Þann 5. maí, mánuði eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra vegna tengsla sinna við aflandsfélagið Wintris, skilaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, munnlegri skýrslu til Alþingis um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga. Þá hafði þegar verið tilkynnt að kjörtímabilið yrði stytt um eitt löggjafarþing í kjölfar þess að Panamaskjölin sýndu víðtæka aflandsfélagaeign mörg hundruð Íslendinga í þekktum skattaskjólum. Tilgangur slíkrar eignar er tvíþættur: annað hvort er verið að svíkjast um að greiða skatta eða það er verið að fela eignir. Enginn annar rökréttur tilgangur er fyrir því að koma eignum fyrir með þessum hætti.
Panamaskjölin kölluðu á viðbrögð og í skýrslu sinni greindi Bjarni meðal annars frá því að sérstakt teymi, með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga, yrði falið að „gera mat á umfangi fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum samhliða því að áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi.[...]Við höfum skyldur til þess að draga fram og skýra hvert umfang skattsvikanna var. Hvert er umfang vandans? Hversu mikið tapast? Hversu algengt var að þetta félagaform, þessi lönd, þessi svæði, væru nýtt til þess að skjóta sér undan íslenskum lögum? Það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að kanna. Mér finnst það frumskylda okkar að gefnu þessu tilefni núna að taka það út sérstaklega og verður það meginverkefni þessa sérstaka teymis sem ég hyggst fela þetta hlutverk þannig að við getum haft betri grundvöll undir umræðu um umfang vandans.“
Þessi hópur starfaði frá því í vor undir formennsku Sigurðar Ingólfssonar hagfræðings. Og hann skilaði skýrslu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í september, rúmum mánuði fyrir kosningarnar sem haldnar voru fyrr en áætlað var vegna aflandsfélagaopinberanna Panamaskjalanna. Þrátt fyrir að tilgangurinn með vinnu starfshópsins hafi verið, samkvæmt fjármála- og efnahagsráðherra, að búa til „betri grundvöll undir umræðu um umfang vandans“ tók einhver ákvörðun um að það þjónaði ekki tilgangi að birta þá skýrslu fyrir kosningar. Nú, þremur mánuðum eftir að skýrslunni var skilað, var hún loksins birt, mögulega vegna þrýstings Kjarnans. Og upplýsingarnar í henni eru sláandi.
Tugum milljarða stolið úr samneyslunni
Skýrslan er mögnuð lesning. Þar kemur meðal annars fram að uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum hafi líkast til verið að minnsta kosti 580 milljarðar króna (og allt að 810 milljarðar króna) á árunum 1990 til 2015. Að 1.629 aflandsfélög hafi fengið íslenska kennitölu vegna banka- og hlutabréfaviðskipta. Að Íslendingar séu fjórum sinnum líklegri en Danir til að eiga aflandsfélag og að tekjutap hins opinbera nemi líklega um 56 milljörðum króna á árunum 2006 til 2014. Á hverju ári bætist við tap vegna vantalinna skatta sem er á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna. Þessi hópur Íslendinga sem ákvað að greiða ekki sitt til samneyslunnar hefur því haft af okkur öllum hinum sem þiggjum laun og greiðum óhjákvæmilega skatta, marga tugi milljarða króna. Það eru peningar sem þeir hafa stungið í vasann.
En hvaða hópur er þetta? Í skýrslunni segir:„Þeir Íslendingar sem hafa verið í aðstöðu til þess hafa frá fornu fari sumir hverjir leitað leiða til þess að flytja fé úr landi, ýmist til þess að forðast skattgreiðslur, leyna auðlegð sinni eða firra sig þeirri gengisáhættu sem fylgir íslensku krónunni.“
Þetta eru að mestu pilsfaldarkapitalistar - ekki frumkvöðlar - sem hafa aldrei skapað neitt, en vegna aðgengis þeirra að tækifærum, upplýsingum og fjármagni annarra, hafa þeir hagnast vel, og kosið að fela þann hagnað á aflandseyjum.
Peningaþvætti í boði Seðlabanka
Ljóst má vera, samkvæmt skýrslunni, að hluti þessa hóps hafi notað hið illa fengna fé að hluta til að komast aftur inn fyrir íslensku höftin í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem veitti þeim að meðaltali um 20 prósent virðisaukningu þegar erlendum illa fengnum peningum var skipt í íslenskar illa fengnar krónur. Þær afsláttarkrónur voru síðan notaðar til að kaupa eignir á brunaútsölu eftir að fjármagnseigendur, og bankamenn, höfðu sett samfélagið á hliðina.
Í skýrslunni er bent á að Seðlabanka Íslands virðist alveg sama hvaðan peningarnir sem flæddu inn um fjárfestingarleiðina komu. Orðrétt segir: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Samkvæmt þessu hefur fjárfestingarleiðin verið leið fyrir Íslendinga með illa fengið fé í felum til að þvætta féð. Seðlabanki Íslands bauð upp á peningaþvottavél! Mikið hljóta stjórnendur hans að vera stoltir af því.
Af þessu leiðir að það þarf að birta allar upplýsingar um hverjir það voru sem komu með fé til landsins eftir þessari leið opinberlega, hversu mikið fé þeir komu með og rannsaka þarf hver uppruni þess er. Þetta þarf að gera strax.
Forkastanleg vinnubrögð
Í raun staðfestir skýrslan allt það sem flestum grunaði, að á Íslandi sé til fámenn yfirstétt fólks sem hefur hagnast á íslenskum auðlindum eða öðrum flötum íslensks samfélags, en vill ekki borga sitt í samneysluna. Fólk sem ákvað að stela af okkur hinum tugum milljarða króna. Þetta fé þarf augljóslega að sækja og það þarf að sækja það af hörku. Ráðast á samstundis í þá aðgerð.
En það er annar flötur á þessu máli sem er ekki síður alvarlegur. Það er sú staðreynd að fjármála- og efnahagsráðuneytið, og ráðherrann sem stýrir því, ákvað að birta ekki skýrsluna - sem var tilbúin í september - við fyrsta mögulega tækifæri. Ástæður þess að kosið var í október 2016 en ekki í apríl 2017 voru opinberanir um umfangsmikla aflandsfélagaeign hluta Íslendinga, sem lifa í öðrum efnahagslegum veruleika en venjulegt launafólk. Í ljósi þess að starfshópur hafði þegar lokið vinnu við að kortleggja umfang þess vanda sem aflandsfélagaeign og skattsvik eru, og hvað slíkur persónulegur ávinningur nokkurra kostar íslenskt samfélag, þá er gjörsamlega óskiljanlegt og óverjanlegt að þær upplýsingar hafi ekki verið birtar samstundis og þær lágu fyrir. Fyrir það þarf einhver að svara. Og bera ábyrgð á.
Þessi orð eru ekki skrifuð vegna geðveiki þess sem sér ekki veisluna fyrir framan sig. Þau eru ekki skrifuð af fýlupúka sem nennir ekki að taka þátt í stemmningunni. Þau eru ekki skrifuð vegna öfundar gagnvart fjármagnseigendum. Þau eru skrifuð af réttlátri reiði og óþoli gagnvart því svindli og þeim þjófnaði sem hluti íslensks samfélags stendur fyrir gagnvart öllum hinum sem í því búa. Og því vantrausti sem atferli þeirra skapar sem grefur undan allri samfélagsgerðinni.
Það er nefnilega engin munur á því að ljúga beint að kjósendum sínum og því að leyna þá vísvitandi upplýsingum sem skipta máli.