Alþjóðavæðing hefur fært vestrænum þjóðum frið á heimaslóðum í rúm 70 ár. Á grundvelli hennar hafa hagsmunir ríkja heims verið bundnir saman með þeim hætti að það væri stórskaðlegt að raska því jafnvægi. Hún hefur fært okkur fríverslun sem eykur sérhæfingu og leyfir hverju samfélagi fyrir sig að einbeita sér að því sem það gerir best.
Samhliða hefur valkostum neytenda fjölgað verulega, verð lækkað og möguleikar fólks til að freista gæfunnar nánast hvar sem er stóraukist. Þá hefur upplýsinga- og tæknibyltingin, sem vonandi mun bjarga mannskepnunni frá sjálfri sér og afleiðingum iðnbyltingarinnar, orðið til á grundvelli alþjóðavæðingar. Samandregið þá hafa orðið gríðarlegar framfarir í lífsgæðum.
En aðstæðurnar sem alþjóðavæðingin, samfélagsskipulagið og það stjórnarfar í vestrænum ríkjum sem fylgt hefur henni, hafa leitt til þess að tugir milljóna manna telja sig það utangátta að þeir kusu forríka, rasíska, kvenfyrirlítandi, popúlíska, sundrandi raunveruleikastjörnu með vindhanaeiginleika sem finnst í lagi að gera lítið úr fötlun fólks og stendur ekki fyrir neitt nema sig sjálfa, sem forseta Bandaríkjanna.
62 einstaklingar áttu meira en helmingur mannkyns
Grundvallarbreytur alþjóðavæðingar eru markaðsdrifinn kapítalismi, samvinna og frjálslyndi. Hún boðar niðurfellingu allra múra og gerir þjóðfélagshópum sem áður voru utangarðs kleift að tengjast þvert á landamæri. Flest allar framfarir undanfarinna áratuga eiga rætur sínar að rekja til alþjóðavæðingar, hvort sem um er að ræða efnahagslegar eða í mannréttindamálum.
Augljós vandamál fylgja henni þó líka. Misskipting, jafnt milli landa og innan samfélaga, hefur stóraukist. Í skýrslu Oxfam frá því í janúar kom til að mynda fram að ríkasta eitt prósent fólks í heiminum er orðið ríkara en öll restin til samans. Á árinu 2015 var staðan þannig að 62 einstaklingar –einum færri en sitja á Alþingi Íslendinga – áttu samtals jafn mikinn auð og sá helmingur mannkyns sem á minnst, eða samtals 3,6 milljarðar manna. Þessi þróun hefur verið stanslaus frá níunda áratugnum.
Alþjóðaviðskipti hafa fært framleiðslu- og þjónustustörf frá vestrænum ríkjum til annarra sem bjóða upp á ódýrari starfskrafta. Á sama tíma hafa tæknifyrirtæki, sem krefjast sérhæfs og menntaðs vinnuafls, tekið yfir sem risar hins alþjóðlega fyrirtækjaheims. Fyrir tíu árum voru fjögur af fimm stærstu fyrirtækjum heims auðlindanýtingar- eða framleiðslufyrirtæki. Hlutfall slíkra var það sama árið 2011. Um mitt þetta ár voru fimm stærstu fyrirtæki heimsins öll tæknifyrirtæki: Apple, Alphabet (Google), Microsoft, Amazon og Facebook.
Þeir sem vinna og þeir sem tapa
Tæknibyltingin gerir fleiri og fleiri framleiðslu- og þjónustustörf óþörf og sá hópur sem byggði lífsgæði sín á þessum störfum hefur verið skilin eftir. Í áratugi hefur hann færst fjær því að vera settleg millistétt sem gat séð sér farborða á einum launum og nær því að vera lágstétt sem er óþarft tannhjól í efnahagslegu gangverki nútímans. Lágstétt sem er hædd af sjálfsánægðri og upplýstri menntaelítu fyrir einfaldar skoðanir sínar og væntingar til lífsins. Heimsmynd þessara hóps hefur verið brotin niður. Þessi þróun mun halda áfram. Tilkoma gervigreindar, betri fjarskipta og interneti hlutanna (e. internet of things) mun hraða þessari þróun enn á næstu árum og áratugum. Þá munu áhrifin teygja sig líka til ódýru framleiðslulandanna sem tóku vestrænu störfin og hafa verið að byggja upp millistétt.
Samhliða hefur orðið til einhver konar ofuryfirstétt peninga og valda. Samsetning hennar er hvergi sýnilegri en í Bandaríkjunum, þar sem Wall Street og stjórnmál hafa runnið saman í eitt risastórt hagsmunabandalag. Það sást best þegar fjárglæframennirnir í fjárfestingabankaheiminum sigldu veröldinni allri í efnahagskreppu árið 2008 með vafningum sínum. Bein og óbein fórnarlömb þeirra aðgerða var venjulegt fólk. Það missti húsin sín, tapaði vinnunni og lífeyrinum sínum. Þurfti að líða skerta þjónustu og niðurlæginguna sem fylgir því að finna engan tilgang með tilveru sinni.
