Ég held með West Ham í knattspyrnu og fyrir mér er það besta lið Englands. Ef ég væri spurður hvort West Ham eða Chelsea væri betra lið þá myndi ég sjálfsögðu svara West Ham. Þetta er afstaða mín, fyrst og fremst vegna þess að það er eindregin von mín og vilji að West Ham sé besta liðið. Til að „sanna“ þessa fullyrðingu þá myndi ég benda á síðasta leik þessara liða sem endaði tvö eitt fyrir Hömrunum. Vísindin myndu nálgast þessa spurningu öðruvísi. Þau myndu skoða stærra úrtak og fleiri mælingar en þessa einu sem ég freistaðist til að nota. Niðurstaða vísindamanna væri, því miður fyrir mig, að mælingar bentu eindregið til þess að Chelsea væri langtum betra lið en West Ham. Vísindi eru nefnilega alls ekki skoðun heldur aðferðafræði. Niðurstöður vísindarannsókna byggja á stöðluðum mælingum sem gefa af sér einhverja útkomu sem hefur ekkert með vonir, þrár eða tilfinningar vísindamannsins að gera. Það eru of margir sem átta sig ekki fullkomlega á hvað vísindi eru í eðli sínu. Það er orðið allt of algengt að fólk tali um að það sé ekki sammála vísindamönnum í hinu og þessu, líkt og vísindaleg framsetning sé einhver skoðun sem hægt er að rökræða og þrátta um.
Það er ósanngjarnt gagnvart vísindum að ætlast til að vísindamenn rökræði niðurstöður á móti persónulegum skoðunum annarra. Vísindamenn eru alltaf í þeirri erfiðu stöðu að grunneðli vísinda setur þeim takmörk um túlkanir og útilokar í raun fullyrðingar. Ef vísindamaður væri spurður hvort liðið væri betra væri svarið hófstillt og varlega orðað t.d. „Niðurstöður mælinga benda eindregið til þess að Chelsea sé talsvert betra lið að jafnaði“. Persónulega gæti ég sjálfur verið mun meira afgerandi og svarað „West Ham er betra lið eins og síðasti leikur sýndi klárlega“. En hvað er ég að blaðra um þetta? Jú um þessar mundir eru ýmsir tækifærissinnar duglegir við að afneita vísindalegum niðurstöðum um mikilvæg mál. Til eru þeir sem t.d. velja kaldasta dag ársins eða einhverja aðra skammtímasveiflu niður á við, til afneita með öllu vísindalegum niðurstöðum um loftslagsbreytingar. Þeir eru líka til sem nota dæmi um rafbíl, sem hlaðinn er með orku frá úreltasta kolaorkuveri heims, sem einhverja „sönnun“ fyrir því að almennt sé lítill munur á heildarútblæstri rafbíls og bensínbíls.
Til að ná mikilvægum framförum í umhverfismálum þá verður fólk, sem velur skynsemi umfram þröngsýni eða sérhagsmuni, að standa með vísindum og berjast fyrir jákvæðum framgangi byggðum á aðferðafræði. Vísindin þurfa hjálp í umræðunni, því ein og sér eru þau berskjölduð. Það er alltaf hægt að koma vísindamanni í erfiða aðstöðu gagnvart allri umræðu með þessari einföldu spurningu: „Getur þú fullyrt að þetta sé svona alltaf?“. Samkvæmt vísindalegri nálgun verður svarið alltaf nei á meðan andstæðingurinn getur fullyrt hvað sem er út frá sinni skoðun eða tilfinningu. Ég er alls ekki að tala um að að fólk hætti að efast og kokgleypi við öllu. Efi er einmitt eitt af grunngildum vísinda og öll vísindavinna eins og stöðlun, stærð úrtaks og endurtekningar snúast um að lágmarka efann. Efinn er svo aftur nýttur til að að lágmarka oftúlkun á niðurstöðum fyrir einstakar rannsóknir. Vísindi eru ekki og verða aldrei fullkomin en þau eru besta aðferðafræðin til að nálgast öll þau viðfangsefni og áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Áfram West Ham!
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.