Við erum uppi á tímum sem flestar lifandi kynslóðir hafa ekki upplifað áður. Það er raunveruleg hætta á því að grundvöllur vestrænnar heimsmyndar, sem Bandaríkin hafa byggt upp og hefur tryggt frið og gríðarlegar lífsgæðaframfarir í hinum vestræna heimi undanfarna áratugi, geti liðast í sundur. Sú heimsmynd hvílir á alþjóðasamvinnu, fríverslun, auknum mannréttindum, uppbyggingu velferðarkerfa og lýðræði. Það er margt að innan þeirrar heimsmyndar og gríðarlega margt sem í henni má laga. En sem rammi utan um líf okkar þá er hún það langbesta sem er í boði.
Það er enginn vafi á því að ríkisstjórn Donald Trump ætlar sér að reyna að gjörbreyta heiminum. Það er beinlínis hennar helsta stefnumál að setja hagsmuni Bandaríkjanna alltaf í fyrsta sæti. Í því felst að segja upp fríverslunarsamningum og setja upp tollamúra, veikja alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu Þjóðirnar og jafnvel NATO og hindra mjög frjálst flæði fólks inn í landið. Í stjórn landsins eru að veljast einstaklingar sem hafna þróunarkenningunni, vilja afnema lög sem koma í veg fyrir að trúarsamtök taki beinan þátt í stjórnmálum, trúa ekki á raunveruleika loftslagsbreytinga og telja að löglegir (athugið ekki ólöglegir) innflytjendur séu eitt helsta vandamál Bandaríkjanna. Fyrir þessum hópi fer Steve Bannon, æðsti ráðgjafi Donald Trump. Stjórnmálamarkmið Bannon er glundroði. Þann glundroða vill hann síðan nota til að endurskipuleggja þjóðfélagsskipulag Bandaríkjanna, og heimsins. Bannon, ekki Trump, er á forsíðu nýjustu útgáfu Time-tímaritsins þar sem fyrirsögnin er „The great manipulator“. Í umfjöllun tímaritsins er því síðan velt upp hvort Bannon sé annar valdamesti maður í heimi.
Sannleikurinn skiptir engu máli
Þessi hópur hefur einungis setið að völdum í um þrjár vikur og áhrif hans á heimsmynd okkar eru rétt að byrja að koma fram. Þau áhrif munu teygja sig til Íslands. Það er óumflýjanlegt sökum þess að Bandaríkin eru orðin einn okkar helsti tekjuöflunarmarkaður vegna fjölda ferðamanna sem þaðan koma, vegna þess að örríki eins og okkar verður að treysta á alþjóðlegt samstarf til að tryggja hagsæld og öryggi og vegna þess að nýjar stefnur í stjórnmálum finna sér oftast farveg á fleiri stöðum en bara þar sem þær eru upprunnar.
Það er enginn vafi á því að kjarninn í stefnu Trump-stjórnarinnar er að virða staðreyndir að engu. Valkvæðar staðreyndir (e. alternative facts) eru notaðar til að réttlæta allar gjörðir. Svo það sé undirstrikað þá eru valkvæðar staðreyndir ekkert annað en skáldskapur. Í grunninn snýst aðferðarfræði þeirra sem aðhyllast valkvæðar staðreyndir um það að ef þér finnst eitthvað, þá er það jafn rétt og jafnvel réttara en það sem hægt er að sýna fram á með gögnum eða annars konar staðreyndum.
Þegar Kellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Trump, notaði hugtakið fyrst þá var það í tengslum við hversu margir hefðu mætt á athöfnina þegar Trump sór embættiseið. Tilefnið var kjánalegt vegna þess að hún var að rífast við staðreyndir sem umsjónarmenn garðanna þar sem áhorfendur söfnuðust saman og sem almenningssamgönguyfirvöld í Washington höfðu sett fram. Særindi Trump gagnvart því að miklu færri hefðu mætt að sjá hann sverja embættiseið en horfðu á Obama gera það voru eiginlega tragikómísk. En þau hræddu mann ekki.
Það sem hræðir mest
Það hafa hins vegar mörg önnur verk forsetans og nánasta samstarfsfólks hans undanförnum dögum gert. Þar má nefna vanstillt símtal Trump við forsætisráðherra Ástralíu, samskipti hans við ráðamenn í Mexíkó, linnulausar árásir hans á fjölmiðla og sífelldar rangfærslur í fullyrðingum á opinberum vettvangi. Þrjú dæmi standa þar upp úr. Fyrst ber að nefna fullyrðingu Conway um Bowling Green-fjöldamorðin (e. The Bowling Green Massacre) þegar hún var að rökstyðja stefnu ríkisstjórnarinnar gegn hryðjuverkum. Hún fór með þá fullyrðingu þrívegis í fjölmiðlum. Það hafa aldrei nein fjöldamorð átt sér stað í Bowling Green. Nokkru sinni.
