Dómsdagur og Marxismi

Auglýsing

Einhverra hluta vegna hefur mannkynið verið mjög upptekið af heimsendaspám.  Það er sama í hvaða menningarheim er leitað, í hvaða trúarbrögð eða munnmælasögur, alltaf birtist manni hugmyndin um að maðurinn muni tortíma sjálfum sér og jörðinni með einhverjum hætti. Dómsdagur er aldrei langt undan.

En hvað veldur þessu?  Hugmyndir um dómsdag eru í hrópandi andstöðu við alla sögu mannsins.  Framþróunin hefur verið gríðarleg og hraði þróunarinnar hefur sífellt aukist og þar með bætt lífsgæði, aukið þekkingu og almenna vellíðan.  Það er sama hvert litið er, mannkynið hefur aldrei haft það betra.

Marxismi og falskar forsendur

Í hagfræði, sem eru ung og ónákvæm vísindi, má fyrst greina hugmyndir um dómsdag hagkerfa hjá Thomasi Malthus og síðan hjá Karli Marx.  Marx byggði á fráleitum forsendum um vinnuafl sem hlutlægan mælikvarða verðmæta og þá heimsmynd að frjáls viðskipti myndu leiða til sífellt meiri samþjöppunar auðs og ganga af þjóðfélögum dauðum.  Þessar ranghugmyndir kynnti hann um 80 árum eftir að Adam Smith hafði sýnt fram á gagnkvæman ávinning viðskipta.

Auglýsing

Ranghugmyndin um skiptingu arðs af viðskiptum er lífsseig.  Hún litar alla umræðu í samfélaginu um viðskipti enn þann dag í dag.  Flestir trúa því að hagnaður eins sé tap annars.  Þeir átta sig ekki á því sem augljóst þótti við upphaf iðnbyltingar að verkaskipting og samvinna myndi færa öllum betri hag; að gagnkvæmur ávinningur væri af viðskiptum. Þessi ávinningur á sér þrjár uppsprettur í fyrsta lagi eins og Adam Smith benti á gerir stærri markaður verkaskiptingu mögulega og þar með aukna sérhæfingu sem skilar sér í aukinni skilvirkni, í öðru lagi þá gera frjáls viðskipti okkur kleift að færa okkur hlutfallslega yfirburði hvers annars í nyt eins og David Ricardo sýndi fram á en það þýðir að jafnvel þótt sumt fólk sé betra í öllu en annað fólk að þá munu báðir hópar samt sem áður hagnast á viðskiptum þar sem hver hópur einbeiti sér að því þar sem hann hlutfallslega bestur  og allir geta skipt með sér ávinningnum af viðskiptunum. Þriðja ástæðan er sú að ólíkt því sem Marx hélt er verðgildi ekki hlutlægt heldur huglægt, virði hluta er mismunandi fyrir mismunandi einstaklinga og í frjálsum viðskiptum er bæði kaupanda ábati og seljenda ábati og því eiga þau sér ekki stað nema báðir aðilar telji sig betur setta að þeim loknum og því er ekkert fórnarlamb frjálsra viðskipta.

Karl Marx var mjög upptekinn af almennu hruni hagkerfa, einhvers konar dómsdegi yfir kapítalismanum.  Tilgátur sínar gat hann þó ekki stutt með tölulegum staðreyndum eða með raunverulegum forsendum.  Enda var það svo að þunginn í gagnrýninni breyttist eftir því sem kenningar hans urðu æ fjarlægari veruleikanum.

Þar sem forsenda Marx var sú að gróði eins væri tap annars  braut það gegn kenningum hans þegar laun á vinnumarkaði hækkuðu og hagur fyrirtækja batnaði sem gerðist á sama tíma og hann setti fram kenningar sínar.  Þarna vantaði augljóslega fórnarlamb frjálsra viðskipta, þann aðila sem tapaði, fyrst  bæði launamaður og fyrirtæki væru að hagnast.  Hvar var fórnarlambið?

