Í dag er norræni leikjadagurinn Nordic Game Day! Þá veita bókasöfn og aðrar stofnanir tölvuleikjum og spilum sérstaka athygli. Í ár taka yfir 170 bókasöfn þátt á Norðurlöndunum og þar af eru tíu bókasöfn á Íslandi. Borgarbókasafnið í Reykjavík og Amtsbókasafnið á Akureyri eru meðal þeirra bókasafna sem bjóða upp á fjölbreytta dagskrá hér á landi. Gestir geta m.a. sest niður og spilað borðspil, tölvuleiki, prófað sýndarveruleika, skellt sér í Pokémon GO göngutúr eða tekið þátt í norrænni tölvuleikjakeppni svo eitthvað sé nefnt.
Tölvuleikjaspilarar í dag samanstanda af mjög fjölbreyttum hópi. Kynjahlutfall tölvuleikjaspilara er nánast jafnt og meðalaldur tölvuleikjaspilara er yfir 30 ára samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum (Entertainment Software Association) og Evrópu (Interactive Software Federation of Europe) þar sem annar til þriðji hver maður spilar tölvuleiki. Tölvuleikjaspilarar eru ungir sem aldnir, konur sem karlar. Fyrir svo fjölbreyttan hóp þarf fjölbreytt úrval tölvuleikja. Í umræðunni gleymist stundum að tölvuleikir eru ekki eingöngu spilaðir í einrúmi, eða til að drepa óvini eða tíma, heldur geta tölvuleikir líka verið félagslegir og fjölskylduvænir. Lítum á nokkur dæmi.
Pokémon GO er nýlegt dæmi um tölvuleik þar sem að fjölskyldan getur spilað leik og notið útiverunnar saman. Leikurinn er beintengdur við staðsetningu spilarans sem þarf að koma sér á milli staða í þeim tilgangi að safna aukahlutum og veiða Pokémona. LittleBigPlanet leikjaserían er annað gott dæmi um fjölskylduvænan tölvuleik þar sem spilarar vinna saman að því að leysa þrautir og komast framhjá hindrunum með því að stjórna krúttlegum tuskudýrum. Ef óskað er eftir meira krefjandi leik er hægt að skoða Kalimba sem er tveggja manna þrautaleikur sem byggir mikið á samvinnu (og þolinmæði) spilara. Fyrir reyndari spilara er hægt að skella sér í geimævintýri í Affordable Space Adventures á Wii U leikjatölvunni þar sem spilarar stjórna geimskipi og leysa fjölbreyttar þrautir. Spilarar stjórna geimskipinu í sameiningu og skiptir samvinna þess vegna miklu máli í leiknum.
Flestir tölvuleikjaspilarar þekkja ítalska píparann Mario, en til eru fjölmargir Super Mario Bros. leikir sem eru einstaklega fjölskylduvænir og ætlaðir öllum aldurshópum. Í mörgum af nýjustu Mario leikjunum geta allt að fjórir spilarar spilað leikinn á sama tíma og unnið saman. Super Mario Bros. leikirnir byggja á sömu klassísku hugmyndinni sem er í grunninn einföld, skemmtileg og laus við óþarfa ofbeldi. Mario kemur fram í mun fleiri leikjum en bara Super Mario Bros. seríunni frægu. Í Mario Maker geta spilarar búið til sín eigin Super Mario Bros. borð frá grunni og leyft svo öðrum að prófa þau, bæði í gegnum netið og heima í stofu. Í Mario Kart kappakstursleikjaseríunni keppa spilarar um fyrsta sætið og stjórna þekktum persónum úr heimi tölvuleikjanna. Hægt er að finna fleiri leiki sem eru í svipuðum dúr og má þarf nefna LEGO leikjaseríuna og Rayman Legends.
Til eru fjölmargir leikir sem krefjast þess að spilarinn hreyfi sig, til dæmis margir Nintendo Wii og Kinect leikir. Í Just Dance leikjaseríunni eiga spilarar að dansa í takt við tónlist og fylgja danshreyfingum sem birtast á skjánum í þeim tilgangi að safna stigum. Annað dæmi sem gæti komið blóðinu af stað er WarioWare: Smooth Moves Í honum þurfa spilarar að bregðast hratt og rétt við ótrúlega skondnum aðstæðum eins og að blaka vængjum til að fljúga, hreyfa mjaðmirnar til að halda húl-hring uppi og slá flugur með flugnaspaða. Leikurinn er pakkaður af örleikjum þar sem hver leikur er ekki nema um fimm sekúndur í spilun.
Þetta er aðeins brot af þeim fjölmörgu tölvuleikjum sem vinir og fjölskyldur geta spilað saman. Spilum saman og höfum gaman á Nordic Game Day!
Höfundur er ritstjóri Nörd Norðursins og framhaldsskólakennari.