Í samanburði við önnur lönd hefur Ísland náð mjög góðum árangri í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og unnið ötullega að því að skapa konum og körlum jöfn tækifæri og lífsskilyrði með margvíslegum hætti. Við erum fremst í flokki á heimsvísu þegar kemur að mælingum á kynjajafnrétti. Þátttaka kvenna í atvinnulífinu hér er um 80% sem er með hæsta móti í heiminum, 65% nemenda í íslenskum háskólum og 41% þingmanna eru kvenkyns. Þökk sé lögum um kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja höfum við núna einnig náð jafnvægi innan stjórna skráðra fyrirtækja. Önnur lönd geta ekki sýnt fram á viðlíka niðurstöður.
Þrátt fyrir að ýmislegt hafi áunnist á undanförnum árum hallar enn verulega á konur í íslensku atvinnulífi. Nýlegar kannanir sem gerðar hafa verið staðfesta þetta. Hlutdeild kvenna í stjórnum meðalstórra og stórra fyrirtækja er innan við fjórðungur. Þá eru konur innan við 10% framkvæmdastjóra á meðal stærstu fyrirtækja og fjárfesta og engin kona stýrir skráðu fyrirtæki á markaði. Kvenkyns stjórnarformenn í íslenskum fyrirtækjum eru reyndar einnig sárafáir. Fleiri viðlíka dæmi um stjórnendur íslenskra stórfyrirtækja, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða hafa komið fram í Kjarnanum.
Í stórum dráttum skiptist fólk í tvær fylkingar þegar rætt er um nauðsyn sértækra aðgerða til að tryggja jafnvægi meðal kynjanna í atvinnulífinu. Í annarri fylkingunni er fólk sem telur að sterkir straumar breytinga í þjóðfélaginu muni leiða til þess að staðan breytist hratt á komandi árum án sértækra aðgerða. Hlutfallslega sterk staða kvenna í háskólum landsins endurspegli meðal annars þessa þróun. Hin fylkingin er þeirrar skoðunar að þetta dugi ekki til. Mikill utanaðkomandi þrýstingur og samstillt átak þurfi til að koma okkur úr viðjum viðtekins hugarfars um hlutverk kynjanna og rjúfa ósýnilega múra í viðskiptalífinu. Ég hallast (því miður) orðið að síðari fylkingunni. Reynslan gefur mér ekki tilefni til annars.
Hér sem og á alþjóðavísu hafa hlutirnir gerst hægt. Meðal stærstu skráðu fyrirtækja í Evrópu er innan við fjórðungur stjórnarsæta skipaður konum. Um 10% stjórnarformanna og 5% forstjóra í þessum fyrirtækjum eru konur og um sjöunda hvert sæti í framkvæmdastjórnum er skipað konum. Helst er að staða kvenna hafi styrkst í stjórnum á alþjóðavísu, líkt og hér, undanfarin ár. Á öðrum sviðum eru breytingarnar vart mælanlegar.
Nú hygg ég að flestir séu sammála um að aukið jafnvægi meðal kynjanna á flestum sviðum þjóðlífsins hefur verið verið öllum til góðs og skapað betra og manneskjulegra þjóðfélag þar sem bæði konur og karlar njóta sín almennt betur en áður. Samt er það svo að nánast hvert einasta skref sem hefur verið tekið í átt að jafnrétti kynjanna, hérlendis og annars staðar, hefur kostað mikla baráttu sem hefur síðan leitt til vitundarvakningar. Það þurfti 90% íslenskra kvenna til að leggja niður störf á örlagaríkum degi þann 24. október árið 1975 til að sýna fram mikilvægi þeirra framlags heima fyrir, á vinnumarkaði og á pólitískum vettvangi. Þarna var kallað eftir aðgerðum svo um munaði og hafði tilætluð áhrif. Öll þekkjum við eftirleikinn þegar frú Vigdís Finnbogadóttir varð fyrst kvenna í heiminum til að taka við forsetaembætti í lýðræðisríki. Hún nefndi kvennafrídaginn sem eina af þeim forsendum sem gerði þessar breytingar kleifar.
Auðvitað munu hlutirnir halda áfram að færast í rétta átt fyrir tilstilli þjóðfélagsbreytinga undanfarinna áratuga og hugarfarsbreytingar sem fylgir nýjum kynslóðum. En ég óttast að breytingarnar muni gerast hægt án samstillts átaks. Best væri að atvinnulífið allt tæki frumkvæðið í þessum efnum. Og nú þurfa allir að rísa upp, ekki bara konur.
