„Ég vildi óska þess að ég væri kona“ stendur svörtum stöfum á blaðinu. Merktu við allar fullyrðingar: satt eða ósatt.
Af öllum þeim tæplega 600 fullyrðingum sem ég hafði þurft að merkja við og þeim og 4 prófum sem ég hafði þurft að taka var þetta það sem kom því á einhvern hátt beint við að ég væri trans.
Ég sit inn á lítilli stofu. Stofan er þurr, hvít og ópersónuleg. Engar plöntur fylla rýmið af fersku súrefni. Þar hafði ég eytt síðastliðnum 4 klukkutímum að svara allskonar prófum; prófi til að kanna geðheilsu mína og líkamlega heilsu, persónuleikaprófi og jafnvel greindarprófi.
Þegar ég fékk prófin tók ég eftir því að þau voru öll stöðluð í karlkyni og kalla ég á starfsmann þar sem ég hélt að um mistök væri að ræða. Ég var jú hér vegna þess að ég var einmitt ekki karlmaður. Þegar starfsmaðurinn kemur segir hán mér að það sé ekki um mistök að ræða, heldur ættu þau að vera stöðluð í karlkyni þar sem ég væri enn þá lagalega séð skráð karlkyns og það væri mikilvægt að halda því þannig vegna sumra spurninga.
Merktu við allar fullyrðingar: satt eða ósatt.
Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa þeirri tilfinningu að vera sífellt miskynjuð. Það er á vissan hátt líkt og þú sért að reyna að útskýra eitthvað fyrir einhverjum sem þú veist af öllum sálarkröftum að er rétt, en manneskjan einfaldlega meðtekur það ekki eða neitar að trúa því. Það er jafnvel svolítið eins og sé verið að tala við einhverja aðra manneskju og sú tilhugsun að einhver álíti mig karlmann er mér svo fjarlæg og svo fáranleg. En um leið og einhver gerir það af frjálsum og fúsum vilja að miskynja mig er það eins og hjartað í mér sökkvi, það er eins og öllu sem ég stend fyrir sé sópað til hliðar og traðkað á því.
Ef að mér hefur einhvertímann fundist ég niðurlægð þá var það á þessari stundu. Ég fann hvernig andardrátturinn minn varð örari og ég fann hvernig hjartslátturinn minn leiddi alla leið aftur í hnakka. Hér hafði ég verið skikkuð til að eyða fjórum klukkustundum í að svara allskyns prófum þar sem ég var ítrekað ávörpuð í karlkyni. Ég fann hvernig orðin stungu í hvert einasta skipti og ég las þau. Prófum sem myndu hugsanlega leiða mig áfram í mínu ferli innan heilbrigðiskerfisins. Ef allt gengi vel þá myndi mér verða leyft að fá hormóna; lyf sem gættu breytt lífi mínu. Lyf sem gætu látið mér líða vel með sjálfa mig og líkama minn.
Merktu við allar fullyrðingar: satt eða ósatt.
Hvernig í ósköpunum á ég að svara þessari spurningu? Ég veit að það sem er ætlast til af mér er að ég krossi við „satt“, en spurningin sjálf er niðurlægjandi, misvísandi og einfaldlega röng. Það að vera trans og að upplifa það að ég hafi fengið vitlaust kyn úthlutað við fæðingu er svo eitthvað miklu stærra og djúpstæðara en einföld ósk. Ég vildi óska þess að ég væri örlítið hávaxnari, ég vildi óska þess að ég fengi meira borgað fyrir vinnuna mína, ég vildi óska þess að ég gæti sungið betur, ég vildi óska þess að ég kynni að teikna og búa til listaverk, ég vildi óska þess að ég ætti nægilega peninga til að kaupa mér falleg hús á Brunswich torginu í Brighton með fallegum garði, háu lofti og fallegum svölum. Það að ég væri ekki karlmaður snýst ekki um einhverja ósk að vera eitthvað annað. Að vera trans snýst um djúpstæða upplifun þar sem fólk upplifir gríðarlega vanlíðan, þunglyndi og kvíða við það að þurfa að lifa í röngu kyni. Svo djúpstæð er upplifunin að ef ég hefði ekki haft aðgang að heilbrigðisþjónustunni sem ég þurfti þá væri ég einfaldlega ekki hér í dag.
Merktu við allar fullyrðingarnar: satt eða ósatt.
Í örvæntingu minni og fullkomnri niðurlægingu krossa ég við „satt“. Ég hafði jú ekkert annað val. Það var þetta eða ég gæti gleymt því að eiga mannsæmandi líf, sátt í eigin skinni.