Ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar byrjar vegferð sína í miklu mótlæti. Stuðningur við hana mælist einungis 35 prósent, sem er einsdæmi. Allar ríkisstjórnir síðustu rúmlega 20 ára hafa hið minnsta mælst með tæplega 60 prósent stuðning. Til viðbótar er hún með minnihluta atkvæða á bak við sig (46,7 prósent) og einungis eins manns meirihluta í samstarfi þriggja flokka sem hafa aldrei áður unnið saman.
Margir efast um erindi ríkisstjórnarinnar, í ljósi þess að hún var mynduð utan um málamiðlanir um öll stærstu kosningaloforð – sem nú heita kosningaáherslur – Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, af öllum mönnum, hitti naglann ágætlega á höfuðið í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra þegar hann sagði að með „örfáum undantekningum er þetta ríkisstjórn með óljósa sýn, takmarkaða stefnu og engar leiðir til að hrinda henni í framkvæmd.“
Þetta er ríkisstjórnin sem varð til vegna þess að enginn annar náði saman, og þar sem flokkarnir í henni eru með mjög ólíkar megináherslur þá er stjórnarsáttmálinn að lang mestu leyti moðsuða málamiðlana. Flokkarnir sem að henni standa ætla síðan að marka sér stöðu með því að stýra ráðuneytunum sem féllu þeim í skaut nær markmiðum sínum í ljósi þess að ekki náðist sátt um það við myndum ríkisstjórnar. Áhugavert verður að fylgjast með því hvernig það gengur.
Til þess að gefa ríkisstjórninni sértækan tilgang, að minnsta kosti í orði, var þó sérstaklega tekið fram fremst í stjórnarsáttmálanum að hún myndi setja heilbrigðismál í forgang. Þar stendur: „Áhersla verður lögð á að landsmenn hafi aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu.“
Hughrif eða veruleiki
Í ljósi þessa vakti það sérstaka athygli þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra talaði um það í stefnuræðu sinni í vikunni að sterkar vísbendingar væru um „að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram þau hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif.“
Það er djarft, og hrokafullt, að kalla það hughrif að tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Að það sé ímyndun sem eigi sér engar stoðir í raunveruleikanum heldur sé afleiðing af því að fölsk skynjun hafi orðið til vegna áhrifa frá pólitískri orðræðu. Og hægt er að tína til ansi margt sem sýnir að það er valkvæð staðreynd (e. alternative fact) að halda slíku fram.
Í skýrslu sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið í fyrra og birt var í september kom fram að heilbrigðisútgjöld hins opinbera hafi lækkað úr 153 milljörðum króna árið 2008 í 143 milljarða króna árið 2015 á föstu verðlagi. Þau voru komin í nokkurn vegin sömu tölu og í lok árs 2008 um síðustu áramót. Á sama tíma hefur verið dregið að fjárfesta í nauðsynlegum húsa- og tækjakosti í heilbrigðiskerfinu. Á næsta ári á raunaukning á framlögum til heilbrigðismála að vera 6,9 milljarðar króna. Því ber að hrósa en það breytir ekki því sem átt hefur sér stað árin á undan.
Á þessum tíma hefur Íslendingum vitanlega fjölgað umtalsvert. Þeir voru 315.459 í byrjun árs 2008 en 337.610 í lok september síðastliðins. Heilbrigðiskerfið er því að þjóna 20 þúsund fleiri innlendum notendum en það gerði á hrunárinu. Þeim Íslendingum sem eru eldri en 67 ára hefur á sama tíma fjölgað um átta þúsund, en eldra fólk er eðlilega líklegra til að þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda en það sem er yngra.
Á árinu 2008 komu hingað til lands um hálf milljón ferðamanna. Í fyrra voru þeir langleiðina í tvær milljónir. Þeir nýta líka íslenska heilbrigðiskerfið. Það er því staðreynd að framlög til heilbrigðiskerfisins hafa dregist saman á undanförnum árum þótt að nú sé loks að nást nokkur veginn sama raunvirðisframlag og var árið 2008. Og það er staðreynd að kerfið þjónar nú fleiri notendur, bæði innlendum og erlendum, og það er staðreynd að fjöldi þeirra sem eru líklegri til að þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda hefur aukist umtalsvert.
