Alþjóðageirinn - Hvað getum við gert?

Auglýsing

Í fyrri hluta umfjöllunar minnar um alþjóðageirann lýsti ég fyrirbærinu og setti fram mínar skoðanir á því hverjir veikleikar og styrkleikar Íslands eru þegar kemur að stöðu og uppbyggingu hans. Undanfari umfjöllunar um alþjóðageirann eru skrif mín um þau atriði sem ég tel líklegust til þess að hafa áhrif á störf í framtíðinni og  þær samfélagsbreytingar sem framundan eru. Þessi fjögur atriði eru: 1)  Internet of Things, 2) Sjálfkeyrandi bílar, 3) Vélmenni og 4) Gervigreind og gagnagreining. Í stuttu máli munu tækniframfarir gera það að verkum að mörg störf sem við þekkjum í dag munu tapast á meðan önnur ný verða til. Hversu vel eru samfélög búin undir slíka breytingu?

Annar undanfari umfjöllunar um alþjóðageirann er líka hversu litla forgangsröðun menntakerfið hefur fengið frá stjórnvöldum og hversu illa við sem þjóð erum mögulega búin undir þessar samfélagsbreytingar. Menntastig þjóðarinnar og fjárfesting í menntun er að minnsta kosti undir meðallagi í OECD löndunum.

Ég hef einna mestan áhuga á að við nýtum markvisst öll tækifæri til þess að ýta undir menntun, fjárfestingu í innviðum, samkeppnishæfu regluverki  og blómlegra mannlífi sem öll styðja við alþjóðageirann.

Auglýsing

Breytt heimsmynd kallar á nýja nálgun

Það er áhugavert að leika sér með þá hugmynd að Ísland hefði á að skipa fleiri framsýnum stjórnmála- og embættismönnum sem þyrðu að taka ákvarðanir sem styddu við þekkingaruppbyggingu á sviði þeirrar tækniþróunar sem við stöndum frammi fyrir.

Tæknifyrirtæki vaxa og vaxa.

Samfélagsbreytingar fyrir tilstilli tækniþróunar og breytingar í alþjóðlega fyrirtækjaheiminum sem orðið hafa síðastliðna áratugi munu halda áfram. Mér finnst ofangreind mynd segja mikið um það hvert stefnir. Myndin lýsir verðmætustu fyrirtækjum heims sem skráð eru í kauphöllum heimsins. Í dag eru þetta allt þekkingarfyrirtæki, sem byggja starfsemi sína á öflugu hugverki. Á meðan framleiðslufyrirtæki og bankar hafa prýtt efstu sæti þessa lista sl. áratugi (50 ár eða svo) er að verða nokkur breyting í eðli þessara fyrirtækja. Öll fimm fyrirtækin starfa í alþjóðageiranum.

Ísland er gott í flestu í alþjóðlegu samhengi nema staðsetningu

Ísland er sannarlega góður og öruggur staður að búa á, en aðgengi að nægu, hæfu starfsfólki og nálægð við viðskiptavini er trauðla okkar styrkleiki í dag. Við sem þjóð þurfum því aðra þætti til að vega á móti þessum punktum. Við getum unnið markvisst í mannauðnum með virkri stefnumótun menntakerfis og skattalegum hvötum, staðsetningunni síður.

Íslenska heilbrigðiskerfið og stjórnsýsla er mjög góð í alþjóðlegum samanburði. Þeir sem hafa búið utan Íslands eru fljótir að átta sig á því. Rafræn skilríki og stjórnsýsla er stjarnfræðilega góð þjónusta sem skiptir máli þegar t.d. útlendingar koma sér fyrir, aðgangur að heilbrigðisþjónustu kostar lítið sem ekkert, menntun sömuleiðis. Við erum vinaleg þjóð og góðir gestgjafar. Það er stutt í allt og við tengjumst flest einhvern veginn sem tryggir stuttar boðleiðir.  Sjá nánar forsendur mínar fyrir þessum sjónarmiðum.

Nýverið keyrði mig sýrlenskur leigubílstjóri (háskólakennari í fyrrum heimalandi sínu) í New York. Við áttum afar gefandi spjall. Við ræddum um land og þjóð okkar beggja. Svo kom spurningin: „Hverjir eru óvinir Íslands?“ Það kom fát á mig sem hann sá. „Eigið þið enga óvini? Ég þekki ekkert annað. Mikið eruð þið heppin“. Friður og öryggi borgara er nefnilega ekki jafn sjálfsagður hlutur og við gefum okkur hér á landi. Og fyrir alla jarðarbúa er það eftirsóknarvert.

