Við mælum virði okkar og annarra sífellt meira eftir því hversu mikið af fylgjendum, þumlum upp eða hjörtum við fáum á hina samfélagslegu ímynd okkar. Þessi ímynd og hvernig henni er tekið á samfélagsmiðlum er orðinn hinn nýi gjaldmiðill fyrir hamingju í samtímanum. Þrýstingurinn til að skapa sér nógu stórt fylgjendanet og nógu mikið magn af líkingum og samþykktum verður sífellt ágengari. Við viljum vera viðkunnanleg, við viljum að fólk líki við okkur og á þessari tækniöld er ekki nóg að okkar nánustu líki við okkur, í hinu gægjuhneigða samfélagi sem er orðið einkum háð markaðssetningu á sjálfi er nauðsyn að fá samþykki sitt fá stærri fjölda en áður. Við erum í miklu meiri nánd við hvort annað núna vegna samfélagsmiðla, en samt á ákveðinn hátt einnig mun fjarri. Þessi „like“, „fav“ og „follow“ sem móta nánast alla samfélagsmiðlun eru þó ekki einungis mælikvarði á sjálfsvirði einstaklinga heldur spilar það líka inn í að í menningu okkar í dag eru þessar einingar orðnar drifkraftar efnahagslífsins. Hvað á ég við með því? Jú einmitt það að fleiri like virðast vera farin að gefa fleiri möguleika– hvers vegna? Jú því við höfum gildishlaðið merkingu þeirra viðbragða og mikilvægi góðra ímynda sem einkenna samfélagslega miðlun.
Fjöldinn af greinum og rannsóknum sem fjalla um aukinn kvíða vegna samfélagsmiðla og hvaða áhrif gægjuhneigð og tilhneigingar til persónusköpunar hafa á sjálfsmynd og skap einstaklinga fer sívaxandi. Vegna þess hversu nýir miðlarnir eru og það hvernig virkni þeirra og notkunarmöguleikar eru í stöðugri þróun og það á svo stuttu tímabili gerir mönnum þó erfitt fyrir að rannsaka áhrif þeirra almennilega.
Þrýstingurinn eftir fjölda fylgjenda fer vaxandi en samanburðurinn við aðra spilar þar stórt hlutverk. Algengt er, og þá sérstaklega meðal yngri notenda, að fylgja eftir aðgangi annarra einstaklinga sem eru þeim þó gjörsamlega ókunnugir í hinu raunverulega lífi til þess eins að auka við sinn eigin fylgjendafjölda. Frasinn „like for like“ er vinsæll í því samhengi þar sem söfnun okkar á þumlum upp, hjörtum og ummælum verður að mikilvægri sjálfsmarkaðsetningu samtímans. Ef ég er ekki með þriggja stafa tölu á Instagram myndinni minni er hún þá nokkuð að standast væntingar þeirrar dýrkunarmenningar sem heimtar að við séum áberandi, geðþekk og sífellt flottari en næsti maður við hliðina? Best er að vera með stærri fylgjendur heldur en þú sjálfur ert að fylgja eftir. Það merkir víst að þú sért nógu merkileg manneskja fyrir tæknivæddan popp-kúltúrinn.
Samfélagsmiðlar eru í sífellt meiri mæli nýttir sem markaðsetningartæki frægra einstaklinga til að miðla til aðdáenda sinna ákveðnum upplýsingum eða til að skapa eða endurskapa ákveðið viðhorf almennings til sín sjálfra. Sömu sögu má í rauninni segja um hinn „hversdagslega“ notanda, en hver sem er getur nýtt sér þessa miðla í markaðsetningarskyni á sjálfi.
Möguleikinn á að kaupa sér fylgjendur hefur þó opnast en margir bregða á það tiltekna ráð til að skapa sér betri ímynd en vert er að taka fram að sú nýting miðlanna gefur ekki eins mikla samfélagslega vellíðan eins og sú sem kemur frá vaxandi aðdáun sem sprottin er út frá „náttúrulegri“ leiðum. Auðvitað eru margir sem falla ekkert endilega í þennan forarpytt samfélagsmiðlasköpunar og láta sig litlu varða hver skoðar líf þeirra og hverjir ekki en raunin er sú að kynslóðir sem alast upp með þessa miðla allt í kringum sig verða sjálfkrafa háðari þeirri menningu sem þar grasserar. Þannig mætti spyrja sig hvort að menning komandi kynslóða muni litast mun meira af þessu viðhorfi heldur en við sjáum núna í dag.
Símiðlun er orðin mikilvægur hluti af lífi einstaklinga og samfélagslegt gildismat fer í gegnum þessa miðla sem geta ekki annað en fallið undir aðferðir markaðssetningar. Hugmyndin um að meiri lukka fylgi fleiri like-um verður svo föst í hegðanamynstri notenda sem er í rauninni hálf kaldhæðnislegt þegar flestar rannsóknir benda til þess að aukin óhamingja fylgir notkun þeirra.