Ég stoppaði stutt á Íslandi nýverið en náði að hitta á gott fólk og spjalla og heyra hvernig staða mála á Íslandi horfir við þeim. Flestir voru jákvæðir en líka áhyggjufullir. Er verið að ganga of hratt um gleðinnar dyr?
Alltaf þegar ég sé einhvern úr hagfræðistétt deila grafi um að Ísland sé á toppnum í hagvexti þá verð ég svolítið hugsi. Sérstaklega þegar það fylgir sögunni að það sé aðeins Indland, með 20 prósent allra íbúa jarðar innan sinna vébanda (1,3 milljarða), sem er með meiri árlegan hagvöxt. Er fólki raunverulega alvara með því að stilla Íslandi upp með þessum risaþjóðum?
Hagvöxtur góður mælikvarði?
Eftir að hafa hlustað (Hlaðvarp Bloomberg) á hagfræðiprófessorinn Lorenzo Fioramonti, við University of Pretoria, tæta í sig þennan sífellda hagvaxtarsamanburð þjóða sem hjálpartæki við að mæla efnahagslega heilsu, þá fær maður þá tilfinningu að þetta sé sérstaklega vitlaust þegar kemur að samanburði smáþjóða við miklu stærri ríki.
Til að glöggva sig á stöðu mála á Íslandi ætti að rýna ofan í smáatriðin í hagkerfinu, og spyrja hvort við séum á réttri leið, með tilliti til hvernig störf eru að verða til og hvort samkeppnishæfnin sé að styrkjast. Það er of auðvelt að birta gröf sem sýna að Ísland sé best í heimi, hlutfallslega, eins og er nú að breytast í hálfgerða þjóðaríþrótt hefur mér sýnst. Ég held að fólk ætti að fara varlega í þessu, einkum og sér í lagi pólítískir stuðningsmenn stjórnvalda. Þetta hafa spunameistarar allra ríkisstjórna frá því árið 2009 ástundað af miklum krafti, einhverra hluta vegna (Áfram Ísland!).
Heppin að geta beitt ríkisvaldinu af þunga
Ísland er dásamlegt, með öllum sínum kostum og göllum, en það hjálpar nú ekki mikið til, svona almennt talað, að trúa því að á þessu litla landi sé allt best. Þannig er það ekki og verður aldrei. En innviðirnir á Íslandi eru samt traustir og sýna viðbrögðin í fjármálahruninu, fyrir bráðum áratug, að það er hægt að leysa úr erfiðum aðstæðum með farsælum hætti í jafn litlu landi.
Beiting ríkisvalds af miklum þunga, með neyðarlögum og fjármagnshöftum, var þar lykilatriði og myndaði grundvöll viðspyrnu. Þetta gátu stærri þjóðir ekki gert og ekki heldur einstök svæði innan stórþjóða, sem fóru hörmulega út út fjármálakreppuni. Má nefna miðríki Bandaríkjanna sem dæmi. Það er hollt að minna á þetta reglulega. Við vorum heppin að geta gert þetta, örríki á norðurhjara.
Gjaldeyrisinnstreymið mikið
Eins og staða mála er nú á Íslandi, með 7,2 prósent hagvöxt í fyrra og gríðarlega hraðan vöxt gjaldeyrisinnstreymis, þá virðist sem ofris krónunnar sé óhjákvæmilegt, nema að ríkisvaldinu sé beitt miskunnarlaust til að halda annarri stöðu á krónunni.
Ríflega 40 prósent hækkun á fasteignaverði á einu ári, mælt í Bandaríkjadal, segir manni að eitthvað undarlegt sé á seyði. Eða í það minnsta finnst mér það.
Spjótin beinast að Seðlabanka Íslands þegar umræðan um stöðu krónunnar er annars vegar.
Nú túlka greinendur á markaði yfirlýsingar Peningustefnunefndar með ólíkum hætti, eins og eðlilegt er. Eitt af því sem ég hef tekið eftir, er að fólk í peningastefnunefndinni hefur sagt að það sé ekki hægt að reikna með því að Seðlabankinn stuðli að veikingu krónunnar með inngripum sínum til lengdar, en hann geri þó það sem hann telji skynsamlegt á hverjum tíma. Seðlabankinn gerði þetta ítrekað í fyrra, en innstreymið var það mikið að viðskipti Seðlabankans gerðu ekki annað en að tempra styrkinguna.
Þá hefur fjármálastöðugleikasvið bankans teiknað upp eina sviðsmynd af erfiðleikum, sem gæti verið þokkalega líkleg. Í þeirri sviðsmynd var horft til þess að ferðaþjónustan myndi upplifa erfiðleika og að hún færi á svipaðan stað og hún var árið 2012, þegar ör vöxtur var farinn að gera vart við sig. Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika, lét þá hafa eftir sér að það væri augljóst, að bakslag í ferðaþjónustunni gæti haft mikil og víðtæk áhrif á Íslandi.
