Ég staulast upp stigann og kem inn í litla biðstofu. Ég tilkynni komu mína en ritarinn þylur upp nafn sem ég hef skilið við; nafn sem bítur inn að beini. Ég játa og sest skömmustulega niður, eins og hundur sem hefur verið staðinn af verki við það að rífa uppáhalds bangsann þinn í tætlur. Stuttu síðar er nafnið aftur kallað, í þetta sinn af manneskjunni sem ég kom til þess að hitta.
Þið hafið öll séð hán áður, þið hafið öll hitt hán áður, þið hafið öll verið hán áður. Hán er holdgervingur kynjaðs veruleika; hán er kynjakerfið í mannsmynd. Hán stendur í gættinni; gættinni sem gæti leitt þig til betra lífs, sem gæti leitt þig á betri braut.
Ég fylgi háni inn í lítið viðtalsherbergi og sest niður á móti háni. Hán byrjar að spyrja mig spurninga um líf mitt, hvar ég ólst upp, hvernig mínir fjölskylduhagir séu og hversu langt það er síðan ég byrjaði að lifa í sátt við sjálfa mig. Ég svara háni af fullri einlægni og fyllist á sama tíma smá sjálfstrausti þegar ég fæ á tilfinninguna að allt sé að ganga vel. En þá kemur spurningin - spurningin sem fékk mig til að svitna og hitna í andlitinu, spurning sem ég skildi ekki. Spurning sem kýldi mig í magann og krafist svara.
„Hvernig nærbuxur notar þú?“
Ég strýk hárið bak við eyrun, hárið sem ég hafði verið að láta vaxa í nær tvö ár, lengri tíma en mér hafði nokkurn tímann verið leyft að láta það vaxa. Það var ekki beint neinn sem bannaði mér það, en það voru tillögur, spurningar, athugasemdir. Það voru litlir hlutir sem byggðust hægt og rólega upp sem sendu þau skilaboð að ég mætti það ekki.
„Uuh.. ég er er nú bara í nærbuxum sem ég keypti í La Senza,“ sagði ég, titrandi af ótta og skilningsleysi. Ég skildi ekki hvernig þetta kom einhverju við.
Hán kinkaði kolli, snéri sér að tölvunni og sló eitthvað inn með lyklaborðinu. Tveir vísifingur, til skiptis. Tikk, tikk. Tikk, tikk. Að lokum snéri hán sér aftur að mér.
„Hefur þú stundað kynlíf?“ sagði hán næst og horfði á mig forvitnilega.
Tveimur árum áður hafði ég ferðast erlendis með bestu vinkonu minni í leyniferð til Bretlands þar sem við vorum að hitta fólk sem ég hafði kynnst á netinu. Þetta fólk þekkti mig í raun sem mig, sem hina raunverulegu mig. En samt ekki. Þar hafði ég kynnst strák; strák sem var sá sem ég átti fyrst einhverskonar kynferðislegt samneyti með.
„Já,“ svaraði ég, skyndilega mjög meðvituð um minn eigin líkama og þær takmarkanir sem ég hafði sett sjálfri mér sem partur af eigin sjálfshatri og skömm. Sjálfshatri og skömm sem mér var kennt af samfélaginu. Vegna þess að ég var ekki eins og allt annað fólk - ég var skrítin, ógeðsleg og verðskuldaði ekki sömu mannlegu virðingu og annað fólk. Hvað annað átti ég svo sem að halda? Eftir að hafa þurft að horfa upp á aðal leikara Ace Ventura eyða 5 mín. úr heilli bíómynd að öskra, bursta tennurnar, sturta í sig munnskoli og ég veit ekki hvað eftir að hann áttaði sig á því að kona sem hann var hrifin af var trans, þá voru skilaboðin skýr.
„Og hvað nákvæmlega hefur þú gert?“
Af einskærri hræðslu við að mér yrði neitað um þjónustu á forsendum þess að vera ekki fullkomlega samvinnuþýð og neita að svara spurningum þá lét ég allt flakka.
„Ég hef tottað karlmann og látið hann fá fullnægingu þannig,“ segi ég, nánast skjálfandi af niðurlægingu og kvíða. Aftur snýr hán sér að tölvunni. Tikk, tikk. Tikk, tikk.
„Með hvernig leikföng lékstu þér sem barn? Klæddist þú einhvern tímann kjólum eða vildir það?“
Ég veit að fólk er oft sannfært um það að leikföng eða fataval séu einhverskonar merki um kynvitund eða kynhegðun einstaklinga síðar á lífsleiðinni. En ég hefði haldið að starfsmaður í heilbrigðiskerfinu væri ekki einn af leiksoppum úreltra hugmynda kynjakerfisins sem óttast ekkert meir heldur en að börn þeirra sýni hegðun sem gæti leitt til þess að þau verði samkynhneigð eða jafnvel ósátt við það kyn sem þau fengu í vöggugjöf. Gjöf sem er pakkað inn af ágiskunum, ráðfæringum og gildum ríkjandi kynjakerfis.
„Ég vildi aðallega leika mér með dúkkur og ég elskaði að klæða mig upp í kjóla. Ég vann meira að segja tvær dragkeppnir í grunnskóla,“ sagði ég. Ég var að haugaljúga. Ég elskaði að leika mér með allskonar dót, bæði bíla, action kalla, dúkkur, tuskudýr og nefndu það - en ég vissi að það væri ekki hegðun sem þætti við hæfi. Mér hafði nefnilega verið tjáð áður en ég kom þangað að sannleikurinn væri ekki sagna bestur.
Sú sögn sem væri best var sú sögn sem okkur hefur öllum verið kennt. Sögn sem við tökum öll þátt í; sögn sem okkur er skipað að þekkja í gegnum ósýnilegar og óskrifaðar reglur. Hvernig hin fullkomna kona er. Auðmjúk, einlæg, kurteis. Vel til fara, klæðist kjól eða pilsi. Sítt hár. Andlitsmálning. Lék mér með dúkkur sem barn. Hef alltaf vitað þetta. Sagði ömmu minni þegar ég var fjögurra ára að ég væri kona. Hataði líkama minn. Sit þegar ég pissa. Vil ekkert heitar en að vera með brjóst og píku. Vil gifta mig og eignast börn með framtíðar eiginmanninum mínum.
Segðu það sem þú veist að þau vilja heyra, þá verður allt svo mikið auðveldara. Þá ertu nefnilega alvöru kona. Þá ertu sko nógu mikið trans. Þá ertu með „dæmigerðan kynáttunarvanda“.