Næst er fullyrðing Trump á fundi með nokkrum fógetum í gær um að morðtíðnin í Bandaríkjunum væri sú hæsta í 47 ár. Fjölmiðlar segðu bara ekki frá því. Staðreyndin er hins vegar sú, samkvæmt tölum frá bandarísku alríkislögreglunni FBI, að morðtíðnin er nálægt því lægsta sem hún hefur mælst í hálfa öld. Morðtíðnin 2015 var 4,9 morð á hverja 100 þúsund íbúa. Árið 1980 var hún 10,2 á hverja 100 þúsund íbúa.
Þriðja og síðasta fullyrðingin er kannski mest lýsandi. Trump tísti í fyrradag að allar skoðanakannanir sem væru neikvæðar fyrir hann væru „falskar fréttir“. Í þessari afstöðu felst kjarninn í Trump. Það sem honum finnst er satt. Annað eru bara árásir og rugl.
Staðleysur um múslimabann
Alvarlegasta aðgerð Trump er auðvitað tilskipun hans um að meina fólki frá völdum múslimalöndum um að koma til Bandaríkjanna. Til að undirbyggja umræðu um það er nauðsynlegt að halda nokkrum staðreyndum til haga.
Í fyrsta lagi sagði Trump í desember 2015 að hann vildi banna komu múslima til Bandaríkjanna. Sú boðun náði yfir alla múslima. Þeir sem halda því fram annars vegar að auðvitað hafi Trump staðið við það sem hann lofaði en hins vegar að tilskipun Trump sé beint gegn hryðjuverkamönnum, ekki múslimum, eru fastir í rökvillu.
Þetta var eftir árásirnar í San Bernadino (sem voru framkvæmdar af bandarískum ríkisborgara og pakistönskum ríkisborgara með landvistarleyfi í Bandaríkjunum, en Pakistan er ekki á bann-lista Trump). Fyrir rúmum þremur vikum síðan kom Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar, í viðtal á Fox sjónvarpsstöðina og sagði frá því að Trump hefði hringt í sig og spurt hvernig hann gæti löglega komið á „a muslim ban“. Giuliani og aðrir ráðgjafar sögðu honum að einbeita sér að „danger“ frekar en trú til að geta bannað komu múslima. Þessi ummæli Giuliani eru mjög mikilvægt gagn í þeim málsóknum sem höfðaðar hafa verið gegn ákvörðun Trump. Samkvæmt þessari yfirlýsingu Giuliani, sem er mikill Trump stuðningsmaður og þótti lengi líklegur til að sitja í ríkisstjórn hans, er tilgangur bannsins að banna komu múslima til Bandaríkjanna.
Í öðru lagi er ítrekað fullyrt að Trump sé einfaldlega að fylgja eftir stefnu sem Obama hafi mótað í sinni forsetatíð. Þetta er rangt. Það sem Obama-stjórnin gerði árið 2011 var að kalla eftir endurskoðun á því sem kallast „a special immigrant Visa“. Þetta voru vegabréfsáritanir sem hópur Íraka sem hafði hjálpað Bandaríkjunum í Írakstríðinu gat sótt um til að komast til Bandaríkjanna. Um var að ræða mjög þrönga endurskoðunartilskipun sem hægði á innflæði þeirra flóttamanna sem sóttust eftir þessari áritun. Endurskoðunin var í gildi í hálft ár og ástæðan var sú að tveir Írakar sem höfðu komist inn í Bandaríkin með þessum hætti voru handteknir í Bowling Green í Kentucky vegna gruns um að þeir væru að skipuleggja hryðjuverkaárásir. Þetta má, og á, að gagnrýna. En þessi endurskoðun á ekkert sameiginlegt með tilskipun Trump.
Í þriðja lagi nær skipun Trump til sjö landa. Þótt fyrri ríkisstjórnir Bandaríkjanna hafi skilgreint þessi lönd þannig að hryðjuverkamenn geti komið frá þeim þá hafa þær aldrei skilgreint alla þegna þeirra sem ógn. Og það má alveg minna á það að enginn hryðjuverkamaður sem framið hefur skilgreind hryðjuverk í Bandaríkjunum frá 11. september 2001 (engin hryðjuverkamannanna sem framkvæmdu þá árás voru heldur frá löndunum sjö, flestir voru frá Sádí-Arabíu) eru frá löndunum sjö. Svo má benda á það að fleiri eru drepnir í Bandaríkjunum á ári af vopnuðum kornabörnum en af hryðjuverkamönnum. Þannig að hættan af hryðjuverkum er ekki beint yfirvofandi.
Tilskipun Trump nær til allra íbúa landanna sjö og allra þeirra sem eru með tvöfalt ríkisfang (m.a. íslensks Taekwondo-keppnismanns). Hún náði meira að segja til fimm ára gamals sonar íranskra innflytjenda sem er fæddur í Bandaríkjunum. Þótt ofangreindir hafi á endanum fengið að fara inn í landið eftir dúk og disk (og gríðarlega fjölmiðlaumfjöllun og alþjóðlegan þrýsting) þá náði tilskipunin samt yfir þá.
