Ef það er eitt gott lýsingarorð sem lýsir íslensku efnahagskerfi betur en annað þá eru það öfgar. Við erum nánast eins og saga úr biblíunni. Eigum sjö góð ár en svo skellur skyndilega á pest og við sitjum uppi með sjö mögur ár í kjölfar hennar.
Við áttum góð ár í aðdraganda hrunsins. Það var ævintýralegur hagvöxtur, mikil kaupmáttaraukning og ríkissjóður varð því sem næst skuldlaus. Þetta var, líkt og við vitum núna, byggt á lofti og ódýrum erlendum peningum sem streymdu inn í landið í vaxtamunaviðskiptum.
Þegar allt hrundi í október 2008 var bankakerfið orðið tólf sinnum þjóðarframleiðsla. Afleiðingarnar urðu eftirfarandi: hrun gjaldmiðils um tugi prósenta, atvinnuleysi fór í tveggja stafa tölu, ríkissjóður fór úr því að vera nær skuldlaus í að verða gríðarlega skuldsettur, Ísland þurfti að fara í áætlun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eins og þriðja heims ríki til að fá fyrirgreiðslu svo hægt yrði að reka báknið okkar áfram, verðbólga fór í 18,6 prósent, neyðarlög tóku gildi, fjármagnshöft voru sett á og allt traust milli almennings og stofnana samfélagsins nánast hvarf og hefur ekki verið endurheimt.
Næstu ár voru því slæm.
Uppsveifla
Undanfarin ár hafa hins vegar verið efnahagslega góð. Okkur hefur tekist, í skjóli hafta, að leysa úr flestum þeim stóru vandamálum sem við stóðum frammi fyrir. Það tókst að semja við kröfuhafa um lausn á málum slitabúanna með hætti sem allir gátu sætt sig við og sem styrkti stöðu Íslands mjög. Fjölgun ferðamanna úr 500 þúsund í tvær milljónir og koma makríls inn í íslenska landhelgi vegna hlýnunar jarðar hjálpaði mjög til við viðsnúninginn ásamt gengishruni krónunnar sem þýddi að útflytjendur fengu miklu fleiri krónur fyrir evrurnar og dalina sem þeir seldu vöruna sína fyrir. Þessar miklu fleiri krónur notuðust svo til að reka höfuðstöðvar og framleiðslu, og borga laun til þorra þjóðarinnar sem fær jú borgað í krónum.
Afleiðingin er sú að nú erum við að lifa ótrúlegt vaxtarskeið. Hagvöxtur í fyrra var 7,2 prósent. Af þeim ríkjum OECD sem hafa skilað inn hagvaxtartölum fyrir 2016 hefur bara Indland mælst með meiri hagvöxt. Samhliða hefur krónan styrkst gríðarlega hratt og laun í krónum talið hafa hækkað. Á síðasta ári einu saman er áætlað að kaupmáttur hafi vaxið um allt að 15 prósent. Það er um tíu ára eðlileg kaupmáttaraukning tekin út á einu ári. Á árinu 2009 lækkaði kaupmáttur Íslendinga um svipað hlutfall. Þessi tvö ár endurspegla því ágætlega öfgarnar okkar.
Föst í umræðum um hliðarafurðir
Af hverju er þetta svona? Fílinn í herberginu er auðvitað íslenska krónan, sem sveiflast eins og lauf í vindi. Hún er ástæðan fyrir því að hér er verðtrygging en ekki annarsstaðar í heiminum. Hún er ástæðan fyrir því að stýrivextir eru háir hérlendis. Hún er ástæðan fyrir reglulegum verðbólguskotum. Hún er ástæðan fyrir öllum þessum áhuga spákaupmanna úr alþjóðlegum fjármálaheimi á þessu örlitla efnahagskerfi okkar. Þeir vita að í sveiflum hennar leynast mikil tækifæri til að græða mikla peninga ef lagt er undir á réttan lit hverju sinni. Stundum veðja þeir á styrkingu, stundum veikingu. Og svo reyna þeir að hafa áhrif á í hvora áttina gengið sveiflast. Þetta eru helstu aukaverkanir sjúkdómsins sem örgjaldmiðillinn okkar er.
