Ísland er „velmegunarbubbla“ með fá vandamál samanborið við flest lönd, og þar er hinn vestræni heimur meðtalinn. Þetta er eitt af því sem maður kemst að þegar maður býr erlendis. Ísland þarf ekki að glíma við erfiðleika sem fylgja þéttum borgarsvæðum þar sem ekkert má útaf bregða í skipulagi hvers dags. Almenningssamgöngur þurfa að ganga smurt, umferðarskipulag og svo framvegis. Skólastarf getur verið flókið í framkvæmd og heilbrigðisþjónusta sömuleiðis.
Svo er Ísland einnig auðlindaríkt land, í hlutfalli við íbúafjölda, og flestir innviðir traustir, í alþjóðlegum samanburði.
En þrátt fyrir þetta eru mein sjáanleg. Þessi misserin sér maður einkenni þess að fyrirtæki og hið opinbera, séu að ganga hratt um gleðinnar dyr, þegar hagstjórn er annars vegar. Í það minnsta horfa hlutirnir þannig við mér héðan frá vesturströnd Bandaríkjanna. Það er ekki heilbrigðismerki að fasteignaverð hækki um tæplega 40 prósent á einu ári, mælt í Bandaríkjadal, svo dæmi sé tekið.
Mikið gjaldeyrisinnstreymi vegna erlendra ferðamanna mun strykja gengi krónunnar gagnvart alþjóðlegum myntum mikið á skömmum tíma, nema að Seðlabankinn muni markvisst beita sér til að veikja krónuna. Það getur varla verið að þannig eigi það að vera til lengdar.
Þrátt fyrir að Ísland sé í öfundsverði stöðu, að mörgu leyti, þá eru sérstaklega tvö mál sem mér finnst mega flokka sem heimatilbúin vandamál.
1. Það er merkilegt að hugsa til þess hversu stór mistök stjórnmálamenn á höfuðborgarsvæðinu og í landsmálunum hafa gert í húsnæðismálum. Á miklum hagvaxtartíma á þessu örmarkaðssvæði sem Ísland er, með aðeins um 200 þúsund einstaklinga vinnumarkað, glímir landið við húsnæðisskort með tilheyrandi bóluáhrifum á fasteignamarkaði. Samt er greining á þörf fyrir húsnæði miklu einfaldari á Íslandi heldur en víða í heiminum. Framtíðaráætlanir eiga að vera tiltölulega einfaldar.
Hvers vegna gerðist þetta? Stjórnmálamenn á höfuðborgarsvæðinu, það er kjörnir fulltrúar hjá sveitarfélögunum, bera ríka ábyrgð á því að upp hefur komið alvarlegur húsnæðisskortur. Þeir hafa stært sig af því að hafa aukið samstarf í skipulagsmálum, en það er þó ekki meira en svo að mikið ójafnvægi hefur skapast á húsnæðismarkaði. Skortur á íbúðum á markaðnum er mikill, á bilinu 3 til 5 þúsund að öllum líkindum. Til viðbótar koma síðan þær tvö þúsund nýju íbúðir sem þurfa að koma inn á markaðinn árlega til að mæta fólksfjölgun og náttúrulegri eftirspurn.
Lóðaúthlutun hefur ekki verið nægilega mikil, uppbygging of hæg og ójafnvægi hefur skapast. Nú er farið að draga verulega í sundur með launaþróun og fasteignaverði, og vonandi átta stjórnmálamenn hjá þessum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sig á því hvað þeir hafa gert. Viðbrögðin nú þegar benda til þess að nú eigi að vinna hratt að uppbyggingu, því þrjú til fjögur þúsund nýjar íbúðir eiga að rísa á næstu tveimur árum, samkvæmt samantekt sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Stjórnvöld hljóta svo að spyrja sig að því hvort það hafi verið rétt að taka vel á áttunda tug milljarða króna og leggja inn á þá sem eiga fasteignir á höfuðborgarsvæðinu, einmitt í ljósi þessarar fyrirsjáanlegu stöðu sem komin var upp strax árið 2014, þegar hin svonefnda leiðrétting var framkvæmd. Hún var ekki bara vitlaus held beinlínis glórulaus í ljósi aðstæðna í hagkerfinu.
2. Staðan í menntamálum þjóðarinnar er ekki neinu samræmi við umræðu um mikið góðæri. Þjóð sem ekki er með sterka stöðu í menntamálum getur aldrei fullyrt að hún sé að ganga í gegnum mikið góðæri. Framundan er kennaraskortur og hafa samtök kennara, á öllum skólastigum, bent á þetta margítrekað að undanförnu. Engar lausnir hafa komið fram og engar aðgerðir heldur. Mikil kjarabarátta hefur ekki skilað því að áhugi á kennarastarfinu hafi aukist og ennþá er það þannig að kennarastarfið, sérstaklega á leikskóla- og grunnskólastigi, er láglaunastarf.
Þessi veruleiki er ekki í neinu samhengi við mikilvægi starfsins og þær kröfur sem metnaðarfullar þjóðir eiga að gera til menntamála.
Frá bæði framhaldsskólastiginu og háskólastiginu hafa síðan komið hálfgerð neyðaróp árum saman vegna undirfjármögnunar. Það tekst ekki að fjármagna rannsóknar- og kennslustarf svo að skólastarfið samræmist kröfum sem gerðar eru til nútímalegra samfélaga. Þetta fullyrða rektorar allra háskóla landsins og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur beinlínis fullyrt að starf HÍ sé í verulegri hættu vegna undirfjármögnunar. Þessi staða tengist síðan beint heilbrigðiskerfinu og því stóra rannsóknarsamfélagi sem þar starfar.
Til viðbótar má svo nefna að þó það sé umdeilanlegt, hvernig gæði skólastarfs eru mæld, þá hafa alþjóðlegar kannanir ekki komið vel út fyrir Ísland, þegar grunnskólastarfið er annars vegar. Sérstaklega eru það raungreinar sem koma illa út.
Börn á Íslandi eru órafjarri þeim sem eru fremst, og það er eitthvað sem ætti að ræða um af viti. Sérstaklega ætti að hlusta eftir áhyggjum kennara af stöðu mála. Þær hafa ekki komist til skila og virðast ekki ná eyrum stjórnmálamanna nema þá lítið eitt. Annars væri búið að bregðast við og kynna metnaðarfull áform um að snúa vörn í sókn.
Í þeim efnahagslega meðbyr sem Ísland finnur nú fyrir, ekki síst vegna uppgangs í ferðaþjónustu og gjörbreyttum veruleika í skuldamálum eftir uppgjör við slitabú föllnu bankanna, þá ættum við að skoða heimatilbúin vandamál okkar betur. Þau snúa núna ekki síst að húsnæðismálum og menntakerfinu. Það er vel hægt að nefna fleiri atriði, eins og heilbrigðismálin, en þessi tvö fyrrnefndu eru of augljós til að bregðast ekki við þeim tafarlaust.