„Guð okkar kallast kaloría og tilbeiðslustaðurinn baðvigt. Þegar ég er hér meðal fólks sem heldur sér áreynslulaust í kjörþyngd sé ég hvað viðhorf okkar Vesturlandabúa til matar eru orðin einkennileg. Ég man þá tíð að við vorum líka flest í kjörþyngd án þess að leggja neitt sérstaklega á okkur. Mig langar að velta þessu upp en líður eins og sú umræða sé ekki leyfileg.”
Þannig hefjast hugleiðingar sem ég skrifaði á facebook þegar ég var stödd á Indlandi nýlega. Ég birti oft langar, misvel ígrundaðar færslur um efni sem ég hef ekki sérfræðiþekkingu á en snerta mig í daglega lífinu og nota viðbrögð vinahópsins til að reyna að sjá viðfangsefnið í nýju ljósi. Mér þóttu ólík viðbrögð við umræddum pistli það athyglisverð að ég ákvað að birta hann hér í heild og gera síðan grein fyrir viðbrögðum vina minna og viðbrögðum mínum við þeim.
Facebook-færsla um neyslusamfélagið skrifuð fyrir morgunmat einn daginn á Indlandi:
- Icelandic people are big and …, segja rikshaw-ökumennirnir og hreyfa hendurnar í kringum magann í leit að lýsingarorði. Þeir hitta marga Íslendinga hér í Fort Kochi.
-Fat? sting ég upp á og þeir kinka kolli. Við erum orðin þekkt fyrir að vera þrekvaxin þjóð. Um daginn las ég blogg á slóvakískum vef þar sem höfundur á ekki orð til að lýsa hrifningu sinni á íslenskum konum en skrifar í framhjáhlaupi: „Íslenskar konur eru miklar um sig. Við hittum bara tvær í venjulegum holdum.”
Eitt af stærstu heilsufarsvandamálum heims um þessar mundir mun tengjast ofneyslu matar og annarra efna. Vandinn er svo stór að hann telst faraldur. Ég er þó að mörgu leyti sammála þeim sem segja að umræðu um holdafar annarra megi kalla hatursorðræðu vegna þess að hún niðurlægir hóp fólks og beinir allri athyglinni að einum af ótal mörgum þáttum persónu þess. Ég man hvað ég leið í bernsku fyrir umræðuna um spóaleggi mína og ókunnar búðarkonur sem sögðu að það væri „ekki kjöttutla á þér, krakki.” Skömm horaða barnsins yfir að vera ekki pattaralegt og hinum fannst að hann ætti að vera blundar enn í mér í bland við skömm fullorðinnar konu vegna tilhneigingar sinnar til að tútna út. Ég skil vel röksemdafærslu þeirra sem kalla umræðu um holdafar hatursorðræðu en hins vegar finnst mér við verða að fá að ræða þann vanda sem vaxandi neysla okkar á öllum sviðum veldur einstaklingum, samfélögum og sjálfri jörðinni.
Ég viðurkenni að ég hef ekki kynnt mér orðræðu ofþyngdargeirans vel en ég veit hvernig má tala um vímuefnavandann. Offitu- og vímuefnavandamál hljóta á margan hátt að vera svipuð enda stafa bæði að einhverju leyti af röskun á heilastarfsemi en einnig af framboði efna sem ber að varast. Lausnin liggur líka í heilanum þótt oft krefjist það yfirnáttúrulegra krafta að vinna bug á vandanum. Faraldur beggja er samfélagslegt vandamál og ein ástæðan er vaxandi aðgengi að ofgnótt efna sem eru ekki góð fyrir okkur.
Hér á Indlandi á ég mínar tilbeiðslustundir á voginni þar sem ég horfi á kílóin hrynja af mér. Þau hverfa áreynslulaust vegna þess hve auðvelt er að aftengja hugsun sína mat. Hér eru ekki kaloríusprengjutilboð á hverju götuhorni. Brennandi löngunin hverfur þegar enginn er eldsmaturinn. Ég kvíði því af öllu hjarta að koma aftur heim í ofgnóttina.
