Útgerðarmaður spurði mig nýverið: „Af hverju hatarðu sjávarútveg?“ Ástæðan var fréttaflutningur Kjarnans af kröfum útgerðarmanna um að ríkið leysti kjaradeilur þeirra við sjómenn. Í kjölfarið þurfti ég að útskýra að svo væri ekki og að það væri fjarstæðukennd nálgun að álykta sem svo bara vegna þess að fjölmiðill fylgdi ekki línu útgerðarmanna í málinu.
Raunar finnst mér íslenskur sjávarútvegur magnaður. Atvinnugreinin var lengi vel eina alvöru gjaldeyrisskapandi stoðin undir íslenskum efnahag og hefur átt gríðarlegan þátt í þeim lífskjaraframförum sem orðið hafa á Íslandi undanfarna áratugi. Í stéttinni vinnur mjög hæft fólk sem tekist hefur að hámarka tekjurnar sem hægt er að fá fyrir nýtingu þjóðarauðlindarinnar án þess að ganga á sjálfbærni hennar. Árangurinn er einstakur á heimsvísu.
Á síðustu árum, á meðan að íslensk þjóð hefur tekist á við erfiða uppbyggingu eftir efnahagshrun, hefur sjávarútvegur átt sín bestu ár. Lágt gengi krónu, lágt heimsmarkaðsverð á olíu og koma makríls inn í íslenska lögsögu hefur skipt þar miklu máli. Sá gangur hefur, að undanskildu vexti í ferðaþjónustu, verið ein helsta ástæða þess að efnahagsbatinn hefur verið jafn hraður og raun ber vitni. Þrátt fyrir þetta þá er greinin ekki yfir gagnrýni hafin og margt í framferði þeirra sem fara fyrir henni sem er verulega ámælisvert.
Þótt sjávarútvegsfyrirtækin virðist oft tala einu máli í gegnum Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS, áður LÍÚ) þá er geirinn samansettur úr ansi ólíkum öngum. Sjómannaverkfall eins og það sem nú stendur yfir bitnar annars vegar langverst á litlum fyrirtækjum sem byggja afkomu sína á veiðum og vinnslum og hins vegar þeim sem eru í verkfalli, sjómönnunum sjálfum. Sjóðir þessara aðila eru nánast tómir nú þegar. Stóru útgerðirnar, sem eiga tugi milljarða hver í eigin fé, geta hins vegar auðveldlega beðið lengur eftir því að fá það sem þær vilja úr kjaraviðræðunum. Þær munu hvort eð er veiða allan þann fisk sem þau hafa kvóta til. Og gætu jafnvel fundið frekari viðskiptatækifæri í kaupum á rekstri þeirra sem hafa ekki frekara úthald.
Vilja „leiðréttingu“ fyrir sjómenn
Nú liggur fyrir að útgerðarmenn vilja að ríkið leysi kjaradeilu þeirra við sjómenn. Þar kemur tvennt til greina: annars vegar lagasetning á verkfall þeirra eða hins vegar að ríkið veiti sjómönnum skattafslátt af hluta launa sinna, og taki þar með þátt í því að greiða laun þeirra. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, skrifar grein í Morgunblaðið á fimmtudag þar sem hún segir það vera dylgjur að útgerðir séu að fara fram á að ríkið taki þátt í að greiða laun sjómanna. Samt eru uppi kröfur um að þeir greiði ekki skatt af fæðispeningum og dagpeningum vegna ferða- og dvalarkostnaðar. Heiðrún Lind segir að „leiðrétting þessa óréttlætis er forsenda þess að kjarasamningar verði undirritaðir.“ Það liggur því fyrir að útgerðarmenn munu ekki samþykkja kjarasamning nema að að ríkið gefi frá sér tekjur. Og ef ríkið gefur frá sér tekjur, þá er ríkið að taka þátt í greiðslu launa.
Það er enginn vafi um að svona er þetta. Tekjur ríkisins minnka og tekjur sjómanna aukast. Þannig aukast álögur annarra skattgreiðenda eða féð sem á að standa undir ríkisrekstrinum dregst saman. Þetta er bara staðreynd. Um þetta ætti ekki að þurfa að rífast og að halda öðru fram er bara orðhengilsháttur. Að kalla þetta dylgjur eða „leiðréttingu“ er í besta falli kostulegt.
Útgerðin ber fyrir sig að ríkisstarfsmenn og flugáhafnir fái að draga gisti- og fæðiskostnað frá greiddum dagpeningum vegna ferðalaga og nota það sem rök fyrir því að sjómenn eigi að fá það líka. Í fyrsta lagi eru sjómenn ekki ríkisstarfsmenn, heldur starfsmenn einkageira sem átti 220 milljarða króna í eigið fé í árslok 2015 eftir að hafa greitt eigendum sínum rúma 54 milljarða króna í arð á nokkrum árum. Það er ekki hægt að bera kjör sjómanna saman við kjör ríkisstarfsmanna eða getu eigenda útgerða til að greiða laun við getu ríkissjóðs.
Það er ekki ný taktík hjá útgerðarmönnum að benda á að flugáhafnir fái skattagrið af dagpeningum sínum. Þetta var baráttuvopn hjá LÍU árum saman við að viðhalda sjómannaafslætti. Og það má vel vera að það sé ósanngjarnt að flugáhafnir fái skattfrjálsa dagpeninga. En það er hins vegar í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra. Þingmönnum er í lófa lagt að breyta þeirri stöðu með lagabreytingu ef þeir vilja. Varðandi sjómenn þá liggja hins vegar fyrir úrskurðir yfirskattanefndar um að í útgerð og sjósókn felist ekki tilfallandi ferðir utan vinnustaðar í skilningi skattmatsreglna. Þess vegna kemur ekki til greina að að heimila skattdrádrátt af fæðingspeningum sjómanna.
