Skýrsla um skiptingu Leiðréttingarinnar, 72,2 milljarða króna millifærslu úr ríkissjóði til hluta landsmanna, var loksins birt í gær. Fyrri upplýsingar um aðgerðina höfðu einungis sýnt skiptingu hennar milli þeirra hópa sem hana þáðu, ekki á milli allrar þjóðarinnar. 19 mánuðir eru síðan að beðið var um skýrsluna á Alþingi. Vítavert er að skýrslan hafi ekki verið birt á síðasta kjörtímabili, svo kjósendur gætu tekið afstöðu til þessa verknaðar út frá áhrifum hans á þjóðina.
Skýrslan, sem er einungis átta blaðsíður, er til skammar. Í henni eru settar fram allskyns réttlætingar á aðgerðinni og skiptingu fjárins sem eiga ekkert erindi í plagg sem þetta og þeir sem skrifa hana velja hvaða upplýsingar almenningur fær um skiptinguna og hverjar hann fær ekki. Flest svör eru til að mynda sett fram með gröfum, ekki tölum, sem ómögulegt er með fullri vissu að lesa úr hvernig Leiðréttingin skiptist milli allra tekju- og eignarhópa.
Þrátt fyrir góðan vilja skýrsluhöfunda tekst þó ekki að fela samfélagslegt óréttlæti aðgerðarinnar með gröfum og réttlætingartexta. Í skýrslunni kemur nefnilega fram að þau tíu prósent Íslendinga sem höfðu hæstu launin árið 2014 fengu tæplega 30 prósent upphæðarinnar sem ráðstafað var úr ríkissjóði, eða um 22 milljarða króna. Um er að ræða rúmlega 20 þúsund einstaklinga og samskattaðra sem höfðu að meðaltali 21,6 milljónir króna í tekjur á árinu 2014. Skýrslan sýnir einnig að sá helmingur Íslendinga sem þiggur hæstu launin fékk 86 prósent af 72,2 milljörðum króna en sá helmingur sem þénar minna en hinn fékk 14 prósent. Því er endanlega staðfest að tekjuháir fengu nánast alla Leiðréttinguna en tekjulitlir lítið sem ekkert.
Þegar eignastaða er skoðuð er þjóðhagslega niðurstaðan enn meira sláandi. Enn reyna skýrsluhöfundar að leyna upplýsingum með því að birta bara valdar hlutfallstölur og gröf en ýmislegt er hægt að sjá út úr henni þrátt fyrir það. Fram kemur að þeir rúmlega 20 þúsund framteljendur sem áttu mestar eignir (meðal hrein eign í hópnum er 82,6 milljónir króna) fengu 9,6 milljarða króna í leiðréttingu á húsnæðislánum sínum.
Eigendur milljarða leiðréttir
Við skulum skoða þennan hóp aðeins betur. Þ.e. ríkustu tíund þjóðarinnar eftir tekjum. Kjarninn greindi frá því október að frá árinu 2010 og fram til loka árs 2015 hafi hrein eign þeirrar tíundar landsmanna sem á mestar eignir aukist um 527,4 milljarða króna. Ef þessi tíund hefði ekki verið „leiðrétt“ þá hefði sú eignaraukning einungis verið 505,5 milljarðar króna. Bara á árinu 2015 hækkaði hrein eign þessa hóps um 185 milljarða króna. Alls fór 43 prósent af allri nýrri hreinni eign til þessa hóps á árinu 2015.
Á sama tíma og þessi rúmlega 20 þúsund manna hópur átti hreina eign - þ.e. eignir eftir að skuldir höfðu verið dregnar frá - upp á 1.880 milljarða króna skuldaði fátækari helmingur þjóðarinnar sem hafði tekjur í fyrra - rúmlega 100 þúsund manns - 211 milljarða króna umfram eignir sínar. Þessi tíund átti 64 prósent af öllum eignum þjóðarinnar í lok árs 2015.
Það þarf að endurtaka það að þessi hópur, sem átti hreina eign upp á 1.880 milljarða króna í lok árs 2015, fékk 22 milljarða króna gefins úr ríkissjóði vegna þess að það varð verðbólguskot á Íslandi árin 2008 og 2009.
