Þó veturinn sé loks mættur til landsins búum við Íslendingar þó svo vel að geta í köldustu veðrunum fundið yl í innlendum hagtölum. Hvort við séum á toppi núverandi hagsveiflu er erfitt að segja en gangurinn er í það minnsta góður. Hagvöxtur mældist 10% á síðasta ársfjórðungi og hefur ekki verið meiri frá árslokum 2007, en ólíkt því sem þá var virðist meiri innistæða fyrir vextinum. Hagvöxturinn er nú drifinn áfram af útflutningi fremur en skuldsetningu og virkar því heilbrigðari en oft áður. Samhliða miklum vexti ráðstöfunartekna hafa heimili og fyrirtæki nýtt svigrúmið til að greiða niður skuldir og bundinn hefur verið endir á skuldasöfnun ríkissjóðs þó enn sé þar talsvert verk að vinna. Tilkoma ferðaþjónustunnar sem nýrrar stoðar í gjaldeyrissköpun hefur átt stóran þátt í því að enn er töluverður viðskiptaafgangur þrátt fyrir að við séum komin inn á sjötta ár núverandi hagvaxtarskeiðs og þenslumerkin eftir því.
Stöðugleiki er hins vegar ekki eitthvað sem við Íslendingar höfum verið fastheldnir á enda virðumst við heillast meira af yfirspennu og missum oft tökin þegar vel ára. Þó svo staða hagkerfisins sé ákaflega sterk í dag er það því að sama skapi áskorun ársins 2017 að viðhalda þeirri góðu stöðu sem við búum við í dag, og styrkja þær stoðir sem velferð okkar hvílir á. Það er vel mögulegt en fyrir okkur liggja einkum þrjár hindranir sem geta staðið okkur fyrir þrifum á komandi ári.
Höftin
Haftalosunin er hafin, en í hænuskrefum. Það er löngu orðið tímabært að við nýtum okkur góða stöðu og losum okkur undan því sjálfskaparvíti sem höft eru. Trú innlendra og erlendra fjárfesta á íslensku hagkerfi er mikil, reyndar svo mikil að Seðlabankanum þótti nóg um og fann sig knúinn til þess að mæta auknum áhuga erlendra aðila á að fjárfesta hérlendis með nýjum innflæðishöftum. Höft, sama í hvaða formi, brengla verðlagningu á markaði, draga úr fjárfestingu og nýsköpun og ýta undir efnahagslegt ójafnvægi.
Velsæld byggir til lengri tíma á verðmætasköpun og fyrir lítið hagkerfi eins og okkar er lífsbjörgin að miklu leyti fólgin útflutningi. Gengisstyrking er því ekki blessun nema inneign sé fyrir henni og útflutningsgreinar haldist samkeppnishæfar. Krónan styrktist skarpt á þessu ári og grefur það undan samkeppnisstöðunni en óvíst er t.d. við hvaða gengi krónunnar ferðaþjónustan muni verða fyrir verulegum skakkaföllum. Finna þarf jafnvægi á gjaldeyrismarkaði og besta leiðin er að klára haftalosun svo verðmyndun krónunnar geti orðið á eðlilegum forsendum. Það er því vonandi að stjórnvöld sýni hugrekki og þor á nýju ári og afnemi þau höft sem eftir standa hið fyrsta. Niðurlagning Gjaldeyriseftirlitsins væri gott fyrsta skref í þeirri vegferð.
Útblásið ríkisbákn
Þrátt fyrir að fjórða árið í röð sé stefnt á afgang af rekstri ríkissjóðs þá er afgangurinn ekki svipur hjá sjón miðað við þann rekstrarafgang sem skilað var á síðasta þensluskeiði. Þá tókst að helminga skuldir ríkissjóðs og búa í haginn fyrir niðursveifluna sem mætti okkur af fullum þunga árið 2008. Skildi þar milli feigs og ófeigs og er áhyggjuefni að hve mikið sá lærdómur virðist hafa gleymst. Frá árinu 2012 hafa ríkisútgjöld vaxið hratt og í nýsamþykktum fjárlögum er gert ráð fyrir að þau nái svipuðum hæðum og árið 2007. Þrátt fyrir aukin útgjöld heyrast háværar raddir bæði af þingi og úr opinbera geiranum um að auka verði þau enn frekar. Þessi krafa er einkennileg ekki aðeins í ljósi þess að útgjöld eru mikil í sögulegum samanburði heldur einnig vegna þess að þau eru nánast hvergi meiri meðal þróaðra ríkja. Skorti fé til vissra verkefna ætti það að vera augljóst að vandamálið liggur fyrst og fremst í forgangsröðun og nýtingu þeirra fjárheimilda sem fyrir eru. Með gegndarlausri útgjaldaaukningu ríkissjóðs er ekki verið að búa í haginn fyrir næstu niðursveiflu heldur treyst á að ekkert muni út af bregða á næstu árum. Það er auðvelt að eyða í góðæri en horfi stjórnvöld lengra en til næstu skoðanakannana verða þau að hafa kjark til að sýna ábyrgð í núverandi ástandi. Búa þarf í haginn því þegar hið óumflýjanlega bakslag á endanum kemur og tekjustofnar dragast saman væri ámælisvert að skila af sér ríkissjóði með skattprósentur við þolmörk, sligandi skuldastöðu og útgjöld í hæstu hæðum.
Ófriður á vinnumarkaði
Viðvarandi deilur á vinnumarkaði, verkföll og að lokum launahækkanir langt umfram undirliggjandi verðmætasköpun í hagkerfinu, ýta undir ójafnvægi í íslensku hagkerfi og þarf ekki að fletta lengi í íslenskri hagsögu til að finna dæmi um hvernig slíkt hefur farið. Á sama tíma og kollegar okkar í Svíþjóð deila um hvort launahækkanir ættu að vera 1,5% eða 2,5% þá ríkir ófremdarástand á vinnumarkaði þrátt fyrir að meðalhækkun launa sé næstum því 12% á árinu. Sú tilraun að breyttum vinnubrögðum sem nefnist Salek er hugsanlega að renna út í sandinn og er það alvarlegra en margur heldur. Vinnumarkaðurinn á í vanda og og það ætti að vera forgangsatriði að vinna að sátt á nýju ári sem byggjandi er ár.
Nú reynir á. Hver ætlar að vera ábyrgur á árinu 2017? Þrátt fyrir að við Íslendingar getum með stolti sprengt upp árið 2016 þá megum við ekki gleyma þeim viðvörunarljósum sem blasa við. Við erum vissulega orðin ríkari en búa þarf þannig um hnútana að velsældin setjist að fremur en að kíki heimsókn. Þegar allt er tekið saman stefnir í að árið 2017 verði viðburðaríkt ár. Hvaða viðburðir það verða sem að lokum standa upp úr er að miklu leyti í okkar höndum og skulum við því vona að okkur beri gæfa að 2017 verði einnig hagfellt ár.
Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.