Kæri forsvarsmaður,
Þetta bréf verður hvorki sérlega sniðugt né skemmtilegt, heldur reyni ég að halda því jafn skýru og beinskeittu eins og ég get. Við erum á tímamótum þar sem samfélag okkar jarðarbúa þarf að breyta háttum sínum í grundvallaratriðum. Við þurfum að ákveða hvort við viljum vinna markvisst að því að jörðin haldist íbúðarhæf fyrir manneskjur, eða vakna upp við þann vonda draum að hér verði á endanum ólíft.
Vandamálið
Hnattræn hlýnun er líklega stærsta vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag. Með áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda mun hlýnun jarðar aukast, jöklar og norðurheimskautið bráðna, sjávarstaða hækka með umbyltingu á núverandi búsetufyrirkomulagi mannkyns, sem hefur í för með sér gífurlegan kostnað og mannflutninga. Ofan á þetta bætist ósjálfbært og mengandi fæðuöflunarkerfi sem við byggjum neyslu nútímasamfélaga á. Minnkandi fæðuöryggi og risastórar breytingar á búsetufyrirkomulagi fólks sem býr nálægt núverandi sjávarmáli í sambland við frumstæðar leiðir til að leysa úr átökum í heiminum er ógnvænleg framtíð. Þegar þessi mynd er skoðuð er ég viss um að stærra vandamál sé illfundið og að aðgerðarleysi eða ómarkvissar aðgerðir séu ávísun á hræðilegar afleiðingar.
Hnattræn hlýnun af mannavöldum er að nær öllu leyti orsökuð af losun gróðurhúsalofttegunda. Á Íslandi fer losun gróðurhúsalofttegunda fram á nokkrum megin sviðum; í flugrekstri, stóriðju, öðrum samgöngum, landbúnaði og sjávarútvegi.
Við erum komin mislangt í nýsköpun í ofannefndum geirum. Á meðan við vitum hvernig hægt er að framleiða umhverfisvæna orku og rafmagnsdrifnir (og bráðlega sjálfkeyrandi) bílar eru raunverulegur valkostur fyrir neytendur, þá vitum við t.a.m. ekki mikið um hvernig við getum skipt út brennslu á jarðefnaeldsneyti þegar kemur að flugsamgöngum. Af þessu leiðir, að þegar kemur að mögulegum aðgerðum stjórnvalda til að berjast gegn hnattrænni hlýnun eru tækifærin misstór og góð, eftir því á hvaða bransa er litið.
Þessi raunveruleiki blasir við þegar við lesum fréttamiðla. Annars vegar fréttir um ótrúlegar tækninýjungar á sviði samgangna og fréttir um ný stórfyrirtæki á sviði umhverfisvænnar orkuframleiðslu. Á hinn bóginn fréttir um neyðarástand vegna þurrka, vatnsskort jafnt í þróuðum vestrænum ríkjum sem og þróunarríkjum, metmælingar á hitastigi og mettun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Þrátt fyrir margar góðar fréttir um þróun sem er að miklu leyti leidd af einkaaðilum, þá virðast vísindamenn og alþjóðasamfélagið vera sammála um að til róttækra aðgerða þarf að grípa ef við ætlum okkur að eiga séns á að snúa þróun hnattrænnar hlýnunar við. Spár um aukna orkuþörf og kjötþörf með aukinni velmegun í þróunarlöndum er t.a.m. dæmi um þróun sem núverandi tækniframfarir munu að öllum líkindum ekki ráða við.
Ábyrgðin á ástandinu er dreifð, til okkar sem einstaklinga sem berum ábrygð á eigin neyslumynstri og stjórnvalda sem bera ábyrgð á þeim leikreglum sem einstaklingar og fyrirtæki leika eftir. Eins og það er hlutverk einstaklingsins að breyta neyslumynstri sínu, þá er hlutverk stjórnvalda í það minnsta að tryggja jafna samkeppni, þar sem fyrirtæki sem losa gróðurhúsalofttegundir greiða fyrir þann skaða sem losun þeirra fylgir, því án slíkra reglna er spilunum ekki dreift jafnt. Ég held því fram að stjórnvöld eigi ekki bara að dreifa spilunum jafnt, heldur eigi þau að ganga enn lengra, því of stórir hagsmunir eru í húfi - lífvænlegar aðstæður fyrir okkar kynslóð og komandi kynslóðir á jörðunni.
