Donald J. Trump tók við stjórnartaumunum 20. janúar í Hvíta húsinu og hefur gustað um hann og allt hans nánasta samstarfslið, svo ekki sé meira sagt. Hægt er að rekja það í löngu máli, hversu mörg deilumál hafa komið upp frá því Trump tók við, en það er ekki ætlunin að gera það í þessum pistli.
Fjölmiðlar hafa hins vegar staðið sig vel í því að láta Trump, fjölmiðlafulltrúann Sean Spicer, dómsmálaráðherrann Jeff Sessions og fleiri í Trump-stjórninni, ekki komast upp með neitt rugl. Jafnóðum hefur vitleysa verið leiðrétt, en það breytir ekki öllu um stöðuna í hinu pólitíska landslagi í landinu. Þjóðin er klofin.
Blómstrandi hagkerfi á austur- og vesturströndinni leiða í mótmælabylgjunni sem hefur verið gegn Trump og hans orðræðu, og það er frekar að herðast á þeirri afstöðu en hitt. Trump á síðan mikinn stuðning víð, einkum í miðríkjunum. Kannanir sýna að þessi staða hefur ekki breyst svo mikið frá kosningum.
En hvað ætlar Trump sér á næstu fjórum árum og hvernig hafa stefnumálin birst? Mörg mál má nefna en það eru einkum þrjú mál, sem sýna hvert skuli stefnt.
1. Bandaríkin í forgangi. Eitt er alveg öruggt og það er að Trump ætlar sér að setja bandaríska hagsmuni - eins og hann skilgreinir þá - í forgang. „Ráðið Bandaríkjamenn og kaupið bandarískar vörur,“ sagði hann í stefnuræðu sinni. Þá hefur hann talað fyrir því að endursemja við önnur markaðssvæði í heiminum með það í huga að efla starfsemi bandarískra fyrirtækja og skapa fleiri störf í Bandaríkjunum. Margítrekað hefur hann sagt, að störfin muni flytjast til Bandaríkjanna, nóg sé komið af því að störfin hverfi. Skattalækkanir og einföldun á regluverki fjármálageirans á síðan að ýta undir aukinn hagvöxt.
Ennþá hafa hins vegar ekki komið fram ítarlegar tillögur um hvernig stefnan mun birtast í smáatriðum. Um þau snúast nú oft alþjóðaviðskiptin. Margir hafa líst miklum efasemdum um þessi einföldu stefnumál, þar sem bandarískt er skilgreint út frá einhvers konar rómantískri hugmynd um hvað telst bandarískt, fremur en að rýna í það í hverju hagsmunir Bandaríkjanna felast.
Í sæmilegri einföldun má segja, að það eigi eftir að útskýra hvað eru raunverulegir bandarískir hagsmunir, í alþjóðavæddum heimi.
2. Herinn stórefldur. Trump hyggst leita eftir stuðningi þingsins þegar kemur að því að efla Bandaríkjaher. Hann vill auka fjárútlát til hersins um 10 prósent eða sem nemur 54 milljörðum Bandaríkjadala. Það er upphæð sem nemur um 6 þúsund milljörðum króna. Þetta er risavaxinn efnahagsaðgerð fyrir Bandaríkin. Herinn er einn stærsti vinnuveitandi Bandaríkjanna og mikil efnahagsleg áhrif hans, vítt og breitt, innanlands og utan, eru vel þekkt. Trump hefur talað fyrir því að efling hersins standi í beinu samhengi við áherslur hans samfélagslegum verkefnum á landsvísu.
En þessi mikla fjárinnspýting á ekki að gerast öðruvísi en með stórfelldum niðurskurði í ýmsum öðrum verkefnum, þar á meðal í mörgum samfélags- og umhverfismálum. Óhætt er að segja að margir óttist þetta og hvaða áhrif það mun hafa til framtíðar litið. Eins og í mörgum öðrum málaflokkum er þó of snemmt að segja til um hvernig niðurskurðurinn mun birtast og hvaða áhrif hann hefur.
3. Innviðafjárfestingar. Markmiðið hjá Trump er að eyða þúsund milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 106 þúsund milljörðum króna, í innviðafjárfestingar á næstu árum. Það eru meðal annars samgönguframkvæmdir um öll Bandaríkin sem eru þarna undir. Upphæðin kom mörgum á óvart vegna þess hve umfangið er mikið. En það sem kemur líka á óvart er að áætlunin rýmar að miklu leyti við það sem Barack Obama barðist fyrir í bandaríska þinginu, en var aftur og aftur stoppaður af með atkvæðum Repúblikana. Hann talaði um mikilvægi þess að ráðast í innviðafjárfestingar til að styrkja samkeppnishæfni landsins til framtíðar og allt bendir til þess að Trump ætli sér að ná þessu í gegn í þetta skiptið. Demókratar munu hugsanlega styðja þessa áætlun, þó deilt verði um umfang og forgangsröðun.
Hvernig sem mun ganga að hrinda þessu í framkvæmd þá er ljóst að Trump er að taka við góðri stöðu í Bandaríkjunum sé tekið mið af flestum hagtölum. Atvinnuleysi er komið vel undir fimm prósent og í febrúar mánuði sköpuðust 298 þúsund ný störf, sem er mesta starfaaukning í mánuði frá árinu 2015. Þá hafa mörg af framsæknustu fyrirtækjum landsins tilkynnt nýlega um mikil vaxtaráform en þeim mun fylgja mikil starfaaukning í Bandaríkjunum. Janet Yellen seðlabankastjóri hefur auk þess gefið í skyn að framundan sé vaxtahækkunarferli. Er meginástæðan sögð sterkari efnahagur landsins.
Jafnvel þó Trump og hans nánustu bandamenn séu boðberar frelsisskerðingar, fordóma, kvennfyrirlitningar og ýmissa leiðinda, í það minnsta eins og mál horfa við mér, þá bendir fátt til annars en að bjartir tímar séu framundan í efnahagsmálum í Bandaríkjunum. Stórtæk áætlun Trumps er líkleg til að örva hagvöxt þó nokkuð, og staðan þegar hann tók við keflinu af Barack Obama var að mörgu leyti góð og efnahagsbatinn mikill frá fyrri árum. Það er helst að það sé mikil hætta á því að það verði óvarlega farið, og ótemjan á Wall Street vakni til lífsins á nýjan leik í breyttu umsvifaminna regluverki.