Verndarfélag Svartár og Suðurár hefur farið þess á leit við umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttur, að hún beiti sér fyrir friðlýsingu Svartár og Suðurár í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu samkvæmt heimildum í 55. og 56. grein laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Vonandi sér Björt sóma sinn í því að taka undir þessar kröfur og friða svæðið og koma í veg fyrir að virkjanir verði byggðar á svæðinu. Áform eru uppi um tæplega 10 megavatta virkjun. Ríkisjörðin Stóra tunga í Bárðardal er þar í forgrunni, en um helmingur áhrifasvæðis virkjana tengist henni.
Spurningum ósvarað
Svo virðist sem íslenska ríkið hafi gefið félaginu SSB orku ehf. vatnsréttindi og/eða virkjanamöguleikann innan ríkisjarðarinnar án endurgjalds eða því sem næst. Ég er búinn að senda fyrirspurn um þetta á fjármála- og efnahagsráðuneytið, og fróðlegt verður að fá svör við henni. Þau hafa ekki borist enn. Að auki eru sérfræðingar í Evrópurétti að kanna, fyrir hönd Verndarfélagsins, hvernig það samræmist umfangsmikilli og ítarlegri löggjöf á EES-svæðinu, meðal annars um ríkisstuðning, að gefa þessi réttindi frá sér með þeim hætti sem gert var.
Um mikla hagsmuni er að ræða og auðvelt að sjá verðmætin í vatnsaflsvirkjunum horft til áratuga. Fyrir tíu megavött hlaupa þau á tugum milljarða inn í framtíðina og frekar líkleg til að aukast þegar fram í sækir. Hitt er síðan að á þessu svæði, og þá ekki síst á Mývatns- og Laxársvæðinu, er heimavöllur áhrifamestu og mikilvægustu náttúruverndardeilu í Íslandssögunni sem lauk 1973. Lausn á henni fékkst með sátt að lokum og áttu stjórnmálamenn og aðrir þar þakkir skildar fyrir sitt framlag. En í ljósi þessa er mikilvægt að á svæðið sé litið sem eina heild þar sem farið er að öllu með gát, áður en áratuga gamlar virkjanahugmyndir - arfavitlausar raunar - eru færðar aftur upp á teikniborðið.
Miklu skiptir, horft út frá almannahagsmunum, að gagnsæi ríki um hvernig farið er með þessi réttindi inn á ríkisjörðum. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur talað mikið fyrir gagnsæi og það er gott hjá honum. Þetta er alveg dæmigert mál, þar sem birta ætti öll gögn um málið án tafar, og draga saman helstu atriði af hálfu stjórnvalda, og upplýsa um helstu persónur og leikendur.
Hluti af einstakri heild
Friðlýsingin þyrfti að ná til ánna beggja, með eyjum, hólmum og kvíslum, frá Suðurárbotnum og Svartárvatni allt að ósi Svartár við Skjálfandafljót, ásamt 200 metra breiðum bakka báðum megin, líkt og raunin er með Laxá að hluta í Suður-Þingeyjarsýslu.
Í áskorun sinni til ráðherra, frá því í apríl síðastliðnum, leggur félagið til að allt land milli Skjálfandafljóts og Svartár-Suðurár, frá mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs við Suðurárbotna til ármóta Svartár og Skjálfandafljóts, verði friðlýst og gert að hluta Vatnajökulsþjóðgarðs, með vísan til 8., 9. og 10. kafla laga um náttúruvernd.
Þessi tillaga félagsins er rökstudd með nokkrum liðum, sem draga má saman til einföldunar með eftirfarandi hætti.
1. Svartá og Suðurá eiga upptök sín við jaðar Ódáðahrauns í um 460 metra hæð og falla í Skjálfandafljót um 240 metrum neðar. Svæðið er á jaðri hálendisins, á mörkum byggðar og óbyggðar, og varðveitir samfellda gróðurþekju á þessum viðkvæmu mörkum láglendis og hálendis. Svæðið er í mikilvægum vistfræðilegum tengslum við Mývatn og Laxá, og hluti af heild sem ætti að vernda fyrir öllu raski og eyðileggingu.
2. Lífríkið í ánum og kringum þær er sérstakt og auðugt, þarna eru mikið dýralíf og fjölskrúðugt fuglalíf, sumar tegundir á válista, t.d. straumönd og gulönd ásamt fálka. Hér eru varpstöðvar húsandar. Í ánum lifir bleikja og einn glæsilegasti urriðastofn landsins, og veiðisvæðið rómað sem einstakt á heimsvísu.
3. Verndun svæðisins er táknræn fyrir viðhorf í umhverfis- og atvinnumálum, sem Ísland ætti að hafa í forgrunni, þegar landið er að byggjast upp sem ferðamannaland og útivistarperla.
Til viðbótar má svo nefna, að þessar virkjanir eru ekki hluti af neinni atvinnuuppbyggingu á svæðinu, eða slíkum hugmyndum.
Mikið í húfi
Í bréfi Verndarfélagsins til ráðherra segir meðal annars: „Verndarfélag Svartár og Suðurár vill árétta að náttúra Íslands, jarðfræði, umhverfi og lífríki er sérstök gersemi sem við berum ábyrgð á gagnvart komandi kynslóðum og umheiminum.“
Þetta eru góð orð og mikilvægt að umhverfisráðherra hafi þetta í huga, þegar hún mótar sér skoðun á þessu máli. En áður en hún gerir það, þá ætti hún að gera kröfu um að komast til botns í því hvernig á því stóð að vatnsréttindi á ríkisjörð voru allt í einu komin í eigu einkahlutafélags út í bæ og farin að ganga kaupum skömmu síðar. Þetta hefur allt gerst án þess að nokkur umræða fari fram um málin á hinu pólitíska sviði, þó augljóst sé að vanda þurfi til verka þegar almannaeignir eru annars vegar og verðmæti meðhöndluð.
Þó þau atriði tengist náttúruverndarsjónarmiðunum ekki beint, þá eru þau hluti af heildarumfangi málsins. Alveg eins og Svartá og Suðurá eru hluti af einstakri heild í íslenskri náttúru sem ætti að vernda fyrir komandi kynslóðir.