Valið
Vandamálið sem þarf að leysa blasir við og engum sem er ekki á launaskrá olíurisa dettur í hug að draga stærð eða tilvist vandans í efa. Í raun er val stjórnvalda einfalt, annaðhvort treystum við á núverandi kerfi frelsis, eða breytum ástandinu með inngripi.
Frelsi
Núverandi fyrirkomulag byggir á frelsi þar sem við leyfum nokkurn veginn öllu að viðgangast. Einhver skattlagning er til staðar á hluti eins og jarðefnaeldsneyti, en í grunninn skiptir ekki máli hvort þú kjósir að rækta nautgripi til manneldis eða stofna fyrirtæki með það að markmiði að framleiða kjöt á vísindastofum með broti af umhverfisáhrifum venjulegs kjöts, skattlagningin á bæði fyrirtækin væri svipuð. Eins skiptir ekki miklu fjárhagslegu máli fyrir neytendur hvort þeir kjósi að kaupa bensínhák eða samskonar bíl sem knúinn er rafmagni. Í einhverjum tilvikum standa stjórnvöld fyrir eða tala um hvata/skattlagningu, en í dag er staðan engu að síður sú að kaup á bensínbílum og neysla nautahakks passar inn í heimilisbókhald flestra, þótt það hafi gríðarstór og slæm áhrif á umhverfisbókhald jarðarinnar.
Í grunninn treystir þessi hugmyndafræði á að markaðurinn bjóði upp á ýmsa kosti, umhverfisvæna og óumhverfisvæna, og að við sem upplýstir neytendur kjósum að kaupa okkur rafmagnsbíl í stað bensínbíls, því þeir munu að lokum kosta jafn mikið og hafa sömu grunnkosti. Þetta er falleg hugsun, en það blasir við að þróunin er ekki nægilega hröð, bransar sem styðjast við ódýra og mengandi orkugjafa (sbr. brennslu á kolum) fá að leika lausum hala og tilhneiging neytenda er að velja það sem er ódýrara og aðgengilegra. Þar að auki er það almennt samþykkt að brennsla á kolum og öðrum jarðefnaeldsneytum við framleiðslu sé dæmi um markaðsbrest, því enginn borgar fyrir notkun á sameiginlegum gæðum, þ.e. umhverfinu. Áframhaldandi fyrirkomulag frelsis er dæmt til þess að leiða okkur jarðarbúa á enn verri stað en við erum á í dag.
Inngrip
Leið inngrips er í grunnatriðum þessi: við bönnum, skattleggjum upp í topp, eða skattlegjum nokkuð þungt óumhverfisvæna framleiðslu og vörur og styðjum á sama tíma við framleiðslu og vörur sem hafa í för með sér minniháttar losun gróðurhúsalofttegunda. Stigsmunurinn á aðgerðum ræðst í mínum huga helst af því hvaða sambærilegir kostir eru til staðar fyrir neytendur í dag.
Mögulegar leiðir til inngrips eru fjölmargar.
Bann (eða mjög há skattlagning) á tækni sem er orðin úrelt þar sem nýjir og umhverfisvænir kostir eru nú þegar í boði. Gott dæmi um þetta eru áætlanir Norðmanna um að standa að skattlagningu á jarðefniseldsneytis bílum, niðurgreiðslu á umhverfisvænum bílum og uppbyggingu á hleðslustöðvum, með það að markmiði að engir nýjir bílar sem reiða sig á brennslu jarðefniseldsneytis verði seldir árið 2025. Svipaðar aðgerðir má sjá á fleiri stöðum, þ.á.m. á heimavelli bílaframleiðenda (Þýskaland, VW). Sama markmiði má ná, annaðhvort með þeim hætti að móta umhverfið þannig að það verði miklu dýrara fyrir neytendur að kaupa bensín týpuna af Toyota Yaris samanborið við rafmagns týpuna, eða með því að banna bensín/dísel bíla. Hvaða leið sem farin er, þá þykir mér það deginum ljósara að slíkar aðgerðir eru löngu orðnar óhjákvæmilegar og að auki vantar okkur enga tækni né tól til að breyta alfarið yfir í bifreiðar sem keyra á umhverfisvænu eldsneyti.