Þegar rætt er um íslensku krónuna þá benda varðmenn hennar oftar en ekki á þann kost að geta látið gengið falla til að rétta við viðskiptajöfnuð á augabragði. Þá þurfi ekki að taka út samdrátt í gegnum til dæmis atvinnuleysi. Hin meginröksemd þeirra er sú að það felist einhvers konar fullveldi í því að reka eigin gjaldmiðil. Það hafi til að mynda gert okkur kleift að grípa til þeirra aðgerða sem gert var haustið 2008 þegar bankarnir féllu. Aðgerða sem á endanum björguðu okkur.
Þetta eru frekar bæði frekar billeg rök. Þau fyrri vegna þess að íslenskt launafólk þarf að taka á sig þá aðlögun sem fellst í gengisfellingu í gegnum kaupmáttarrýrnun. Virði þeirra króna sem það fær borgað rýrnar bara um tugi prósenta, og lífsgæðum þeirra hrakar í takt við það. Á árinu 2009 hafði krónan til að mynda helmingast í virði gagnvart evru frá árinu áður. Samt var atvinnuleysi í tveggja stafa tölu.
Síðari rökin eru enn ódýrari, vegna þess að við blasir að þær aðstæður sem sköpuðu hrunið höfðu allt með gjaldmiðilinn okkar að gera. Tilurð krónu gerði það að verkum að það flæddi ódýrt fjármagn inn í landið í vaxtamunaviðskiptum. Krónan bjó því til vandamálið sem hún leysti.
Evra eða sveiflujafnari
En hvað getum við gert? Flestir sem skoða þetta af einhverri alvöru komast að þeirri niðurstöðu að það er að minnsta kosti tvennt sem við getum gert: Annars vegar getum við gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru með öllum þeim kostum og göllum sem slíku myndi fylgja. Það er þó að minnsta kosti hægt að slá því föstu að slíkt skref myndi skapa stöðugleika í gjaldmiðlamálum og eyða nær öllum ofangreindum aukaverkunum.
Vandamálið við þessa leið er auðvitað sú að Íslendingar vilja ekkert ganga í Evrópusambandið. Það er minnihluti fyrir því á meðal almennings samkvæmt könnunum og það er sannarlega ekki meirihluti fyrir slíku á Alþingi. Við höfum ekki einu sinni komist á þann stað að geta átt vitræna umræðu um þessi mál, heldur fer hún öll fram í upphrópunarstíl frá báðum hliðum. Þeir sem eru mjög á móti Evrópusambandinu mála upp mynd af Evrópusambandinu sem bjúrókratísku gúlagi sem svipti alla innan þess frelsi, lífsvilja og efnahagslegri velsæld. Þeir sem eru heittrúaðastir á inngöngu láta sem Evrópusambandið sé fyrirheitna landið sem leysi öll okkar vandamál. Hvorug myndin er rétt, en á meðan þessi staða er uppi, og umræðan er á þeim stað sem hún er, þá er innganga í Evrópusambandið og upptaka evru ekki möguleiki.
Þá er þann hinn möguleikinn. Í honum felst að breyta peningastefnu landsins frá því að snúast bara um verðbólgumarkmið. Hann krefst aukins aga í hagstjórn, langtímaáætlunagerðar í stað skammtímalausna og síðast en ekki síst í því að stofna einhvers konar sjóð utan efnahagskerfisins sem hægt er að nota til að hita og kæla það þegar við á. Slíkur sjóður þarf að vera mjög öflugur. Norðmenn settu til að mynda á fót slíkan sjóð fyrir væntanlegan olíuauð sinn árið 1990. Um 97 prósent af eignum hans eru utan Noregs. Einn helsti tilgangur sjóðsins er sveiflujöfnunarhlutverk. Þegar harðnar í ári í Noregi er hægt að nota hann til að koma í veg fyrir efnahagsáfall. Þ.e. hann dregur úr öfgum.
Íslendingar reka líkt og Noregur auðlindadrifið hagkerfi. Stoðirnar undir okkar hagkerfi eru fjórar. Þrjár þeirra: sjávarútvegur, orkubúskapur og ferðaþjónusta, eru auðlindastoðir. Sú fjórða er síðan allt hitt.