Þarf það að flokkast undir ofbeldi að ræða holdafar annarrar manneskju? Er dónalegt að spyrja fólk hvort það sé að missa tök á drykkju? Ég treysti mér ekki til að svara fyrri spurningunni en ætla að svara þeirri síðari. Vegna eigin reynslu af því að missa tök á drykkju finnst mér að það ætti að vera borgaraleg skylda hvers og eins að ræða við aðra um vaxandi áfengisneyslu þeirra. Alkóhólistinn er svo fastur í neyslu sinni og afneitun að hann skilur ekki að heilsubrestur hans og tilfinningaraskanir geta verið afleiðingar neyslunnar. Það er ekki fyrr en félagslega aðhaldið brestur á að honum tekst kannski að horfast í augu við eigin vanda. Mig skortir reynslu og þekkingu til að bera saman drykkjuvandann og ofþyngdarvandann, en ég leyfi mér þó að velta því fyrir mér hvort við ættum kannski á öllum sviðum að grípa miklu fyrr til þess félaglega aðhalds sem felst í umræðu.
Kannski ætti það aldrei að vera ósmekklegt að ræða opinskátt um áhyggjur sínar af öðrum? Getur verið að við þurfum að læra að tala hvert við annað á opinskáan en þó varfærinn og heilandi hátt? Gætum við sparað heilbrigðiskerfinu milljarða með jafningjasamtölum í forvarnarskyni? Eykur það enn vandann að umræðan sé feimnismál?
Hér á Indlandi lofa ég guð fyrir hvað fólkið er neyslugrannt. Hvaða áhrif hefði það á heiminn ef átján prósent jarðarbúa vendu sig á að panta hamborgara og þamba áfengi ótæpilega? Það hefði ekki bara áhrif á indverskt heilbrigðiskerfi. Það hefði áhrif á verðmæta náttúru þessa fallega lands og meira en það, aukin neysla Indverja hefur áhrif á veðurfar og náttúru heima á Íslandi og sama hátt og ofneysla okkar eyðileggur jörðina fyrir öðrum.
Auðvitað gína peningaöflin yfir stórum, indverskum markaði rétt eins og þau gína yfir litlum, íslenskum markaði. Ég hef ekkert á móti markaðsöflum, þau eru góð til síns brúks. En þegar þau ræna okkur heilsunni með því að halda að okkur óhollustu og óþarfa eru þau slæm, ekki síst sé það gert í skjóli kjörinna fulltrúa fólksins. En við getum tekið höndum saman gegn neysluvandanum, okkur hefur til dæmis næstum tekist að útrýma þeim dauni sem gegnsýrði æsku mína. Engum finnst lengur óeðlilegt að ræða um reykingar annarra.
Ég man þá tíð að mamma bakaði smákökur á jólaföstu og við fengum að smakka þær afbökuðu en hinar voru innsiglaðar til jóla. Sjálf bakaði ég smákökur en var ekki eins ströng og mamma ef einhverjum varð á að laumast í baukinn. Nú bökum við smákökur á aðventunni en borðum þær jafnóðum af því að það er hvort sem er svo mikill matur sem við verðum að komast yfir að borða á sjálfri jólahátíðinni.
Ég vona að mér takist að standast freistingar þegar ég kem aftur heim í land kaloríunnar. Ég vona að mér takist að halda mér aftengdri hugsunum um mat á jafn eðlilegan hátt og hér af því að mér líður svo margfalt betur þegar löngunin stýrir ekki gerðum mínum. Vegna þess samfélagslega aðhalds sem ég hef kallað yfir mig með birtingu þessa pistils held ég að ég hafi ekkert val. Hnippið í mig þegar þið sjáið mig hlaða diskinn!
Viðbrögð annarra við pistlinum og viðbrögð mín við viðbrögðum þeirra
Hér lýkur færslunni en viðbrögðunum við hann skipti ég hér á eftir í sex flokka. Flest snerust þau meira um neysluvanda einstaklinga en neyslusamfélagið.