Skattur á kolefnislosun er leið sem hagfræðingar af öllum hliðum eru sammála um að sé skynsöm leið, vegna þess markaðsbrests sem á sér stað. Kolefnisskattur gæti verið gott innlegg inn í skattaumræður í núverandi stjórnanarmyndunarviðræðum, mögulega er þverpólitískari sátt um slíkan skatt en um aðrar leiðir til skattlagningar. Kolefnisskattur er ný tegund skatta sem leggst á almenning og fyrirtæki og er þess vegna m.a. hugsaður sem yfirfærsla á skattbyrði. Hann hjálpar einnig til við að ýta á bransa sem þurfa að taka breytingum og leggur það í hendur neytenda að borga raunverulega fyrir það sem við neytum. Sem dæmi þegar ég ákveð að fá mér ostborgara, þá er ég ekki bara að ákveða að slátra einu nauti og borða hluta af því í matinn, heldur er ég einnig að ákveða að eyða tæpum 5000 lítrum af vatni í gerð hamborgarans og að losa umtalsvert magn af gróðurhúsalofttegundum vegna nautsins sjálfs og þess lands sem fer í framleiðslu á næringu fyrir nautið. Slíkt eiga neytendur að greiða raunverulegt verð fyrir.
Stuðningur við nýja tækni er nauðsynlegur í samhengi við aðrar aðgerðir og má virkja hann með alls kyns leiðum. Niðurgreiðsla á umhverfisvænum vörum sem nú þegar eru á markaði, rannsóknar- og þróunarstyrkir til fyrirtækja og menntastofnana o.s.frv. Hlutverk stjórnvalda er að styðja við frumkvöðla og skapa umhverfi þar sem það er ekki leyfilegt að bjóða upp á vörur sem eyðileggja jörðina, nema með því að greiða raunverulegt verð fyrir (lesist: borga margfalt meira fyrir bensínbíla, nautalundir o.s.frv.).
Samantekt
Allar aðgerðir sem bæta upplýsingaöflun, minni notkun plastpoka, nýsköpun í umhverfisvænni tækni o.s.frv. eru góðra gjalda verðar, en einar og sér gera þær lítið. Skjótar og áhrifaríkar breytingar krefjast hnitmiðaðra aðgerða sem gjörbreyta rekstrargrundvelli fyrirtækja í stærstu losunarbrönsunum, hvatningar til neytenda til að kjósa með veskinu og stuðnings við nýsköpun í umhverfisvænni tækni.
Við vitum hvað þarf að gera. Það sem stendur oft í vegi fyrir stórum aðgerðum og hraðari framförum er andstaða sérhagsmunahópa og tregða stjórnkerfisins. Nú þurfum við að finna kjarkinn og hætta öllu hálfkáki.
Ég hvet þig og 62 samherja þína á þinginu til þess að leggja óskir um fylgi sérhagsmunahópa í næstu kosningum til hliðar og einblína á að leggja sem þyngst lóð á vogarskálar framtíðar okkar allra. Ég hvet þig til þess að mynda ríkisstjórn með stór og hnitmiðuð markmið sem þið getið sagst hafa náð eftir fjögur ár. Veljið ykkur fá en áhrifarík verkefni og keyrið þau í gegn. Pælum í því hvað það væri geggjað ef að við á Íslandi gætum sagt árið 2020 að hlutfall seldra bíla sem eyða jarðefnaeldsneyti væri undir 5%. Við værum að leggja raunverulega til málanna og myndum þjóna sem fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir.
Framtíð okkar er í húfi, við erum komin á síðustu mínútu framlengingar og boltinn er hjá þér!