Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, var til viðtals í Washington Post og Foreign Policy í lok janúar síðastliðinn og greindi þar frá framþróun á utanríkisstefnu landsins. Þessi fimm milljóna vinaþjóð og frændþjóð Íslands á Norðurlöndum hefur tekið það stóra skref að tilnefna sérstakan sendiherra Dana gagnvart tæknifyrirtækjunum. Þetta á ekki síst við um ýmis álitamál danska ríkisins og Dana almennt sem tengjast fyrirtækjum eins og Google, Facebook, Apple, Microsoft, Cisco, Oracle og Amazon, en þessi fyrirtæki búa yfir gríðarlegu magni af gögnum sem sífellt mikilvægara er að huga betur að í hinu daglega lífi fólks.
Fjárstyrkur þessara fyrirtækja er líka með ólíkindum og er nærtækt að benda á digra sjóði Apple og Microsoft. Apple átti 231,5 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri (Cash on hand), í lok árs í fyrra, og Microsoft 140 milljarða Bandaríkjadala. Samanalagt eiga þessi fyrirtæki, sem að framan eru nefnd, tæplega 600 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri, sem er tæplega 40 prósent af öllu lausafé fyrirtækja í Bandaríkjunum, séu fjármálafyrirtæki frátalin.
Rökrétt skref
Í viðtalinu segir Samuelsen að það sé mat danskra stjórnvalda að mikilvægt sé fyrir Dani að rækta betri tengsl við tæknifyrirtækin stóru sem hafa svo mikil áhrif á líf okkar. Hugsunin sé sú, að framþróa utanríkisstefnuna þannig að hagsmunagæslan sé virk gagnvart stærstu tæknifyrirtækjunum og með tímanum verði komin á tengsl sem geti styrkt samkeppnishæfni Danmerkur. Þetta er rökrétt framhald á stefnu sem Danir hafa unnið eftir til að auka erlenda fjárfestingu í tækniiðnaði, og má nefna 166 þúsund fermetra gagnaver Apple í Viborg á Jótlandi sem dæmi um árangur á því sviði. Starfsmaður Invest in Denmark - eins konar Íslandsstofa þeirra Dana - sem er staðsettur í Sílikondalnum í Kaliforníu vann að því að linnulítið í þrjú ár að koma á tengslum við Apple til að ræða möguleikann á grænu gagnveri í Danmörku. Þetta skilaði árangri að lokum.
Hægt að læra af Dönum
Stefnan sem Samuelsen hefur talað fyrir og þessi skref sem Danir hafa stigið virka skynsamlegt og eitthvað sem við Íslendingar þurfum að gefa gaum. Í okkar agnarsmáa landi eru tæknifyrirtækin áhrifamikil og það mun skipta miklu máli hvernig farið verður með gögnin sem safnast saman hjá þeim. Það þarf að hugsa um þessa hagsmuni, ekki síst þegar kemur að persónufrelsissjónarmiðum og fénýtingu gagna. Nú þegar er sá iðnaður orðinn risavaxinn og alveg öruggt er að aðeins lítill toppur á ísjakanum er farinn að sjást í þeim efnum.
Tengjumst svæðum, ekki löndum
Skref Dana vekur einnig upp fleiri spurningar um framþróun utanríkisstefnunnar. Hið pólitíska landslag í heiminum virðist einnig draga vel fram þær miklu breytingar sem eru að verða á samfélögum, á Vesturlöndum og í Asíu ekki síst. Innan einstakra ríkja eru hávaxtarsvæði þar sem viðskiptasambönd myndast, vöruþróun á sér stað, nýsköpun blómstrar, fjárfestingar eru framkvæmdar og rannsóknir stundaðar. Borgir eru í lykilhlutverki. Í mörgum tilvikum eru hin hefðbundnu pólitísku tengsl, í gegnum viðskiptasamninga og diplómatísk samskipti, ekki endilega rétta leiðin til að tengjast þessum svæðum. Heldur frekar þaulhugsuð markaðssetning og langtímaáætlanir, þar sem einkafyrirtæki og hið opinbera leiða saman hesta sína.
Nefna má helstu vaxtarborgir í Kína, borgarsvæðin á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna, fiskmarkaði í Síle, nýsköpunarsuðupottinn í Stokkhólmi og menningarstarfið í miðborg Berlín, sem dæmi. Þetta eru alþjóðlegir mannlífspottar að grunni til og það þarf að nálgast þá með beinum tengslum á vettvangi, með svipuðum hætti og Danir hafa hugsað nálgun sína að tæknigeiranum.
Vel má hugsa sér að Ísland búi til nýjar sendiherrastöður í framtíðinni sem byggja á þessari nálgun. Þá sendiherra ætti alls ekki að sækja í hóp þingmanna eða embættismanna, heldur miklu frekar beint út á einkamarkaðinn á viðkomandi svæðum.
Stöðurnar gætu til dæmis verið sendiherra Íslands gagnvart tæknifyrirtækjum og sendiherra gagnvart nýsköpunarsvæðum í borgum, þar sem unnið er þvert á landamæri. Því betur sem tekst að rækta tengsl íslensks atvinnulífs við þessa nýju efnahagslegu turna, því betra.
Utanríkisþjónustan finnst mér of oft vera tengd við bruðl í opinberri umræðu. Ég held að það sé ósanngjarnt og einfaldlega ekki rétt. Ef eitthvað er þá er hún líklega undirmönnuð og of veikburða til að geta sinnt fjölþættum verkefnum vel, þó erfitt sé að meta það nákvæmlega.
En hún þarf að framþróast og örríkið Ísland hefur mikil tækifæri þegar kemur að betri tengingum við einstaka markaðssvæði þar sem vörur geta komist á markað, viðskiptatengsl orðið til og þjónusta íslenskra fyrirtækja verið keypt. Við þurfum að huga vel að þessum málum til framtíðar litið og líklega er fátt mikilvægara fyrir komandi kynslóðir en að styrkja þessi alþjóðlegu tengsl.