Verða Bretar sjálfstæð þjóð árið 2020? Þegar búið verður að semja um útgöngu þeirra úr ESB? Verða þeir þá lausir undan „oki“ ESB og búnir að „taka landið sitt til baka“ (take our country back) eins og talsmenn útgöngunnar, með lýðskrumarann/popúlistann Nigel Farage í broddi fylkingar sögðu kjósendum að myndi gerast? Það kann að hljóma skringilega, en sá hefur reyndar haft lifibrauð sitt af því að sitja á Evrópuþinginu frá árinu 1999, eða í 18 ár.
Leið Bretum eins og nýlendu?
Leið Bretum kannski innan ESB eins og íbúum nýlendna þeirra leið á meðan Bretar drottnuðu yfir þeim og jafnvel kúguðu? Til dæmis Indverjar áður en landið braust undan hæl Bretaveldis árið 1950? Voru Bretar kúgaðir, áhrifa og valdalausir innan ESB? Hlustaði enginn á þá í Brussel? Voru þeir kannski fúlir yfir því að ráða ekki öllu eins og í gamla heimsveldinu?
Forsprakkar Brexit voru duglegir við að segja almenningi í Bretlandi að það væri búið að „taka landið frá þeim“ og að elítan, valdastéttin, í Brussel drottnaði yfir lífi þeirra. En forsprakkarnir sjálfir eru einmitt hluti af þeirri elítu sem þeir kepptust við að gagnrýna. Bæði í Brussel og ekki síður í London, höfuðborg Stóra-Bretlands.
Eitt er víst: Bretland verður aldrei aftur það heimsveldi, hvorki hernaðarlega, né viðskiptalega, sem það var. Sé Brexit einhver draumur þess efnis, geta Brexit-sinnar gleymt því. Sé ætlunin að endurreisa hina fornu frægð Stóra-Bretlands, í einhverju nostalgísku reiðikasti gegn Brussel, þá geta Nigel Farage, Boris Johnson og félagar gleymt því. Einfaldlega vegna þess að heimurinn hefur breyst – í grundvallaratriðum.
Alþjóðakerfið eins og við þekktum það eftir seinna stríð og sem mótaðist í köldu stríði risavelda er gjörbreytt. Til leiks eru komnir Kínverjar og Indverjar („gimsteinninn í kórónunni“) sem sækja hart fram. Sem og fleiri þjóðir. Við „unnið sjálfstæði“ frá ESB þurfa Bretar því að spila leik sinn í gerbreyttu umhverfi.
Gamla fólkið vann
Rifjum aðeins upp hvernig þetta fór: England og Wales kusu út, á meðan N-Írland og Skotland vildu áfram vera í ESB. Sem og höfuðborgin, London. Tölurnar voru: 51.9 % vildu út, en 48.1% vildu vera áfram í ESB. Ljóst er að þessi ákvörðun hefur klofið Bretland í tvennt, þar sem Skotar sækjast nú eftir sjálfstæði. Því eldra sem fólk var, því meira kaus það að fara út (snerist í raun við 50 ára aldurinn), minna menntaðir kusu að fara út, sem og þeir tekjulægri. Þá hafði ESB meira aðdráttarafl á svæðum þar sem hlutfall innflytjenda var hærra og því meira kosið þar að vera áfram í ESB. Kosningaþátttaka var mun meiri meðal eldra fólks, sem e.t.v. getur skýrt að hluta þá staðreynd að Brexit-ið vann. Var unga fólkið þá bara heima á netinu? Hefðu niðurstöður orðið öðruvísi, ef um netkosningu hefði verið að ræða? Það verður að teljast mögulegt, þar sem fjölmargt ungt fólk lifir sínu lífi nú nánast á netinu.
Hvað fékk Bretland með ESB?
