„Vatnið er meira og minna fordjarfað og eyðilagt,“ segir Böðvar sveitarhöfðingi á Gautlöndum í Mývatnssveit í samtali við Unni Jökulsdóttur. Hún rifjar upp samtalið í nýrri bók, Undur Mývatns, þar sem haldið er til haga hvílík náttúruparadís og menningarsetur sveitin er. En silungsveiði hrunin. Kúluskíturinn er geirfugl okkar tíma, (næstum?) útdauður. Þessi furðulega lífvera sem hvergi fannst á jarðríki nema í Mývatni og öðru slíku í Japan. Unnur hefði getað sagt frá fleiru: Skolpinu veitt í vatnið eins og þrumu lostin þjóð sá í Kastljósi og óforskammaðir menn reisa hótelvegg 50 metra frá bakkanum í blóra við lög. Munum það næst Icelandair. Mývatn er komið á rauðan válista Umhverfisstofnunar, sem þýðir: Óbætanleg hætta í nánd.
I. Lítil bók með stórt erindi
Þetta er merkileg bók. Persónuleg um leið og hún þræðir stigu þjóðmenningar, sveitalífs og náttúruvísinda af miklu innsæi og virðingu með hrífandi sögum, lýsingum og skýringum á því sem fyrir skilningarvitin ber. Vottar landinu okkar virðingu, fólkinu og sögum þess.Viðtöl við gamla karla, gluggað í skræður, rölt með Geirastaðafrúnni í eggjaleit eða með smástelpum í gjáarlontuveiðar. Og við hlið Unnar meðvísindalegar skýringar sem skila sér á alþýðlegan hátt, eiginmaður, náttúrufræðingur og listamaður; Árni Einarsson er greinilega ráðgefandi um Undurs Mývatns. Vatnslitamyndir hans yndi og öfundsverðar hverjum þeim sem gutlað hefur með pensil.
Bókin hefur í mínum huga miklu víðari skírskotun og stærra svið en nafnið og umfjöllunarefnið sjálft gefa til kynna. Hún er um vötnin okkar. Það eru ekki nema örfáir áratugir síðan virkjanatröll vildu heimta Mývatn og Laxá ásamt Svartá í Bárðardal í risavaxið lón og stíflu á einhverjum fegursta stað Íslands. Hugrakkir heimamenn sprengdu síðar stíflu við Miðkvísl í fyrsta „umhverfishryðjuverki“ sögu okkar og stöðvuðu ill áform. Enn er klappaður steinninn. Fyrir nokkrum árum átti að hækka stífluvegginn niður í Laxárdal og stækka lón fyrir örfá skítleg megavött undir því hlægilega yfirskini að skila öruggara rafmagni til Húsavíkur (!). Og núna, einmitt núna, á að gera aðra árás á Svartá í Bárðardal, sem við köllum „Litlu Laxá“ vegna fegurðar, fuglalífs og urriðans sem er svo sprækur í kvíslum hraunsins sem kennt er við ódæði. Svartá er líka forðabúr húsanda þegar illar árar á Mývatni. Nú á að stífla verndarsvæði hennar, taka í stokk. Vill svo heppilega til að megavattatalan er sérstaklega fundin til að komast hjá umhverfismati, en slapp samt ekki í gegn - í bili.
Þessi litla fagra bók á stórt erindi. Allt það góða sem Unnur skrifar um undur Mývatns er í stærra samhengi um þau skítseiði sem við erum og það tjón sem við vinnum.
II. Vatn er almenningseign
„Vatn er það dýrmætasta sem fyrir finnst á jörðinni og því má segja að „blátt gull“ sé ekki rangnefni yfir vatnið. Íslendingar eru heppnir að hafa vatnsauðlind sem er eins sjálfbær og raun ber vitni en í síbreytilegum heimi er vert að staldra við og kanna hvort gera megi betur.“ (Bláa gullið, Kjarninn).