Ofangreindur samanburður má ekki gleymast. Með því er ég ekki að segja að við getum ekki bætt okkur, ég bendi bara á stóru myndina. Það er alltaf hægt að gera betur og við eigum að bæta í ef eitthvað er til að viðhalda stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu. En Ísland er gott samfélag á flesta alþjóðlega mælikvarða. Við erum bara á erfiðum stað á jarðkringlunni landfræðilega séð.

Verum mikið fyrir einhverja en ekki lítið fyrir alla

Ísland á ekki að reyna að keppa við þjóðir heimsins á forsendum þeirra. Við eigum að keppa á okkar eigin forsendum. Við höfum í raun margar forsendur til að standast þá samkeppni. Nokkurs konar „reynum ekki að vera öllum allt, heldur eitthvað fyrir einhverja“. Til þess þarf hins vegar hugrekki, bæði af hálfu hins opinbera og fyrirtækja.

Vannýtt íslenskt tækifæri?

Í fyrri hluta greinar minnar um alþjóðageirann var því lýst að til að standa undir hagvexti og hagsæld er nauðsynlegt að búa til nýjar útflutningstekjur. Miðað við hagvöxt upp á 3-4% á ári þarf að eiga sér ný verðmætasköpun og útflutningstekjur upp á 1.000 milljarða króna á næstu 15-20 árum. Hvað gæti það verið? Hvernig fyllum við upp í það gat?

Á þessu geta verið margar ólíkar skoðanir og ég hvet til meiri umræðu um þessi mál. Fólk og fyrirtæki munu finna sinn farveg í hverjum aðstæðum. Ég sé hins vegar möguleg tækifæri fyrir Ísland, sum augljós og önnur ekki.

Regluverk og Regluverkstækni (e. Regulation og RegTech)

Regluverk segir til um hvernig fyrirtæki og einstaklingar geta hagað sér í samfélaginu. Frelsi til athafna er lykilatriði en með því þarf að hafa skynsamlegt eftirlit. Sem lítið land á Ísland góð tækifæri til þess að vera með einfalt og skilvirkt regluverk semstendur ekki bara jafnfætis nágrannalöndunum, heldur er samkeppnishæfara í þeim skilningi að innan eins eða fleiri geira á að vera auðvelt að stunda alþjóðaviðskipti og þar sem hvatar eru til að búa til verðmæti.

Í Bretlandi hefur ríkisstjórnin og Central Bank of England t.d. lagt mikla áherslu á að Bretland missi ekki stöðu sína sem fjármálamiðstöð Evrópu. Þannig leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á þróun í RegTech fyrir fjármálageirann með það að markmiði að fjármálastofnanir kjósi Bretland sem miðstöð fyrir starfsemi sína. Ísland gæti fundið sína syllu og mótað og innleitt tækni sem styður við slíkt regluverk og gert þá bæði regluverkið og tæknina að útflutningsvöru til annarra landa. Heilbrigðiskerfið (rafrænar sjúkraskrár í miðlægu kerfi) og náttúruvernd eru möguleg dæmi.

Stjórnvaldstækni (e. GovTech /eGov)

Ég nefndi hér að ofan að íslensk stjórnsýsla býður framúrskarandi þjónustu á alþjóðamælikvarða. Rafræn skilríki auka svo enn á skilvirknina þar sem fyrirtæki og stofnanir nýta sér þau til að þjónusta viðskiptavini sína. Horfum á hvernig skattskil hafa þróast á Íslandi. Hvernig skólar nýta rafræna þjónustu við að upplýsa foreldra ognemendur um skólastarfið.Hvernig innkaup ríkisins eru skipulögð.

Við búum yfir víðtækri þekkingu og áttum okkur ekki endilega á styrkleikunum í alþjóðlegu samhengi. Íslensk stjórnvöld í góðri samvinnu við tæknifyrirtæki eiga raunverulega möguleika á því að gera GovTech að útflutningsvöru á alþjóðavísu. Bretar tóku afar stefnumiðaða ákvörðun um að bæta aðgengi þegnanna að rafrænni stjórnsýslu með allt annarri nálgun en áður hafði þekkst innan stjórnsýslunnar. 


Áframhaldandi uppbygging í leikja- og sýndarveruleikageiranum

Um þetta þarf ekki mörg orð. Góð þekking á báðum geirum er til staðar og umhverfi þessara fyrirtækja prýðilegt. Það er rökrétt framhald að Ísland viðhaldi stöðu sinni sem góð uppspretta leikja- og sýndarveruleikafyrirtækja á heimsvísu. Aðgangur að hæfu starfsfólki er þó Akkilesarhæll geirans. (Nánar: Vefsíða Íslenska leikjaiðnaðarins).