En hvað hefur ESB veitt Bretlandi og Bretum frá því að þeir gengu inn árið 1973, ásamt Írlandi og Danmörku? Í tilfelli Írlands er eitt á hreinu; landið var eitt það fátækasta og verst stadda í allri Evrópu þegar það gekk inn og nánast allir eru sammála um að ESB-aðild hafi skipt algerum sköpum fyrir Írland. Það er ekki „fake news“ og menn álíka sammála um þetta og þá staðreynd að aðild Íslands að Innri markaði ESB (með EES-samningnum 1995) hafi verið Íslandi til góðs. Nánast enginn mótmælir þeirri staðreynd eða þessu með Írland og ESB.
Hvað hafa Bretar fengið með aðild að ESB? Hér koma aðeins nokkur dæmi: Þeir hafa fengið aðgang að Innri markaði ESB og tugum viðskiptasamninga sem sambandið hefur gert við önnur ríki. Þeir hafa fengið fullt ferðafrelsi um alla Evrópu (31 milljón ferðir til Evrópu árið 2014) og breskir eftirlaunaþegar (sem búa víðs vegar um Evrópu) geta tekið út eftirlaunin sín eins og þeir væru í Bretlandi. Þeir geta notið aðgangs að heilsugæslu um alla Evrópu og fengið sendiráðsaðstoð í neyð frá öðrum sambandsríkjum, ef þörf er á. Rétt eins og þeir væri kannski Svíar eða Finnar. Um hálf milljón breskra bænda hafa fengið ríkulega styrki frá byggðaáætlunum ESB og meira að segja Drottningin líka. Talið er að hún og hennar fjölskylda muni verða af um 1 milljón punda í landbúnaðarstyrki á ári vegna Brexit (það er kannski ekki lykilatriði málsins, heldur dulítið kómísk staðreynd). Ríkuleg neytendavernd sem breskir neytendur hafa notið, er komin frá ESB, sem og listar yfir „hættuleg flugfélög“ sem og önnur starfsemi, samevrópsk, sem miðar að baráttu gegn glæpum, mansali, eiturlyfjasmygli og öðrum óskunda. Allt þetta er í hættu við Brexit. Að maður tali nú ekki um friðinn á N-Írlandi, en það er efni í aðra grein.
Helmingur útflutnings Bretlands til ESB
Í efnahagslegu tilliti lítur málið svona út: Um helmingur af öllum útflutningi Breta fer inn á Innri markað ESB. Þetta kemur meðal annars fram á staðreyndablaði (fact sheet) sem CBI, Samtök breska iðnaðarins, gáfu út vegna Brexit. Þar er mikið af áhugaverðum staðreyndum og hér verða nokkrar taldar upp: Yfir 70% fyrirtækja innan CBI segja að aðild að ESB hafi verið jákvæð, aðeins 13% segja að hún hafi verið neikvæð. Í könnun sögðust 78% fyrirtækjaeigenda ætla að segja nei við Brexit og vilja vera áfram í ESB. Talið er að aðild Breta að ESB hafi aukið viðskipti við sum Evrópulönd um allt að 50% og um 76% fyrirtækjaeigenda segja að aðild að ESB og Innri markaðnum hafi haft jákvæð áhrif á reksturinn. Þá hefur aðild að ESB verið stökkbretti inn á aðra markaði og auðveldað að komast þar inn. Af fjárfestingu í Bretlandi, hefur ESB staðið fyrir um tæplega 50% af henni og andvirði hennar árið 2011 er talið hafa verið um 1.2 billjónir (þúsund milljarðar) punda. Aðild Breta að ESB hefur líka laðað að fjárfestingar landa utan ESB til Bretlands. Breskir atvinnurekendur segja einnig að hið „hreyfanlega vinnuafl“ (eitt af fjórfrelsum ESB) hjálpi þeim til þess að finna hæft starfsfólk fyrir fyrirtæki sín. 1% prósent af þeim sem eru í CBI sögðu „hið hreyfanlega vinnuafl“ vera neikvætt. Aðeins 15% af félögum í CBI sögðu sameiginlegar reglur og ákvarðanir ESB vera neikvæðar fyrir breskt atvinnulíf.