Kauphallir víða um heim vöktu athygli á alþjóðlegum baráttudegi kvenna með bjölluhringingu um daginn, og Kauphöllin hér á landi tók þátt í því með því að bjóða stjórnum og framkvæmdastjórnum, ásamt fleirum á þann viðburð. Viðburðinum var þannig ætlað að benda á það gríðarlega mikilvæga hlutverk sem einkageirinn hefur að gegna í því að koma á jafnrétti kynja í atvinnulífinu; verkefni sem er líka á ábyrgð okkar karla. Þótt karlmenn séu í miklum meirihluta í áhrifastöðum í íslensku atvinnulífi eru þeir ávallt lítill minnihluti gesta á viðburðum sem þessum á vegum atvinnulífsins og var bjölluhringingin í Kauphöllinni engin undantekning. Þetta endurspeglar að mínu mati ríkjandi viðhorf karla að jafnréttismál sé kvennamál. Ef stærstur meirihluti stjórnenda lítur svo á að jafnrétti þjóni fyrst og fremst öðru kyninu er ef til vill ekki von á hröðum breytingum.
Inngrip stjórnvalda eru að mínu mati neyðarúrræði og geta haft óhagræði í för með sér í samanburði við sjálfsprottnar lausnir. Hvernig hrindir atvinnulífið breytingum af stað án utanaðkomandi afskipta? Hér er tækifæri fyrir skráð fyrirtæki til að taka forystu. Þau eru ekki nema lítill hluti atvinnulífsins en eru til fyrirmyndar varðandi margt er varðar rekstur, upplýsingagjöf og gagnsæi. Og þar ríkir kynjajafnvægi í stjórnum. Stjórnirnar geta gert jafnvægi meðal kynjanna í stjórnunarstöðum að sérstöku áherslumáli. Það gæti hrint skriðu breytinga af stað. Jafnframt gætu helstu hagsmunasamtök atvinnulífsins tekið málið upp á sína arma.
Fyrir utan það að vera réttlætismál er jafnrétti kynjanna mikilvægt efnahagslegt framfaramál. Samtökin UN Sustainable Stock Exchanges Initiative, sem Nasdaq Iceland er hluti af, gáfu nýverið út skýrslu sem sýnir hvernig kauphallir geta og eru að vinna að fimmta markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem lýtur að jafnrétti kynjanna. Meðal annars hefur verið sýnt fram á að mælikvarðar eins og arðsemi eigna (ROA), arðsemi eigin fjár (ROE) og hagnaður á hlut (EPS) færast til betri vegar og flökt þeirra minnkar ef konur eru á meðal stjórnenda. Einnig getur fjölskylduvænt umhverfi bætt starfsanda á vinnustað, minnkað starfsmannaveltu og haldið í gott starfsfólk. Framlag kvenna í atvinnulífinu er gríðarlega vanmetið á heimsvísu. Efnahagur heimsins gæti verið 28 billjón dollurum stærri árið 2025 ef ójafnrétti kynjanna væri eytt.
Hvernig sem á málið er litið er jafnrétti ekki bara mál kvenna. Þetta snýst ekki um sérstök réttindi eins og stundum er látið í veðri vaka, heldur sameiginlegt átak okkar í því að berjast fyrir jöfnum tækifærum og réttindum. Skilaboðin í kringum alþjóðlegan baráttudag kvenna voru einmitt á þann veginn, að nú sé tími til kominn að karlar taki til hendinni með konum.
Ég er faðir tveggja stráka og einnar stelpu. Mér er mikið í mun að þau muni öll búa við þá vitund og vissu að þau og þeirra jafnaldrar alist upp við jöfn tækifæri nú og í framtíðinni, og verði ekki fyrir misrétti af neinu tagi. Þátt fyrir að aukið menntunarhlutfall kvenna í ýmsum greinum efli möguleika þeirra nú og til framtíðar er það engin trygging fyrir jöfnum tækifærum kynjanna. Sagan hefur nefnilega sýnt okkur að ekkert gerist án baráttu þegar kemur að jafnrétti. Við skulum því ekki bíða með að breyta því sem hægt er að breyta strax. Þetta er ekki bara eðlilegt og sjálfsagt, heldur líka samfélagslega og efnahagslega ábyrgt.