Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir frá því 14. desember með tilheyrandi tjóni fyrir efnahagslífið og þá ekki síst helstu sjávarútvegspláss landsins. Atvinnuleysi og erfiðleikar fylgja því eðlilega þegar sjávarútvegurinn er tekinn úr sambandi.
Það sem heyra má af útgerðarmönnum og sjómönnum er það, að beggja megin eru miklar áhyggjur af stöðu mála og viljinn til að leysa úr deilunni er til staðar. Það eitt og sér er góð byrjun, en sumt af því sem hefur verið borið á borð í umræðunni um þessa deilu, einkum af hálfu útgerðarfyrirtækjanna, hefur ekki verið boðlegt.
Ríkissáttarsemjari er farinn að reyna að leysa úr deilunni, en án árangurs til þessa.
Samkvæmt útreikningum Sjómannasambandsins kosta kröfur sjómanna útgerðina um 3 milljarða á ári. Samkvæmt útreikningum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er kostnaðurinn hins vegar um fjórir milljarðar. Þarna munar um milljarði á ári, eins og greint var frá í frétt RÚV í vikunni.
Þetta kemur ekki á óvart, og það væri öllum til góðs ef deilur sem þessar færi fram fyrir opnum tjöldum, þar sem kröfur yrðu birt jafn óðum. Áróðursstríðið yrði þá hálf tilgangslítið og meiri áherslu á efnisatriðin sjálf í fjölmiðlaumfjöllun.
Að grunni til vilja sjómenn fá meiri hlutdeild í arðseminni sem hefur verið í sjávarútvegi. Þeir telja sig hlunnfarna, og benda margir hverjir á það að útgerðirnar séu með bólgna sjóði eftir mesta góðæristímabil í sögu sjávarútvegsins á undanförnum átta árum.
Grundvallaratriðin í kröfum sjómanna eru þessi, til einföldunar sagt: ókeypis klæði, ókeypis fæði, ókeypis fjarskipti innan ákveðinna marka, og að útgerðin bæti sjómannaafslátt sem stjórnvöld felldu niður og að olíuverðsviðmiði verði breytt þannig að sjómenn fái aukinn hlut í aflaverðmæti.
Útgerðarfyrirtækin telja of langt gengið. Þau vilja halda sínu eða fá meira.
Digrir sjóðir
Það er óþarfi að rekja það í smáatriðum hvernig útgerðarfyrirtækin - einkum þau stærstu - standa en eftir mikla velgengni á undanförnum árum eru sjóðir þeirra digrir.
Hjá tveimur stærstu fyrirtækjunum er staðan svona:
Samherji, það glæsilega fyrirtæki, var með um 70 prósent eiginfjárhlutfall í lok árs 2015 og eigið fé upp á meira en 70 milljarða króna.
HB Grandi er nú með eiginfjárhlutfall upp á 62 prósent. Eigið féð nemur um 35 milljörðum og reksturinn hefur gengið vel á síðustu árum.
Á síðustu árum hefur fjárhagsleg staða þessara fyrirtækja styrkst verulega og sjóðsstaðan er sterk, svo ekki sé meira sagt.
Heildarmyndin er sú að framlegð hefur verið mikil í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum, skuldir verið greiddar niður og fjárfestingar hafa verið að aukast. Eigið fé hefur aukist um 300 milljarða króna frá því árið 2008.
Þetta er nefnt sérstaklega til að benda á að útgerðarfyrirtækin geta beðið miklu lengur og hafa til þess digra sjóði. Þau vita samt að verkfallið stórskaðar íslenskan sjávarútveg og nú þegar eru byrjaðar að lokast leiðir inn á markaði.
Staðan er mjög alvarleg og fórnarlömbin eru ekki aðeins deiluaðilar og starfsfólk í landi - harðduglegt og ósérhlífið eins og það hefur orð á sér fyrir - heldur líka allur almenningur á Íslandi.
Það að loka á gjaldeyrisinnstreymi frá sjávarútvegi inn í landið er augljóslega til þess fallið að grafa undan hagkerfinu. Rúmar sex vikur með þá stöðu er alltof langur tíma og augljóslega eru höggin þyngst fyrir þau fyrirtæki sem hafa veikustu stoðirnar og minnsta úthaldið.
Einmitt þess vegna ættu stóru útgerðirnar nú að finna til ábyrgðar og beita sér fyrir því að leysa deiluna. Boltinn er ekki hjá stjórnvöldum, svo mikið er víst.
Þau eru ekki aðili að deilunni og vonandi kemur það ekki til greina, með neinum hætti, að blanda inn í þessa deilu stefnu stjórnvalda þegar kemur að veiðigjöldum eða öðrum þáttum sem snúa að gjaldtöku greinarinnar. Stefna nýrrar ríkisstjórnar er reyndar alveg óljós í þessum efnum, en það er algjört lágmark að stjórnvöld skipti sér ekkert af þessari deilu og að stefnunni þegar kemur að gjaldtöku eða öðru slíku sé með engum hætti blandað saman við deiluna.
Framan af henni barst talið ótt og títt að gengi krónunnar, en blessunarlega eru þær raddir þagnaðar að mestu, enda tengist deilan því ekkert. Útgerðarfyrirtækin og sjómenn lifa í gengissveifluheiminum í rauntíma og óþarfi að færa deiluna í þann arfavitlausa farveg að gera gengi krónunnar að aðalatriði hennar. Það þekkja allir skaðann af þessum stanslausu gengissveiflum og hvernig þær færa til auð í hagkerfinu.
Sjómenn hafa augljóslega ekki sama úthald og stærstu eigendur útgerðarfyrirtækjanna sem eru milljarðamæringar. Þetta er ekki atriði sem á að líta framhjá, heldur þvert á móti að taka tillit til.
Gefið eftir
Útgerðarfyrirtækin eru flest með góða eigendur og stjórnendur sem vilja sjávarútvegnum vel, alveg óháð deilum um ýmis atriði sem snúa að fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það verður ekki annað séð en að þau verði að stíga inn í þessa deilu, taka tillit til krafna sjómanna að langmestu leyti og halda áfram að vinna eftir þeirri stöðu.
Það mun þýða að eigendur útgerðarfyrirtækjanna fá minna í vasann úr rekstrinum og sjómenn aðeins meira. Sjávarútvegurinn stendur samt eftir sterkur. Engar dramatískar breytingar verða á því hvernig afkomunni er skipt, svo því sé til haga haldið, og reyndar fullt tilefni til að færa einnig hluta af miklum ávinningi eigenda útgerðarfyrirtækjanna til fólks sem vinnur í vinnslu í landi. En það er önnur saga sem mætti taka upp síðar.