna
Það má alveg setja upp ákveðin gleraugu og segja að hérlendis hafi ríkt efnahagslegur stöðugleiki um skeið. Verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiðum frá því í febrúar 2014, atvinnuleysi er lítið sem ekkert og hagvöxtur hefur verið mikill vegna síaukins fjölda ferðamanna og makrílveiða. Stíf höft hafa líka hjálpað mjög til, en þau hafa nú verið losuð lítillega og verða losuð enn frekar um komandi áramót.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að fram muni fara vitræn umræða um peningastefnu samhliða, enda ljóst að Íslendingum hefur ekki gengið vel án hafta. Við höfum oftar en ekki verið með höft við lýði frá því að við tókum upp krónu, og frá árinu 2001 áttum við nokkur ár af fljótandi krónu án hafta, sem skilaði samfélaginu í allsherjarhruni og einhvers konar siðrofsástandi. Ný höft voru sett haustið 2008, þau gilda enn og munu gera það um ófyrirséða framtíð. Það er vissulega ákveðinn stöðugleiki í því. Þ.e. við getum ekki rekið peningastefnu án hafta. Þá verður hrun.
Líkt og alltaf þá mun uppsveiflan í efnahagslífinu bíta okkur í rassinn á einhverjum tímapunkti. Og sá tímapunktur er ekki fjarri undan. Ástæðan er m.a. sú að íslenska krónan er orðin of sterk fyrir útflutningsfyrirtækin sem starfa á alþjóðamarkaði. Frá byrjun árs 2015 hefur hún styrkst um 25 prósent gagnvart evru, 16,5 prósent gagnvart Bandaríkjadal og um 43 prósent gagnvart breska pundinu, en þar á Brexit auðvitað líka hlut að máli. Og með áframhaldandi auknu innstreymi ferðamanna, og losun hafta, mun krónan bara halda áfram að styrkjast. Svo líka hægt að benda á að virði íslensku krónunnar hefur rýrnað um 99,94 prósent gagnvart þeirri dönsku á síðustu tæpu hundrað árum. Sveiflurnar sem hún hefur gengið í gegnum á því tímabili eru nánast biblískar; við eigum sjö góð ár en svo sjö mögur. Svo er hringurinn endurtekinn. Það er því nákvæmlega enginn stöðugleiki í íslensku krónunni.
Á sama tíma er spáð hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu á næstu misserum, en mjög lágt verð á henni er ástæða þess að verðbólga hefur verið svona lág á Íslandi. Þeirri hækkun gæti fylgt mjög snöggt verðbólguskot, með tilheyrandi afleiðingum fyrir t.d. þá sem fá lánað verðtryggt, sem eru flest íslensk heimili. Það eru því ytri ástæður sem ráða því hvort og hversu mikið við munum borga af húsnæðisláninu okkar um næstu mánaðamót. Það er ekki mikill stöðugleiki í því fyrir flesta.
Stöðugur áhugi vogunarsjóða
Spákaupmenn hafa sýnt að þeir elska íslenska efnahagskerfið. Alþjóðlegir fjárfestingar- og vogunarsjóðir flykktust hingað til lands fyrir hrun til að kaupa skuldabréf á háum íslenskum vöxtum fyrir lán sem þeir tóku á mun lægri vöxtum í öðrum stöðugri myntum. Fyrir vikið fylltust kistur íslensku bankanna af gjaldeyri sem þeir lánuðu til frekra ævintýramanna sem sólunduðu því fé að mestu í vafasömum uppkaupum á allt of dýrum eignum. Margir þeirra gjörninga sem ráðist var til að reyna að bjarga málunum þegar allt var farið til helvítis hafa reynst glæpsamlegir.
Eftir hrunið sáu sömu spákaupmenn tækifæri í því að eignast kröfur á fallið bankakerfið, og alls kyns önnur fyrirtæki, á hrakvirði. Á því hafa þeir mokgrætt. Þeir hafa því sýnt að Ísland er áhugaverður fjárfestingakostur fyrir framleiðnilausa spilavítishegðun þeirra bæði í uppsveiflu og niðursveiflu. Það má slá því föstu að þeir muni finna leið til að græða á Íslandi enn og aftur nú þegar höft verða losuð, hvort sem það verði í gegnum vaxtamunarviðskipti eða með öðrum hætti. Því er alveg hægt að segja að það ríki stöðugleiki í áhuga vogunarsjóða á Íslandi og í möguleikum þeirra á að græða á okkar viðkvæma og sveiflukennda efnahagskerfi.
Stöðugleikinn í misskiptingunni
Það ríkir líka stöðugleiki í skiptingu gæðanna á Íslandi. Í þeim stöðugleika felst að þeir sem eiga mikið eru sífellt að eignast fleiri krónur en þeir sem eiga lítið eða ekkert. Þannig á 0,1 ríkasta prósent landsmanna 187 milljarða króna í hreina eign. Alls áttu ríkustu fimm prósentin 44,4 prósent af öllu eigin fé landsmanna um síðustu áramót. Í lok síðasta árs skuldaði fátækari helmingur þjóðarinnar á vinnumarkaði – rúmlega 100 þúsund manns – 211 milljarða króna umfram eignir sínar.
Það er stöðugleiki í því að laun hinna lægst settu eru svo lág að ekki er mögulegt að sjá fyrir helstu nauðsynjum á þeim. Laun þingmanna voru hins vegar hækkuð um sem nemur rúmum heildarmánaðarlaunum þeirra sem passa börnin okkar og laun ráðherra um sirka ein meðalmánaðarlaun. Stjórnarfólk í skráðum félögum sem lífeyrissjóðirnir okkar eiga hafa þegið tugprósenta launahækkanir og launaskrið í samkeppnislausu fjármálakerfinu, sem hrundi fyrir átta árum síðan og var endurreist með ríkissjóði okkar og eignum útlendra kröfuhafa, hefur verið langt umfram það sem átt hefur sér stað í samfélaginu á þeim tíma sem er liðinn frá því að bankarnir felldu samfélagið. Svo hefur allt logað í illdeilum á vinnumarkaði undanfarin ár og stefnir í að þeir eldar séu alls ekki að fara að slökkna á því kjörtímabili sem er framundan.
Það er stöðugleiki í hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja af nýtingu náttúruauðlinda (287 milljarðar króna á sjö árum) og það er stöðugleiki í þeim arðgreiðslum sem handfylli eigenda þeirra greiðir sér út á ári (samtals 38,2 milljarðar króna frá byrjun árs 2013 og til síðustu áramóta). Það er stöðugleiki í því að hagsmunir smákónga í landbúnaði eru teknir fram yfir hagsmuni allra hinna með gerð tíu ára búvörusamninga sem gagnast hvorki neytendum né bændum.
Eina sem er stöðugt á Íslandi yfir lengri tíma er að venjulegt íslenskt launafólk, sem fær borgað í krónum og þarf að borga í íslenskum vöxtum, kokgleypir að þetta kerfi sem örfáir græða svívirðilega á í hæðum og lægðum en hinir þurfa að sveiflast með eins og lauf í vindi skili einhverjum raunverulegum stöðugleika fyrir það. Það er vissulega ákveðinn stöðugleiki í því.