Sú upprisa sem á sér stað í heiminum er gagnvart stjórnmála- og valdastofnunum samfélagsins. Þeim öflum sem ráðið hafa öllu, mótað hafa kerfin og í þeirri vegferð fjarlægst fólkið sem kallar á breytingar. Sérstaklega á uppgangstíma alþjóðavæðingar undanfarinna áratuga þar sem efstu lög vestrænna samfélaga hafa orðið ævintýralega rík og samhliða runnið saman við yfirstétt stjórnmálanna í hverju landi fyrir sig. Á sama tíma hefur molnað undan lág- og millistéttum landanna.
Í Bretlandi birtist þessi upprisa í Brexit niðurstöðunni. Í Bandaríkjunum með kosningu Donald Trump. Í Frakklandi með stuðningi við Marie Le Pen og við Alternativ für Deutschland í Þýskalandi. Í Hollandi með stuðningi við Frelsisflokk Gert Wilders.
Á Norðurlöndunum birtist hann í stöðu Danska þjóðarflokksins í Danmörku, Norska framfaraflokksins í Noregi, þjóðernisflokksins sem eitt sinn hét Sannir Finnar í Finnlandi og sænska þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókratanna í Svíþjóð.
Í Austurríki hefur hinn þjóðernissinnaði Frelsisflokkur lengi verið sterkur og stendur tæpt að frambjóðandi hans verði fyrsti öfgahægrisinnaði þjóðarleiðtogi í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Í Grikklandi erum við með Gyllta Dögun og Í Ungverjalandi Fidesz-flokk Victor Orbán og hinn enn svæsnari Jobbik.
Allt eru þetta flokkar eða öfl sem byggja á lýðskrumi, íhaldssemi, andúð á innflytjendum og/eða Evrópusambandinu, einangrunar- og/eða þjóðernishyggju. Sumir byggja á öllu ofantöldu.
Á Íslandi reyndi einn svona flokkur að ná lýðhylli í síðustu kosningum, Íslenska þjóðfylkingin. Hann hlaut alls 303 atkvæði eða 0,2 prósent. Það að slíkur flokkur náði ekki fótfestu í íslenskum stjórnmálum er mesti sigur sem vannst í nýafstöðnum alþingiskosningunum.
Það er kallað eftir breytingum, en með öðrum hætti
Þar með er ekki sagt að Íslendingar séu ekki að kalla á breytingar. Aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar á þing, aldrei hafa fleiri flokkar sem buðu fram í öllum kjördæmum verið kjörnir á þing og aldrei áður hefur fjölbreytileiki þingmanna verið jafn mikil.
Breytingarviljinn var því sannarlega til staðar. Atkvæðin fóru bara ekki til mannhatandi lýðskrumara líkt og víða í löndunum í kringum okkur heldur kusu 38 prósent landsmanna flokka sem voru stofnaðir eftir 2012 og boða kerfisbreytingar. Þeir þrír sem fengu mest og náðu inn á þing voru Píratar, Viðreisn og Björt framtíð. Þegar við bætast hinir tveir flokkarnir – Vinstri græn og Samfylkingu – sem hafa nær aldrei átt hlut að ríkisstjórnarsamstarfi á Íslandi, og voru stofnaðir um aldarmótin síðustu, þá liggur fyrir að 53,8 prósent landsmanna (102 þúsund manns) kaus flokka sem vilja breyta stjórnkerfinu með einhverjum hætti og hafa ekki komið að því að móta það af neinu ráði.
Hinir tveir flokkarnir sem náðu á þing, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, eru kerfisflokkar landsins. Helsta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins var meira að segja að berjast gegn kerfisbreytingum. Ef undanskildar eru skammlífar minnihlutastjórnir Alþýðuflokksins, hefur annar flokkanna alltaf verið í ríkisstjórn frá lýðveldisstofnun nema einu sinni: þegar vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var við völd 2009 til 2013.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið við ríkisstjórnarborðið ¾ hluta lýðveldistímans og Framsóknarflokkurinn ⅔ hluta hans. Það er eðlilegt að þeir vilji verja stjórnkerfið og kunni vel við það eins og það er, enda er þetta þeirra kerfi. En meirihluti Íslendinga hafnaði þessu kerfi í nýliðnum kosningum. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengu einungis tæplega 77 þúsund atkvæði, eða 40,5 prósent þeirra sem greidd voru.