Þessar verðmætu auðlindir veita okkur gríðarlegt forskot á flest lönd. Ef við værum fyrirhyggjusöm og gætum hugsað til lengri tíma þá myndum við nota þessar stoðir til að undirbyggja fyrirmyndarsamfélag sem sniðið væri að þörfum fólksins sem hér býr. Þar sem þjónustustig væri viðunandi, innviðir frábærir og atvinnulífið þróaðist í takt við menntunarvilja þjóðarinnar. Og síðast en ekki síst þar sem sanngjarnt afgjald væri tekið fyrir nýtingu auðlinda sem notað væri allri þjóðinni til heilla. En við Íslendingar erum ekki skipulagðir heldur lifum í núinu og viljum leyfa þeim sem fá að nýta auðlindirnar okkar að verða ríkir á evrópskan mælikvarða. Svo söfnumst við saman með útréttar hendur og vonumst við til þess að persónulegur auður þeirra á nýtingu þjóðarauðlindar skili brauðmolum til okkar hinna.
Íslendingar kunna heldur ekki að plana. Við kunnum bara að bregðast við. Þess vegna hefur okkur ekki borið gæfu til að taka almennilega rentu af þeim sem hafa fengið að nýta þessar auðlindir okkar, t.d. til að safna saman í auðlinda- eða stöðugleikasjóð sem hægt yrði að nota þegar harðnaði í ári og nauðsynlegt væri að draga úr sveiflum.
Þess vegna sitjum við uppi með fúna innviði. Þegar við hefðum átt að hita hagkerfið með innviðafjárfestingum á eftirhrunsárunum þá var ekki til neinn peningur. Nú er hagkerfið of heitt til að ráðast í nauðsynlega innviðafjárfestingu án þess að það leiði til þenslu. Varlega áætlað mun það kosta mörg hundruð milljarða króna að laga þá stöðu sem er uppi í samgöngum, heilbrigðiskerfi, menntamálum og öðrum mikilvægustu kerfum landsins. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þá tölu vera um 700 milljarðar króna á nýlegum fundi.
Fyrir hvern er efnahagskerfið?
Það er vert að spyrja okkur að því fyrir hvern er þetta efnahagskerfi? Gagnast það t.d. launafólki á Íslandi? Svarið er augljóslega nei.
Á Íslandi er nokkuð mikið jafnræði í launum. Það er aðallega vegna þess að flestir launahópar á Íslandi eru með frekar lág laun. Hér er t.d. menntun langt frá því að vera metin til launa á sama hátt og í viðmiðunarlöndum. Þumalputtareglan er að þrír hópar séu hálaunaðir á Íslandi: forstjórar, læknar og sjómenn. Síðasta haust bættist síðan fjórða stéttin, stjórnmálamenn, við.
Þegar skoðuð er skipting eigna blasir allt önnur staða við. Þau tíu prósent Íslendinga sem eiga mestar eignir eiga 64 prósent allra eigna. Það hlutfall er reyndar mjög varlega áætlað þar sem öll verðbréf í þessari tölu eru færð á nafnverði, en markaðsvirði þeirra er margfalt hærra. Og efsta tíundin á nánast öll verðbréfin. Það má því vel skjóta á að þessi tíu prósent hópur, um það bil 20 þúsund fjölskyldur, eigi á bilinu 70-80 prósent af öllum eignum hérlendis.
Þessi hópur hagnast á því efnahagskerfi sem við rekum. Hann hagnast í niðursveiflunum vegna þess að þá dregst rekstrarkostnaður hans saman og það losnar um aðrar eignir, og hann hagnast í uppsveiflunum vegna þess að hann á þá fjármuni til að ávaxta. Og þetta er hópurinn sem berst harðast gegn því í gegnum stjórnmál, fjölmiðla og viðskiptalífið að sem minnstar breytingar verði á kerfinu.
Sá hópur sem helst verður út undan nú er ungt fólk. Það þarf ekkert að tíunda þá stöðu sem það er í á húsnæðismarkaði í dag. Um það eru skrifaðar margar fréttir á dag. Ungt fólk á auk þess minna af eignum en það átti fyrir áratug. Það hefur dregist aftur úr í ráðstöfunartekjum, finnur ekki störf við hæfi, bætur til þeirra hafa lækkað og velferðarkerfið sem t.d. barnafólk treystir mjög á er mun lakara hér en í öðrum löndum.
Þetta ætti að vera aðalviðfangsefni íslenskra stjórnmála. Hvernig samfélag viljum við byggja upp fyrir framtíðar-Íslendinga.
Það er hins vegar ekki þannig. Helsta viðfangið eru viðbrögð. Vegna þess að við plönum aldrei. Og þá breytist ekkert.