Næstum jafn margir skrifuðu undir og kusu ríkisstjórnina
Þá má benda á að 86.761 Íslendingar skrifuðu undir áskorun Kára Stefánssonar og samstarfsmanna hans um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Um er að ræða stærstu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar. Þegar hún stóð yfir benti Kári á að Íslendingar væru að eyða því sem nemur 8,7 prósent af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál sem væri langt undir meðaltali á Norðurlöndum. „Það er mat þeirra sem gerst þekkja til að við þurfum að eyða allt að 11 prósent af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál vegna þess að við erum fá og dreifð sem gerir þjónustuna dýrari en meðal stærri og þéttbýlli þjóða,“ sagði Kári.
Gríðarlegur hluti þjóðarinnar var sammála Kára um að auka ætti til muna framlög til heilbrigðismála vegna þess að heilbrigðiskerfið væri fjarri því að standa undir þeim væntingum sem til þess er gert. Þetta eru ekki hughrif, heldur staðreyndir. Og ef ráðamenn efast um að þessi fjöldi nægi til að knýja fram samfélagsbreytingar er vert að benda á að sá fjöldi sem skrifaði undir áskorunina er einungis 1.677 fámennari en sá sem kaus stjórnarflokkanna þrjá í síðustu kosningum.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fór kostnaðarhlutdeild sjúklinga hérlendis farið úr því að vera 14,3 prósent árið 1990 í 18,5 prósent árið 2015. Útgjöld sjúklinga á Íslandi er meiri en í Bretlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku, svo dæmi séu tekin. Í umfjöllun Vísindavefs Háskóla Íslands um þessi mál, sen unnin er af Rúnari Vilhjálmssyni prófessor í félagsfræði, segir: „Samkvæmt heilbrigðiskönnunum hérlendis vörðu heimilin að meðaltali 156 þúsund krónum vegna heilbrigðisþjónustu heimilismanna árið 2014, en kostnaðurinn var mjög misjafn eftir þjóðfélagshópum. Mest var útgjaldabyrði hópa sem teljast í viðkvæmri stöðu. Þeir hópar sem verja stærstum hluta ráðstöfunartekna sinna í heilbrigðisþjónustu eru ungt fólk og námsmenn, atvinnulausir og fólk utan vinnumarkaðar, lágtekjufólk, langveikir og öryrkjar. Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni vegna þess að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu er ein af meginástæðum þess að einstaklingar fresta eða hætta við að leysa út lyf, eða leita til læknis eða annars heilbrigðisstarfsmanns. Kostnaður sjúklinga er einnig vaxandi ástæða fyrir frestun læknisþjónustu hérlendis. Þessar niðurstöður stangast á við meginmarkmið félagslegra heilbrigðiskerfa sem er að veita öllum samfélagsþegnum sem á þurfa að halda viðeigandi heilbrigðisþjónustu.“
Það er því staðreynd að kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðisútgjöldum hérlendis hefur aukist á undanförnum áratugum og að það er staðreynd að það bitnar mest á þeim hópum samfélagsins sem minnst mega sín. Hópum sem sannarlega upplifa það að tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið.
Rofið er ekki hjá þeim veiku
Í könnun sem gerð var skömmu fyrir kosningar töldu 45 prósent kjósenda að heilbrigðismál ættu að vera mikilvægasta umfjöllunarefnið í aðdraganda þeirra. Engin annar málaflokkur komst nálægt heilbrigðismálum í mikilvægi samkvæmt þeim niðurstöðum.
Það voru ekki hughrif sem orsaka það að svona stór hluti þjóðar telur heilbrigðiskerfið brostið og þurfi á umfangsmikilli viðgerð að halda. Það er einfaldlega sú staða sem þúsundir Íslendinga standa frammi fyrir á hverjum degi.
Það er ekki góð lenska að ásaka vinnuveitendur sína um að vera ekki í takti við veruleikann eða að skilja hann ekki. Það fékk forsætisráðherra á síðasta kjörtímabili að reyna þegar hann sagði rof vera milli skynjunar og veruleika hjá þjóðinni fyrst ríkisstjórn hans var ekki vinsælli en mælingar sýndu. Það að ásaka fólk sem raunverulega er í þeirri stöðu að geta ekki veitt sér heilbrigðisþjónustu vegna efnahagsstöðu, sem getur ekki fengið lífsnauðsynleg lyf vegna þess að viðkomandi veiktist á vitlausum tíma árs þegar fjárheimildir til kaupa á lyfjunum voru búnar eða sem hefur ekki aðgang að réttum tækjum til að greina kvilla sína um að vera fangar hughrifa en ekki raunveruleika er af sama meiði.
Það er kannski til staðar rof milli skynjunar og veruleika. En það á sér ekki til stað hjá hinum veiku, heldur þeim sem eiga að vera að vinna fyrir þá.