Rafbílar og tengd tækni

Er til betra land en Ísland til að vera miðstöð rafvæðingar bílaflota í heilu landi? Við erum með 100% endurnýjanlega raforku, eitt af áreiðanlegustu orkuafhendingarkerfum á heimsvísu, víðtækt dreifingarkerfi og kalt loftslag. Samanlagt gerir þetta Ísland að nánast fullkomnu prófunarumhverfi fyrir rafbílaframleiðslufyrirtæki heimsins. Í dag er unnið að betri innviðum fyrir hleðslu rafbíla á Íslandi.


Möguleikar landsins í að þjónusta þessa mikilvægu atvinnugrein eru það augljósir að það kemur mér á óvart að stjórnvöld og fyrirtæki hafi ekki lagt meira á sig til að gera landið að miðstöð rafbílavæðingar. Umtalsverð þekking myndi verða til á landinu, innan orkugeirans en ekki síður í afleiddum greinum, s.s. hugbúnaði og vélbúnaði.  Möguleikar á útflutningstekjum hér eru allmiklir.

Ofangreindur listi er alls ekki tæmandi en tekin eru dæmi um hvar ákveðin tækifæri liggja sem útiloka eðlilega ekki önnur tækifæri. Samhliða þessu munu íslensk fyrirtæki halda áfram að auka samkeppnishæfni sína í sjávarútvegi, orkutengdum greinum, styrkja innviðina og bæta þjónustu við ferðamenn.

Skortir íslensk fyrirtæki og stjórnvöld metnað?

Davíð Helgason, stofnandi fyrirtækisins Unity, sem er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu þegar kemur að hugbúnaði til að þróa tölvuleiki, sagði nýverið að íslenska frumkvöðla skorti metnað, að hugmyndir og draumar þeirra væru kannski ekki nógu stórir. Gildir hið sama kannski um íslensk stjórnvöld? Það þarf gjarnan utanaðkomandi einstaklinga til að benda okkur á það sem vel er gert, því öll verðum við samdauna okkar daglega umhverfi. Glöggt er gests augað líkt og Bandaríkjamaðurinn Oliver Luckett, sem nýlega flutti hingað til lands, bendir Íslendingum á með því að segja að við gerum okkur ekki grein fyrir möguleikunum sem landið hefur. Ég er sammála Oliver um hans sjónarmið og vil horfa á þau í enn víðara samhengi, ekki bara út frá ferðaþjónustunni.

Uppbygging sérþekkingar tekur tíma

Íslendingar eiga nokkur dæmi um frábær frumkvöðlafyrirtæki sem hafa náð langt á alþjóðlegum vettvangi. Þau eiga það sameiginlegt að vera drifin áfram af kraftmiklu fólki sem höfðu góðar hugmyndir, vel framkvæmdar og á réttum tíma. Við þurfum fleiri slík fyrirtæki sem innviðir okkar styðja við að móta og aðstoða. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, bendir þó á í nýlegu viðtali, að mörg spennandi sprotafyrirtæki séu á Íslandi í dag en sé horft til síðastliðinna 20 ára vanti upp á árangurinn.

Af einni ástæðu á Ísland t.d. býsna öflugan leikja- og sýndarveruleikaiðnað. Sú ástæða er stofnun fyrirtækisins OZ snemma á 10. áratugnum. Stofnendur og starfsfólk hafa síðan þá stofnað fjöldann allan af fyrirtækjum, sem mörg hver eru landsmönnum kunn. Í OZ varð til þekking sem knúði áfram enn frekari þekkingarsköpun sem hefur haldist áfram að þróast sl. 25 ár. Í seinni tíð er gjarnan vísað í CCP sem uppsprettu nýrra fyrirtækja, en nokkrir stofnenda og upphaflegir starfsmenn CCP voru einmitt starfmenn OZ. Á þessari mynd má sjá nokkur þessara fyrirtækja en myndin er þó ekki tæmandi.

Oz-áhrifin. Þau eru mikil.

Stjórnvöld geta ekki (og eiga ekki) að búa til klasa fyrirtækja eða skipuleggja þá. Klasar verða að vera sjálfsprottnir. Stjórnvöld geta hins vegar búið þannig um hnútana að aðstæður hvetji fólk til þess að stofna fyrirtæki og að umgjörð fyrirtækja sé að minnsta kosti samkeppnishæf við nágrannalönd okkar.

Að lokum

Aðalatriðið í uppbyggingu alþjóðageirans er þetta: Ísland er gott land á allflesta alþjóðlega mælikvarða, sama hvar drepið er niður. Við þurfum þó að vera betri í fjárfestingu, skilvirkni og forgangsröðun í menntakerfinu. Við þurfum að vera betur samkeppnishæf um (erlent) vinnuafl. Við þurfum líka samkeppnishæfan gjaldmiðil. En umfram allt þurfum við að búa til umhverfi á Íslandi sem bætir mannlífið og menningu og gerir landið eftirsóknarverðan stað til að búa á í alþjóðlegu samhengi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None