Í tveimur skoðanagreinum í Kjarnanum hefur Heiðar Guðjónsson deilt á marxisma og marxista. Í sömu andrá ritað eitt og annað um loftslagsbreytingar. Ég læt öðrum eftir að skiptast á skoðunum við Heiðar um marxisma. Minni þó á að útfærslur, túlkanir og nýsköpun sem varða þessa stjórnmála- og heimspekistefnu skipta sennilega hundruðum. Marxistar hafa deilt innbyrðis í vel á aðra öld.
Hvað um það, mig langar að henda á lofti tvær setningar úr síðari grein Heiðars sem fullyrðir að hann afneiti ekki hnattrænni hlýnun af manna völdum. Það er gott og gagnlegt - og velkominn í klúbbinn. Önnur setningin er þessi: „Ég ... leyfði mér að benda á þá augljósu staðreynd að plöntur nærast á koltvísýringi“. Hin er svona: „Mér finnst einnig blasa við að ódýrara sé að fást við hlýnunina, með tækni og fjármagni en að reyna að stjórna veðrinu í framtíðinni“.
Fyrri staðhæfingin er vinsæl meðal þeirra sem reyna að vekja vafa um alvarlegan hlut gróðurhúsagasa í hlýnun jarðar. Sú staðreynd að plöntur nærast á koltvísýringi og framleiða við það súrefni er meira en vel kunn. Í munni margra felst í henni sú hugmynd að það sé nú aldeilis frábært. Þá, nefnilega, á aukið magn koltvísýrings í lofti, sem hækkað hefur úr 320 ppm í 400 ppm á um 60 árum, að leiða til þess að gróðurfar eflist. Náttúran betrumbætist: Plöntur dafna og súrefni eykst til handa mönnum og dýrum. Þessi einfeldningslega jafna gegur ekki upp í nútímanum. Gerði það sennilega fyrir þúsundum eða milljónum ára þegar áhrif manna voru lítil sem engin og náttúran þróaðist sem slík. Þannig var koltvísýringur mun minni á jökulskeiðum en hlýskeiðum svo dæmi sé nefnt, og gróðurlendin ólík.
Eftir að umsvif milljarðanna hafa breytt vatnsbúskap jarðar til hins verra, gjörbreytt gróðurfari víða um heim og valdið eyðimerkurmyndun er annað uppi á teningnum. Hafið tekur upp um þriðjung alls koltvísýrings og getan minnkar eftir því sem hlýnar meira. Gróður á landi nær ekki að dafna svo vel að upptaka gassins aukist sem nemur hærra hlutfalli þess í lofti. Þurrkar á viðkvæmum svæðum (vegna hlýnunarinnar) viðhalda aukinni eyðimerkurmyndun. Með öðrum orðum: Það gagnast okkur lítið að auka magnið úr 320 ppm í 400 ppm eða 500 ppm í þeirri von að gróður aukist og bindi allan muninn eða nái að lækka magnið niður fyrir núverandi 405 ppm. Samhliða öfugþróun gróðurhulu jarðar hefur magnið aukist æ hraðar og getur ekkert breytt því nema við minnkum losunina, eflum gróður með aðgerðum eða eitthvað það gerist í náttúrunni sem gjörbreytir ferli hlýnunarinnar. Það gæti t.d. gerst ef hafstraumar breytast vegna of mikils ferskvatns í sjó á norðurhvelinu.
Seinni staðhæfingin er afvegaleiðandi. Menn dreymir ekki um að reyna að stjórna veðurfari. Það eru staðlausir stafir. Menn dreymir um að hægja á hlýnun af völdum eigin losunar gróðurhúsagasa og binda sem mest af þeim með dýrum aðgerðum, þó ekki væri nema til að bjarga matvæla- og vatnsöflun og koma í veg fyrir alvarlega röskun á lífsskilyrðum sem allir þekkja úr umræðunni. Það er einmitt gert með tæknilausnum, miklu fjármagni og meðvituðum aðgerðum gegn losuninni, eins þótt það skerði hefðbundið lífsmynstur mjög margra um skeið. Og eitt er víst, hvort sem eitt er ódýrara en annað í þessum efnum verður allt í þeim rándýrt.
Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi.