Nú stendur yfir ferli sem mun móta íslenska fjármálakerfið um ókomna tíð. Það ferli snýst um breytt eignarhald á bönkum og tilheyrandi kerfisbreytingar sem fylgja munu í kjölfarið. Frá haustmánuðum 2008 hefur íslenska ríkið haft boðvald yfir kerfinu. Og þar með haft hemil á því.
Það boðvald varð til með neyðarlögunum og lögum um fjármagnshöft. Sá grunnur gerði stjórnvöldum kleift að stýra því hvernig bankakerfinu yrði stjórnað. Á honum var hægt að knýja kröfuhafa bankanna til að spila eftir leikreglum okkar, í stað þess að þeir settu þær sjálfir. Það var sannarlega reynt.
En nú á að færa eignarhald, og mótunarvald, til einkaaðila.
Þeir sem segjast standa með Íslandi
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem „kröfuhafar“ hafa reynt að komast í bílstjórasætið hérlendis. Ég hitti fulltrúa kröfuhafa föllnu íslensku bankanna fyrst sem blaðamaður Morgunblaðsins á fundi sem settur var upp af ráðgjafa á þeirra vegum 13. nóvember 2008, um mánuði eftir hrunið. Um var að ræða tvo menn og annar þeirra reyndist síðar vera einn mesti þungavigtarmaðurinn í þessum hópi sem vann fyrir kröfuhafana. Maður sem var meira og minna með annan fótinn á Íslandi frá 2008 og út árið 2015.
Þeir boðuðu fundinn til þess að reyna að selja þá hugmynd að vinda þyrfti ofan af öllum þeim aðgerðum sem stjórnvöld höfðu gripið til fram til þess tíma, sérstaklega neyðarlögunum sem gerðu innstæður að forgangskröfum. Þeir sögðu að erlendu kröfuhafar íslensku bankanna vildu stofna eignarhaldsfélag utan um eignir gömlu bankanna, breyta kröfum sínum í hlutafé og koma þannig að bankarekstri á Íslandi sem eigendur. Söluræðan var á þann veg að þannig myndi draumur Íslendinga um aðkomu erlendra banka að íslensku bankakerfi rætast.
Annar maðurinn spurði: „Hverjir eiga íslensku bankana? Eru það þeir sem veita þeim starfsleyfi eða þeir sem fjármagna starfsemi þeirra?“ Hann svaraði síðan spurningunni sjálfur á þann veg að ef bankar fari í þrot þá eigi kröfuhafar þeirra þá. Það að breyta leikreglunum eftir á, líkt og gert var með neyðarlögunum, væri ekkert annað en þjóðnýting og andstætt öllum gildum hins kapítalíska hagkerfis.
Inntakið í boðskap mannanna tveggja var þetta: Kröfuhafar hafa efni á því að afskrifa afganginn af kröfum sínum gagnvart Íslandi og hverfa frá landinu fyrir fullt og allt. Ísland hefur hins vegar ekki efni á því að þeir fari frá landinu með þeim hætti. Þess vegna vildu þeir vinna með Íslendingum að uppbyggingu. Þeir vildu „taka stöðu með Íslandi“, að eigin sögn. Veðja á endurreisnina. „Ísland er ríkt land þangað til það ákveður að það sé það ekki,“ sagði annar þeirra.
„Ef ég á að setja þetta upp í líkingu þá erum við stödd í þorpi og allt þorpið brennur. Við erum einungis með nægilegt vatn til að bjarga tveimur byggingum og það þarf að ákveða hvaða byggingar það eiga að vera. Ef þú ert ekki með neina sérstaka hugmynd um hvernig þorpið ætti að líta út eftir að björgunaraðgerðum er lokið þá er mjög erfitt að mynda sér skoðun á hvaða byggingum á að bjarga. Viltu bjarga kirkjunni eða verslunarmiðstöðinni? Viltu að skólinn eða ráðhúsið verði miðpunktur alls? Það er alltaf hætta á að þú bjargir rangri byggingu, ekki þeirri sem fellur best að heildarmyndinni,“ bætti hann við.