Fasteignaverð hækkað langt umfram verðbólgu
Leiðréttingin hafði margþætt áhrif utan þess að færa bara peninga til ríks fólks. Hún átti þátt í því að orsaka ruðningsáhrif á fasteignamarkaði sem hefur leitt af sér þá stöðu að í dag hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 68 prósent frá miðju ári 2010 og framboð húsnæðis á hverjum tíma er einungis um þriðjungur af því sem talið er eðlilegt miðað við stærð markaðarins. Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hefur hækkað um 36 prósent frá hruni og fram til desember 2016. Hækkun fasteignaverðs hefur því verið langt umfram verðbólgu. Þeir sem voru „leiðréttir“ fengu því bæði að borða kökuna og eiga hana. Þ.e. þeir fengu skaðabætur úr ríkissjóði fyrir tjón sem þeir urðu ekki fyrir, og njóta síðan mikillar hækkunar á fasteignaverð sem orðið hefur á síðustu árum, meðal annars vegna leiðréttingarinnar. Þessi hópur hefur hagnast gríðarlega vegna Leiðréttingarinnar.
Eftir sitja þeir sem eiga lítið eða ekkert og þeir sem hafa mjög lágar tekjur. Aðstæður þeirra hafa versnað mjög á undanförnum árum. Leiguverð hefur hækkað um 60 prósent frá byrjun árs 2011 og framboð á þeim markaði er nánast ekkert, vegna þess að hluti íbúða sem voru þar áður er í útleigu til ferðamanna og hinn hlutinn er í eigu aðila sem græða bæði á hækkandi leiguverði og hækkandi eignarverði.
Þjóðarskömm stjórnmálamanna
Leiðréttingin er þjóðarskömm. Sú afstaða byggir ekki á ólund, öfund eða almennu stuðleysi. Hún snýst ekkert um vinstri eða hægri, heldur hróplegt óréttlæti.
72,2 milljarðar króna voru teknir úr ríkissjóði og millifærðir til hluta þjóðarinnar – að stærstum hluta þeirra sem áttu eða þénuðu mest – í stað þess að notast í samneysluna. Tvennt gerðist við þetta: ríkir urðu ríkari og aðstæður yngri landsmanna, eignalítilla eða tekjulágra til að koma þaki yfir höfuðið versnuðu til muna. Leiðréttingin var ömurleg millifærsla á fé til að borga fyrir kosningasigur Framsóknarflokksins vorið 2013, með vitund og ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem kvittaði upp á óréttlætið gegn því að komast í ríkisstjórn, og gegn betri vitund.
Fullyrðingar ábyrgðarmanna um að þetta fé hafi ekki runnið úr ríkissjóði eru rangar. Bankaskattar voru hækkaðir og peningar teknir úr slitabúum og af bönkum inn í ríkissjóð. Þetta eru peningar sem hefðu hvort eð er ratað til ríkissjóðs í ljósi þess að greiðslujöfnuður hefði ekki heimilað erlendum kröfuhöfum að fara með þá úr landi þegar samið var við þá um útgöngu. Og bankaskattur er ekkert frábrugðin öðrum sköttum. Þ.e. hann er tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð og ríkisstjórnin ákveður síðan hvernig þeim tekjum er varið. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ákvað að verja 72,2 milljörðum í Leiðréttinguna. Þess má geta að ríkissjóður er enn að innheimta bankaskatt en notar tekjurnar af honum í eitthvað allt annað en millifærslur til eignafólks.
Nú þegar losun hafta stendur yfir og Ísland er að feta sig aftur út í alþjóðleikann þá munum við ekki njóta verndar hafta lengur til að halda niðri verðbólgu. Hún gæti rokið upp skyndilega og óvænt líkt og hún hefur svo oft áður gert í hagsögu okkar. Í ljósi þess að verðtryggð lán hafa verið mun hagstæðari hérlendis á undanförnum árum en óverðtryggð þá hafa Íslendingar nær einvörðungu tekið þau síðustu misserin.
Og hvað á þá að gera næst þegar verðbólga fer yfir verðbólgumarkmið og hækkar höfuðstól verðtryggðu lánanna? Á þá að leiðrétta aftur? Hið hrikalega fordæmi liggur að minnsta kosti fyrir.
Við okkur blasa afleiðingarnar.