Staldra við? Til dæmis á Selfossi sem kallar sig Árborg og hugsa um hvernig íbúar þar dæla skólpinu beint út í Ölfusá?
Sótt er að vötnum okkar víða. Vötnin, vatnið sjálft er auðlind og ætti að vera stjórnarskrárvarið sem almenningseign. Þjóðin, sem getur ekki einu sinni stöðvað endalaust sífur um að klípa af Þjórsárverum, kann auðvitað engin ráð til að vernda þjóðargersemina Þingvallavatn. Orkuveitan dælir linnulaust heitu afgangsvatni frá Nesjavallavirkjun út í þennan blátæra vatnsgeim sem hún lítur á sem hverja aðra þró. Í Þorsteinsvík er baðvolgt vatn: Ylströnd fyrir Ísaldarurriða. Kísilúrfellingar á botninum víða vegu fyrir landi Nesja eins og í Bláa lóninu. (Þetta er sams konar sukk og í Bjarnarflagi við Mývatn sem Ómar Ragnarsson kallar hernað gegn undrum Mývatns og þar sem helsti talsmaður aðal umhverfisverndarflokksins vildi virkja fyrir kolaofnana á Bakka við Húsavík.) Skammt undan Nesjavöllum var unnið mesta umhverfispellvirki síðari tíma þegar eiturhernaður gegn lífríkinu var rekinn fyrir Sogsvirkjanir sem síðar leiddu til hrakfalla sem urðu næstum til að útrýma einstæðum fiskistofni. Af því að hernaðurinn gegn Þingvallavatni er linnulaus þurfti lánlaus ríkisstjórn á síðari árum að heimila þungaflutninga gegnum þjóðgarðinn með tilheyrandi mengun og hávaðadjöfulskap.
Rithöfundur eins og Unnur hefði geta tekið annað líf í að rekja fræði, sögur, tala við gamla karla og kerlingar og rýna örverurnar og hlýða á röfl andfuglanna og væl himbrimans við Þingvelli, þennan meinta þjóðhelga stað sem er okkur öllum til skammar. Þess í stað nennum við ekki að tala enn einu sinni um „fráveitumálin“ sem eru álíka slæm þar og fyrir norðan, og því síður um hvernig forréttindastéttin íslenska helgaði sér þar sumarhúsabyggð með fádæma klíkuskap og spillingu - nema núna ætlum við víst að kaupa aftur húsgrunn fyrir 70 milljónir af einhverjum sem byggði þar í óleyfi - inni í „þjóðgarði“.
Vötnin okkar og árnar: Nú skal tekið næsta óheillaskref óhikað og af eindrægni, fylla firði okkar af norskættuðum eldislaxi sem mun sleppa og sækja í árnar okkar. Já, hann mun sleppa eins og minkarnir sem dreifðu sér um landið og hann mun erfðamenga árnar okkar framvegis eins hann hefur hingað til gert hér heima og erlendis. Við ætlum að senda margfalt fleiri eldislaxa upp í árnar okkar en nemur heildarstæð íslenska laxastofnsins. Í hverri okkar laxveiðiá býr einstakur lítill stofn með eigin einstæðu erfðaeinkenni, telur stundum ekki nema nokkur hundruð hrygningarfiska. Í hverjum hyl lítil laxafjölskylda sem af ratvísi sinni leitar til síns heima á vorin og væri söguefni í bók. Nú ætlum við að herja á þetta brothætta lífríki með norsku kapítali sem ekki fær lengur að vinna sams konar hryðjuverk í heimalandi sínu enda tjónið löngu óbætanlegt þar. Þetta skulum við endilega gera vötnunum okkar. Enda svo smekklega siðlaust. Í krafti þess að við viljum breyta fjórum kílóum af sjávarfiski í fóður til að framleiða eitt kíló af sporðbúnum svínum fjarðanna.