Nýtt útlit en sömu hagsmunir
Þótt samtök útgerðarmanna hafi gengið í gegnum andlitslyftingu með því að breyta nafninu sínu úr LÍÚ í SFS og fýldum svart hvítum Friðriki í fyrst nútímalegan Kolbeinn í lit, og svo Heiðrúnu Lind, þá eru sömu hagsmunir að baki. Að tryggja eigendum stærstu útgerða landsins sem mesta arðsemi af nýtingu þjóðarauðlindarinnar. Á undanförnum árum hefur þessi hagsmunabarátta tekið á sig ýmsar myndir. Flotanum var siglt í land 2012 til að mótmæla töku veiðigjalda sem renna í samneysluna. Árið 2015 var settur í gang gríðarlegur þrýstingur um að Ísland hætti stuðningi við viðskiptaþvinganir gegn Rússum og tæki með því hagsmuni útgerðarinnar fram yfir siðferðislega afstöðu með mannréttindum, með fullveldi sjálfstæðra þjóða, með vestrænu varnarsamstarfi, aðra viðskiptalega hagsmuni Íslands á innri markaði Evrópu og réttlæti. Og nú er krafan sú að ríkið leysi kjaradeilu við sjómenn með því að taka á sig hluta kostnaðarins við það.
Fyrir utan SFS hafa útgerðarmenn tvær leiðir til að koma kröfum sínum á framfæri. Sú fyrri er í gegnum stjórnmál. Enginn einn atvinnuvegur veitir jafn miklu fé í styrki til stjórnmálaflokka og -manna og sjávarútvegur. Þar er aðallega um að ræða stórútgerðir og tengd félög. Það kemur líkast til fáum á óvart að níu af hverjum tíu krónum sem útgerðir veita til stjórnmálaflokka fari til Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þeirra tveggja flokka sem sögulega hafa staðið vörð um hagsmuni sjávarútvegs framar öðrum hagsmunum.
Seinni leiðin er í gegnum Morgunblaðið, stærsta áskriftardagblað landsins. Útgerðarmenn og tengdir aðilar eiga 96 prósent í blaðinu og hafa sett að minnsta kosti 1,2 milljarð króna inn í reksturinn. Blaðið hefur auk þess fengið 4,5 milljarða króna afskrifaða síðan að þeir keyptu það árið 2009. Samt hefur útgáfufélag Morgunblaðsins tapað 1,5 milljarði króna hið minnsta.
Morgunblaðið nýtur þeirrar sérstöðu í íslenskum fjölmiðlaheimi að vera eini fjölmiðill Íslands sem er með yfirlýst pólitísk markmið. Nokkur konar stefnuskrá. Hún var opinberuð í viðtali við Óskar Magnússon, fyrrverandi útgefanda blaðsins, á Hringbraut í desember síðastliðnum. Þar sagði Óskar að eigendur blaðsins hafi viljað fá „öðruvísi tök á þjóðfélaginu“ í þremur málum. „Það var Icesave fyrst og fremst, ESB og svo sjávarútvegsmál. Við vitum árangurinn af Icesave og ég þakka það Morgunblaðinu mjög. Við vitum hvar ESB er statt, sjávarútvegsmálin eru enn í óvissu og uppnámi.“ Við þetta má bæta fjórða markmiðinu, sem var að tryggja að vinstristjórn eftirhrunsáranna myndi ekki sitja áfram, og því fimmta, að koma í veg fyrir breytingar á stjórnarskrá. Þar skiptir meðal annars miklu máli að ákvæði um að náttúruauðlindir, þar með talinn fiskurinn í sjónum, séu þjóðareign.
Fyrir þessari stefnu er barist á hverjum degi á vettvangi Morgunblaðsins, jafnt í öllu ritstjórnarefni og völdum fréttaskrifum.
Hatar einhver sjávarútveg?
Það má segja að þessi fjárfesting útgerðarmannanna hafi skilað 100 prósent árangri. Ekki var samið um Icesave og það mál leystist á endanum farsællega, vinstri stjórnin hrökklaðist frá sem lúbarin minnihlutastjórn, Evrópusambandsumsóknin var eyðilögð, stjórnarskráin stendur óhreyfð og hagsmunir útgerðarmanna hafa að mestu verið rækilega tryggðir. Engar breytingar hafa verið gerðar á sjávarútvegskerfi sem klýfur þjóðina í herðar niður, veiðigjöld voru lækkuð stórkostlega á sama tíma og geirinn gekk í gegnum sín bestu ár og engin önnur leið til að ná sátt um sanngjarnt afgjald fyrir nýtingu á sameiginlegri auðlind er á borðinu.
Ég hata ekki sjávarútveg. Það er í raun fjarstæðukennd hugmynd að hata atvinnuveg, sérstaklega slíkan sem færir okkur öllum aukin lífsgæði. En mér líkar ekki frekja, hótanir, tilætlunarsemi og yfirgangur þeirra útgerðarmanna og fulltrúa þeirra sem tala fyrir hönd greinarinnar. Og mér líkar ekki þau gríðarlegu ítök og áhrif sem þeir hafa á stjórnmál, viðskipti, fjölmiðlun og efnahagsmál á Íslandi í krafti valda sem auður byggður á nýtingu á þjóðarauðlindar hefur fært þeim.
Ef gæslumenn þjóðarauðlindarinnar geta ekki fundið leiðir til að skipta arðsemi hennar á milli sín og starfsmanna sinna, og nýta ekki auðlindina til að skapa tekjur fyrir þjóðarbúið í tvo mánuði, þá ætti ríkið kannski að skoða það að finna nýja gæslumenn. Það væri aðkoma ríkis sem myndi mögulega njóta stuðnings almennings.