Marxismi og fórnarlambið

Upp úr 1900 þegar kjör launafólks og aðstaða hafði batnað stórum og fyrirtæki skiluðu methagnaði kom upp sú hugmynd að sá sem bæri kostnaðinn af því hlyti að vera neytandinn. Fórnarlambið fannst: neytandinn.

Samkeppnis- og verðlagseftirliti var komið á fót og hafist handa, með lagabreytingum og dómsmálum, að skipta upp stórum fyrirtækjum, til að reyna að færa kostnaðinn frá neytendum aftur yfir á fyrirtækin.  Á meðan þessu stóð vænkaðist hagur neytenda gríðarlega, en einnig hagur fyrirtækja og launafólks.  Úrval af vöru og þjónustu stórbatnaði og verð lækkaði, samkeppnis- og verðlagseftirlitið átti þó engan hlut að máli. Ástæðan var einfaldlega gagnkvæmur ávinningur viðskipta.

Þegar loks rann upp fyrir aðdáendum kenninga Marx að hvorki launamaðurinn né neytandinn væru fórnarlambið, hófst ný leit, Frekar en að endurskoða gallaðar kenningar var leitinni haldið áfram að þeim sem stóð undir hagnaði viðskipta með því að taka á sig tapið.

Kenningar komu fram um að þriðji heimurinn, það eru nýlendur í Afríku, Asíu og Suður Ameríku, hefðu verið fórnarlambið.  Uppgangur í vesturheimi hefði verið á kostnað nýlenda.  En þegar málið var athugað betur sást að lífskjör í nýlendunum bötnuðu stöðugt.  Hvar var þá fórnarlambið?

Nú var komið að náttúrunni.  Það hlyti að vera náttúran sem tapaði.  Upp úr hippamenningu sjöunda áratugarins (og 30 árum fyrr í þjóðernissósialisma Þýskalands) varð vakning í málum tengdum náttúruvernd og vinstra fólk trúði því að fórnarlamb velgengni mannsins hlyti að vera náttúran.  Fram komu spámenn líkt og Paul Ehrlich og höfundar bókarinnar  "Limits to Growth" sem sögðu að uppúr 1980 yrði allt líf í sjónum að engu, síðasta tréð yrði hoggið fyrir árið 2000 og Bretland  myndi heyra sögunni til á sama tíma. Mannkynið myndi með öðrum orðum tortíma sér á nokkrum áratugum.

Marxismi og veruleikinn

Nú hálfri öld síðar hefur mannkyninu aldrei vegnað betur.  Aldrei hefur menntunarstig verið hærra, langlífi meira, barnadauði lægri eða fátækt og hungur minna.  Vísindamenn einsog Freeman Dyson benda á að plánetan hafi ekki verið grænni um árhundraða skeið enda leiði aukinn útblástur koltvísírings til þess að aukin næring skapast fyrir plöntur.  Meiri gróandi  hefur gert óttann um að skógar séu á undanhaldi að engu.

Marxistar hætta þó ekki að leita að fórnarlambi aukinnar velmegunar, þó að sagan sýni að þeir hafi kerfisbundið rangt fyrir sér.  Þeir leita bara ákafar og á ný mið.  Þeir vilja ekki viðurkenna að frjáls viðskipti hafa fært mannkyninu betri lífsskilyrði en nokkur leyfði sér að  dreyma um fyrir örfáum áratugum, hvað þá fyrr á öldum.

Marxisminn og Piketty

Nýjustu kenningar Marxista eru að vextir í heiminum séu alltaf hærri en hagvöxtur (r>g) sem leiðir til þess að fjármagn muni vaxa af sjálfu sér og yfirgnæfa hagkerfið.  Þannig aukist misskipting  gríðarlega og hinir ríku verði alltaf ríkari og hinir fátækari fátækari.  Thomas Piketty boðar þessar kenningar í bók sinni "Capital in the Twenty-First Century" árið 2013.  En sú bók er nokkurs konar uppfærsla á höfuðriti Karls Marx, Das Kapital (1867).