Biðjum höfund eins og Unni að líta með okkur í Grenlæk sem er á náttúruminjaskrá, undur sem rennur um hraunin í Landbroti og geymir tignarlegan sjóbirtingsstofn. Þarna hafa Vegagerðin og Orkustofnun vísvitandi veitt vatni burt svo lækurinn þornar hvað eftir annað, síðast í fyrrasumar, en hefur gerst fyrr - af mannavöldum, með miklu tjóni. Um það sagði forstjóri Veiðimálastofnunar: „Ef þessu er bara lokað eins og Landgræðslan vill gera þá náttúrlega einfaldlega þorna þessir lækir og þá getum við gleymt þeim. Þá drepst allt og það finnst okkur dálítið drastísk aðgerð miðað við að þarna er gríðarleg sjóbirtingsveiði. Og Grenlækur er nú einu sinni á Náttúruminjaskrá út af lífríki og fuglalífi.“ Böðvar á Gautlöndum hefði kallað það fordjörfun.
Ég hef gengið með stöng um Eldhraunið þar sem vatnið sprettur fram undan fugladritsþúfum og klettadröngum. Farið um gljúfur Seglbúðalands og séð sjóbirtingsdrjólana í djúpum hyljum og stórbleikjur undir bökkum.Staðið í sefinu í Fitjaflóði og hlustað á þyt frá kvöldflugi anda og séð rastir af göngufiskum á fleygiferð; farið niður á sandana ógnarlegu eftir stikuðum slóðum á hnédjúpu vatni þar sem áin sameinast Skaftá í Veiðiós með þrumandi brimölduna skammt undan. Komið á jólaföstu í hvítri jafnfallinni fönn á svörtum brunasöndum og hraunum og séð ástarhreiður fiskanna og hvernig þeir koma á svifi eins og kolamolar á lit upp í vatnsborð undir brogandi norðurljósum á næturhimni. Horft á jöklaleikhúsið sem rammar allt þetta inn, þetta stóra og smáa, sem einnig eru sögusvið eins og Unnur lýsir Mývatni; enn þá eru það mest ósagðar sögur, eitt og eitt vitni snýr aftur og skilur ekki ofstopann gegn undrinu.
III. Segjum sögur og verndum náttúru
Í tóni og áferð minnir þessi bók Unnar á söguna sem Steinunn Sigurðardóttir birti um Heiðu fjalldalabónda í fyrra. Skáldleg sýn, nostur við smáatriði sem öll skipta máli og svo hin stóra vídd þar græðgi og ofbeldi leika hlutverk.
Hinn dásamlegi kafli Unnar um ævi húsandarinnar er bara brot af öllum andasögum landsins, öllum fuglasögum. Að rölta með Hjördísi á Geirastöðum í eggjatínslu er saga sem lúrir við hvern þann hálffallna girðingarstaur sem hangir uppi í landinu, í hverju hrauni, við hvern bæ, meðan Hjördís kjaftar við endurnar eins og hún lærði af ömmu sinni. Eða kvika telpan í sveitinni sem skýst á lontuveiðar, eins og lítil útgáfa af Línu langsokk - okkar fólk, okkar arfur.
Auðvitað er Mývatn einstakt og þess vegna getur þjóðin sem kann ekki að friðlýsa hálendið ekki heldur verndað það, sett kúluskítinn á þann virðingarsess sem Japanar gera og stundað hreinlæti nema eins og í fátæku þróunarlandi.
Unnur fer með okkur í smásjárferð inn í lítinn dropa úr vatninu og þar er eins og að horfa út í alheiminn - óravíddir örveranna eins og stjörnuþokur. Hversu margir eru slíkir vatnsdropar á Íslandi? Hún opnar dagbók fuglatalningamannsins og yrkir óð til mýflugunnar. Eins og spæjarakona leggur hún lífsgátuna fyrir sig og býður upp á sumarlesninguna 2017. Gleymið öllum reyfurum. Allt það smáa verður allt það stóra, samhengið í lífi okkar og sögu, lands og þjóðar. Mývatn er ekki bara Mývatn heldur vötnin okkar öll - sem við nú reynum að fordjarfa með tiltækum ráðum.