Nettóframlag Breta til ESB og fjárlaga sambandsins er um 0.4% af þjóðarframleiðslu. Sé þetta reiknað yfir á meðal-Bretann kostar það hann um 116 pund ári að vera í ESB. Sem er minna en bæði Svíar, Finnar, Þjóðverjar, Danir og Hollendingar eru að borga til sambandsins. Þá er það klassíska spurningin: Fengu Bretar næstum allt fyrir ekkert?
Þegar Bretar gengu í ESB þess tíma, var litið á landið sem einskonar „sjúkling Evrópu“. Framleiðsla var lág og samkeppni lítil og léleg. Í frétt á Financial Times sem ber heitið „What has the EU done for the UK“ kemur fram að með aðild hafi verðstöðugleiki aukist og samkeppni einnig. Eftir aðild hafi Bretland svo saxað á önnur aðildarlönd og farið fram úr löndum á borð við Þýskaland, Frakkland og Ítalíu í framleiðslulegu tilliti. Fræðimenn sem hafa skoðað þetta hafa sagt að án aðildar væri Bretland að öllum líkindum (ekki hægt að fullyrða hér) eins og blanda af Nýja-Sjálandi og Argentínu efnahagslega séð. Sem er kannski ekki beint glæsilegt. Í greininni kemur fram að Bretland hafið notið þess ríkulega að hafa haft aðgang að mörkuðum ESB og það hafi bæði aukið samkeppni, losað efnahaginn við illa rekin fyrirtæki, bætt stjórnun fyrirtækja og bætt aðstæður í atvinnulífinu. Enda er það áhugaverð staðreynd að enginn af Brexit-sinnum hefur andmælt því að aðildin að ESB hafi verið slæm fyrir Bretland. Meðal annars hefur Patrick Minford, hagfræðiprófessor og einn mesti Brexit-sinni Bretlands sagt að aðild að ESB hafi gagnast Bretlandi og breskum efnahag með því að auka frelsi í viðskiptum.
Til hvers að fara?
Til hvers eru þá Bretar að yfirgefa ESB? Við því er ekki til neitt eitt svar. Er það vegna knýjandi efnahagslegrar þarfar eða liggur eitthvað annað að baki? Er þetta spurning um einhvern metnað og langvarandi „núning“ á milli Breta og meginlandsþjóðanna, Þýskalands og Frakklands? Er um að ræða einhverja óskilgreinda þjóðernishyggju, sem byggir á djúpstæðri löngun til þess að stjórna sér sjálfur? Eða að minnsta kosti að fá tilfinningu fyrir því? Er Bretum virkilega stjórnað af Brussel? Setur breska þingið ekki ennþá lög? Gera Bretar ekki fjárlög á hverju ári fyrir breska ríkið? Ég veit ekki betur. Rétt eins og Íslendingar, Svíar, Þjóðverjar, Frakkar og öll hin Evrópuríkin. Sem eru í ESB. Nema við, að sjálfsögðu, en Íslendingar hafa verið hafðir að fíflum í Evrópumálum af síðustu tveimur ríkisstjórnum og hvert loforðið á fætur öðru svikið eins og ekkert sé.
Theresa sendi bréf
Theresa May er búin að senda bréf til Brussel, svona rétt eins og Gunnar Bragi gerði á sínum tíma. Þar með er útganga Breta hafin úr ESB. Ég óska Bretum góðs gengis og vona að þeir verði nú loksins „frjáls þjóð“ þegar þessu er lokið og fái landið sitt aftur, sem að minnsta kosti hluti þeirra hélt að væri glatað. Enda var það eitt af loforðum Brexit. En það hefði verið gaman, og nauðsynlegt að mínu mati, að hafa þá áfram með. Nú þegar vaxandi þjóðernishyggja, útlendingaandúð og hatur á ýmsum hópum gerir illilega vart við sig í ýmsum þjóðfélögum um heim allan, og sérstaklega Evrópu. Þeir sem þekkja til sögu Evrópu vita að slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Á tímum sem þessum þarf samstöðu, ekki sundrungu. „Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér,“ eins og einhver sagði.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði og situr í stjórn Evrópusamtakanna.