Forritarinn, útgerðarmaðurinn og bankamaðurinn
En aftur að þessum stuttu samtölum í heimsókninni á Íslandi. Vitna ég til samtala við forritara, útgerðarmann og bankamann.
1. Forritarinn var búinn að segja mér að oft væru sársaukamörkin þegar kæmi að íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum, sem hefðu tekjur erlendis, í kringum 110 krónur á Bandaríkjadal.
Hann kostar nú 107 krónur og hefur krónan styrkst um ríflega 30 prósent gagnvart Bandaríkjadal á einu og hálfu ári. Svipaða sögu er að segja um evruna sem nú kostar 116 krónur.
En þetta var áður en samið var um miklar launahækkanir, svo sársaukamörkin, þegar kemur að samkeppnishæfni við önnur lönd, liggja annars staðar. Kannski frekar nær 120 eða 130 krónum fyrir Bandaríkjadalinn.
Þetta þýðir að hljóðlátlega verða færri störf til í þessum geira og vöxturinn hjá þeim stærstu verður utan landssteinanna, fyrst og fremst. Þetta er umhugsunarefni, því það eru mörg efnileg hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi. Versti óvinur þeirra er rússíbanareið krónunnar.
2. Útgerðarmaðurinn (úr sjávarútvegi kannski nær lagi) var viss um að krónan myndi styrkjast mikið á næstunni, og sagðist halda að erfiðleikar myndu koma fram víða, ekki síst í sjávarútvegi. Flóknara var það nú ekki. Hann var undir þetta búinn og sagði að fyrirtæki stæðu misjafnlega til að takast á við mikla styrkingu.
3. Bankamaðurinn hafði áhyggjur af genginu og styrkingunni, eins og flestir. Hann benti líka á það, sem er rétt, að Ísland stendur nú með góða innviði til að takast á við sveiflur. Þær ættu ekki að koma á óvart, hvorki upp á við né niður á við. Gjörbreytt skuldastaða, eftir uppgjör slitabúanna, hefur kúvent stöðunni til hins betra og ýtt undir hækkandi eignaverð, til dæmis á krónunni.
Þá standi líka stór fyrirtæki á tímamótum, til dæmis Icelandair, sem þurfi að endurskipuleggja starfsemina og takast á við vaxandi samkeppni. Þetta væri spennandi á margan hátt og það mætti horfa til þess að þetta væri partur af því að styrkja innviði ferðaþjónustunnar á Íslandi.
Mikið er til í þessum sjónarmiðum öllum, finnst mér.
Stjórnmálastéttin skuldar svör
En að lokum mætti samt minna á það, að það stendur upp á stjórnmálastéttina að skýra það, hvers vegna þessi heimatilbúna rússíbanareið gengissveiflna er góð og skynsamleg.
Stjórnmálastéttin vill greinilega viðhalda henni, samanber lögin sem frá henni kemur sem leggur grunn að peningastefnunni og framkvæmd hennar. Enginn vilji virðist vera til breytinga og má greina augljósan meiningarmun milli til dæmis Sjálfstæðisflokksins annars vegar, og Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hins vegar.
Afar ólíklegt er að einhverjar breytingar verði á peningastefnunni ef ekki tekst að skapa einingu um breytingar hjá stjórnvöldum, í ljósi eins manns meirihluta á Alþingi. Þá verða þau sjónarmið ávallt ofan á sem hagnast á því að breyta engu.
Nú þegar búið er að slaka á fjármagnshöftum þá styrkist krónan á fullu og hún mun vafalítið gera það áfram, sé horft framhjá einstaka innandags sveiflum. Veruleikinn er gjörbreyttur frá því sem var í hagkerfinu. Það er stefna útaf fyrir sig að láta stöðuna rétta sig af í gegnum rekstrarerfiðleika fyrirtækja og kannski er það óhjákvæmilegt. Markaðurinn á að rétta sig af stundum, óstuddur. Afskriftir og neyðarlög mega ekki verða af einhverjum sjálfsögðum hlut.
Staða mála á Íslandi er og verður alltaf öfundsverð í samanburði við flestar þjóðir, sérstaklega þegar horft er til öryggis og friðsældar. En einnig innviða á flestum sviðum. Velmegun er mikil, og óþarfi að gera lítið úr þessu eða teikna upp svartari mynd en raunin er.
Á sama tíma ætti að vera mikil umræða um brestina í kerfinu og hvernig megi laga það. Núverandi rússíbanareið gengisins, utan frá séð, er kannski ágætt tilefni til þess að taka málin föstum tökum og spyrja hvort við séum á réttri leið. Hagvöxturinn er ekki stóri dómur í því. Miklu frekar hvort það séu að verða til góð störf til framtíðar litið, sem geti bætt stöðuna í okkar litla og góða samfélagi, og hvert rússíbanareiðin mun leiða okkar að þessu sinni.