Til að bæta gráu ofan á svart var orsakavaldurinn, bankamennirnir sem ollu erfiðleikunum, dæmdir of stórir til að falla. Þeim var haldið við með skattfé almennings. Þeir héldu ofurlaununum sínum, sjálfsþjónandi kerfið þeirra fékk að halda sér í nær óbreyttri mynd þrátt fyrir skaðann sem það olli og áður en langt um leið var allt komið á fullt aftur. Bónusar, vafningar, bitlingar, strokur og allt hitt sem veldur þorra heimsins skaða, en fóðrar milligönguaðilanna í bönkunum, var nánast það fyrsta sem var endurreist eftir hrunið.
Þú hefur það bara víst fínt
Eini staðurinn í heiminum þar sem tekið hefur verið almennilegt uppgjör við bankahrunið er Ísland. Hér var skrifuð mörg þúsund blaðsíðna skýrsla þar sem flest var lagt á borðið og hún seld í bókabúðum. Hér var farið í að láta á það reyna hvort að athafnir bankamanna væru ólöglegar, sem þær hafa reynst vera í ansi mörgum tilvikum.
Við gerðum samt fjöldamörg mistök. Endurreistum bankakerfið í nánast sömu mynd, bjuggum til farveg fyrir áframhaldandi sjálftöku þeirra sem vinna í fjármálakerfinu og leyfðum sömu leikendum að nýta betra aðgengi að tækifærum til að styrkja enn stöðu sína. Hinir ríku verða líka sífellt ríkari á Íslandi og völd á grundvelli aukins eignarhalds á gæðum þjóðar hafa þjappast enn frekar saman.
Í þessu tómi hefur ríkt mikil reiði og fullkomið vantraust sem kerfið hefur ekkert tekist á við, og hefur þar af leiðandi ekkert minnkað. Þessar aðstæður hafa leitt til þess að við kusum okkur einu sinni lýðskrumara til valda. Sá var þó ljósárum frá því að vera á sama ömurlega kailberi og Donald Trump. Eftir að hann var hrakinn frá vegna óheiðarleika kaus 38 prósent þjóðarinnar ný breytingaröfl sem orðið hafa til eftir hrun og vilja breyta kerfinu með jákvæðum formerkjum og aðferðum. Nú stendur yfir tilraun til að koma áherslum þeirra að. Takist það ekki með einhverjum hætti skapast aðstæður fyrir okkar eigin útgáfu af Trump næst. Ef við hættum ekki að segja fólki sem finnst það hafa það skít að það hafi það bara víst fínt þá skapast aðstæður á borð við þær sem sköpuðust í Bretlandi í sumar og í Bandaríkjunum í haust.
Handsprengjuaðstæður
Þegar einhver hefur það skítt, og hefur haft það skítt í lengri tíma, þá er hann miklu frekar tilbúinn að kjósa handsprengju með einfaldar skýringar og barnalegar lausnir á vanda hans en aðila sem stendur fyrir óbreytt ástand. Í versta falli mun sá sem stillir sér upp gegn kerfinu gera það að verkum að viðkomandi hafi það aðeins meira skítt. Í besta falli munu barnalegu patent-lausnirnar virka. En með því að kjósa þann sem tryggir óbreytt ástand er verið að tryggja áframhaldandi veru í forinni í sessi.
Á þennan stað er massinn kominn víða í heiminum. Við sjáum það með gríðarlegum uppgangi fasisma og útlendingaandúðar víða í Evrópu. Lýðskrumarar, sumir hverjir stórhættulegir, hafa selt uppgefnum og yfirgefnum hópum í samfélaginu barnalegar og rangar skýringar á aðstæðum þeirra. Þeir tala við fólkið og stillir sér upp með þeim. Og, því miður, er það að svínvirka.
Það er ekki hægt að réttlæta kjör á manni eins og Donald Trump. En það er hægt að horfa á þær aðstæður sem gera honum kleift að ná kjöri og velta fyrir sér hvernig mögulegt sé að breyta þeim. Það eru nefnilega ekki nálægt því allir sem kjósa slíkan mann jafn ömurlegt fólk og hann sjálfur.
Annað hvort ákveða kerfin að breyta sér innan frá, ríka fólkið að gefa frá sér auð, valdaklíkurnar að losa um tökin og hlusta á/hefja samtal við allan þann fjölda sem er óánægður með aðstæður sínar og mæta kröfum þeirra eða við erum ekki búin að sjá síðasta Trump-inn komast til valda.
Aðstæðurnar eru orsökin. Flón eins og Trump eru afleiðingin.