Þeir litu sem sagt á Ísland sem brennandi þorp og sjálfa sig sem slökkviliðið sem hefði nægjanlega heildarmynd og þekkingu til að ákveða hverju ætti að bjarga í þorpinu, og hvað ætti að fá að brenna.
Ekkert skiptir máli nema hámarks arðsemi
Ég gleymi aldrei þeirri ónotatilfinningu sem ég var með eftir að hafa hitt þessa menn á þessum fundi. Þá varð mér ljóst að þeir voru fyrst og síðast sölumenn í vinnu fyrir eigendur fjármagns sem höfðu það eina markmið að hámarka arðsemi þess. Ekkert annað skipti máli. Aðrar afleiðingar væru einfaldlega herkostnaður.
Ísland var í þannig stöðu á þessum tíma að greiðslufall ríkisins var mjög raunverulegur, og nálægur, möguleiki. Gengi krónunnar hafði fallið um nálægt 50 prósent, atvinnuleysi stefndi í tveggja stafa tölu, verðbólga toppaði skömmu síðar í tæplega 20 prósentum, stýrivextir voru 18 prósent og hallinn á rekstri ríkissjóðs var yfir 200 milljarðar króna. Með neyðarlögunum hafði ríkið til viðbótar búið til nýtt bankakerfi – byggt á innstæðum og völdum eignum sem átti eftir að greiða fyrir – sem var að öllu ófjármagnað. Fjármögnun þess var talið kosta allt að 385 milljarða króna, sem voru ekki til í ríkissjóði. Rúmur helmingur fyrirtækja í landinu var í vanskilum og talið var að um 70 prósent þeirra væru með neikvætt eigið fé, og þar með tæknilega gjaldþrota. Tugþúsundir heimila voru með fjármál sín í algjöru uppnámi af ýmsum ástæðum. Sum höfðu skuldsett sig of mikið til að hraða sér í lífsgæðakapphlaupinu, (íslenskum heimilum tókst að verða þau skuldsettustu í heimi á árunum fyrir hrun), sum voru með gengistryggð eða verðtryggð lán sem hækkuðu tímabundið mikið við fall krónu og verðbólguskot og sum glímdu við þann skyndilega veruleika að fyrirvinnan varð atvinnulaus.
Við þessar aðstæður voru mennirnir fyrir framan mig að reyna að sannfæra mig um að það væri langbest fyrir okkur sem þjóð að þeir myndu stjórna ferðinni í endurreisninni. Við ættum að færa þeim bankana aftur og leyfa markaðnum að framkvæma galdranna sína. Hinum frjálsa markaði sem hafði skilaði íslensku samfélagi í ofangreindu ástandi á þeim tæpum sex árum sem liðu frá því að lundafléttur og pólitísk spilling skilaði ríkisbönkum í valdar hendur þar til allt saman hrundi.
Blessunarlega völdum við aðra leið.
Sami hópur boðar nýja stöðutöku með Íslandi
Það er þarft að rifja þetta upp í dag þar sem nú boðar hópur aðila af nákvæmlega sömu gerð og mennirnir tveir það að þeir séu að „taka stöðu með Íslandi“. Um er að ræða þrjá vogunarsjóði og fjárfestingabankann Goldman Sachs. Undir orðræðu þeirra er tekið í íslenskum stjórnmálum. Ráðamenn hafa fagnað aðkomu þeirra, bankamenn kitlar í fingurna að fara að leika sér aftur á alvörusviði og valdir fjölmiðlar taka undir sönginn. Þeir sem setja réttmætan fyrirvara um að þetta sé besta leiðin fyrir Ísland eru jaðarsettir sem annað hvort vitleysingar sem sjái ekki veisluna, skilji hana ekki eða sem kommúnistar sem hati einkaframtakið.