Piketty áttar sig ekki á að sagan og öll hagfræði sem snýr að fjármálum hefur fyrir löngu afsannað kenningu hans.  Ef fjármagn yxi af sjálfu sér væru ættir landnámsmanna Íslands gríðarlega ríkar og þrælarnir hefðu aldrei komist til bjargálna.  Eins ef við lítum okkur nær þá væru „fjölskyldurnar fjórtán“, sem tíðrætt var um árið 1990 lang efnaðastar á Íslandi.  

Eða ef við horfum til ársins 2000 þá væru Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson gríðarlega efnaðir í dag.  Piketty skilur ekki að vextir eru mælikvarði á áhættu og alþjóðlegir markaðir með tilheyrandi sveiflum, gera það að verkum að alltaf er verið að breyta verðmætamati eigna með miklum skakkaföllum fyrir eignafólk og þá skapast tækifæri fyrir aðra til á að efnast.  Hinn margumtalaði GINI stuðull sem mælir misskiptingu auðs innan samfélaga hefur aldrei verið lægri á Íslandi, þvert ofaní gallaðar kenningar Piketty og annarra marxista.

Marxismi og rekstur fyrirtækja

Marxistar líta á rekstur fyrirtækja sem einfalda hámörkun hagnaðar, á kostnað alls annars.  Stjórnir fyrirtækja eru nokkurs konar kaffiklúbbur þar sem skipulagðar eru næstu árshátíðir og laxveiðiferðir, enda telja þeir enga ytri þætti hafa áhrif á starfsemina, fjármagnið vex einfaldlega af sjálfu sér eins og Piketty gerir ráð fyrir.

Frjáls markaður gerir það að verkum að samkeppni leiðir til þess að rekstur fyrirtækja er eilíf barátta til að ná í viðskipti, halda starfsfólki ánægðu, greiða lánardrottnum, hluthöfum og hinu opinbera gjöld.  Fyrirtæki eru sjaldnast langlíf og því til staðfestingar má nefna að samsetning stærstu hlutabréfavísitalna heims breytast gríðarlega á nokkurra áratuga fresti.  Þetta er hin skapandi eyðilegging sem Schumpeter talaði um, þar sem framleiðsluþættir eru sífellt færðir í ný not til að taka mið af nýrri þekkingu og síbreytilegum þörfum og þannig að hámarka verðmætasköpun þeirra.  Skapandi eyðilegging gerir það að verkum að sífelld framþróun er í einkageiranum þar sem fyrirtækin laga sig að breyttum heimi eða verða undir í samkeppni, í opinbera geiranum felst lausnin hins vegar alltaf í að dæla meiri peningum í verkefni sem ganga ekki upp fremur en að sníða þau að veruleikanum. Kraftar samkeppninnar leika ekki um opinbera geirann, þar vegur krafan um að fara dýpra í vasa skattgreiðandans þyngra en leit að hagkvæmari lausn – sama eða betri árangri með minni kostnaði.   

Marxismi og framtíðin

Hinir svartsýnu marxistar, sem sjá dauðann handan við hvert horn, þjást nú af áhyggjum af aukinni vélvæðingu.  Líkt og áhyggjufullir Lúddítar á 19. öld sem brutu vefstóla, af því að þeir myndu rýra kjör almennings, verða marxistar síðari tíma æ háværari um að aukin tæknivæðing nú á dögum sé af hinu illa.

