Það er óhætt að segja að mikill byr sé í seglum í íslenska hagkerfinu þessi misserin eins og 7,2 prósent hagvöxtur í fyrra er til marks um.
Bjargvættir frá útlöndum
Erlendir ferðamenn hafa togað landið upp úr efnahagsþrengingum og vonandi tekst að hlúa þannig að ferðaþjónustunni að innviðir hennar styrkist og eflist eftir því sem fram líður.
Þessi mikli vöxtur stafar ekki síst af því að Ísland er agnarsmátt og með einn minnsta vinnumarkað veraldar, tæplega 200 þúsund manns. Þegar fjöldi ferðamanna fer úr 450 þúsund í tæplega tvær milljónir á fimm árum, þá er ekki við öðru að búast en að landsframleiðslan vaxi mikið.
Það er ekki sjálfsagt að svo verði áfram. Þrátt fyrir að mest sóttu svæðin fyrir ferðamenn séu með mun betra skipulag nú en þau voru fyrir nokkrum árum, þá þarf að setja miklu meiri fjármuni í að skipuleggja mörg svæði. Þetta á við um þjóðgarða ekki síst.
Nauðsynlegt að bæta samgöngur
Annað mál sem þarf að huga að eru frekari fjárfestingar í samgöngum. Hugmyndir Jóns Gunnarssonar, samgönguráðherra, um að taka upp vegtolla, eru bæði rökréttar og eðlilegar. Útfærslurnar þurfa að vera vandaðar og taka mið af aðstæðum. Horfa má til erlendra fyrirmynda, sem eru fjölmargar. Hér á Seattle svæðinu eru vegtollar algengir innan stórborgarsvæðisins en umferð vex mikið á svæðinu milli ára, eða á bilinu fjögur til fimm prósent. Tæknilegar lausnir eru löngu komnar fram sem hindra að tafir þurfi að vera á umferð.
Það verður að teljast undarlegt hversu margir hafa tjáð sig með neikvæðum hætti um vegtollahugmyndina í ljósi þess veruleika sem hefur verið að birtast okkar upp á síðkastið. Umferð jókst á einu ári á hringveginum um fimmtán prósent, samkvæmt upplýsingum úr 16 umferðarteljurum Vegagerðarinnar um land allt. Það er ekki hægt að deila mikið um þessi frumgögn. Þau segja til um algjöra kúvendingu í þessum málum og það þarf að vinna hratt.
Ríkisstjórnin tók við ófjármagnaðri samgönguáætlun frá fyrri ríkisstjórn og réttilega benti Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, að það væri nú næstum siðlaus ákvörðun að samþykkja áætlunina þannig, einmitt í ljósi mikilvægis þessara verkefna sem þarf að ráðast í. En margt bendir til þess að aukafjárveiting muni komast í brýnustu samgönguverkefnin, meðal annars á Vestfjörðum og Norðausturlandi.
Sjávarútvegurinn og stórir nýjir „vörugluggar“
Þriðja sem stjórnvöld þurfa að gefa gaum ásamt fyrirtækjum í sjávarútvegi er að fylgjast með miklum og örum breytingum sem eru að verða á smásölu í heiminum. Gríðarlega hraður vöxtur netverslunar með ferskvörur, einkum í borgum, gerir kröfu til fyrirtækja um að tengjast nýjum birgjum og mörkuðum. Hjá verðmætasta smásölufyrirtæki heims, Amazon, eru uppi áform um að gjörbylta verslun með ferskvörur.
Sem dæmi um „vöruglugga“ þar sem íslenskan fisk er hvergi að sjá er netverslun Amazon Fresh, mest ört vaxandi ferskumarkaður heims. Þar er þorskur frá Kanada, lax frá Noregi og Síle, en íslenskt sjávarfang hefur ekki sést þar. Vörurnar eru afbragð og áreiðanleikinn í þjónustunni til fyrirmyndar. Þetta get ég staðfest sem notandi.
Framundan er sjávarútvegsráðstefnan í Boston, 19. til 21. mars, þar sem fimmtán íslensk fyrirtæki kynna starfsemi sína fyrir 22 þúsund gestum sem hafa alls konar tengingar við sjávarútveginn. Vonandi tekst að rækta þar sambandið við Bandaríkin, sem er einn stærsti markaður heims fyrir ferskvörur. En fyrirtækin ættu líka að huga að því að tengja sig beint við réttu aðilana sem eru að gjörbreyta verslunarvenjum með nýrri tækni. Því fyrr sem fyrirtæki ná að tengjast við rétta birgja, því betra.
Íslensk fyrirtæki þurfa að tengja sig betur inn á aðra markaði en EES-svæðið. Ef það tekst að opna betur markaði í Bandaríkjunum, Afríku og Asíu, þá gæti það lagt grunninn að traustari áframhaldandi vexti og uppbyggingu en reikna má með frá erlendum ferðamönnum til framtíðar litið.