Viðtöl við þá frændur Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í erlendum fjölmiðlum (Bloomberg og FT) hafa vakið athygli og viðbrögð frá öðrum stjórnmálamönnum.
Augljóslega ekki sammála
Augljóst er að þeir eru ekki sammála um peningastefnuna og hvort það sé gott fyrir Ísland að hafa krónuna sem gjaldmiðil til framtíðar. Bjarni talar með því að halda í krónuna og núverandi fyrirkomulag peningamála – þó ekki séu útilokaðar einhverjar breytingar á umgjörðinni – á meðan Benedikt hefur talað skýrt fyrir því að núverandi fyrirkomulag gangi ekki til lengdar. Hann horfir frekar til þess að taka upp alþjóðlega mynt til að tryggja meiri gengisstöðugleika.
Evran er þar nærtækust og Benedikt hefur í gegnum tíðina talað fyrir því að horft sé til hennar. Það sem er aðalatriðið í málflutningi Benedikts, að mínu mati, er það að hann talar fyrir alþjóðavæddum heimi og hvernig Ísland verði að marka sér stöðu í honum. Þar er peningamálastefnan algjört grundvallaratriði og eftir hremmingarnar fyrir tæpum áratug, þá sér hann upptöku annarrar myntar sem bestu leiðina fram á við fyrir komandi kynslóðir.
Bjarni og AGS
Þessar deilur koma ekki á óvart, þó reyndar eigi Bjarni sér svolítið óljósa pólitíska sögu þegar kemur að stefnu í peningamálum. Það gleymist seint þegar hann birtist í heilsíðuauglýsingum í dagblöðum og boðaði upptöku evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), eitthvað sem ekkert land hefur gert í sögunni. Þetta var fyrir kosningarnar 2009.
Nú eru liðin átta ár og þrennar Alþingiskosningar og stefna Bjarna er nú frekar í þá veru að ríghalda í krónuna. Hún sé ekki vandmálið, segir hann, heldur þurfi frekar að breyta hagstjórninni. Ná fram meiri aga til að draga úr sveiflum. Hugmyndin um stöðugleikasjóð byggir meðal annars á þessu; að hafa betri vopn til að takast á við afleiðingar af gengissveiflum og reyna að stuðla betur að gengisstöðugleika. Hugmyndin er sú að láta arð af auðlindum renna í sjóðinn, í það minnsta arðinn af orkuauðlindum.
Myntráð?
Viðreisn horfir til þess að koma á fót myntráði og festa gengi krónunnar tímabundið, breyta um stefnu og taka upp alþjóðlega mynt. Evran er fyrsti kostur en mér sýnist aðalatriðið í málflutningi Benedikts og félaga hans vera það, að núverandi stefna stuðli að einangrunarhyggju í alþjóðavæddum heimi, og að með þetta minnsta myntsvæði veraldar, sé verið að bjóða hættunni heim í sífellu.
Ég vona að Viðreisn og Björt framtíð átti sig á því, að núna er tækifærið til að koma þessu máli upp á stóra sviðið. Stilla Sjálfstæðisflokknum og öllum hagsmunasjónarmiðunum upp við vegg og rökræða um peningastefnuna. Sá sem berst fyrir því að halda í krónuna og núverandi fyrirkomulag peningamála, berst fyrir miklu inngripakerfi af hálfu hins opinbera. Spor sögunnar hræða.
Sungið hátt
Hagsmunakórarnir syngja nú hátt, bæði útgerðin og ferðaþjónustan.
Teiknaðar eru upp skelfilegar sviðsmyndir ef ríkisvaldið heldur ekki gengi krónunnar nægilega veiku gagnvart erlendum myntum. Á sama tíma eru mikil fagnaðarlæti vegna losunar fjármagnshafta. Augljóst ætti að vera öllum að það eru í þessari stöðu þversagnir.
Frjáls markaður með krónuna er ekki nema að nafninu til, ef ríkisvaldið verður sífellt notað í að stilla gengið af svo ekki fari illa. Í þessu örhagkerfi, með aðeins tæplega 200 þúsund einstaklinga á vinnumarkaði, þá verður seint hægt að stóla á að allt gangi vel með óheftum markaði með krónuna.
Gleymum því ekki að krónan hefur einu sinni flotið frjáls á markaði. Það var á árunum 2001 og fram í nóvember 2008. Því lauk þegar neyðarlögum, einstökum í hagsögunni, var beitt til að verja efnahagslegt sjálfstæði landsins, og síðan var fjármagnshöftum komið á.
Þá tók við hrikaleg eyðimerkurganga fyrir heimilin í landinu en mesta góðæri sem sjávarútvegurinn hefur nokkurn tímann gengið í gegnum. Gengi krónunnar var þar í aðalhlutverki.
Ekki benda á bankann
Það þýðir ekkert fyrir stjórnmálamennina að benda á Seðlabankann, þegar kemur að framkvæmd peningastefnunnar, því það eru þeir sem ráða ferðinni í gegnum löggjafarhlutverkið. Ef þeir vilja gera breytingar og hætta með núverandi fyrirkomulag, þá geta þeir gert það. Þetta síðasta skref – að framkvæma breytingarnar og koma þeim í gegnum þingið – verður vafalaust erfitt.
En kjósendur munu fylgjast með því hvort Viðreisn og Björt framtíð, alveg sérstaklega, muni standa við stóru orðin í þessum efnum. Vonandi er stundin runnin upp til að láta á þetta reyna, og ræða þessi mál almennilega, og síðan leggja niðurstöðu um að breytingar á peningastefnu landsins til atkvæðagreiðslu í þinginu, helst sem fyrst.