Í henni fólst líka lokun flóttamannamóttökukerfis Bandaríkjanna í 120 daga. (Bandaríkin undir stjórn Obama bera mikla ábyrgð á því ömurlega ástandi sem ríkir þar, og því má færa mjög sterk rök fyrir því að ef Bandaríkjamenn ættu að taka við einhverjum flóttamönnum þá væru það Sýrlendingar) og ákvörðun um að minnka fjölda þeirra flóttamanna (sama hvaðan þeir koma) á árinu 2017 úr 110 í 50 þúsund. Það er ekki bara afbökun heldur beinlínis rangt að blanda stefnu Obama saman við það sem Trump er að gera.
Í fimmta lagi hafa ISIS og fleiri hryðjuverkahópar fagnað tilskipun Trump, kallað hana „A blessed ban“ á samfélagsmiðlum og borið áróðursgildi hennar saman við Íraksstríðið.
Íslensk meðvirkni
Þrátt fyrir að forseti Bandaríkjanna sé að haga sér með fordæmalausum hætti gagnvart sannleikanum, heimahaganum og umheiminum gætir meðvirkni í garð Trump og skýringa hans hérlendis. Sú meðvirkni hefur meðal annars birst tvívegis í leiðaraskrifum Morgunblaðsins, í skrifum háskólaprófessors á samfélagsmiðlum, í orðum þingmannsins Óla Björns Kárasonar og í viðtali við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra á sunnudag. Skrif leiðarahöfundar Morgunblaðsins og helstu aðdáenda hans ættu ekki að koma mikið á óvart. Flest sem kemur úr þeim ranni eru einfeldningslegir frasar byggðir á yfirborðskenndri henti-þekkingu og vanalega tekst að koma annað hvort RÚV, Evrópusambandinu eða Pírötum að hvert svo sem umræðuefnið er.
Bjarni er hins vegar forsætisráðherra heillar þjóðar og ber allt annars konar ábyrgð gagnvart þjóðinni sem hann vinnur fyrir. Hann sagði í Silfrinu á sunnudag að honum fyndist „ekkert að því í sjálfu sér að það komi fram á sjónarsviðið af og til einstaklingar sem eru ekki alveg steyptir úr sama mótinu og allir fyrirrennarar[...]mörg af hans vinnubrögðum bera þess merki, hann er ekki mjög diplómatískur forseti. Mér finnst alltof snemmt hins vegar að fara að fella þessa stóru dóma sem eru gerðir um hans forsetastefnu.“
Donald Trump er ekki einhver spéfugl. Hann er ekki Jón Gnarr að lofa ísbirni í Húsdýragarðinn. Hann, og samstarfsmenn hans, hafa opinberað sýn sem er bein ógn við heiminn eins og við þekkjum hann. Þeir ljúga ítrekað, hóta, bera enga virðingu fyrir staðreyndum, standa gegn mannréttindum sem við teljum sjálfsögð, ráðast gegn fjölmiðlum og miklar líkur eru á því að tilskipunin um múslimabannið sé brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Ekki normalísera rugl
Völdum og valdastöðum fylgir ábyrgð. Þótt engum detti í hug að litla Ísland sé að fara að snúa niður Bandaríkin með neinum hætti á vettvangi alþjóðastjórnmála þá er lágmarkskrafa að valdafólk hérlendis sé ekki pikkfast í afstöðuleysi gagnvart þeirri mannlegu hnignun sem á sér stað með veru Trump á forsetastóli og hegðun hans þar. Það er ekki í lagi að mismuna eftir trú. Það er ekki í lagi að ljúga. Það er ekki í lagi að beita sér gegn mannréttindum. Það er ekki í lagi að hundsa staðreyndir og það er ekki í lagi að hóta fjölmiðlum eða heilu löndunum ítrekað á Twitter. Og það er sannarlega ekki í lagi fyrir íslenska ráðamenn að normalisera slíkt með óskiljanlegri meðvirkni.
Slík meðvirkni valdra fjölmiðla, háskólaprófessora og stjórnmálamanna smitar nefnilega út frá sér. Ef valdafólkið í samfélaginu er farið að segja opinberlega að rugl sé í lagi þá fara aðrir hópar samfélagsins að telja það líka. Það er þegar farið að sjá þess merki í umræðunni. Í aðsendri grein eftir fyrrverandi framkvæmdastjóra sem birtist í Morgunblaðinu í morgun segir t.d.: „Svo í lokin þá erum við kristin þjóð og ég sem kristinn maður hef lítinn áhuga á að fylla hér allt af einhverjum múslimum, en mér sýnist þjóðin stefna hraðbyri í að verða múslimum að bráð.“ Í þessari stuttu setningu er að finna rasisma, valkvæðar staðreyndir, mismunun, hræðslu og mannlega hnignun. Allt það sem skóp Donald Trump og gerði hann að forseta Bandaríkjanna.