Aftur er rétt að minna á hvað gerðist síðast þegar við leyfðum bankakerfið að skilgreina hlutverk sitt sjálft. Þá komst þjóð sem er ríkari en flestar af auðlindum, er vel menntuð og hafði byggt upp þolanlegt velferðarkerfi mjög nálægt því að fara í greiðsluþrot. Út af bankamönnum og andvaraleysi stjórnvalda gagnvart þeim. Bankamönnum og fylgitunglum þeirra sem rannsóknarskýrslur síðustu ára sýna að blekktu og svindluðu til að fá sínu fram. Frömdu stærstu samfélagslegu glæpi sem framdir hafa verið í íslenskri samtímasögu. Hópi sem tók aldrei eina einustu ákvörðun með heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga, heldur setti eiginhagsmuni alltaf í fyrsta sætið.
Það liggur fyrir að fjárfestarnir sem ætla að kaupa Arion banka eru að spila með okkur. Það að þeir hafi skrifað undir drög að samkomulagi 12. febrúar en dregið lífeyrissjóði landsins á asnaeyrunum í viðræðum í rúman mánuð til viðbótar staðfestir það. Ástæðan var sú að þeir vildu spara sér rúman milljarð króna og miða við eigin fé Arion banka í níu mánaða uppgjöri í stað ársuppgjörs. 12. febrúar var síðasti dagurinn til að gera það. Til að kaupa hlut í Arion banka án þess að ríkið gæti stigið inn þurfti að borga 0,8 krónur á hverja krónu af eigin fé. Miðað við níu mánaða uppgjörið er hópurinn að borga 0,807 krónur á hlut. Eða rétt yfir markinu.
Þetta er ekki eina markið sem hópurinn passaði sig á að vera rétt við. Tveir stærstu vogunarsjóðirnir keyptu 9,99 prósent hlut svo þeir færu ekki yfir tíu prósent markið, sem myndi leiða til þess að Fjármálaeftirlitið þyrfti að meta hæfi þeirra til að eiga virkan eignarhlut í banka.
Að lokum virðist engin vilji til þess að upplýsa hverjir séu endanlegir eigendur sjóðanna og þess hlutar sem Goldman Sachs segist halda á fyrir eigin reikning. Og svo virðist sem eftirlitsstofnanir okkar skorti annað hvort tól,vilja eða þor til að kalla fram þær sjálfsögðu upplýsingar svo fyrir liggi hverjir eigi fjármagnskerfið okkar, hvort þeir tengdir á þann hátt að máli skipti og hvort þeir séu hæfir eigendur.
Kerfi sem er til fyrir þá sem eiga fjármagnið
Það er eðlismunur á því að skilja ekki og sætta sig ekki við. Bankar á Íslandi eru svo kerfislega mikilvægir að það er í raun ótrúlegt að láta sér detta það í hug að endurskipulagning kerfisins eigi að fara fram á forsendum vogunarsjóða og alþjóðlegra fjárfestingabanka – sem hafa það eitt markmið að hámarka arðsemi sína – en ekki samfélagsins sem umræddir bankar eiga að þjóna.
Það er óumdeilt að nútímabankakerfi er fyrst og síðast til svo að eigendur fjármagns geti ávaxtað það sem mest. Ef maður þýðir þá setningu þá er það til svo hinir ríku geti orðið ríkari. Þetta er rökstutt með brauðmolakenningunni. Ef þeir verði ríkari á fjárfestingum sínum þá munu brauðmolarnir gagnast öllum hinum.
Um þetta þarf í raun ekkert að takast á. Hin hefðbundna viðskiptabankastarfsemi, og sá hluti bankastarfsemi sem þjónustar atvinnulífið með eðlilegum lántökum til uppbyggingu reksturs, er ekki í forgrunni. Það er enda bara hægt að skuldsetja almenning upp að vissu marki. Lána honum fyrir húsi, bíl og veita hæfilegan yfirdrátt. Svo eyðir almenningur ævinni í að borga þennan startkostnað fullorðinsáranna til baka á allt of háum vöxtum.
