Ég vil byrja á því að fagna því að manneskja af þinni forréttindastöðu Þórunn ákveði að nota aðstöðu sína til góðs. Eða alla vega að meina það til góðs. En því miður, þá er þetta virkilega vanhugsuð hugmynd. Þegar þið hvetjip fólk til þess að verja sig með því að setja lok yfir drykkinn sinn á skemmtistað eða útihátíð eru þið, jafnvel þótt þið hafið ekki ætlað ykkur að gera það, að setja ábyrgðina á fórnalömin. Þegar þú Þórunn talar um það að nauðgun sé ekki einungis hjá kvenfólki, tek ég undir það með þér, en hins vegar á árunum 2005-2010 voru heimsóknir á Neyðarmóttöku LSH samtals 776, þar af 24 karlar. Ég fann ekki upplýsingar um síðustu 7 ár en það gefur auga leið að fórnalömb nauðgunar eru oftast konur og gerendurnir í nær öllum tilvikum karlkyns. Þegar konum er nauðgað er þeim líka oft kennt um það sjálfum. Ég hef lent í því sjálf, þegar mér var nauðgað var ég spurð hvort ég hefði verið mjög full og beðin um að lýsa nákvæmlega uppá cm hversu stutt pilsið mitt var, hvort bolurinn minn hafi verið fleginn og hvort ég hafi gefði í skyn að ég vildi stunda kynlíf. Nota bene þá var ég ekki viðræðuhæf því ég var svo drukkin. Þú spyrð afhverju er þessi límmiða umræða slæm og ef fólki finnst þetta svona vond hugmynd og það setur svona mikið út á hana afhverju kemur það ekki með betri hugmynd?
Nr. 1 Af því að hann (límmiðinn) skaðar þessa umræðu og færir hana aftur um mörg ár með því að gefa í skyn að fólk geti komið í veg fyrir að þeim sé nauðgað. Þegar konum er nauðgað eru þær spurðar "Í hverju varstu?" "Hvað drakkstu mikið?", "Sagðiru nei?"...Svo núna eftir þennan límmiða kemur eflaust spurningin "Hmm...varstu ekki með límmiða?”
Nr. 2 Ég er ekki með neina hugmynd til þess að koma í veg fyrir að vera nauðgað en ég veit að þetta er ekki rétta aðferðin. Því þið, Þórunn og Secret Solstice, eruð að setja ábyrgðina á fórnalömbin. Ábyrgðin er ekki hjá fórnalömbum. Ég vildi óska þess að ég gæti komið í veg fyrir nauðganir. Það hefði hjálpað mér tvisvar. Eitt sinn þegar mér var nauðgað í Reykjavík og síðan þegar það var reynt að nauðga mér í LA. Í fyrra skipti kenndi ég mér um það, en í seinna skipti kenndi ég honum um það. Ég áttaði mig á því að það var ekkert sem ég hefði getað gert til að koma í veg fyrir þessar árásir. Ég þrái að finna lausn á þessum hryllilega raunveruleika sem við búum við en ég er ekki með svarið en það ert þú svo sannarlega ekki heldur.
Ég er ekki að snúa út úr þegar ég segi að þú sért að varpa ábyrgðinni á fórnalömbin vegna þess að þú sagðir orðrétt: „Ábyrgðin er ekki einungis hjá þeim sem drekka úr glasinu…“ Nei. Hún ER EINUNGIS hjá nauðgaranum. Fólk er ekki eins og bíll, hús eða hlutur. Nauðgun er versta gerð af líkamsárás og umræða sem hvetur fólk til að verja sig með því að drekka ekki of mikið, vera ekki fáklæddur, vera aldrei einn á ferð, vera með lykil á milli putanna til að verja sig og að setja límmiða á glasið sitt svo enginn geti byrlað þeim er ekki af hinu góða. Bara alls alls alls ekki. Hún setur ábyrgðina á fórnalömbin. Ég veit að þetta er örugglega erfitt vegna þess að fólk er að gagnrýna þig harkalega og þú ætlaðir þér ekki að gera neitt illt. En þessi gagnrýni er ekki persónuleg árás, heldur hvatning til þín og Secret Solstice um að opna augun og gera ykkur grein fyrir því að þessir límmiðar, burtséð frá upprunalegri meiningu þeirra, eru skaðlegir umræðunni um nauðganir. Mjög skaðlegir.
Ég hvet ykkur sem berið ábyrg á þessu til þess að viðurkenna mistök ykkar. Það krefst hugrekkis sem ég er viss um Þórunn að þú hafir. Gerðu það.
Kveðja,
Ebba