Aukin framþróun og tæknivæðing hefur gert okkur kleift að búa okkur gott líf með 40 tíma vinnuviku, alþjóðlegum lífsgæðum og almennu heilbrigði.  Aukin tæknivæðing breytir ekki þessum lífsgæðum á verri veg, nema síður sé.  Marxistar eru blindir á söguna en staðfastir í trúnni.  Ég hef lengi óskað þess heitt að þeir endi á öskuhaugum sögunnar, en þeir virðast eiga sér almenna skírskotun í óskiljanlegri trú mannsins á dómsdag.  Marxisminn virðist því vera hálfgerður lúxussjúkdómur.  Hann nærist á því hve vel okkur vegnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Skúli Magnússon var boðinn velkominn til starfa af þeim Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis og Rögnu Árnadóttur skrifstofustjóra þingsins fyrr í mánuðinum.
Nýr umboðsmaður ætlar í leyfi frá HÍ og vonast eftir meira fé frá pólitíkinni
Nýr umboðsmaður Alþingis er enn að ljúka síðustu verkunum við lagadeild Háskóla Íslands. Í bili. Hann segir við Kjarnann að stofnunin þurfi meira fé til að geta gert annað og meira en að „standa við færibandið“ og vinna úr kvörtunum.
Kjarninn 18. maí 2021
Suliman hefur lagt sig fram við að kynnast íslensku samfélagi og m.a. stundað sjálfboðastarf frá því að hann kom hingað í október.
Hugsaði að á Íslandi „yrði komið fram við mig eins og manneskju“
Hann hefur aðeins tvo kosti. Og þeir eru báðir hræðilegir. Að halda til á götunni á Íslandi eða í Grikklandi. Suliman Al Masri, palestínskur hælisleitandi sem yfirvöld ætla að vísa út á götu, segist þrá venjulegt líf. Það sé ekki að finna í Grikklandi.
Kjarninn 17. maí 2021
Húsnæði Útleningastofunar í Bæjarhrauni í Hafnarfirði.
Útlendingastofnun vísaði Palestínumönnum út á götu
Palestínumönnum var síðdegis vísað út úr húsnæði Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni í Hafnarfirði. Þeir hafa hvergi höfði sínu að halla og hefur verið bent á að leita skjóls í moskum. Blóðbað stendur yfir í heimaríki þeirra.
Kjarninn 17. maí 2021
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir
Er vegan börnum mismunað í skólum á Íslandi?
Kjarninn 17. maí 2021
Katrín mun ræða málefni Ísraels og Palestínu við Blinken og Lavrov í vikunni
Málefni Ísraels og Palestínu voru rædd á þingi í dag. Þingmenn Pírata og Viðreisnar kölluðu eftir því að stjórnvöld tækju af skarið og fordæmdu aðgerðir Ísraela í stað þess að bíða eftir öðrum þjóðum. Forsætisráðherra mun tala fyrir friðsamlegri lausn.
Kjarninn 17. maí 2021
Fjölskylda á flótta hefst við úti á götu í Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Útlendingastofnun setur hælisleitendum afarkosti: Covid-próf eða missa framfærslu
Útlendingastofnun er farin að setja fólki sem synjað er um vernd þá afarkosti að gangast undir COVID-próf ellegar missa framfærslu og jafnvel húsnæði. Í morgun var sýrlenskum hælisleitanda gert að pakka saman. „Hvar á hann að sofa í nótt?“
Kjarninn 17. maí 2021
Eurovision-hópurinn fékk undanþágu og fór fram fyrir í bólusetningu
RÚV fór fram á það við sóttvarnaryfirvöld að hópurinn sem opinbera fjölmiðlafyrirtækið sendi til Hollands til að taka þátt í, og fjalla um, Eurovision, myndi fá bólusetningu áður en þau færu. Við því var orðið.
Kjarninn 17. maí 2021
ÁTVR undirbýr nú lögbannsbeiðni á starfsemi vefverslana með áfengi.
ÁTVR ætlar að fara fram á lögbann á vefverslanir og undirbýr lögreglukæru
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins telur nauðsynlegt að fá úr því skorið hjá dómstólum hvort innlendar vefverslanir sem selja áfengi milliliðalaust til neytenda séu að starfa löglega, eins og rekstraraðilar þeirra vilja meina.
Kjarninn 17. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None