Lýðskrumarar bíða eftir rétta tækifærinu
Á meðan að flest önnur ríki í hinum vestræna heimi glíma við uppgang öfgahyggju og lýðskrumi þá „glímir“ Ísland við að flokkar með umbætur/breytingar á stjórnkerfinu sem sín helstu stefnumál.
Það er eðlilegt að allir séu ekki sammála um þær umbætur/breytingar en það er í það minnsta fagnaðarefni að átökin í íslenskum stjórnmálum séu um þær en ekki varnarbarátta gegn tækifærissinnum með stórhættulegar hugmyndir fullar af hatri og einföldunum. Við skulum ekki taka því sem sjálfsögðum hlut, enda stjórnmálamenn í hefðbundnum stjórnmálaflokkum þegar farnir að máta sig við slíka orðræðu.
Í ljósi þessa verður að telja að meiri líkur en minni séu á því að lýðskrumið sem hefur virkað svo vel víða í kringum okkur muni verða mun fyrirferðarmeira í stjórnmálaumræðu hérlendis í nánustu framtíð og að óbreyttu ná meiri fótfestu en hin afspyrnulélega Íslenska þjóðfylking náði í nýliðnum kosningum.
Það þarf að hlusta og breyta
Sú fimm flokka ríkisstjórn sem verið er að reyna að mynda verður flókin, bæði í myndun og framkvæmd. Enginn flokkur myndi fá allt sem hann vill en allir myndu fá eitthvað. Og sátt þyrfti að myndast um framkvæmd þeirra stóru verkefna sem nær allir stjórnmálamenn á Íslandi virðast sammála um að ráðast í til að auka lífsgæði fleiri landsmanna. Þrátt fyrir þann mikla hræðsluáróður sem dembt er fram nú um stundir er þó alveg skýrt að sú stjórn myndi endurspegla betur fjölbreyttar þarfir Íslendinga en nokkur önnur ríkisstjórn hefur gert. Og að hún hefði umboð meirihluta landsmanna. Hún væri með tæplega 54 prósent allra greiddra atkvæða á bak við sig og 57 prósent atkvæða sem skiluðu fólki inn á þing. Hún væri með 34 þingmenn og þar með meirihluta. Og, samkvæmt nýlegri könnun Gallup myndi hún innihalda þá þrjá flokka sem flestir Íslendingar vilja sjá í ríkisstjórn: Vinstri græn, Bjarta framtíð og Viðreisn.
Verði af myndun hennar yrði líka mjög sterk stjórnarandstaða tveggja flokka sem þekkja íslenska stjórnkerfið betur en nokkur annar. Þeirra flokka sem bjuggu það til. Slíkt aðhald skiptir miklu máli því að ríkisstjórnin þyrfti að vanda mjög til verka.
En hvaða mynstur sem verður ofan á þá liggur fyrir að ný ríkisstjórn verður að hlusta á þá hópa samfélagsins sem finnst þeir afskiptir og reyna að auka lífsgæði þeirra í stað þess að segja þeim bara að þeir hafi það víst fínt. Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir, eða í það minnsta draga úr, uppgangi lýðskrumara er að bæta samfélagskerfin okkar þannig að fleiri telji þau vera að gera sér gagn.
Ef við gerum það ekki þá má slá því föstu að einhverjir tækifærissinnaðir lýðskrumandi loddarar munu hoppa á þá möguleika sem áframhaldandi vantraust og óánægja býður upp á í næstu þingkosningum. Sumir þeirra eru þegar byrjaðir að undirbúa sig. Og þeim mun ganga mun betur en Íslensku þjóðfylkingunni gekk í október síðastliðnum.