Fyrst nefni ég þá sem þökkuðu mér skrifin og kjarkinn sem í huga lesenda virðist meiri en ég hafði áttað mig á að þyrfti til að fjalla um þetta mál. Aðrir tóku undir hugleiðingar mínar og sumir minntust á samviskubit sitt vegna fyrri vanþekkingar á næringarfræði og oftrúar á framleiðendur sem selja sykur undir merkjum heilbrigðis. Þriðji hópurinn benti réttilega á að tengsl milli ofþyngdar og inntöku fæðu sé alls ekki eins skýr og ætla mætti af óvísindalegum pistli mínum þar sem löngun í mat er líka óþarflega mikið líkt við fíkn. Margvíslegar ástæður séu fyrir því að fólk fitni, sagði þriðji hópurinn, en sá fjórði lýsti því hins vegar afdráttarlaust yfir að ofþyngd væri lífstílssjúdómur sem sumir teldu alfarið á ábyrgð einstaklingsins en aðrir samfélagsins. Fimmti hópurinn minntist þess tíma þegar umræða um áfengisvandann var tabú af því að drykkjufólk upplifði hana sem árás. Sú þöggun hafi verið virkilega skaðleg og viðhaldið ranghugmyndum um fólk sem þurfti stuðning.
Síðasti hópurinn benti á að skrif eins og mín, þar sem ofþyngd náungans er gerð að persónulegu og samfélagslegu vandamáli, kyndi undir hatur enda lítilsvirði þau hóp fólks: „Höldum feitu fólki utan við þessa umræðu! Hver segir að þeir grannholda séu endilega heilsuhraustari?”
Ég sé það nú að ég gerði mig seka um hatursorðræðu. Það á ekki að skoða holdafar náungans sem vandamál fremur en uppruna hans, trúarbrögð, kynhneigð eða fötlun. Því hef ég reyndar haldið fram þau fjörutíu ár sem ég hef mótmælt útlitsdýrkun sem steypir alla í sama mótið enda græddi ég það á myndlistarnámi mínu að læra að meta fegurð mannslíkamans óháð hlutföllum og stærð. Fólk er ekki vandamál. Fjölbreytileikinn sendir lífið út í lit. Mér til varnar vil ég segja að það var ekki ásetningur minn að lítilsvirða jaðarsettan hóp enda taldi ég mig í pistlinum einkum fjalla um eigin þyngd og þjóðarinnar allrar. Og ég verð að viðurkenna að eitt skil ég ekki. Hvað varð um umræðuna um ofþyngd sem lífstílssjúkdóm og lýðheilsuvanda? Hefur verið afsannað að ofþyngd auki álag á liði, líffæri og Landspítalann?
Framlag mitt til kærleiksorðræðunnar
Daginn sem ég gerði mig seka um hatursorðræðu var ég full kærleika og settist við skriftir til að segja heiminum frá frelsinu sem fylgir því að tala um vanda sinn. Það er brýnt að tala um hatrið í heiminum en getum við ekki tamið okkur kærleiksumræðu sem leyfir að öllum flötum sérhvers máls sé velt upp? Reynsla mín er sú að þannig skapist gagnkvæmur skilningur.
Flókið samspil líffræðilegra og tilfinningalegra þátta veldur því að fólk fitnar og viðheldur þyngdinni. Sjálf hef ég þó alltaf séð þráðbeint samband á milli þyngdar minnar og inntöku matar og drykkja. Hversu oft hef ég ekki staðið á baðvoginni og beðið kaloríuguðinn um að hjálpa mér að koma mér í kjólinn fyrir jólin! Á Indlandi varð mér ljóst hversu lítið hald er í þeirri nálgun við vigtarvandann. Hverjum er ekki sama um hvort ég kemst í þennan kjól? Mér varð loks ljóst að ofþyngd er umhverfisvandamál og að ég er sjálf bófinn í matarsóunardramanu. Því hvað er það annað en matarsóun að stuðla að því að hættulega stór hluti heimsins er lagður undir ræktun og dýr drepin eingöngu til að við getum geymt afurðirnar á lærunum á okkur? Það er kominn tími til að við ræðum þennan gríðarstóra, sameiginlega vanda okkar með vegsemd og virðingu – og tökumst á við hann.