Vaxtatækifærin, þóknanatekjurnar og spennan er öll í einkabankaþjónustu fyrir ríkt fólk og í gíruðum fjármálagjörningum. Í „leiknum“ sem útvaldir fá að spila. Afleiðingin af þessu kerfi er sú að stéttaskipting og ójöfnuður eykst. Traust hverfur. Það er líka óumdeilanlegt og stutt með hagtölum. Í lok árs 2015 áttu þau tíu prósent landsmanna sem voru ríkust 64 prósent allra hreinna eigna. Hlutfallið er reyndar hærra, þar sem í þessum tölum er gert ráð fyrir að verðbréf séu metin á nafnvirði, ekki markaðsvirði. Sami hópur á nær öll verðbréf, þ.e. skuldabréf og hlutabréf í eigu einstaklinga, á Íslandi. Á árinu 2015 fór 43 prósent af allri nýrri hreinni eign sem varð til hérlendis, til þessa hóps.
Þetta er hópurinn sem bankakerfið er til fyrir. Og sá hópur sem mest áhersla er á að þjónusta.
Hvern er verið að þjónusta?
Það er eðlilegt, og raunar nauðsynlegt, að stjórnmálamenn nýti þá fordæmalausu stöðu sem upp er komin, og felur í sér að stjórnvöld eru með allt bankakerfið í fanginu, til að spyrja sig mjög einfaldra spurninga: Til hvers eru bankar? Og fyrir hvern eru þeir?
Það er um tvennt að velja. Það er hægt að halda áfram á þeirri leið sem verið er að feta, hlusta á yfirlætislegu fjármálamarkaðsspaðanna sem hafa í raun aldrei afrekað neitt annað en að hagnast vegna aðgengis að peningum annarra, tækifærum sem vinveittir stjórnmálamenn veita þeim eða upplýsingum sem sami þröngi hópur deilir með sjálfum sér til að halda forskotinu og hagnast, og leyfa fjármálamarkaðnum að móta kerfið. Niðurstaðan verður aftur sú sama: kerfið mun laga sig enn frekar að því að gera hinu ríku ríkari og launafólk skuldsettara.
Hin leiðin er sú að það sé hægt að líta svo á að það sé ekki óumflýjanlegt að fjármálakerfið sé eins og það er. Að það sé hægt, með umræðu, undirbúningi og skýrri stefnumótum að byggju upp kerfi sem þjónustar samfélagið. Kerfi sem er til fyrir fólkið sem býr í landinu, en ekki fyrir kerfið sjálf og handfylli fjármagnseigenda sem hagnast gríðarlega á því. Það kerfi þarf ekkert endilega að vera að öllu leyti í eigu hins opinbera. Það þarf bara að vera með skýran tilgang og skilgreindan ramma. Að fjármálakerfið þjónusti almenning og fyrirtæki, ekki að almenningur og fyrirtæki þjónusti það.
Það er til staðar val. Ætlar Ísland sjálft að vera slökkviliðið sem tekur ákvörðun um hvað fær að brenna og hvað ekki þegar illa fer. Á að byggja mikilvægustu einingar þorpsins þannig upp að allar brunavarnir séu í sem bestu standi og að tryggt sé að eldur í einu húsi breiðist ekki í það næsta. Eða eiga væntanlegir bankaeigendur, sem voru líka kröfuhafar föllnu bankanna, að halda á slöngunni, setja upp brunavarnirnar og velja hvað fær að brenna?
Á allra næstu dögum og vikum munu stjórnmálamenn þjóðarinnar þurfa að taka afstöðu til þess. Af þeirri afstöðu verða þeir dæmdir.